Hver er gullna reglan?
Svar Biblíunnar
Hugtakið „gullna reglan“ er ekki að finna í Biblíunni. En margir nota það í sambandi við hegðunarreglu sem Jesús setti fram. Í fjallræðu sinni sem er vel þekkt sagði Jesús: „Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.“ (Matteus 7:12; Lúkas 6:31) Gullna reglan hefur líka verið orðuð þannig: „Gerðu það sama fyrir aðra og þú myndir vilja að þeir gerðu fyrir þig.“ – Encyclopedia of Philosophy.
Hvað merkir gullna reglan?
Gullna reglan hvetur okkur til að koma fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur. Flestir kunna til dæmis að meta þegar aðrir koma fram við sig af virðingu, góðvild og kærleika. Við ættum því að koma eins fram gagnvart öðrum. – Lúkas 6:31.
Hvers vegna er gullna reglan gagnleg?
Gullna reglan gildir við flestar aðstæður. Hún getur til dæmis …
styrkt hjónabönd. – Efesusbréfið 5:28, 33.
leiðbeint foreldrum í uppeldi barna sinna. – Efesusbréfið 6:4.
stuðlað að góðum samskiptum við vini, nágranna og vinnufélaga. – Orðskviðirnir 3:27, 28; Kólossubréfið 3:13.
Gullna reglan endurspeglar það sem kemur fram í stærstum hluta Biblíunnar sem er almennt kallaður Gamla testamentið. Hegðunarregla Jesú ‚er það sem lögin [fyrstu fimm bækur Biblíunnar] og spámennirnir [spádómsbækurnar] snúast um‘. (Matteus 7:12) Gullna reglan er með öðrum orðum í samræmi við grundvallaratriði Gamla testamentisins, sem er kærleikur til náungans. – Rómverjabréfið 13:8–10.
Snýst gullna reglan um að gefa og þiggja?
Nei. Gullna reglan leggur fyrst og fremst áherslu á að gefa. Þegar Jesús setti fram gullnu regluna var hann að tala um hvernig á að koma fram við fólk, ekki bara fólk almennt heldur jafnvel óvini manns. (Lúkas 6:27–31, 35) Gullna reglan hvetur fólk þannig til að gera öllum gott.
Hvernig geturðu farið eftir gullnu reglunni?
1. Vertu athugull. Taktu vel eftir fólkinu í kringum þig. Þú sérð kannski einhvern burðast með innkaupapoka, fréttir af nágranna sem hefur þurft að fara á spítala eða tekur eftir að vinnufélagi er niðurdreginn. Þegar þú ‚hugsar um hag annarra‘ kemurðu líklega auga á tækifæri til að segja eða gera eitthvað til að hjálpa öðrum. – Filippíbréfið 2:4.
2. Sýndu samkennd. Settu þig í spor þess sem er í vanda. Hvernig liði þér? (Rómverjabréfið 12:15) Þegar þú reynir að skilja hvernig öðrum líður getur það knúið þig til að hjálpa þeim.
3. Vertu sveigjanlegur. Mundu að fólk er mismunandi. Það sem aðrir vilja að sé gert fyrir þá er kannski ekki það sama sem þú myndir vilja að væri gert fyrir þig. Reyndu að velja það sem þeir kysu helst. – 1. Korintubréf 10:23, 24.