Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lífshættir fólks á biblíutímanum — peningar

Lífshættir fólks á biblíutímanum — peningar

Lífshættir fólks á biblíutímanum — peningar

„Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.“ — MARKÚS 12:41, 42.

Í BIBLÍUNNI er oft talað um peninga. Í guðspjöllunum segir til dæmis frá að Jesús hafi notað tvenns konar mynt til að kenna mikilvægar meginreglur. Í frásögunni af framlagi ekkjunnar hér að ofan talaði hann um „tvo smápeninga“ og benti á hvaða lærdóm mætti draga af því. Við annað tækifæri notaði hann mynt sem kallaðist denar til að sýna fram á hvernig ætti að líta á stjórnvöld. * — Matteus 22:17-21.

Af hverju voru peningar fundnir upp? Hvernig voru þeir búnir til á biblíutímanum? Hvernig voru þeir notaðir? Og hvað má læra af frásögum Biblíunnar um rétt viðhorf til peninga?

Frá vöruskiptum til eðalmálma

Áður en peningar komu til sögunnar stundaði fólk vöruskipti. Það skiptist á vörum og þjónustu sem höfðu svipað verðmæti. En vöruskiptaverslun hafði sína ókosti. Hún virkaði því aðeins að báðir aðilar hefðu not fyrir vörurnar sem hinn hafði upp á að bjóða. Auk þess þurftu kaupmenn að flytja með sér fyrirferðarmikinn varning eins og kornsekki eða búpening.

Kaupmenn gerðu sér að lokum grein fyrir því að finna þyrfti hentugra kerfi til að kaupa og selja vörur, og var þá byrjað að nota eðalmálma eins og gull, silfur og eir sem gjaldmiðil. Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig kaupmaður notar dýrmæta málma, svo sem skartgripi og málmstengur, til að versla með vörur eða þjónustu. Þessir málmar voru vandlega vigtaðir áður en vörurnar voru afhentar. Þess má geta að þegar Abraham keypti grafreit fyrir Söru, eiginkonu sína, vó hann tiltekið magn af silfri sem greiðslu. — 1. Mósebók 23:14-16, Biblían 1981.

Um það leyti sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni lögmálið var algengt að gráðugir kaupmenn notuðu bæði svikna vog og lóð til að svindla á viðskiptavinum sínum. Jehóva Guð hefur andstyggð á óheiðarleika og því sagði hann kaupmönnum í Ísrael: „Þið skuluð nota rétta vigt, rétta vigtarsteina.“ (3. Mósebók 19:36; Orðskviðirnir 11:1) Þeir sem selja vörur nú á tímum ættu að hafa í huga að Jehóva hefur enn sömu skoðun á græðgi og óheiðarleika. — Malakí 3:6; 1. Korintubréf 6:9, 10.

Myntslátta forðum daga

Fyrsta myntin var líklega slegin í Lýdíu (þar sem nú er Tyrkland) á 8. öld f.Kr. Málmsmiðir í ýmsum löndum voru fljótlega farnir að fjöldaframleiða mynt og íbúar þeirra landa, sem minnst er á í Biblíunni, tóku hana í notkun.

Hvernig var mynt slegin? Málmsmiðurinn bræddi málm í bræðsluofni (1) og hellti honum í steypumót til að steypa sléttar málmskífur (2). Hann lagði síðan málmskífurnar milli tveggja myntsláttustimpla sem í voru skorin tákn eða myndir (3). Því næst var slegið með hamri á efri stimpilinn og þannig tók málmskífan á sig myndirnar á stimplunum (4). Málmsmiðirnir áttu það til að vinna svo hratt að myndin, sem slegin var á myntina, var ekki í miðju. Að lokum var myntin flokkuð og vigtuð til að ganga úr skugga um að hún væri af réttri þyngd og klippt af henni ef þörf krafði (5).

