Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁLÆGÐU ÞIG GUÐI

Hann hefur „fyllt hjörtu“ okkar

Hann hefur „fyllt hjörtu“ okkar

Ber Jehóva í raun umhyggju fyrir okkur eða lætur hann þjáningar manna sig engu varða? Það yljar okkur um hjartarætur að sjá hvernig Biblían svarar þessari spurningu. Guð ber svo sannarlega umhyggju fyrir okkur mönnunum og hann vill að við njótum lífsins. Á hverjum degi fá menn að njóta góðs af ríkulegri gæsku hans, jafnvel þeir vanþakklátustu. Hugleiddu orð Páls postula. – Lestu Postulasöguna 14:16, 17.

Páll sagði við íbúa Lýstru, sem voru ekki tilbiðjendur Guðs: „[Guð] hefur um liðnar aldir leyft að sérhver þjóð gengi sína vegu. En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið ykkur regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt ykkur fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ Hvaða þýðingu höfðu þessi orð fyrir áheyrendur Páls?

Íbúar Lýstru áttu ekki erfitt með að skilja þessi orð Páls. Þeir voru hluti af bændasamfélagi og bjuggu á frjósömu og vatnsríku svæði. En eins og Páll benti þeim á kemur regnið og uppskerutíminn frá Guði. Því mætti segja að í hvert skipti sem þeir fengu ríkulega uppskeru og borðuðu ljúffenga máltíð nutu þeir góðs af gæsku Guðs.

Það sem Páll sagði við íbúa Lýstru gefur okkur mikilvægar upplýsingar um Jehóva Guð.

Jehóva gefur okkur frjálsan vilja. Guð gaf mönnum af öllum þjóðum frelsi til að ganga „sína vegu“. Eitt heimildarit biblíuþýðenda útskýrir að þetta orðalag geti þýtt „að gera eins og þeir sjálfir vildu“ eða „að gera eins og þeim þóknaðist“. Jehóva neyðir engan til að tilbiðja sig. Hann hefur gefið okkur frjálsan vilja – getu til að velja sjálf hvernig við lifum lífinu. – 5. Mósebók 30:19.

Jehóva vill að við kynnumst sér. Guð hefur „vitnað um sjálfan sig“, sagði Páll. Heimildaritið, sem vitnað var í fyrr í greininni, útskýrir að orðalagið geti líka merkt að „hann hafi sýnt fólki greinilega hvers konar Guð hann er“. Sköpunarverk Guðs ber dásamlegt vitni um „hið ósýnilega eðli hans“, þar með talið gæsku hans, visku, kraft og kærleika. (Rómverjabréfið 1:20, Biblían 1981) Í Biblíunni hefur Jehóva opinberað margt fleira um sjálfan sig. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Er ekki augljóst að hann vill að við kynnumst sér?

Á hverjum degi fá menn að njóta góðs af ríkulegri gæsku Guðs, jafnvel þeir vanþakklátustu.

Jehóva vill að við séum hamingjusöm. Páll sagði: „Hann hefur veitt ykkur fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ Jafnvel ófullkomnir menn sem trúa ekki á Jehóva geta neytt dásamlegs matar og notið hamingju að vissu marki. Guð vill hins vegar að við öðlumst sanna og varanlega hamingju. Það er einungis hægt ef við kynnum okkur sannleikann um hann og förum eftir því sem við lærum. – Sálmur 144:15; Lúkas 11:28.

Við njótum öll góðs af gæsku Jehóva á hverjum degi. Hann hefur veitt okkur fæðu og „fyllt hjörtu“ okkar gleði. Væri ekki ráð að kynna sér betur hvernig þú getur sýnt honum þakklæti þitt?

Tillaga að biblíulestri í september og október

1. Korintubréf 1 – 2. Tímóteusarbréf 4