Hvað segir Biblían um jólin?
Svar Biblíunnar
Í Biblíunni kemur hvergi fram hvaða dag Jesús fæddist og hún segir heldur ekki að við eigum að halda fæðingardag hans hátíðlegan. Í biblíualfræðibókinni Cyclopedia eftir McClintock og Strong segir: „Jólahald var ekki fyrirskipað af Guði og það á sér enga fyrirmynd í NT [Nýja testamentinu].“
Þegar saga jólanna er skoðuð nánar kemur hins vegar í ljós að þau eiga rætur sínar að rekja til heiðinna trúarsiða. Í Biblíunni kemur fram að við særum Guð ef við tilbiðjum hann með þeim hætti sem honum er ekki að skapi. – 2. Mósebók 32:5-7.
Uppruni nokkurra jólasiða
Haldið upp á fæðingardag Jesú: „Frumkristnir menn héldu ekki upp á fæðingu [Jesú] vegna þess að þeir álitu það heiðna siðvenju að halda upp á fæðingu manns.“ – The World Book Encyclopedia.
Jóladagur, 25. desember: Ekkert bendir til þess að Jesús hafi fæðst á þessum degi. Kirkjunnar menn völdu sennilega þessa dagsetningu því að hún passaði við heiðnar hátíðir sem haldnar voru við vetrarsólstöður.
Gjafir, veisluhöld og boð: Alfræðibókin The Encyclopedia Americana segir: „Satúrnusarhátíðin, rómversk hátíð sem haldin var um miðjan desember, var fyrirmynd margra af gleðskaparsiðum jólanna. Það að halda miklar veislur, skiptast á gjöfum og tendra kertaljós á til dæmis uppruna sinn að rekja til þeirrar hátíðar.“ Alfræðiorðabókin Encyclopædia Britannica nefnir að „öll vinna og viðskipti hafi verið lögð niður“ meðan á Satúrnusarhátíðinni stóð.
Jólaljós: Samkvæmt alfræðibókinni The Encyclopedia of Religion skreyttu Evrópubúar heimili sín „með ljósum og alls kyns sígrænum plöntum“ til að fagna vetrarsólstöðum og verja sig illum öndum.
Mistilteinn og jólaviður: „Drúídar [forn-keltneskir prestar] eignuðu einkum mistilteinum töfraeiginleika. Sígrænn jólaviður [eða kristþyrnir] var tilbeðinn því að hann var talinn vera tákn um endurkomu sólarinnar.“ – The Encyclopedia Americana.
Jólatré: „Það var algengt á meðal heiðinna Evrópubúa að tilbiðja tré, jafnvel eftir að þeir snerust til kristinnar trúar.“ Einn siður sem hélst óbreyttur var að „setja jólatré innandyra eða við útidyr húsa þegar miðvetrarhátíðir stóðu yfir“. – Encyclopædia Britannica.