Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ranghugmynd eða staðreynd? — sannleikurinn um Jesú

Ranghugmynd eða staðreynd? — sannleikurinn um Jesú

Ranghugmynd eða staðreynd? — sannleikurinn um Jesú

HVAÐ HELDUR ÞÚ? ERU EFTIRFARANDI STAÐHÆFINGAR RÉTTAR EÐA RANGAR?

Jesús fæddist 25. desember.

Þrír vitringar heimsóttu Jesú nýfæddan.

Jesús var einbirni.

Jesús var Guð holdi klæddur.

Jesús var meira en bara góður maður.

MARGIR myndu segja að allar staðhæfingarnar séu réttar. Aðrir segja ef til vill að það sé erfitt, jafnvel ómögulegt að vera viss. Kannski finnst þeim að svo framarlega sem maður trúi á Jesú skipti svörin engu máli.

En Biblían er á öðru máli. Þar erum við hvött til að verða okkur úti um nákvæma þekkingu „á Drottni vorum Jesú Kristi“. (2. Pétursbréf 1:8) Við öðlumst þessa þekkingu með því að skoða guðspjöllin. Þau leiða í ljós sannleikann um Jesú og gera okkur þannig kleift að greina á milli ranghugmynda og staðreynda. Við skulum því skoða hvað segir í guðspjöllunum um staðhæfingarnar hér á undan.

TRÚARHUGMYND: Jesús fæddist 25. desember.

ÞETTA ER RANGT.

Það eru engar beinar upplýsingar í Biblíunni um fæðingarmánuð eða fæðingardag Jesú. Hvaðan kemur þá dagsetningin 25. desember? Í alfræðiorðabókinni The Encyclopædia Britannica segir að sumir sem kölluðu sig kristna hafi „viljað að dagsetninguna bæri upp á heiðna rómverskra hátíð sem var haldin í tilefni af . . . vetrarsólstöðum. Þá fer daginn að lengja með hækkandi sól“. Í sömu heimild er bent á að margar siðvenjur tengdar jólum sé hægt að rekja til „helgisiða sem voru haldnir um miðjan vetur og tengdust sóldýrkun og jarðyrkju“.

Hefði Jesús viljað að haldið væri upp á fæðingu hans 25. desember? Höfum hugfast að það er ekki vitað hvenær Jesús fæddist. Hvergi í Biblíunni er okkur sagt að halda upp á fæðingu hans og ekkert bendir til þess að frumkristnir menn hafi gert það. Á hinn bóginn kemur skýrt fram í Biblíunni hvenær Jesús dó og hann sagði fylgjendum sínum að minnast þess dags. * (Lúkas 22:19) Jesús vildi greinilega að lögð væri áhersla á mikilvægi fórnardauða síns en ekki á fæðingardag sinn. — Matteus 20:28.

TRÚARHUGMYND: Þrír vitringar (eða konungar í sumum trúarhefðum) heimsóttu Jesú nýfæddan.

ÞETTA ER RANGT.

Þú hefur kannski séð málverk eða uppstillingu af Jesú nýfæddum í jötu og þrem vitringum hjá honum með gjafir. Þessi mynd er uppspuni og ekki byggð á staðreyndum.

Það er satt að fulltrúar frá austri komu til að votta Jesú virðingu. Þessir gestir voru reyndar stjörnuspekingar. (Matteus 2:1) Komu þeir að Jesú í jötu? Nei, hann var í húsi þegar þeir heimsóttu hann. Þeir komu greinilega nokkrum mánuðum eftir að Jesús fæddist. — Matteus 2:9-11.

En hversu margir voru gestirnir? Voru þeir tveir, þrír eða þrjátíu? Í Biblíunni er ekkert sagt um það. Kannski er sú venja að þeir hafi verið þrír sprottin af því að þeir komu með þrenns konar gjafir. * (Matteus 2:11) Sumir hafa jafnvel haldið því fram að „vitringarnir þrír„ hafi verið fulltrúar fyrir mismunandi kynþætti mannkyns. En þá hugmynd er ekki að finna í Biblíunni. Hins vegar kemur fram í biblíuskýringariti að þessi hugmynd eigi sér uppruna hjá „sagnfræðingi sem var uppi á áttundu öld og hafði frjótt ímyndunarafl“.

TRÚARHUGMYND: Jesús var einbirni.

ÞETTA ER RANGT.

Jesús átti systkini. Það kemur greinilega fram í guðspjöllunum. Í Lúkasarguðspjalli er Jesús kallaður „frumgetinn“ sonur Maríu og þannig gefið til kynna að hún hafi síðar meir átt fleiri börn. * (Lúkas 2:7) Í Markúsarguðspjalli er greint frá því hvernig sumir af íbúum Nasaret hafi metið Jesú til jafns við systkini hans og ekki fundist hann neitt sérstakur. Þeir spurðu: „Er þetta ekki . . . bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá okkur?“ — Markús 6:3; Matteus 12:46; Jóhannes 7:5.

