Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mun jörðin farast?

Mun jörðin farast?

Mun jörðin farast?

„HEIMSENDIR er sívinsælt viðfangsefni, að minnsta kosti í kvikmyndum.“ Þetta staðhæfði greinarhöfundurinn John Scalzi. Hvers vegna eru áhorfendur svona heillaðir af kvikmyndum um endi veraldar? „Vegna þess að það er eitthvað sem við óttumst innst inni,“ ályktaði Scalzi. Ert þú sammála? Höfum við gilda ástæðu til að óttast hvernig og hvenær jörðin muni farast — og þar með allt líf á henni?

Næstum daglega heyrum við um náttúruhamfarir sem valda ómældu tjóni einhvers staðar í heiminum. Skelfilegar myndir af slíkri eyðingu eru sýndar aftur og aftur í sjónvarpinu og á Netinu. Þegar á okkur dynja myndir af raunverulegu fólki og stöðum, sem verða fyrir slíkum hamförum, er auðvelt að líta á heimsendi sem raunverulega ógn og ekki bara viðfangsefni kvikmynda.

Vísindamenn setja fram ýmsar kenningar um það hvernig jörðin muni farast og það kyndir undir slíkan ótta. Sumir spá jafnvel fyrir um það sem kalla mætti „endalokadagsetningu“. Í mars 2008 var sagt frá því í vísindatímaritinu Monthly Notices of the Royal Astronomical Society að nokkrir stjörnufræðingar spái því að eftir um það bil 7,59 milljarða ára muni sólin gleypa og gereyða jörðina.

Mun jörðin einhvern tíma líða undir lok?

Hefur jörðin einhverja „endalokadagsetningu“?

Innblásið orð Guðs fullvissar okkur: „Ein kynslóð fer, önnur kemur en jörðin stendur að eilífu.“ (Prédikarinn 1:4) Jehóva Guð ,grundvallaði jörðina á undirstöðum hennar‘ og skapaði hana þannig að „hún haggast eigi um aldur og ævi“. (Sálmur 104:5) Hljómar þetta of vel til að geta verið satt? Höfum við ástæðu til að ætla að jörðin muni ekki farast þegar sumir vísindamenn halda öðru fram?

Sjáðu fyrir þér vörur sem standa í búðarhillum. Sumar þeirra eru merktar: „Síðasti söludagur.“ Hver ákvað þá dagsetningu? Var hún ákveðin eftir vel ígrundaða ágiskun verslunarstjórans? Auðvitað ekki. Framleiðandinn tók ákvörðun um þá dagsetningu. Við treystum því að hann hafi rétt fyrir sér vegna þess að hann þekkir vörur sínar betur en nokkur annar. Ættum við ekki að bera enn meira traust til skapara jarðarinnar? Orð hans segir að hann hafi „grundvallað jörðina“ til að vara að eilífu. Jörðin hefur því enga endalokadagsetningu! — Sálmur 119:90.

En er hugsanlegt að ábyrgðarlaust mannkyn geti unnið jörðinni varanlegt tjón? Engan veginn! Ólíkt mennskum framleiðendum er Jehóva ekkert um megn, hann „getur allt“. (Jobsbók 42:2) Þess vegna getur hann lofað: „Orð mitt sem kemur af munni mínum . . . framkvæmir það sem ég fel því.“ (Jesaja 55:11) Við getum verið viss um að skapari okkar lætur ekkert stöðva sig í því að láta fyrirætlun sína með jörðina ná fram að ganga. (Sálmur 95:6) Hver er sú fyrirætlun og hvernig mun Guð framfylgja henni?

Ríki Guðs mun framfylgja fyrirætlun hans

Auk þess að lofa að jörðin muni ekki farast segir Biblían okkur einnig að Guð ,hafi gert hana byggilega‘. (Jesaja 45:18) Jafnvel þótt jörðin hafi verið byggð mönnum í þúsundir ára er það í sjálfu sér ekki uppfylling á loforði Guðs.

