Eru öll trúarbrögð góð?
VIÐ búum í heimi þar sem úir og grúir af ólíkum trúarbrögðum. Í nýlegri könnun kom fram að helstu trúarbrögð heimsins séu 19 talsins og að til séu um 10.000 smærri trúflokkar. Þessi mikla fjölbreytni trúarbragðanna veitir fólki fleiri valmöguleika en nokkru sinni fyrr. En skiptir einhverju máli hvaða trú maður velur að tilheyra?
Sumir segja að öll trúarbrögð séu bara mismunandi leiðir að sama marki. Þeim finnst það ekki skipta máli hvaða leið þeir velji því að þær liggi allar til sama staðarins. Þeir halda því fram að það sé aðeins til einn almáttugur Guð og að öll trúarbrögð hljóti á endanum að leiða til hans.
Liggja allar leiðir til Guðs?
Jesús Kristur er einn af virtustu trúarkennurum sögunnar. Hvað sagði hann um þetta mál? „Gangið inn um þrönga hliðið,“ sagði hann við lærisveina sína. Af hverju? „Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ − Matteus 7:13, 14.
Átti Jesús við að sum trúarbrögð leiði „til glötunar“? Eða átti hann við að aðeins
vantrúaðir séu á breiða veginum en þeir sem trúi á Guð − óháð trúarbrögðum − séu á mjóa veginum sem liggur til lífsins?Um leið og Jesús var búinn að nefna að til væru aðeins tveir vegir sagði hann: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.“ (Matteus 7:15) Seinna sagði hann: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ (Matteus 7:21) Ef einhver er kallaður spámaður eða segir að Jesús sé „herra“ hans verður að teljast líklegt að sá hinn sami sé trúaður en ekki vantrúaður. Það er því augljóst að Jesús var að benda á að ekki væru öll trúarbrögð góð og að ekki væri hægt að treysta öllum trúarkennurum.
Er hægt að finna mjóa veginn?
Fyrst það liggja ekki allar leiðir til Guðs hvernig er þá hægt að finna mjóa veginn, sem leiðir til lífs, innan um allan þennan fjölda trúarbragða? Lýsum þessu með dæmi: Ímyndaðu þér að þú hafir villst í stórborg. Þú ákveður að spyrja til vegar. Fyrst er þér bent á að fara í austurátt. Síðan segir einhver annar þér að fara í vestur. Sá þriðji segir þér að fara í þá átt sem þér finnst sjálfum best. Að lokum hittirðu einhvern sem dregur upp áreiðanlegt kort og sýnir þér réttu leiðina. Síðan lætur hann þig hafa kortið svo að þú getir litið á það á leiðinni. Værirðu þá ekki öruggari um að komast á leiðarenda?
Við þurfum sömuleiðis að hafa áreiðanlegt kort til að geta valið réttu trúarbrögðin og komist inn á mjóa veginn. Er slíkt kort til? Já, þetta kort er Biblían enda segir þar: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ − 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Þú hefur líklega aðgang að Biblíunni og þú getur notað hana sem vegakort í trúarlegum efnum. Vottar Jehóva, sem sjá um útgáfu þessa tímarits, hafa gefið út áreiðanlega biblíuþýðingu á fjölmörgum tungumálum og nefnist hún Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar. En hægt er að nota hvaða biblíuþýðingu sem er til að leggja mat á hvað sé góð trú og slæm. Í þessari greinaröð er vitnað í íslensku biblíuna frá árinu 2007 nema annað sé tekið fram.
Þegar þú lest greinarnar hér á eftir skaltu bera saman það sem þú þekkir af eigin raun og það sem Biblían segir. Hafðu í huga hvernig Jesús sagði að við gætum greint góða trú frá vondri. Hann sagði: „Gott tré [ber] góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.“ (Matteus 7:17, 18) Skoðum nánar þrjá af þeim góðu ávöxtum sem Biblían segir að myndi einkenna „gott tré“.