Hvað segir Biblían um að nota farða og skart?
Svar Biblíunnar
Enda þótt þetta sé ekki rætt ítarlega í Biblíunni, er notkun farða, skartgripa eða annars skrauts ekki fordæmd. En frekar en að einblína á ytra útlit leggur Biblían áherslu á ,óforgengilega fegurð hógværs og hljóðláts anda‘. – 1. Pétursbréf 3:3, 4.
Ytra skart er ekki fordæmt
Trúfastar konur sem Biblían segir frá notuðu skart. Rebekka, sem giftist Ísak, syni Abrahams, gekk með nefhring, armbönd úr gulli og aðra dýra skartgripi sem tilvonandi tengdafaðir hennar gaf henni. (1. Mósebók 24:22, 30, 53) Ester fór í fegrunarmeðferð sem undirbjó hana fyrir mögulegt hlutverk sem drottning persneska heimsveldisins. (Esterarbók 2:7, 9, 12) Í þessi meðferð voru greinilega notuð fegrunarsmyrsl eða ,mismunandi tegundir farða‘. – New International Version; Easy-to-Read Version.
Líkingar Biblíunnar nefna skartgripi í jákvæðu ljósi. Tökum dæmi: „Eins og gullhringur ... svo er áminning viturs manns“ fyrir þeim sem hlusta. (Orðskviðirnir 25:12) Á sama hátt líkti Guð sjálfur samskiptum sínum við Ísraelsþjóðina við eiginmann sem skreytir brúði sína með armböndum, hálsmeni og eyrnalokkum. Þessir skartgripir gerðu það að verkum að þjóðin varð „ægifögur“. – Esekíel 16:11-13.
Misskilningur varðandi skart og farða
Misskilningur: Í 1. Pétursbréfi 3:3 fordæmir Biblían ,hárgreiðslur og gullskraut‘.
Staðreynd: Af samhenginu má sjá að Biblían er að leggja áherslu á gildi innri fegurðar í samanburði við fallegt útlit eða skart. (1. Pétursbréf 3:3-6) Þennan samanburð er einnig að finna annars staðar í Biblíunni. – 1. Samúelsbók 16:7; Orðskviðirnir 11:22; 31:30; 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.
Misskilningur: Vonda drottningin Jesebel málaði sig um augun sem sýnir að það er rangt að nota farða. – 2. Konungabók 9:30.
Staðreynd: Jesebel stundaði galdra og morð og var dæmd fyrir vond verk en ekki fyrir útlitið. – 2. Konungabók 9:7, 22, 36, 37.