Jehóva er ,hinn sæli Guð‘ og „hefur mætur á réttlæti“. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Sálmur 37:28) Hann vill að allir menn geti lifað hamingjuríku lífi, lausir undan óréttlæti. Til þess að uppfylla fyrirætlun sína sagði Guð fyrir að hann myndi setja á fót himneskt ríki sem myndi stjórna yfir allri jörðinni. (Daníel 2:44) Þegar Jesús var á jörðinni talaði hann oft um ríkisstjórn Guðs á himnum. Hann hvatti lærisveina sína til að biðja um að hún kæmi vegna þess að hann vissi hvaða blessanir væru í boði fyrir jörðina undir stjórn þessa ríkis. (Matteus 6:9, 10; 24:14) Lítum á nokkrar af þessum blessunum.

Friður og öryggi mun ríkja vegna þess að Guð hefur lofað að stöðva öll stríð. — Sálmur 46:10.

Það verður nægur matur handa öllum. — Sálmur 72:16.

Heilsugæsla verður óþörf vegna þess að „enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘“ — Jesaja 33:24.

Enginn mun syrgja vegna þess að „dauðinn mun ekki framar til vera“. — Opinberunarbókin 21:4.

Guð lofar að fólk sitt muni byggja sér hús, lifa við öryggi og ,fagna ævinlega‘. — Jesaja 65:17-24.

Þig langar án efa til að njóta þeirra aðstæðna sem nefndar hafa verið hér að ofan. Jehóva þráir ákaflega að framkvæma það sem hann hefur lofað. (Jesaja 9:5, 6) En þú hugsar kannski sem svo: ,Nú eru liðin mörg þúsund ár síðan loforð Guðs voru skráð í Biblíuna. Hvers vegna hafa þau ekki enn ræst?‘

Langlyndi Guðs leiðir til hjálpræðis okkar

Þú getur treyst því að Jehóva Guð sé ekki „seinn á sér með fyrirheitið“. Í Biblíunni er útskýrt að Guð hafi sýnt okkur langlyndi vegna kærleika síns. Af þeim sökum erum við hvött til að,álíta langlyndi Drottins vors vera hjálpræðisleið‘. (2. Pétursbréf 3:9, 15) En hvers vegna er langlyndi Guðs nauðsynlegt fyrir hjálpræði okkar?

Í fyrsta lagi veit Guð að áður en hann getur séð réttlátu mannkyni fyrir öruggum og hagsælum heimkynnum verður hann að „eyða þeim sem jörðina eyða“. (Opinberunarbókin 11:18) En vegna þess að hann elskar mennina ,vill hann ekki að neinn glatist‘. Þar af leiðandi hefur himneskur faðir okkar af þolinmæði reynt að ,vara hinn guðlausa við guðlausri breytni hans‘. Allt til enda mun Jehóva sjá til þess að fagnaðarerindið um ríkið verði boðað út um allan heim. * (Esekíel 3:17, 18) Allir þeir sem hlýða aðvörun Guðs og samræma líf sitt réttlátum meginreglum hans munu hljóta hjálpræði og lifa að eilífu í paradís á jörð.

Snúið ykkur til Guðs og látið frelsast

Biblían hefur vissulega að geyma ,fagnaðarerindi‘ fyrir okkur. (Matteus 24:14) Þar er að finna óbrigðult loforð Guðs um að jörðin muni aldrei farast. Þar að auki getum við treyst spádómi hennar sem segir: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna.“ Innan skamms munu aðeins þeir sem eru hógværir í augum Guðs „fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi“. (Sálmur 37:9-11, 29; Matteus 5:5; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þar til sá tími kemur mun Guð í langlyndi sínu halda áfram að kalla: „Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar“. (Jesaja 45:22, Biblían 1981) Hvað ætlar þú að gera?

Hvers vegna ekki að setja sér það markmið að snúa sér til Guðs? Sálmur 37:34 hvetur okkur: „Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, hann mun hefja þig upp, að þú erfir landið.“ Vottar Jehóva munu með ánægju aðstoða þig við að læra meira um eilífa fyrirætlun Guðs með jörðina og hvernig þú getur séð öll loforð hans verða að veruleika.

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Yfir sjö milljónir votta Jehóva í 236 löndum hlýða fyrirmælum Jesú í Matteusi 28:19, 20 og verja um það bil einum og hálfum milljarði klukkustunda á ári til að segja fólki hver sé tilgangur Guðs með jörðina.

[Rétthafi myndar á bls. 20]

Ljósmynd: NASA