Nálægðu þig Guði
„Lát mig snúa heim“
Varstu eitt sinn þjónn Jehóva? Langar þig kannski til að þjóna honum aftur en ert ekki viss um að hann taki þér opnum örmum? Þá biðjum við þig að lesa vandlega þessa grein og þá næstu því að þær voru skrifaðar með þig í huga.
„ÉG SÁRBÆNDI Jehóva að leyfa mér að koma heim og fyrirgefa mér að ég skyldi særa hann,“ sagði kona sem hafði fjarlægst trúna sem hún var alin upp við. Finnurðu til með henni? Hugsarðu kannski: Hvað finnst Guði um þá sem voru eitt sinn þjónar hans? Man hann eftir þeim? Vill hann að þeir ,snúi heim‘? Við skulum skoða orð Jeremía til að fá svör við þessum spurningum. Það sem honum var falið að skrifa mun eflaust ylja þér um hjartaræturnar. – Lestu Jeremía 31:18-20.
Sjáðu fyrir þér hvernig ástandið var þegar Jeremía skrifaði þessi orð. Áratugum áður, eða árið 740 f.Kr., hafði Jehóva leyft Assýringum að flytja tíuættkvíslaríkið Ísrael í útlegð. * Guð leyfði þessum hörmungum að eiga sér stað til að aga fólk sitt því að það hafði drýgt alvarlegar syndir og hunsað síendurteknar viðvaranir spámannanna. (2. Konungabók 17:5-18) En breyttist hjartalag fólksins vegna erfiðleikanna sem fylgdu því að vera í útlegð, þegar það var aðskilið frá Guði og langt frá heimalandi sínu? Var Jehóva alveg búinn að gleyma þeim? Myndi hann nokkurn tíma leyfa þeim að snúa aftur heim?
,Ég iðraðist‘
Fólkið sá að sér í útlegðinni og fann til iðrunar. Einlæg iðrun þeirra fór ekki fram hjá Jehóva. Taktu eftir hvernig hann lýsir tilfinningum og viðhorfi útlægra Ísraelsmanna sem hann kallar Efraím.
„Ég heyrði kvein Efraíms,“ segir Jehóva. (Vers 18) Hann heyrði í Ísraelsmönnum þegar þeir kveinuðu yfir afleiðingum syndugrar breytni sinnar. Fræðimaður segir að orðið „kvein“ geti vísað til þess „að titra eða skjálfa“. Ísraelsmenn voru eins og villuráfandi sonur sem titrar og skelfur þegar hann hugsar hryggur í bragði um erfiðleikana sem hann kom sér í og þráir að lífið verði aftur eins og það var heima fyrir. (Lúkas 15:11-17) Hvað var það sem Ísraelsmenn sögðu?
„Þú hirtir mig og ég tók hirtingunni líkt og óvaninn kálfur.“ (Vers 18) Fólkið viðurkenndi að það átti skilið að fá aga. Það hafði jú hagað sér eins og óvaninn kálfur. Hugsunin að baki þessari samlíkingu gæti verið sú að fólkið var eins og uxi sem hefði aldrei „fundið fyrir broddunum ef hann hefði ekki fyrst sýnt mótþróa gegn okinu“, að því er segir í heimildarriti.
„Lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við því að þú ert Drottinn, Guð minn.“ (Vers 18) Fólkið ákallaði Guð af auðmjúku og einlægu hjarta. Það hafði villst inn á ranga braut en nú sárbændi
það Jehóva um að leiða sig inn á rétta braut til að öðlast velþóknun hans á ný.„[Ég] iðraðist . . . sneyptur og fullur blygðunar.“ (Vers 19) Fólkið sá innilega eftir því að hafa syndgað. Það viðurkenndi sekt sína og skammaðist sín. Ísraelsmönnum leið virkilega illa. Þeim fannst þeir einskis virði og létu tilfinningar sínar í ljós með því að berja sér á brjóst. – Lúkas 15:18, 19, 21.
