Kenndu börnunum
Græðgi varð Gehasí að falli
HEFUR þig einhvern tíma langað mjög mikið í eitthvað? – * Þá ertu eins og flestir aðrir. En ættirðu að ljúga til að fá það sem þig langar í? – Nei, þú ættir ekki að gera það. Þeir sem gera það eru gráðugir. Könnum hvernig græðgi varð manni, sem hét Gehasí, að falli. Hann var þjónn Elísa sem var spámaður hins sanna Guðs, Jehóva.
Elísa og Gehasí voru uppi fyrir langa löngu, um þúsund árum áður en Jesús, sonur Guðs, fæddist á jörðinni. Jehóva notaði Elísa til að gera frábæra hluti – hann gerði kraftaverk! Til dæmis segir í Biblíunni frá háttsettum manni í her Sýrlendinga en hann þjáðist af slæmum sjúkdómi sem heitir holdsveiki. Það gat enginn læknað hann nema Elísa.
Elísa þiggur aldrei peninga þegar Guð notar hann til að lækna fólk. Veistu hvers vegna? – Vegna þess að Elísa veit að það er í raun Jehóva sem vinnur þessi kraftaverk en ekki hann sjálfur. Naaman er svo ánægður þegar hann fær lækningu að hann langar til að gefa Elísa gull, silfur og glæsileg föt. Elísa vill ekki þiggja neitt en Gehasí langar ákaflega í þessar gjafir.
Þegar Naaman er farinn hleypur Gehasí á eftir honum án þess að láta Elísa vita. Veistu hvað Gehasí segir þegar hann nær Naaman? – ,Elísa sendi mig til að segja þér að hann hefur fengið tvo gesti. Hann vill gjarnan fá tvenn föt til að gefa mönnunum.‘
En Gehasí er að ljúga, hann bjó bara til söguna um gestina tvo. Hann sagði þetta bara vegna þess að hann langaði í fötin sem Naaman reyndi að gefa Elísa. Það veit Naaman ekki. Hann er meira en fús til þess að gefa Gehasí gjafirnar. Naaman gefur Gehasí jafnvel meira en hann biður um. Veistu hvað gerist næst? –
,Hvert fórstu?‘ spyr Elísa þegar Gehasí kemur aftur heim.
,Ég hef ekki farið neitt,‘ segir Gehasí. En Jehóva er búinn að láta Elísa vita hvað Gehasí gerði. Elísa segir þá: ,Nú er ekki tíminn til að þiggja fé eða klæði.‘
Gehasí hefur tekið peninga og föt sem hann á ekki. Jehóva lætur þess vegna Gehasí fá holdsveiki Naamans. Hvað heldurðu að við getum lært af þessu? – Eitt af því sem við lærum er að við ættum ekki að búa til og segja ósannar sögur.
Hvers vegna bjó Gehasí til lygasögu? – Vegna þess að hann var gráðugur. Hann langaði í það sem stóð honum ekki til boða og reyndi að eignast það með því að ljúga. Hann fékk því hræðilegan sjúkdóm sem hann þjáðist af það sem eftir var ævinnar.
En í raun var holdsveikin ekki það versta sem kom fyrir Gehasí. Veistu hvað var það versta? – Hann missti velþóknun Jehóva og kærleika hans. Við skulum aldrei gera neitt sem tekur frá okkur velþóknun og kærleika Jehóva. Þess í stað skulum við vera góðviljuð og deila með öðrum því sem við eigum.
Lestu í Biblíunni
^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir barn geturðu stoppað við þankastrikið og hvatt barnið til að tjá sig.