Dó Jesús á krossi?
Dó Jesús á krossi?
Í ÍSLENSKRI orðabók er krossinn sagður vera „tákn kristinnar trúar“. Mörg málverk og önnur listaverk sýna Jesú negldan á kross. Af hverju er þetta tákn svona útbreitt í kristna heiminum? Dó Jesús virkilega á krossi?
Margir benda eflaust á að finna megi svarið í Biblíunni. Í íslensku biblíunni frá 2007 segir frá því að þegar Jesús var tekinn af lífi hafi áhorfendur gert gys að honum og skorað á hann: „Stíg niður af krossinum.“ (Matteus 27:40, 42) Margar aðrar biblíuþýðingar taka í sama streng. Í biblíunni frá 1859 er sagt um Símon frá Kýrene: „Þenna mann neyddu þeir til að bera kross hans.“ (Markús 15:21) Í þessum versum er það gríska orðið staurosʹ sem er þýtt „kross“. Er sú þýðing nákvæm og rökrétt? Hver er merking þessa gríska orðs?
Var það kross?
Grískufræðingurinn W. E. Vine segir að staurosʹ tákni „fyrst og fremst uppréttan stólpa eða staur. Afbrotamenn voru líflátnir með því að negla þá á slíkan staur. Bæði nafnorðið og sögnin stauroō, að festa á staur eða stólpa, voru upphaflega frábrugðin hinum kirkjulega krossi úr tveim bjálkum.“
Biblíuorðabókin The Imperial Bible-Dictionary segir að orðið staurosʹ „merkti réttilega staur, uppréttur stólpi eða rimill sem hengja mátti ýmislegt á eða sem stinga mátti niður í jörðina“. Í orðabókinni stendur enn fremur: „Jafnvel hjá Rómverjum virðist orðið crux (latneska orðið sem kross er dregið af) hafa í upphafi verið notað um uppréttan stólpa.“ Því kemur ekki á óvart að alfræðibókin The Catholic Encyclopedia skuli segja: „Það er samt sem áður fullljóst að krossinn var í upphafi einungis lóðréttur staur sem var yddaður í efri endann.“
Biblíuritararnir notuðu annað grískt orð, xylon, til að lýsa aftökutækinu sem Jesús dó á. Í uppflettiritinu A Critical Lexicon and Concordance to the English and Greek New Testament er orðið xylon sagt vera „viðarbútur, tréstaur“. Þar stendur einnig að líkt og staurosʹ hafi xylon „einfaldlega verið uppréttur stólpi eða staur sem Rómverjar negldu menn á og var þá sagt að þeir væru krossfestir“.
Í samræmi við þetta stendur í Postulasögunni 5:30: „Guð forfeðra vorra hefur upp vakið Jesú sem þið hengduð á tré [xylon] og tókuð af lífi.“ Í öðrum biblíuþýðingum er xylon líka þýtt „tré“ enda þótt staurosʹ sé þýtt „kross“. Í íslensku biblíunni frá 1908 segir um Jesú: „Er þeir höfðu látið fram koma alt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af trénu [xylon] og lögðu í gröf.“ — Postulasagan 13:29.
Í uppflettiritinu Critical Lexicon and Concordance, sem vitnað var í hér á undan, segir um grunnmerkingu grísku orðanna staurosʹ og xylon: „Hvorugt orðið samræmist nútímahugmyndinni um kross eins og við höfum vanist að sjá á myndum.“ Það sem guðspjallaritararnir lýstu með orðinu staurosʹ var með öðrum orðum ekkert líkt því sem fólk nú á dögum kallar kross. Því er viðeigandi að í New World Translation of the Holy Scriptures skuli standa „kvalastaur“ í Matteusi 27:40-42 og víðar þar sem orðið staurosʹ kemur fyrir. Biblíuþýðingin Complete Jewish Bible notar svipað orð, „aftökustaur“.
Uppruni krossins
Kirkjudeildir, sem halda því fram að þær hafi kenningar Biblíunnar að leiðarljósi, skreyta byggingar sínar með krossinum og hampa honum sem trúartákni. Þetta á við um allar kirkjudeildir kaþólskra, mótmælenda og rétttrúnaðarmanna. En hvernig stendur á því fyrst Biblían segir ekki að Jesús hafi verið líflátinn á krossi? Hvernig varð krossinn að svona vinsælu tákni?
Því er til að svara að kirkjurækið fólk, sem telur sig fylgja Biblíunni, er ekki eitt um að bera lotningu fyrir krossinum. Krossinn var einnig í miklum metum meðal fólks sem þekkti ekkert til Biblíunnar, og það var löngu áður en hinar kristnu kirkjur komu til sögunnar. Mörg trúarleg heimildarrit benda á að krossar af ýmsum stærðum og gerðum hafi verið heiðraðir löngu fyrir daga Krists. Í fornegypsku myndletri og í lýsingum á guðum þeirra og gyðjum má oft sjá T-laga kross og er efsti hluti hans hringur. Hann er kallaður ankh-krossinn, það er að segja kross með lykkju, og er talinn lífstákn. Smám saman var þessi gerð krossins tekin upp í koptísku kirkjunni og víðar og var í hávegum höfð.
