Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heimsókn í óvenjulega prentsmiðju

Heimsókn í óvenjulega prentsmiðju

Heimsókn í óvenjulega prentsmiðju

TÍMARITIÐ, sem þú ert að lesa, er líklega ekki fyrsta tölublaðið sem þú hefur séð. Vottar Jehóva hafa kannski heimsótt þig og boðið þér Varðturninn og Vaknið! til að hjálpa þér að skilja Biblíuna betur. Einnig kann að vera að þú hafir séð votta bjóða biblíulegt lesefni á götum úti eða í verslunarmiðstöðvum. Í hverjum mánuði er dreift um 37 milljónum eintaka af þessu tímariti. Það er því langútbreiddasta tímarit sinnar tegundar í heiminum.

Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvar og hvernig allt þetta lesefni er framleitt? Til að svara því skulum við taka eina af mörgum prentsmiðjum Votta Jehóva sem dæmi — prentsmiðjuna sem er í Wallkill í New York í Bandaríkjunum. Margir af lesendum okkar um heim allan eiga ekki auðvelt með að ferðast til að heimsækja prentsmiðjuna í Bandaríkjunum. En í þessari grein eru myndir af prentsmiðjunni sem þú getur skoðað ásamt lýsingu á henni.

Prentun hefst auðvitað með textanum. Textaskrárnar eru sendar á rafrænu formi frá ritdeildinni í Brooklyn í New York til grafísku deildarinnar. Skrárnar eru notaðar til þess að búa til prentplötur. Um 1400 rúllur af pappír eru fluttar til prentsmiðjunnar í Wallkill í hverjum mánuði og á hverjum degi eru notuð um 80 til 100 tonn af pappír. Sumar rúllurnar eru meira en 1300 kíló að þyngd. Þær eru settar í fimm stórar prentvélar sem búið er að koma prentplötunum fyrir í. Síðan er prentað, pappírinn skorinn og hann brotinn í 32 blaðsíðna arkir. Tímaritið, sem þú ert að lesa, er ein örk. Hvað um bækur? Í bókbandinu eru arkir bundnar saman í bækur. Önnur bókbandslínan getur framleitt 50.000 bækur á dag í hörðu bandi og 75.000 kiljur. Hin bókbandslínan getur framleitt um 100.000 kiljur á dag.

Á árinu 2008 voru prentaðar vel yfir 28 milljónir bóka og þar af voru meira en 2,6 milljónir af biblíum. Á sama ári voru prentuð 243.317.564 tímarit. Í prentsmiðjunni er geymt biblíulegt lesefni á um það bil 380 tungumálum. En hvað gerist eftir að lesefnið er tilbúið?

Prentsmiðjunni berast pantanir frá 12.754 söfnuðum Votta Jehóva í Bandaríkjunum og frá 1.369 söfnuðum í Karíbahafinu og á Hawaii. Pantanirnar eru afgreiddar á flutningadeildinni og séð til þess að pakkarnir séu sendir á rétt heimilisfang. Á hverju ári eru um 14 þúsund tonn af lesefni send til safnaðanna í Bandaríkjunum.

Mikilvægasti hluti prentsmiðjunnar er þó ekki vélarnar heldur starfsmennirnir. Meira en 300 manns vinna í mismunandi deildum prentsmiðjunnar — grafískri deild, skipulagsdeild, prentsal, bókbandi og flutningadeild. Starfsmennirnir eru allir ólaunaðir sjálfboðaliðar og eru á aldrinum 19 til 92 ára.

Þeir hafa mikinn áhuga á fólki — einstaklingum sem vilja gjarnan fá lesefnið vegna þess að það er hvetjandi og hjálpar þeim að læra meginreglur Biblíunnar og fara eftir þeim. Við vonum að þú sért einn af þeim og að efnið, sem er prentað í Wallkill eða öðrum af prentsmiðjum Votta Jehóva, hjálpi þér að kynnast Jehóva Guði og Jesú Kristi en það hefur eilíft líf í för með sér. — Jóhannes 17:3.

[Myndir á blaðsíðu 16]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 17]