Vissir þú?
Vissir þú?
Af hverju hófst hvíldardagur Gyðinga við sólsetur?
Þegar Jehóva gaf þjóð sinni lög um friðþægingardaginn sagði hann: „Þennan dag skuluð þið ekkert verk vinna . . . Þetta er algjör hvíldardagur fyrir ykkur . . . Þið skuluð halda algjöra hvíld frá kvöldi . . . til kvöldsins eftir.“ (3. Mósebók 23:28, 32) Þetta ákvæði endurspeglaði þá hugsun að dagurinn hófst á kvöldin, eftir sólsetur og lauk við næsta sólsetur. Gyðingar töldu því dagana frá kvöldi til kvöldsins eftir.
Þessi aðferð við að telja dagana var í samræmi við það sem Guð hafði sjálfur gert. Frásagan af fyrsta táknræna sköpunardeginum segir: „Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.“ „Dagarnir“ sem fylgdu í kjölfarið voru einnig taldir á sama hátt, þeir hófust að „kvöldi“. — 1. Mósebók 1:5, 8, 13, 19, 23, 31.
Gyðingarnir voru ekki þeir einu sem álitu að nýr dagur hæfist að kvöldi. Aþeningar, Númidíumenn og Fönikíumenn gerðu slíkt hið sama. Á hinn bóginn töldu Babýloníumenn að hver dagur hæfist við sólarupprás en Egyptar og Rómverjar miðuðu sína daga frá miðnætti til miðnættis eins og venjan er núna. Meðal gyðinga tíðkast þó enn þá að halda hvíldardaginn frá sólsetri til sólseturs.
Hvað var „hvíldardagsleið“?
Eftir að hafa horft á Jesú stíga upp til himna frá Olíufjallinu sneru lærisveinar hans aftur til Jerúsalem sem var „hvíldardagsleið þaðan“. (Postulasagan 1:12) Ferðalangur gat ef til vill gengið 30 kílómetra eða meira á einum degi. Olíufjallið er hins vegar nálægt Jerúsalem. Hvað er þá átt við með orðinu „hvíldardagsleið“?
Á hvíldardegi áttu Ísraelsmenn að hvílast frá venjulegum störfum. Þennan dag máttu þeir ekki einu sinni kveikja eld á heimilum sínum. (2. Mósebók 20:10; 35:2, 3) Jehóva gaf þeim þessi fyrirmæli: „Haldið kyrru fyrir, hver á sínum stað. Enginn má fara að heiman sjöunda daginn.“ (2. Mósebók 16:29) Þetta ákvæði gaf Ísraelsmönnum tækifæri til að hvílast frá venjulegum störfum og nota meiri tíma til að byggja upp trú sína.
Rabbínar, sem fylgdi lagabókstafnum í blindni, gerðu sig óánægða með meginreglurnar í lögmáli Jehóva. Þeir ákváðu því að bæta við eftir eigin geðþótta ítarlegri skilgreiningu á því hvaða vegalengd mætti ganga á hvíldardegi, til dæmis til að sækja tilbeiðslustaði. Bókin Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature segir um þetta: „Þessi ströngu lög um hvíldardaginn . . . leiddu til þess að sett var sú regla að á hvíldardegi mátti enginn Ísraelsmaður leggja upp í lengri göngu en því sem næmi ákveðinni vegalengd og var hún nefnd hvíldardagsleið.“ Ákveðið var að þessi vegalengd yrði 2000 álnir sem er einhvers staðar á bilinu 900 metrar til 1 kílómetri.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Horft yfir Jerúsalem frá Olíufjallinu.