Víxlarar, tollheimtumenn og bankamenn

Á fyrstu öldinni barst mynt frá ýmsum löndum til Palestínu. Fólk kom víða að til musterisins í Jerúsalem og hafði þá erlenda mynt meðferðis. Þeir sem höfðu umsjón með musterinu tóku hins vegar ekki við musterisgjaldinu nema það væri greitt í ákveðinni mynt. Víxlarar stunduðu iðju sína í helgidóminum og tóku oft óheyrilega hátt gjald fyrir að skipta erlendri mynt í þá sem var gjaldgeng þar. Jesús fordæmdi þessa ágjörnu menn vegna þess að þeir gerðu hús Jehóva að „sölubúð“ og „ræningjabæli“. — Jóhannes 2:13-16; Matteus 21:12, 13.

Íbúar Palestínu þurftu einnig að greiða skatta af ýmsu tagi til veraldlegra yfirvalda. Andstæðingar Jesú spurðu hann einu sinni hvort bæri að „gjalda keisaranum skatt“. (Matteus 22:17) Einnig þurfti að greiða veggjöld, toll af innfluttum vörum sem og vörum sem fluttar voru úr landi. Í Palestínu voru tollheimtumenn yfirvalda almennt taldir óheiðarlegir og fólk fyrirleit þá. (Markús 2:16) Tollheimtumennirnir sköruðu eld að sinni köku með því að ofreikna skatta og halda mismuninum. En sumir tollheimtumenn, eins og Sakkeus, tóku við boðskap Jesú og sneru baki við óheiðarlegum vinnubrögðum. (Lúkas 19:1-10) Þeir sem vilja fylgja Kristi nú á tímum þurfa líka að vera heiðarlegir í einu og öllu, þar á meðal í viðskiptum. — Hebreabréfið 13:18.

Bankamenn voru önnur starfsstétt sem fékkst við peninga. Auk þess að skipta erlendri mynt í innlenda lánuðu þeir fólki peninga og greiddu arð þeim sem fjárfestu í bankanum eða lögðu þar inn sparifé sitt. Jesús átti við þessa starfsstétt þegar hann sagði dæmisöguna um þjónana sem treyst var fyrir misháum upphæðum til að ávaxta. — Matteus 25:26, 27.

Rétt viðhorf til peninga

Í allflestum löndum nú á tímum þarf fólk að afla tekna til að kaupa nauðsynjar. Það eru orð að sönnu að „silfrið veitir forsælu“ eins og Guð innblés Salómon konungi að færa í letur endur fyrir löngu. En Salómon fullyrti líka að viska væri verðmætari en peningar því að hún „heldur lífinu í þeim sem hana á“. (Prédikarinn 7:12) Slíka visku er að finna í Biblíunni.

Jesús benti fylgjendum sínum á hvernig þeir ættu að líta á peninga þegar hann sagði: „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Við sýnum visku, líkt og lærisveinar Jesú á fyrstu öld, þegar við förum skynsamlega og heiðarlega með peninga og vörumst alla ágirnd. — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

[Neðanmáls]

[Rammi/​myndir á bls. 26]

 Nokkrar myntir á fyrstu öld

● Ein smæsta myntin, sem var í umferð í Palestínu á fyrstu öldinni, var eirmynt, svokallaður lepton. Verkamaður vann sér inn tvo leptona á stundarfjórðungi. Líklega voru smápeningarnir, sem ekkjan lét í fjárhirslu musterisins, tveir leptonar. — Markús 12:42.

Drakma var grísk silfurmynt sem jafngilti næstum heilum daglaunum. (Lúkas 15:8, 9) Allir karlmenn í Ísrael þurftu að greiða tvær drökmur í musterisgjald á hverju ári. — Matteus 17:24.

Denar var rómversk silfurmynt og á henni var mynd af keisaranum. Hún var því tilvalin til að greiða þann „toll“ sem krafist var af fullvaxta karlmönnum í Ísrael meðan rómverska heimsveldið réð þar ríkjum. (Rómverjabréfið 13:7, Biblían 1981) Atvinnurekandi greiddi verkamanni einn denar fyrir 12 stunda vinnudag. — Matteus 20:2-14.

Sikill úr hreinu silfri, sleginn í borginni Týrus, var í umferð í Palestínu á dögum Jesú. Æðstu prestarnir greiddu Júdasi Ískaríot þrjátíu silfurpeninga fyrir að svíkja Jesú. Vel má vera að það hafi verið siklar frá Týrus. — Matteus 26:14-16.

Myntir sýndar í réttri stærð.