Kærleikur knýr okkur til að hjálpa þegar hamfarir dynja yfir
Vottar Jehóva veita trúsystkinum sínum og öðrum aðstoð þegar þörf er á. Þeir gera það vegna kærleika sem auðkennir sannkristna menn. – Jóhannes 13:35.
Á eftirfarandi lista má sjá dæmi um þá hjálp sem veitt var á 12 mánaða tímabili frá miðju ári 2011. Þar fyrir utan veita vottar Jehóva nauðstöddum huggun og stuðning. Deildarskrifstofur okkar komu á hjálparstarfsnefndum sem skipulögðu aðstoðina að mestu leyti. Þar að auki aðstoðuðu söfnuðirnir á hverjum stað við hjálparstarfið.
Japan: Jarðskjálfti og meðfylgjandi skjálftaflóðbylgja skullu á norðurhluta Japans 11. mars 2011 og höfðu áhrif á hundruð þúsunda manna. Vottar Jehóva um allan heim gáfu fúslega af kröftum sínum og fjármunum til að aðstoða við hjálparstarfið.
Brasilía: Hundruð manna létu lífið í flóðum og skriðuföllum. Vottar Jehóva brugðust við með því að senda á svæðið 42 tonn af geymsluþolnum matvælum, 20.000 vatnsflöskur, 10 tonn af fatnaði, 5 tonn af hreinsiefnum, lyf og fleira.
Kongó (Brazzaville): Heimili fjögurra votta Jehóva eyðilögðust og heimili 28 annarra votta urðu fyrir skemmdum þegar vopnageymsla sprakk. Þeim sem urðu fyrir hörmungunum var séð fyrir mat og fatnaði og vottarnir á staðnum hýstu þau.
Kongó (Kinshasa): Séð var fyrir lyfjum fyrir þá sem höfðu smitast af kóleru. Föt voru gefin þeim sem urðu illa úti í flóðum vegna úrhellisrigninga. Læknishjálp, fræ til að gróðursetja og nokkur tonn af fötum voru gefin þeim sem voru í flóttamannabúðum.
Venesúela: Miklar rigningar ollu flóðum og aurskriðum. Hjálparstarfsnefndir veittu 288 vottum Jehóva aðstoð. Yfir 50 ný heimili voru byggð. Þar að auki aðstoða hjálparstarfsnefndir fólk sem býr á hættusvæði vegna hækkandi yfirborðs Valencia-vatns.
Filippseyjar: Flóð streymdu um hluta landsins vegna fellibylja. Deildarskrifstofan sendi matvæli og fatnað til þeirra sem urðu verst úti og vottar á svæðinu hjálpuðu til við að hreinsa upp eftir flóðið.
Kanada: Í kjölfar mikilla skógarelda í Alberta var söfnuðinum í Slave Lake gefið rausnarlegt framlag, frá vottum á svæðinu, til að hjálpa til við hreinsunina. Söfnuðurinn þurfti ekki að nota allan peninginn og gaf því meira en helming upphæðarinnar til að hjálpa fórnarlömbum hamfara á öðrum stöðum í heiminum.
Fílabeinsströndin: Þeim sem voru hjálparþurfi var veitt læknishjálp, húsaskjól og aðrar nauðsynjar áður en stríð braust út í landinu, á meðan á því stóð og líka eftir á.
Fídjí: Hundrað níutíu og tvær vottafjölskyldur lentu í miklum flóðum vegna rigninga. Flestar þeirra misstu býli sín og þar með fæðu sína og tekjur. Þeim var séð fyrir matarbirgðum.
Gana: Þeim sem lentu í flóðum í austurhluta landsins var séð fyrir matvörum, fræjum og húsnæði.
Bandaríkin: Hvirfilbyljir ollu skemmdum á 66 heimilum votta í þrem fylkjum og gereyðilögðu tólf önnur heimili votta. Þó að flestir húseigendurnir hafir verið tryggðir var stofnaður sjóður til að styðja við uppbyggingarstarfið.
Argentína: Söfnuðir Votta Jehóva aðstoðuðu þá sem bjuggu í suðurhluta landsins þar sem öskufall olli tjóni á húsum.
Mósambík: Fleiri en 1.000 manns fengu matarbirgðir eftir þurrka í landinu.
Nígería: Á þriðja tug votta, sem slösuðust í alvarlegu rútuslysi, var veitt fjárhagsaðstoð. Einnig var mörgum í norðurhluta landsins veitt aðstoð eftir að hafa misst heimili sín vegna þjóðernis- og trúardeilna.
Benín: Séð var fyrir lyfjum, fatnaði, flugnanetum, hreinu vatni og húsaskjóli handa þeim sem lentu í miklum flóðum.
Dóminíska lýðveldið: Í kjölfar fellibylsins Írenu veittu söfnuðirnir á staðnum efnislega hjálp og aðstoð við viðgerðir á húsum.
Eþíópía: Þegar flóð var á einum stað og þurrkur á tveim öðrum var safnað fyrir nauðsynjum handa þeim sem voru hjálparþurfi.
Kenía: Útvegað var fé til hjálpar þeim sem bjuggu á þurrkasvæðum.
Malaví: Þeim sem bjuggu í Dzaleka-flóttamannabúðunum var veitt aðstoð.
Nepal: Skriða stórskemmdi heimili trúsystur einnar. Henni var séð fyrir bráðabirgðahúsnæði og söfnuðurinn á staðnum hjálpaði henni.
Papúa Nýja-Gínea: Brennuvargar kveiktu í átta húsum sem vottar Jehóva bjuggu í. Ráðstafanir voru gerðar til að endurbyggja þau.
Rúmenía: Nokkrir vottar misstu heimili sín í flóðum. Þeir fengu hjálp við að endurreisa húsin.
Malí: Mörgum þeirra sem skorti matvæli vegna uppskerubrests af völdum þurrka var veitt fjárhagsaðstoð frá nágrannalandinu Senegal.
Síerra Leóne: Vottar frá Frakklandi, sem eru læknar, veittu trúsystkinum sínum á áður stríðshrjáðum svæðum læknisaðstoð.
Taíland: Vegna mikilla flóða varð gríðarlegt tjón í nokkrum héröðum. Hjálparteymi gerðu við og hreinsuðu 100 heimili og 6 ríkissali.
Tékkland: Eftir að flóð skemmdu allmörg hús í Tékklandi aðstoðuðu vottar í nágrannalandinu Slóvakíu við hjálparstarfið.
Srí Lanka: Hjálparstarf í kjölfar skjálftaflóðbylgju, sem varð þar, er nú að mestu lokið.
Súdan: Vottar Jehóva, sem þurftu að flýja vegna bardaga í landinu, fengu sendar matvörur, föt, skó og yfirbreiðslur úr plasti.
Tansanía: Fjórtán fjölskyldur misstu eigur sínar í flóði. Söfnuðirnir á staðnum gáfu þeim föt og húsmuni. Eitt húsanna var endurbyggt.
Simbabve: Hungur varð vegna þurrka á einum stað í landinu. Matur og fjármunir voru gefnir þeim sem bjuggu þar.
Búrúndí: Flóttafólki er veitt neyðarhjálp, meðal annars læknishjálp.