Hvað er þrengingin mikla?
Svar Biblíunnar
Þrengingin mikla verður erfiðasta tímabil sem mannkynið hefur upplifað. Samkvæmt spádómum Biblíunnar hefst hún á „síðustu dögum” eða þegar „dregur að endalokum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1; Daníel 12:4) Þá verður „þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar allt til þessa og mun aldrei verða.“ – Markús 13:19; Daníel 12:1; Matteus 24:21, 22.
Atburðarásin í þrengingunni miklu
Eyðing falstrúarbragðanna. Snöggleg tortíming falstrúarbragðanna kemur mönnum í opna skjöldu. (Opinberunarbókin 17:1, 5; 18:9, 10, 21) Með því að gera þetta framkvæma stjórnmálaöfl Sameinuðu þjóðanna vilja Guðs. – Opinberunarbókin 17:3, 15-18. a
Árás á sanna trú. Bandalag þjóða, sem í sýn Esekíels er nefnd „Góg í landinu Magóg“, reynir að útrýma þeim sem iðka sanna trú. En Guð verndar þjóna sína svo að þeim verður ekki tortímt. – Esekíel 38:1, 2, 9-12, 18-23.
Dómur yfir jarðarbúum. Jesús dæmir allar þjóðir og ,skilur þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.‘ (Matteus 25:31-33)Dómurinn fer eftir því hvort menn hafi stutt bræður Jesú sem eiga eftir að stjórna með Jesú á himni. – Matteus 25:34-46.
Meðstjórnendum Guðsríkis safnað. Útvaldir og trúfastir kristnir menn deyja og rísa upp til lífs á himni. – Matteus 24:31; 1. Korintubréf 15:50-53; 1. Þessaloníkubréf 4:15-17.
Harmagedón. Stríðið „á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ er líka nefnt ,dagur Jehóva‘. (Opinberunarbókin 16:14, 16; Jesaja 13:9; 2. Pétursbréf 3:12) Þeim sem hljóta óhagstæðan dóm verður eytt. (Sefanía 1:18; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Dómi verður líka fullnægt yfir stjórnmálakerfi heimsins en því er lýst í Biblíunni sem sjöhöfða villidýri. – Opinberunarbókin 19:19-21.
Atburðir eftir þrenginguna miklu.
Satan og illu andarnir fjötraðir. Voldugur engill kastar Satan og illu öndunum í undirdjúpið þar sem þeir verða óvirkir eins og í dauðadái. (Opinberunarbókin 20:1-3) Satan verður fjötraður og getur ekki haft nein áhrif. – Opinberunarbókin 20:7.
Þúsundáraríkið hefst. Ríki Guðs stjórnar í þúsund ár og verður öllu mannkyni til mikillar blessunar. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 20:4, 6) Mikill múgur, sem ekki verður tölu á komið, lifir þrenginguna miklu af og fær að sjá upphaf þúsundáraríkisins. – Opinberunarbókin 7:9, 14; Sálmur 37:9-11.
a Í Opinberunarbókinni er Babýlon hin mikla eða ,skækjan mikla‘ táknmynd falstrúarbragðanna. (Opinberunarbókin 17:1, 5) Skarlatsrauða dýrið, sem eyðir Babýlon hinni miklu, táknar þau samtök sem leitast við að sameina þjóðir heims og er fulltrúi þeirra. Þau voru fyrst kölluð Þjóðabandalagið en eru núna nefnd Sameinuðu þjóðirnar.