Peningar – er trúarbrögðunum treystandi?
Ester * er margra barna móðir og var afar kirkjurækin. Hún segir: „Ég sagði prestinum að mig langaði til að vita meira um Biblíuna.“ Hann bauðst þó aldrei til að kenna henni. Að lokum hætti hún að fara í kirkju. Hún bætir við: „Ég fékk bréf frá þeim sem annast fjármál kirkjunnar og þar stóð efnislega að ef ég kæmist ekki sjálf ætti ég bara að senda þeim peninga með pósti. Þeim stóð greinilega á sama hvort ég kæmi eða ekki, þeir vildu bara peningana mína.“
Agnes, sem hefur alltaf verið mjög trúuð, sagði: „Í kirkjunni var samskotabaukurinn látinn ganga þrisvar sinnum í hverri messu og ætlast var til að við létum peninga í hann í hvert skipti. Það var stöðugt verið að biðja um peninga. Mér fannst Guð ekki vera með þessari kirkju.“
Beita trúfélög og kirkjudeildir þar sem þú býrð beinum eða óbeinum þrýstingi við fjáröflun sína? Er það í samræmi við það sem Biblían kennir?
HVAÐ KENNIR BIBLÍAN?
Jesús er sá sem stofnaði kristna söfnuðinn og hann sagði: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ (Matteus 10:8) Boðskapur Biblíunnar verður ekki metinn til fjár og ætti að vera aðgengilegur öllum sem vilja.
Hvernig stóðu frumkristnir menn undir útgjöldum safnaðarins?
Þeir fylgdu þessari hvatningu: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Páll postuli sagði: „Ég vann nótt og dag til þess að vera ekki neinu ykkar til þyngsla um leið og ég prédikaði fyrir ykkur fagnaðarerindi Guðs.“ (1. Þessaloníkubréf 2:9) Þótt Páll nýtti tímann að mestu til að prédika sá hann fyrir sér sem tjaldgerðarmaður. – Postulasagan 18:2, 3.
HVAÐ UM VOTTA JEHÓVA?
Samkomur Votta Jehóva eru yfirleitt haldnar í einföldu og látlausu húsnæði sem þeir kalla ríkissali. Hvernig standa þeir straum af kostnaðinum? Þeir láta aldrei samskotabauka ganga milli gesta eða senda út gíróseðla til að falast eftir framlögum. Allir sem kunna að meta trúfræðsluna geta lagt peninga í framlagabauk í ríkissalnum, svo lítið beri á.
Hvernig ætti að fjármagna trúarbrögð?
Það er augljóst að prentun og flutningur þessa tímarits kostar peninga en samt eru aldrei birtar auglýsingar frá fyrirtækjum eða óskað eftir fjárstuðningi. Öll áhersla er lögð á að koma sannleika Biblíunnar á framfæri.
Hvað finnst þér? Er þessi aðferð við að standa straum af kostnaði í samræmi við orð Jesú og fordæmi frumkristinna manna?
^ gr. 2 Sumum nöfnum í þessari greinasyrpu hefur verið breytt.