FARSÆLT FJÖLSKYLDULÍF
Að giftast að nýju
HERMANN: * „Fyrri konan mín lést af völdum krabbameins eftir 34 ára hjónaband. Þegar ég gifti mig aftur fannst Lindu, konunni minni, að ég væri sífellt að bera hana saman við fyrri konuna mína. Og til að bæta gráu ofan á svart töluðu vinir mínir oft um góða eiginleika fyrri konunnar minnar og það særði Lindu.“
LINDA: „Eftir að við Hermann giftum okkur fannst mér ég standa í skugganum af fyrri eiginkonu hans. Hún hafði verið fáguð og góð kona og öllum svo kær. Stundum velti ég því fyrir mér hvort við Hermann eigum nokkurn tíma eftir að vera jafn náin og þau voru.“
Hermann og Linda eru ánægð með að hafa fundið hvort annað. Linda, sem skildi við fyrrum eiginmann sinn, segir að í hennar augum sé Hermann „riddarinn á hvíta hestinum“. En eins og þau benda á getur það að giftast að nýju haft erfiðleika í för með sér sem aldrei gerðu vart við sig í fyrra hjónabandinu. *
Hvaða væntingar hefurðu til hjónabandsins nú þegar þú hefur fundið þér nýjan maka? Telma, sem gifti sig aftur þremur árum eftir að hún skildi við fyrri eiginmann sinn, segir: „Þegar maður gengur í hjónaband í fyrsta skipti er maður sannfærður um að það muni vara að eilífu. En þegar maður giftir sig aftur er ekki víst að þessi sannfæring sé til staðar vegna þess að fyrsta hjónabandið tók enda.“
Engu að síður hafa margir notið mikillar hamingju og gleði eftir að hafa gifst að nýju. Þessi hjón *
unnu að því að gera hjónaband sitt farsælt og það getur þú líka gert. Hvernig? Lítum á þrjár algengar áskoranir og skoðum hvernig leiðbeiningar Biblíunnar geta hjálpað þér að takast á við þær.ÁSKORUN 1: FYRRA HJÓNABAND VARPAR SKUGGA Á NÚVERANDI HJÓNABAND.
„Ég get ekki bara þurrkað út minningarnar frá fyrra hjónabandi mínu. Það er sérstaklega erfitt þegar við hjónin ferðumst þangað sem ég og fyrri eiginmaður minn vorum vön að fara í frí,“ segir Ellen sem býr í Suður-Afríku. „Stundum stend ég mig að því að bera núverandi eiginmann minn saman við minn fyrri eiginmann.“ Ef maki þinn hefur verið giftur áður finnst þér kannski særandi ef hann talar oft um fyrra hjónaband sitt.
GÓÐ RÁÐ: Gerðu þér grein fyrir að það er óraunhæft að ætla að þú eða maki þinn geti einfaldlega gleymt fyrra hjónabandi, sérstaklega ef það varaði lengi. Sumir viðurkenna reyndar að þeir hafi óvart kallað maka sinn með nafni fyrrverandi maka. Hvað geturðu gert ef slíkar eða svipaðar aðstæður koma upp hjá þér? „Reynið að sýna hvert öðru skilning,“ ráðleggur Biblían. – 1. Pétursbréf 3:8, New Century Version.
Láttu ekki afbrýðisemi verða til þess að þú leggir blátt bann við að maki þinn minnist á fyrra hjónaband sitt. Ef hann hefur þörf fyrir að tala um það skaltu hlusta með samúð og hluttekningu. Gerðu heldur ekki ráð fyrir að verið sé að bera þig saman við fyrrverandi maka. Jónas, sem hefur verið giftur Katrínu í tíu ár, segir: „Katrín leit aldrei svo á að ég mætti ekki tala um fyrri eiginkonu mína. Öllu heldur leit hún á það sem tækifæri til að kynnast mér betur.“ Slíkar samræður gætu einnig hjálpað þér að styrkja hjónabandið og gert þig nákomnari makanum.
Beindu athyglinni að góðum eiginleikum og kostum núverandi maka þíns. Hann hefur kannski ekki til að bera sömu eiginleika eða hæfni og fyrrverandi maki þinn en sennilega býr hann yfir öðrum góðum eiginleikum. Reyndu að styrkja stoðir nýja hjónabandsins með því að hugsa um hvað þér líkar í fari núverandi maka og meta hann að verðleikum, en ekki með því að bera hann saman við þinn fyrrverandi. (Galatabréfið 6:4) Egill, sem er tvígiftur, segir: „Engin tvö hjónabönd eru eins, ekkert frekar en vináttubönd.“
Hvernig geturðu komið í veg fyrir að ljúfar minningar frá fyrra hjónabandi særi eða hafi slæm áhrif á núverandi maka þinn? „Eitt sinn útskýrði ég fyrir konunni minni að fyrra hjónaband mitt væri eins og dýrmæt bók sem ég og fyrri eiginkona mín hefðum skrifað saman,“ segir Jakob. „Stundum opna ég bókina, les í henni og minnist góðra stunda. En ég lifi ekki í þeirri bók. Ég og núverandi eiginkona mín erum að skrifa okkar eigin bók og þar lifi ég núna og er hamingjusamur.“
PRÓFIÐ ÞETTA: Spyrðu maka þinn hvort honum eða henni finnist óþægilegt þegar fyrra hjónaband þitt berst í tal. Reynið að átta ykkur á hvenær best sé að sleppa því að tala um fyrra hjónaband.
