FORSÍÐUEFNI | VIÐHORF GUÐS TIL REYKINGA
Hvert er viðhorf Guðs til reykinga?
Eftir að Naoko, sem rætt var um í greininni á undan, hætti að reykja, sagði hún: „Mér tókst að breyta lífi mínu til hins betra þegar ég lærði sannleikann um Guð og kynntist eiginleikum hans og fyrirætlun.“ Það sem Naoko lærði er að finna í Biblíunni. Þótt hvergi sé minnst á tóbak í Biblíunni hjálpar hún okkur samt að skilja viðhorf Guðs til reykinga. * Það hefur gefið mörgum nægan styrk til að sigrast á lönguninni í tóbak og segja skilið við þennan slæma ávana. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Skaðleg áhrif reykinga eru vel þekkt. Lítum nánar á þessi áhrif og það sem Biblían hefur að segja um þau.
REYKINGAR ERU ÁVANABINDANDI
Í tóbaki er að finna eitt mest ávanabindandi efni sem til er – nikótín. Það getur haft örvandi og deyfandi áhrif. Þegar fólk reykir berst nikótín hratt og í sífellu til heilans. Í hvert sinn sem reykingamaður sogar að sér reyk dregur hann í sig einn skammt af nikótíni. Sá sem reykir pakka af sígarettum á dag dregur því í sig um það bil 200 nikótínskammta á dag, langtum fleiri skammta en þeir sem háðir eru öðrum ávana- og fíkniefnum. Það gerir nikótín sérlega ávanabindandi. Þegar fólk er orðið háð tóbaki fær það fráhvarfseinkenni ef nikótínþörfinni er ekki fullnægt.
„Ef þið gerist ánauðug þý einhvers eruð þið nauðbeygð að hlýða honum.“ – Rómverjabréfið 6:16.
Geturðu í raun verið hlýðinn Guði ef þú ert í ánauð tóbaksfíknar?
Biblían hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf til reykinga. Í henni segir: „Vitið þið ekki að ef þið gerist ánauðug þý einhvers eruð þið nauðbeygð að hlýða honum?“ (Rómverjabréfið 6:16) Þegar einstaklingur lætur stjórnast af löngun sinni í tóbak verður hann fljótt þræll smánarlegs ávana. Aftur á móti vill Guð, sem ber nafnið Jehóva, að við séum laus úr hvers kyns ánauð, hvort heldur það sé ávani sem skaðar líkama okkar eða hefur slæm áhrif á okkar innri mann, það er að segja okkar innstu hvatir. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls; 2. Korintubréf 7:1) Sá sem lærir að virða Jehóva og meta hann mikils, áttar sig á að Jehóva verðskuldar að maður geri sitt besta til að þjóna honum, og að það er ekki hægt ef maður er þræll banvæns ávana. Þegar hann gerir sér þetta ljóst getur það styrkt ásetning hans að standa gegn skaðlegum löngunum.
Olaf, sem býr í Þýskalandi, byrjaði að reykja 12 ára og reykti í 16 ár. Hann segir: „Það má segja að fyrsta sígarettan hafi verið eins og lítill snjóbolti sem breyttist með árunum í snjóflóð. Eitt sinn þegar ég átti ekki til sígarettur var ég svo aðframkominn að ég tók alla stubbana úr öskubakkanum, skóf úr þeim tóbakið og rúllaði því inn í dagblaðssnifsi. Þegar ég lít til baka sé ég hversu skammarlegt þetta var.“ En hvernig fór hann að því
að sigrast á þessum smánarlega ávana? „Það sem skipti mestu máli var löngunin til að þóknast Jehóva,“ segir hann. „Kærleikur Jehóva til mannanna og vonin sem hann gefur okkur veitti mér nægan styrk til að sigrast á fíkninni í eitt skipti fyrir öll.“REYKINGAR SKAÐA LÍKAMANN
„Rannsóknir hafa leitt í ljós að reykingar skaða nærri öll líffæri líkamans og auka líkurnar á sjúkdómum og ótímabærum dauða,“ segir í bókinni The Tobacco Atlas. Það er vel þekkt að reykingar valda smitvana sjúkdómum eins og krabbameini og hjarta- og lungnasjúkdómum. En að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar deyja líka margir sem reykja úr smitsjúkdómum eins og berklaveiki.
„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ – Matteus 22:37.
Sýnirðu Guði að þú elskir hann og virðir ef þú heldur í óhreinan ávana er skaðar líkamann sem hann gaf þér?
Í orði sínu, Biblíunni, kennir Jehóva okkur að sjá líf okkar, líkama og hæfni í réttu ljósi. Sonur hans, Jesús, benti á þetta þegar hann sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Jehóva vill greinilega að við berum virðingu fyrir lífi okkar og líkama og förum vel með þessar gjafir. Þegar við kynnumst Jehóva og loforðum hans fyllumst við innilegu þakklæti vegna alls sem hann hefur gert fyrir okkur. Það verður okkur hvatning til að forðast hvaðeina sem skaðar líkama okkar.