Samkvæmt alfræðibókinni The Catholic Encyclopedia „virðist frumgerð krossins hafa verið svokallaður ,gammakross‘ (crux gammata) sem austurlandafræðingar og sérfræðingar í forsögulegri fornleifafræði þekkja betur undir nafninu svastika en það er heiti hans á sanskrít.“ Þetta tákn, oftast kallað hakakross, var útbreitt meðal hindúa á Indlandi og búddista í allri Asíu og enn má sjá það í ýmsum skreytingum á þessum svæðum.
Ekki er vitað með vissu hvenær krossinn var tekinn upp sem „kristið“ tákn. Í Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine segir: „Um miðbik þriðju aldar e.Kr. höfðu kirkjurnar annaðhvort vikið frá vissum kenningum kristinnar trúar eða afbakað þær. Til að auka álit þessa trúvillta kirkjulega kerfis var heiðingjum veitt innganga þótt ekki hefðu þeir tekið kristna trú, og þeim var að mestu frjálst að halda heiðnum merkjum og táknum,“ þar með talið krossinum.
Sumir höfundar nefna atburð sem á að hafa gerst árið 312. Konstantínus, sem tilbað sólina, var þá í einni af herferðum sínum og kvaðst hafa séð í sýn krossmark á sólinni ásamt orðum á latínu: „In hoc signo vinces“ (sigra undir þessu merki). Seinna voru gunnfánar, skildir og vopn hersins skreytt með „kristnu“ merki. (Sjá mynd til vinstri.) Konstantínus er sagður hafa snúist til kristinnar trúar, þótt ekki hafi hann tekið skírn fyrr en á dánarbeðinu, 25 árum síðar. Sumir drógu í efa að einlæg trú byggi þar að baki. Í bókinni The Non-Christian Cross segir: „Hann virtist frekar vera að snúa kristninni svo að hún tæki á sig það form sem hann taldi líklegast að þegnarnir gætu viðurkennt sem kaþólska [almenna] trú, en að hafa sjálfur snúist til fylgis við kenningar Jesú frá Nasaret.“
Þaðan í frá hafa krossar af ýmsum stærðum og gerðum komið til sögunnar. Til dæmis segir í bókinni The Illustrated Bible Dictionary að það sem kallað er antoníusarkross „hafi verið T-laga og telja sumir það merki komið frá bókstafnum tá sem var tákn [babýlonska] guðsins Tammúsar“. Þá má einnig nefna X-laga andrésarkrossinn og hinn kunnuglega kross með lækkuðum þverbjálka. Sá er kallaður latneski krossinn og er ranglega „talinn vera sú gerð krossins sem Drottinn okkar dó á“.
Hverju trúðu kristnir menn á fyrstu öld?
Sagt er frá því í Biblíunni að margir á fyrstu öld, sem heyrðu Jesú tala, hafi tekið trú og þegið lausnina sem veittist þegar hann fórnaði lífi sínu. Eftir að Páll postuli hafði prédikað fyrir Gyðingum í Korintu að Jesús væri Kristur segir frásagan: „Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans og margir Korintumenn, sem heyrðu Pál tala, tóku trú og létu skírast.“ (Postulasagan 18:5-8) Páll kynnti ekki fyrir trúsystkinum sínum einhver trúarleg tákn eða líkneski heldur sagði við þau: „Flýið skurðgoðadýrkunina.“ Þau áttu að forðast hvaðeina sem átti rætur sínar að rekja til heiðinnar guðsdýrkunar. — 1. Korintubréf 10:14, Biblían 1981.
Sagnfræðingar og fræðimenn hafa ekki fundið neitt sem rennir stoðum undir það að krossinn hafi verið í heiðri hafður meðal frumkristinna manna. Athygli vekur að í bókinni History of the Cross er vitnað í rithöfund sem spurði síðla á 17. öld: „Getur það verið þóknanlegt hinum dýrlega Jesú að sjá lærisveina sína vegsama eftirmynd af aftökutækinu sem hann [að sögn] þjáðist á, saklaus, með þolinmæði og mat smán einskis?“ Hvernig myndir þú svara því?
Það þarf engin tákn eða líkneski til að tilbiðja Guð svo að honum vel líki. „Hvernig getur musteri Guðs þolað skurðgoð?“ spurði Páll. (2. Korintubréf 6:14-16) Hvergi er ýjað að því í Biblíunni að kristin trú feli í sér að heiðra eftirmynd af aftökutækinu sem Jesús var negldur á. — Samanber Matteus 15:3; Markús 7:13.
En hvað einkennir þá sannkristna menn? Ekki er það krossinn eða eitthvert annað tákn heldur kærleikur. Jesús sagði við fylgjendur sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:34, 35.
[Innskot á bls. 29]
Það sem guðspjallaritararnir lýstu var ekkert líkt því sem fólk nú á dögum kallar kross.
[Mynd á bls. 28]
Teikning frá 17. öld af aftöku á staurosʹ, úr bókinni „De Cruce“ eftir Lipsius.
[Mynd á bls. 29]
Ankh-krossinn, lífstáknið, á egypskri veggmynd (um 14. öld f.Kr.).
[Rétthafi myndar]
© DeA Picture Library / Art Resource, NY
[Mynd á bls. 29]
Gammakrossinn á Laxmi Narayan-Musteri Hindúa.
[Rétthafi myndar á bls. 30]
Úr bókinni The Cross in Tradition, History, and Art (1897).