ÁSKORUN 2: SAMSKIPTI VIÐ GAMLA VINI SEM HAFA EKKI KYNNST NÝJA MAKANUM.
„Eftir að ég gifti mig aftur fannst konunni minni á tímabili að sumir í vinahópnum mínum væru að mæla hana vandlega út og reyna á þolrif hennar,“ segir Jóhann sem gifti sig aftur sex árum eftir hjónaskilnað. Eiginmaður að nafni Leó stóð frammi fyrir annars konar áskorun. Hann segir: „Sumir tjáðu konunni minni hve sárt þeir söknuðu fyrrverandi eiginmanns hennar og það beint fyrir framan nefið á mér!“
GÓÐ RÁÐ: Reyndu að setja þig í spor vinanna. „Ég held að það sé stundum mjög sárt og óþægilegt fyrir gamla vini að umgangast þann sem hefur gifst á ný af því að þeir þekkja ekki nýja makann,“ segir Jónas sem minnst var á fyrr í greininni. Reynið því eftir bestu getu að vera „sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd“. (Títusarbréfið 3:2) Gefðu vinum þínum og ættingjum tíma til að aðlagast nýjum aðstæðum. Hjónaband þitt hefur breyst og eins gætu vináttubönd átt eftir að breytast. Jóhann, sem vitnað var í áður, segir að með tímanum hafi hann og konan hans endurnýjað vináttuna við gamla vini. „En við reynum líka að eignast nýja vini saman og það styrkir hjónabandið,“ segir hann.
Taktu tillit til tilfinninga maka þíns þegar þið eruð með gömlum vinum. Ef fyrra hjónaband þitt ber til dæmis á góma skaltu sýna háttvísi og dómgreind svo að nýja makanum finnist hann ekki utangátta. Í Biblíunni segir: „Tali einhver án þess að hugsa geta orð hans stungið sem sverð. En hinn vitri gætir orða sinna. Orð hans geta grætt sárin.“ – Orðskviðirnir 12:18, Holy Bible—Easy-to-Read Version.
PRÓFIÐ ÞETTA: Veltu fyrir þér hvaða viðburðir gætu valdið þér eða maka þínum óþægindum. Ræðið fyrir fram hvernig best sé að taka á því þegar vinir minnast á fyrra hjónaband annars ykkar.
ÁSKORUN 3: ÞÉR FINNST ERFITT AÐ TREYSTA NÝJA MAKANUM VEGNA ÞESS AÐ FYRRI MAKI VAR ÞÉR ÓTRÚR.
„Ég var dauðhræddur um að verða svikinn aftur,“ segir Andrés en fyrri eiginkona hans fór frá honum. Seinna giftist hann Rósu. „Ég velti oft fyrir mér hvort ég gæti nokkurn tíma orðið jafn góður og fyrri eiginmaður Rósu. Ég hafði jafnvel áhyggjur af því að hún myndi sjá að ég væri ekki hennar verður og hlaupast á brott með öðrum manni.“
GÓÐ RÁÐ: Tjáðu þig opinskátt við maka þinn um það sem veldur þér áhyggjum. „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 15:22) Einlæg tjáskipti hjálpuðu Andrési og Rósu að treysta hvort öðru. Andrés segir: „Ég sagði Rósu að ég myndi aldrei sækja um skilnað til þess eins að losna við vandamálin og Rósa sannfærði mig um að það myndi hún heldur aldrei gera. Nú treysti ég henni skilyrðislaust.“
Ef maki þinn var svikinn í fyrra hjónabandi skaltu gera þitt besta til að ávinna þér traust hans. Hjónin Mikael og Sabrína, sem bæði voru gift áður, komu sér saman um að láta hvort annað vita ef þau hefðu eitthvert samband við fyrrum maka sína. „Þessi ákvörðun gaf okkur öryggiskennd,“ segir Sabrína. – Efesusbréfið 4:25.
PRÓFIÐ ÞETTA: Setjið því skorður hversu mikil samskipti þið eigið í einrúmi við hitt kynið, hvort heldur það er augliti til auglitis, í síma eða á Netinu.
Margir sem hafa gifst á ný eiga farsælt hjónaband og það getur þú einnig öðlast. Til að mynda þekkir þú kannski sjálfa/n þig betur núna en þegar þú gekkst í hjónaband í fyrsta skipti. „Hjónaband okkar Rósu hefur veitt mér mikla hamingju,“ segir Andrés sem vitnað var í áður. „Eftir 13 ára hjónaband erum við bundin mjög sterkum böndum – böndum sem við viljum aldrei slíta.“
^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.
^ gr. 5 Það er auðvitað mikill munur á því að missa maka sinn í dauðann eða enda hjónaband með skilnaði. En hvort heldur á við í þínu tilfelli geta leiðbeiningarnar í þessari grein verið til hjálpar ef þú giftist að nýju.
^ gr. 7 Finna má góð ráð um hvernig hægt sé að takast á við annars konar erfiðleika sem geta komið upp í stjúpfjölskyldum í forsíðugreinum Vaknið! apríl 2012 á ensku. Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva. Einnig er hægt er að lesa blaðið á www.isa4310.com á fleiri erlendum tungumálum.
SPYRÐU ÞIG ...
-
Hvaða góðu eiginleika kann ég sérstaklega vel að meta í fari maka míns?
-
Hvernig get ég sýnt maka mínum virðingu og tillitsemi ef fyrra hjónaband mitt ber á góma?