Jayavanth, sem er læknir á Indlandi, reykti í 38 ár. Hann sagði: „Ég lærði um skaðsemi reykinga í læknaritum. Ég vissi að það væri rangt að reykja og ráðlagði skjólstæðingum mínum að hætta því. En sjálfur gat ég ekki hætt þrátt fyrir að hafa reynt það fimm eða sex sinnum.“ Hvað varð þá til þess að honum tókst að hætta? Hann segir: „Ég hætti að reykja eftir að hafa kynnt mér Biblíuna. Mig langaði til að þóknast Jehóva og það gaf mér styrk til að leggja niður þennan ósið undir eins.“
REYKINGAR SKAÐA AÐRA
Bæði reykurinn sem reykingafólk blæs frá sér og efnasambönd sem myndast þegar tóbak brennur eitra andrúmsloftið. Óbeinar reykingar geta valdið krabbameini og öðrum sjúkdómum og draga árlega um 600.000 manns til dauða, aðallega konur og börn. Í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segir: „Óbeinar reykingar eru aldrei skaðlausar.“
„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – Matteus 22:39.
Elskarðu náunga þinn og fjölskyldu í raun ef þú skaðar þau með óbeinum reykingum?
Matteus 22:39) Að sögn Jesú er því afar mikilvægt að bera kærleika til náungans, það er að segja til fjölskyldu okkar, vina og annarra í kringum okkur. Aðeins kærleikurinn til Guðs er mikilvægari. Ef við ríghöldum í ávana sem skaðar þá er standa okkur næst sýnum við ekki náungakærleika. Ósvikinn kærleikur fær okkur til að fylgja þessari áminningu Biblíunnar: „Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.
Jesús sagði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Armen, sem býr í Armeníu, segir: „Ég reykti og það kom niður á fjölskyldunni minni. Þess vegna bað hún mig oft um að hætta. En ég vildi ekki viðurkenna að reykingarnar gætu haft skaðleg áhrif á hana.“ Hann lýsir því hvað varð til þess að hann breytti um viðhorf og segir: „Ég kynnti mér Biblíuna og fór að elska Jehóva. Það hjálpaði mér að hætta að reykja og viðurkenna að reykingarnar höfðu ekki aðeins skaðleg áhrif á mig heldur einnig á fólkið í kringum mig.“
ÞEGAR REYKINGAR HEYRA SÖGUNNI TIL
Boðskapur Biblíunnar hjálpaði Olaf, Jayavanth og Armen að slíta sig lausa úr viðjum þessa smánarlega ávana sem skaðaði bæði þá og aðra. Þeim tókst það, ekki aðeins af því að þeir vissu að reykingar eru skaðlegar, heldur af því að þeir fóru að elska Jehóva og þá langaði til að þóknast honum. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:3 kemur fram hve miklu máli skiptir að elska Guð, en þar segir: „Því að elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ Það er að sjálfsögðu ekki alltaf auðvelt að fara eftir meginreglum Biblíunnar en þegar kærleikurinn til Guðs knýr mann til að hlýða honum verða boðorð hans ekki íþyngjandi.
Jehóva Guð stendur fyrir fræðsluátaki út um allan heim sem hjálpar milljónum manna að segja skilið við reykingar og sigrast á tóbaksfíkninni. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Fyrir milligöngu ríkis síns, sem er stjórn á himnum í höndum Jesú Krists, mun Jehóva innan skamms eyða hinum fégráðuga viðskiptaheimi sem hefur hneppt milljónir manna í ánauð tóbaks. Jehóva bindur þá endi á reykingafaraldurinn fyrir fullt og allt og sér til þess að hlýðnir menn verði fullkomnir á huga og líkama. – Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 19:11, 15.
Áttu í baráttu við að hætta að reykja? Gefstu þá ekki upp. Ef þú lærir að elska Jehóva og tileinka þér viðhorf hans til reykinga getur það líka verið þér hvöt til að sigra í baráttunni. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að veita þér persónulega aðstoð við að kynnast meginreglum Biblíunnar og læra að fara eftir þeim. Ef þú vilt að Jehóva hjálpi þér að sigrast á tóbaksfíkninni máttu vera viss um að hann veitir þér nægan styrk og kraft til þess. – Filippíbréfið 4:13.
^ gr. 3 Það að anda að sér tóbaksreyk úr sígarettum, vindlum, pípum eða vatnspípum flokkast allt undir reykingar í þessari grein. Meginreglurnar, sem rætt er um, eiga þó líka við um notkun munn- og neftóbaks, rafmagnssígarettna með nikótíni og annarra tóbaksvara.