,Konungdæmi þitt skal ævinlega standa‘
Nálægðu þig Guði
,Konungdæmi þitt skal ævinlega standa‘
Í ALDANNA rás hafa margir stjórnendur misst embætti sitt. Sumir hafa tapað fylgi en öðrum hefur þurft að víkja úr embætti. Hvað með Jesú Krist, konung himnaríkis? Getur eitthvað komið í veg fyrir að hann fari með völd sem útvalinn konungur Guðs? Svarið má finna í orðum Jehóva til Davíðs konungs í Forn-Ísrael en þau eru skráð í 7. kafla 2. Samúelsbókar.
Í byrjun kaflans kemur fram að Davíð þyki það miður að hann, ófullkominn konungur, skuli búa í glæsilegri höll á meðan örk Guðs sé geymd í tjaldi. * Davíð lætur í ljós að hann langi til að byggja musteri fyrir Jehóva. (Vers 2) En það verður ekki í verkahring Davíðs að byggja það. Fyrir milligöngu Natans spámanns segir Jehóva við Davíð að sonur hans muni reisa musterið. — Vers 4, 5, 12, 13.
Jehóva er snortinn af hollustu Davíðs og þessari sterku löngun hans. Hann ákveður því í samræmi við spádómana að gera sáttmála við Davíð og velja einhvern úr konungsætt hans til að ríkja að eilífu. Natan flytur Davíð þetta loforð Guðs: „Ætt þín og konungdæmi skulu ævinlega standa fyrir augliti mínu. Hásæti þitt skal að eilífu stöðugt standa.“ (Vers 16) Hver er eilífur erfingi þessa sáttmála, sá sem ríkja mun um aldur og ævi? — Sálmur 89:21, 30, 35-37.
Jesús frá Nasaret var afkomandi Davíðs. Þegar engill boðaði fæðingu Jesú sagði hann: „Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:32, 33) Sáttmálinn við Davíð rætist því á Jesú Kristi. Hann er ekki kosinn til valda af mönnum heldur gefur loforð Guðs honum réttinn til að ríkja að eilífu. Við skulum ekki gleyma að loforð Guðs rætast alltaf. — Jesaja 55:10, 11.
Við getum dregið tvenns konar lærdóm af 7. kafla í 2. Samúelsbók. Í fyrsta lagi getum við verið viss um að ekkert getur staðið í vegi fyrir því að Jesús fari með stjórnina. Við getum þar af leiðandi verið sannfærð um að vilji Guðs verði gerður um alla jörð eins og hann er gerður á himni, en það er yfirlýstur tilgangur með stjórn Guðs. — Matteus 6:9, 10.
Í öðru lagi gefur þessi frásaga okkur hlýlega mynd af Jehóva. Mundu að Jehóva sá hvað Davíð langaði innst inni til að gera og varð djúpt snortinn. Það er hughreystandi að vita að Jehóva kunni að meta hollustu okkar. Í sumum tilfellum geta óviðráðanlegar aðstæður, eins og heilsubrestur eða hár aldur, komið í veg fyrir að við getum gert allt sem við þráum að gera í þjónustunni við Guð. Ef sú er raunin hjá trúföstum þjónum Jehóva geta þeir leitað huggunar í þeirri staðreynd að Jehóva sér jafnvel það sem þeir þrá innst inni að gera í þjónustu hans.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Sáttmálsörkin var helg kista sem smíðuð var að fyrirmælum Jehóva og eftir leiðbeiningum hans. Hún táknaði nærveru hans í Forn-Ísrael. — 2. Mósebók 25:22.