Trúa vottar Jehóva að Gamla testamentið sé orð Guðs?
Já. Vottar Jehóva trúa því að öll Biblían sé „innblásin af Guði og nytsöm.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Það á bæði við hið svokallaða Gamla testamenti og Nýja testamenti. Vottar Jehóva nefna þessa hluta Biblíunnar yfirleitt Hebresku ritningarnar og Grísku ritningarnar. Það er vegna þess að við viljum ekki gefa í skyn að vissir hlutar Biblíunnar séu úreltir eða skipti engu máli.
Hvers vegna þurfa kristnir menn bæði Gamla testamentið og Nýja testamentið?
Páll postuli skrifaði undir innblæstri: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu.“ (Rómverjabréfið 15:4) Hebresku ritningarnar búa þess vegna yfir verðmætum upplýsingum. Þær veita okkur meðal annars hagnýtar leiðbeiningar og sögulegar upplýsingar sem skipta okkur máli.
Frásögur sem skipta okkur máli. Hebresku ritningarnar innihalda meðal annars ítarlegar frásögur af sköpuninni og syndafalli mannkynsins. Án þessara upplýsinga fengjum við ekki viðunandi svör við spurningum eins og: Hvaðan komum við? Hvers vegna deyjum við? (1. Mósebók 2:7, 17) Auk þess hafa Hebresku ritningarnar að geyma frásagnir af samskiptum Jehóva Guðs við fólk sem upplifði gleði og glímdi við erfiðleika eins og við. – Jakobsbréfið 5:17.
Hagnýtar leiðbeiningar. Orðskviðirnir og Prédikarinn, sem eru hluti af Hebresku ritningum, innihalda sígilda lífsspeki. Í þessum biblíubókum er finna ráð sem stuðla að hamingjuríku fjölskyldulífi (Orðskviðirnir 15:17), hjálpa okkur að hafa rétt viðhorf til vinnu (Orðskviðirnir 10:4; Prédikarinn 4:6) og hjálpa ungu fólki að nota æskuárin þannig að þau verði hamingjurík. (Prédikarinn 11:9–12:1).
Þar að auki er gagnlegt að kynna sér efni Móselaganna sem er að finna í Tórunni, það er að segja fyrstu fimm bókum Biblíunnar. Enda þótt Móselögin séu ekki bindandi fyrir kristna menn, hafa þau að geyma verðmætar meginreglur sem geta hjálpað okkur að vera hamingjusöm. – 3. Mósebók 19:18; 5. Mósebók 6:5-7.