Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Vinátta eða rómantík? – 1. hluti: Hvað merkja þessi skilaboð sem ég fæ?

Vinátta eða rómantík? – 1. hluti: Hvað merkja þessi skilaboð sem ég fæ?

 Þú ert hrifinn af einstaklingi af hinu kyninu og ert viss um að það sé gagnkvæmt. Þið eruð alltaf að senda hvort öðru SMS og eruð mikið saman þar sem fólk hittist ... og sum skilaboðin sem þú hefur fengið frá viðkomandi eru hreinlega daðursleg.

 Svo þú ákveður að spyrja hvert sambandið stefni, bara til að vita hvar þú standir? Og svarið er: „Við erum bara vinir – það er allt og sumt.“

 Þannig líður manni

 „Ég varð svo reið – reið út í hann og sjálfa mig. Við höfðum sent hvort öðru SMS á hverjum degi og hann hafði gefið í skyn að hann væri hrifinn af mér. Að sjálfsögðu fór ég að bera tilfinningar til hans.“ – Jasmine.

 „Við vorum siðgæðisverðir fyrir annað par. Stundum var eins og við værum á tvöföldu stefnumóti. Við töluðum mikið saman og fórum að senda hvort öðru SMS. Ég átti mjög erfitt með að kyngja því þegar hún sagðist bara líta á mig sem vin og ég komst að því að hún hafði verið að hitta annan strák allan tímann.“ – Richard.

 „Ég fékk daglega SMS frá strák. Stundum döðruðum við svolítið við hvort annað. En þegar ég sagði honum hvaða tilfinningar ég bæri til hans hló hann og sagðist ekki vera tilbúinn að stofna til sambands við neina stelpu. Ég grét lengi.“ – Tamara.

 Niðurstaðan: Þegar maður heldur að maður hafi sérstakt samband við einhvern en kemst síðan að því að hrifningin er ekki gagnkvæm, er bara eðlilegt að reiðast, fara hjá sér eða finnast maður hafi verið svikinn. „Ég var alveg miður mín þegar þetta kom fyrir mig og mjög sár“, segir ungur maður sem heitir Steven. „Ég gat ekki treyst neinni stelpu lengi á eftir.“

 Hvers vegna gerist þetta?

 Það er mjög auðvelt að tengjast einhverjum tilfinningalega, í gegnum SMS og samfélagsmiðla, sem meinar svo ekkert með sambandinu. Taktu eftir því sem sumt ungt fólk segir.

 „Maður fær SMS frá einhverjum sem er kannski bara að drepa tímann, en maður heldur að viðkomandi meini eitthvað með því. Og ef hann sendir SMS á hverjum degi, mætti misskilja það og halda að hann væri mjög spenntur fyrir manni.“ – Jennifer.

 „Maður gæti haft einlægan áhuga á rómantísku sambandi, en hinn aðilinn er bara að leita að einhverjum að tala við til að efla sjálfstraustið.“ – James.

 „Orðin ,góða nótt‘ í SMS gætu verið túlkuð á rómantískan hátt, þótt þau séu ekki persónulegri en kveðja símasölufólks. – Hailey.

 „Broskarl getur annað hvort þýtt ,vingjarnleg kveðja‘ eða ,daður‘. Stundum álítur viðtakandinn að það tákni daður.“ – Alicia.

 Niðurstaðan: Ekki rugla saman athygli og hrifningu.

 En er það ekki hægara sagt en gert? Jú, Biblían segir: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert.“ (Jeremía 17:9) Hjartað getur látið þig reisa ,rómantískar skýjaborgir‘ sem hrynja á augabragði þegar þú áttar þig á að þær eru bara ímyndun af þinni hálfu.

 Það sem þú getur gert

  •   Sýndu raunsæi. Leggðu kalt mat á sambandið. Spyrðu þig: „Hef ég ástæðu til að ætla að viðkomandi komi öðru vísi fram við mig en aðra?“ Ekki láta tilfinningarnar ræna þig skynsemi og rökhugsun.

  •   Sýndu góða dómgreind. Af þeim vísbendingum sem þér finnst sýna að þið séuð meira en bara vinir, skaltu skoða betur þær sem þú ert í vafa um. Þótt þú berir ákveðnar tilfinningar til einhvers skaltu ekki gera ráð fyrir að það sé gagnkvæmt.

  •   Sýndu þolinmæði. Ekki leggja meira í sambandið en þú þolir að tapa fyrr en viðkomandi segist vilja kynnast þér með rómantískt samband í huga.

  •   Sýndu heiðarleika. Biblían segir: „Að tala hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:7) Ef þú vilt komast að því hvort einhver líti á þig sem meira en bara vin skaltu ræða málið við viðkomandi. Ung kona sem heitir Valerie segir: „Ef tilfinningarnar eru ekki gagnkvæmar, er betra að vera svolítið sár núna, en að halda áfram og uppgötva eftir marga mánuði að viðkomandi hefur aldrei haft áhuga fyrir manni.“

 Niðurstaðan: „Varðveit hjarta þitt“ segir í Orðskviðunum 4:23. Ef þú laðast að einhverjum skaltu komast að því hvort viðkomandi laðast að þér. Ef það er ekki gert áður en rómantískum tilfinningum er leyft að skjóta rótum má líkja því við að reyna að gróðursetja plöntu ofan á grjóti.

 Ef þú kemst að því að viðkomandi er hrifinn af þér – og þú ert kominn á giftingaraldur – geturðu ákveðið hvort þú viljir kynnast viðkomandi betur. Mundu að til að hjónaband sé sterkt þurfa eiginmaður og eiginkona að hafa sameiginleg andleg markmið og vera hreinskilin og heiðarleg hvort við annað. (1. Korintubréf 7:39) Þá eru hjón án efa góðir vinir í byrjun og halda því áfram. – Orðskviðirnir 5:18.