Margir guðfræðingar halda því fram að Jesús hafi verið einbirni þrátt fyrir það sem segir í guðspjöllunum. Sumir segja að bræður hans og systur hafi í raun verið frændsystkini hans. * Aðrir geta sér til um að systkini hans hafi verið stjúpbörn Maríu. En hugleiddu eftirfarandi: Ef Jesús hefði verið eina barn Maríu hefðu þá Nasaretbúar sagt það sem þeir sögðu? Það er fjarri lagi því að sumir þeirra hafa sennilega séð með eigin augum þegar María varð þunguð nokkrum sinnum. Þeir vissu að Jesús var eitt af mörgum börnum Maríu.

TRÚARHUGMYND: Jesús var Guð holdi klæddur.

ÞETTA ER RANGT.

Sú hugmynd að Guð hafi komið til jarðar sem maðurinn Jesús er ekki ný af nálinni en hún er megininntakið í þrenningarkenningunni. Þessi hugmynd var óþekkt á tímum Jesú. Í alfræðiorðabókinni The Encyclopædia Britannica segir: „Í Nýja testamentinu er hvorki að finna orðið þrenning né kenninguna sjálfa . . . Þessi kenning varð til á nokkurra alda tímabili eftir endurteknar deilur um hana.“

Trúarbrögð, sem kenna að Jesús hafi verið Guð holdi klæddur, lítillækka hann. * Hvernig þá? Hugleiddu eftirfarandi líkingu. Nokkrir starfsmenn koma með beiðni til yfirmanns síns en hann segir að hann hafi ekki vald til að verða við henni. Ef hann segir satt hefur hann sýnt að hann er meðvitaður um takmörk sín. En ef hann segir ósatt — ef hann getur raunverulega orðið við beiðninni en einfaldlega velur að gera það ekki — þá hefur hann blekkt starfsmennina.

Skoðum hvernig Jesús brást við þegar tveir af postulum hans vildu fá háa stöðu í ríki hans. Hann sagði við þá: „Ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur ákveðið.“ (Matteus 20:23) Ef Jesús hefði verið Guð, hefði hann þá ekki verið að ljúga? En með því að vísa á þann sem hafði meira vald gaf Jesús okkur fagurt fordæmi með hógværð sinni — og hann sýndi að hann var ekki jafn Guði.

TRÚARHUGMYND: Jesús var meira en bara góður maður.

ÞETTA ER RÉTT.

Jesús sagði berum orðum að hann væri meira en bara góður maður. Hann sagði: „Ég er sonur Guðs.“ (Jóhannes 10:36) Auðvitað getur hver sem er sagt að hann sé sonur Guðs. En ef Jesús sagði ósatt, hvað segði það okkur um hann? Þá var hann ekki góður maður heldur mikill svikahrappur.

Áreiðanlegasti vitnisburðurinn kom frá Guði sjálfum. Hann sagði tvisvar um Jesú: „Þessi er minn elskaði sonur.“ (Matteus 3:17; 17:5) Hugsaðu þér: Biblían segir aðeins frá fáeinum tilfellum þar sem rödd Guðs heyrðist á jörð. Þó staðfesti hann tvisvar að Jesús væri sonur sinn. Þetta er langbesta sönnunin fyrir því að Jesús hafi verið sá sem hann sagðist vera.

Hefur þessi grein vakið athygli þína á staðreyndum um Jesú sem þér var ekki kunnugt um? Ef svo er, hví ekki að skoða guðspjöllin betur? Það getur verið bæði ánægjulegt og gefandi. Sagði ekki Jesús að ,það væri hið eilífa líf að þekkja sig og föður hans‘? — Jóhannes 17:3.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Jesús dó á páskadegi eða 14. nísan samkvæmt dagatali Gyðinga. — Matteus 26:2.

^ gr. 18 Matteus greinir frá því að þessir útlendingar hafi ,lokið upp fjárhirslum sínum‘ og fært Jesú gull, reykelsi og myrru. Það er áhugavert að þessar dýru gjafir komu sennilega á hárréttum tíma. Fjölskylda Jesú var fátæk og neyddist til að leggja á flótta skömmu síðar. — Matteus 2:11-15.

^ gr. 21 Jesús var getinn fyrir kraftaverk en hin börn Maríu voru getinn á venjulegan hátt með Jósef, eiginmanni hennar. — Matteus 1:25.

^ gr. 22 Þessi hugmynd, sem Híerónýmus kom fram með árið 383, er vinsæl meðal þeirra sem trúa að María hafi verið hrein mey alla ævi. Híerónýmus lét síðar í ljós efasemdir um eigin kenningu en hún lifði samt í hugum margra. Þar á meðal varð hún að opinberri afstöðu kaþólsku kirkjunnar.

^ gr. 26 Ítarlega umfjöllun um þrenningarkenninguna er að finna í bæklingnum Ættum við að trúa á þrenninguna? sem Vottar Jehóva gefa út.

[Rammi/​mynd á bls. 14]

Annað sem gæti komið þér á óvart

Hvers konar maður var Jesús? Var hann svo strangur, kaldur og fjarlægur að hann gat ekki verið í tengslum við fólk almennt? Sumir myndu svara því játandi. Kannski er það ástæðan fyrir því að mörgum kemur á óvart að uppgötva að Jesús . . .

• fór í veislur. — Jóhannes 2:1-11.

• hrósaði öðrum. — Markús 14:6-9.

• naut þess að vera með börnum. — Markús 10:13, 14.

• grét að öðrum ásjáandi. — Jóhannes 11:35.

• fann til samúðar með öðrum. — Markús 1:40, 41.