Hefur einhver séð Guð?
Svar Biblíunnar
Enginn maður hefur bókstaflega séð Guð. (2. Mósebók 33:20; Jóhannes 1:18; 1. Jóhannesarbréf 4:12) Biblían segir að ‚Guð sé andi‘ lífsform sem er ósýnilegt augum manna. – Jóhannes 4:24; 1. Tímóteusarbréf 1:17.
Englar geta hins vegar séð Guð af því að þeir eru andaverur. (Matteus 18:10) Auk þess munu sumir sem deyja verða reistir upp til lífs á himnum og hafa andalíkama og þá munu þeir geta séð Guð. – Filippíbréfið 3:20, 21; 1. Jóhannesarbréf 3:2.
Hvernig er hægt að „sjá“ Guð núna?
Biblían notar oft hugtakið að sjá á táknrænan hátt um það að öðlast skilning. (Jesaja 6:10; Jeremía 5:21; Jóhannes 9:39–41) Í þessari merkingu getur maður séð Guð núna með „sjón hjartans“ með því að hafa trú og þekkingu á honum og kunna að meta eiginleika hans. (Efesusbréfið 1:18) Biblían lýsir þeim skrefum sem þarf að stíga til að eignast þess konar trú.
Kynnstu eiginleikum Guðs, eins og kærleika hans og örlæti sem og visku hans og mætti, sem sjást í sköpunarverkinu. (Rómverjabréfið 1:20) Þegar Job hafði verið minntur á sköpunarverk Guðs var eins og þessi trúfasti maður hefði séð Guð með eigin augum. – Jobsbók 42:5.
Kynnstu Guði með því að rannsaka Biblíuna. Biblían fullvissar okkur um að „ef þú leitar [Guðs] lætur hann þig finna sig“. – 1. Kroníkubók 28:9; Sálmur 119:2; Jóhannes 17:3.
Kynnstu Guði í gegnum líf Jesú. Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns, Jehóva Guðs, fullkomlega og hann gat því sagt með réttu: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ – Jóhannes 14:9.
Lifðu þannig að það gleðji Guð og þá muntu sjá hvernig hann kemur þér til hjálpar. Jesús sagði: „Hinir hjartahreinu eru hamingjusamir því að þeir munu sjá Guð.“ Eins og minnst var á að ofan munu sumir sem eru Guði þóknanlegir verða reistir upp til himna og þeir sjá Guð þar.– Matteus 5:8; Sálmur 11:7.
Sáu ekki Móse, Abraham og aðrir Guð?
Í frásögum Biblíunnar þar sem það gæti litið út fyrir að menn hafi bókstaflega séð Guð sést af samhenginu að hann notaði engil sem fulltrúa sinn eða birtist þeim í sýn.
Englar.
Forðum daga sendi Guð engla sem fulltrúa sína og þeir birtust mönnum og töluðu í nafni hans. (Sálmur 103:20) Einu sinni talaði Guð til dæmis við Móse úr brennandi runna og Biblían segir að Móse hafi hulið „andlitið því að hann þorði ekki að líta á hinn sanna Guð“. (2. Mósebók 3:4, 6) Móse sá samt ekki Guð bókstaflega enda sýnir samhengið hann hafi í rauninni séð ‚engil Jehóva‘. – 2. Mósebók 3:2.
Þegar Biblían segir að Guð hafi talað „við Móse augliti til auglitis“ merkir það að Guð hafi talað við hann einslega. (2. Mósebók 4:10, 11; 33:11) Móse sá Guð ekki bókstaflega vegna þess að „englar miðluðu“ upplýsingunum sem hann fékk frá Guði. (Galatabréfið 3:19; Postulasagan 7:53) En trú Móse var svo sterk að Biblían segir að það hafi verið „eins og hann sæi hinn ósýnilega“. – Hebreabréfið 11:27.
Samskipti Guðs við Abraham voru lík þeim sem hann átti við Móse. Hann talaði við hann fyrir milligöngu engla. Þegar gripið er inn í frásöguna gæti virst sem Abraham hafi bókstaflega séð Guð. (1. Mósebók 18:1, 33) En samhengið sýnir að ‚mennirnir þrír‘ sem komu til Abrahams voru englar sem Guð sendi. Abraham bar kennsl á þá sem fulltrúa Guðs og talaði til þeirra eins og hann væri að tala beint við Jehóva. – 1. Mósebók 18:2, 3, 22, 32; 19:1.
Sýnir.
Guð hefur líka birst mönnum í gegnum sýnir eða með því að láta þá sjá sviðsmyndir í hugskotum sínum. Biblían segir til dæmis að Móse og aðrir Ísraelsmenn hafi séð „Guð Ísraels“ en í raun sáu þeir „hinn sanna Guð í sýn“. (2. Mósebók 24:9–11) Stundum segir Biblían líka að spámenn hafi ‚séð Jehóva‘. (Jesaja 6:1; Daníel 7:9; Amos 9:1) Í öllum þessum tilvikum sýnir samhengið að þeir fengu sýn af Guði en sáu hann ekki í raun og veru. – Jesaja 1:1; Daníel 7:2; Amos 1:1.