Ísraelsmenn fundu til iðrunar. Þeir voru fullir eftirsjár, játuðu syndir sínar fyrir Guði og sneru frá villu síns vegar. Myndi iðrun þeirra hafa einhver áhrif á tilfinningar Guðs? Myndi hann leyfa þeim að koma heim?
„Ég . . . hlýt að sýna honum miskunn“
Sambandið milli Jehóva og Ísraelsmanna var sérstakt. Hann sagði: „Ég er faðir Ísraels og Efraím er frumburður minn.“ (Jeremía 31:9) Hvernig gæti ástríkur faðir neitað að taka á móti syni sínum sem iðrast í einlægni? Taktu eftir hvernig Jehóva tjáir Ísraelsmönnum föðurlega ást sína.
„Er Efraím mér svo kær sonur eða slíkt eftirlætisbarn? Í hvert skipti sem ég ávíta hann hlýt ég að minnast hans.“ (Vers 20) Það felst ákveðin hlýja í þessum orðum. Eins og faðir sem er ákveðinn en ástríkur neyddist Guð til að „ávíta“ börn sín. Hann varaði þau aftur og aftur við rangri breytni þeirra. Þegar þau þrjóskuðust við og neituðu að hlusta sendi hann þau í útlegð. Hann svo að segja rak þau að heiman. En þótt hann þyrfti að refsa þeim, gleymdi hann þeim samt ekki. Hann gæti aldrei gert það. Ástríkur faðir gleymir ekki börnum sínum. En hvaða tilfinningar vakti það hjá Jehóva þegar hann sá einlæga iðrun barna sinna?
„Þess vegna hef ég meðaumkun með honum, hlýt að sýna honum miskunn.“ (Vers 20) Jehóva bar sterkar tilfinningar til barna sinna. Einlæg iðrun þeirra hreyfði við honum og hann þráði heitt að þau myndu snúa aftur til sín. Jehóva „kenndi í brjósti um“ börnin sín og fagnaði heimkomu þeirra innilega, líkt og faðirinn í dæmisögu Jesú um glataða soninn. – Lúkas 15:20.
„Jehóva leyfði mér að koma heim“
Það sem stendur í Jeremía 31:18-20 gefur okkur góða mynd af því hversu miskunnsamur og umhyggjusamur Jehóva er. Hann gleymir ekki þeim sem voru eitt sinn þjónar hans. En hvað nú ef þá langar til að snúa aftur til hans? Guð er „fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 86:5) Hann vísar aldrei burt þeim sem leita til hans fullir iðrunar. (Sálmur 51:19) Hann gleðst yfir heimkomu þeirra og tekur vel á móti þeim. – Lúkas 15:22-24.
Konan sem minnst var á í byrjun greinarinnar ákvað að snúa aftur til Jehóva og fór á samkomu hjá Vottum Jehóva. Til að byrja með þurfti hún að sigrast á tilfinningum sínum. „Mér fannst ég ekki vera verðug þess að þjóna Jehóva,“ segir hún. En öldungar safnaðarins uppörvuðu hana og hjálpuðu henni að byggja upp trú sína. Hún lítur um öxl og segir: „Ég er svo þakklát fyrir að Jehóva leyfði mér að koma heim.“
Varstu eitt sinn þjónn Jehóva? Langar þig til að þjóna honum aftur? Þá hvetjum við þig til að fara á samkomu hjá Vottum Jehóva. Mundu að Jehóva þráir að sýna miskunn og hlýju þeim sem iðrast og sárbæna hann: „Lát mig snúa heim.“
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Árið 997 f.Kr. var Ísraelsþjóðinni skipt í tvö ríki. Annað var tveggjaættkvíslaríkið Júda í suðri, hitt var tíuættkvíslaríkið Ísrael í norðri, einnig nefnt Efraím eftir helstu ættkvíslinni.