ÚR SÖGUSAFNINU
„Jehóva leiddi ykkur til Frakklands til að kynnast sannleikanum“
ÞEGAR Antoine Skalecki var drengur vann hann í kolanámu hálfan kílómetra undir yfirborði jarðar. Lítill hestur var þar tryggur félagi hans og saman stauluðust þeir með kolin um illa upplýst námugöngin. Eftir að faðir Antoines slasaðist í námuslysi átti fjölskyldan ekki annarra kosta völ en að senda Antoine í námurnar þar sem hann stritaði níu tíma á dag. Eitt sinn komst Antoine naumlega lífs af þegar námugöng féllu saman.
Antoine var eitt af mörgum pólskum börnum sem fæddust í Frakklandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hvers vegna fluttust Pólverjar til Frakklands? Fólksfjölgun varð stórt vandamál í Póllandi eftir að það fékk sjálfstæði á ný í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar. Frakkar höfðu hins vegar misst rúmlega milljón menn í stríðinu og bráðvantaði kolanámumenn. Ríkisstjórnir landanna gerðu því samkomulag um fólksflutning milli ríkjanna í september árið 1919. Fjöldi Pólverja settist að á námusvæðunum í norðurhluta Frakklands og árið 1931 voru Pólverjar orðnir 507.800 í landinu.
Pólsku innflytjendurnir voru vinnusamir og þeir fluttu menningu sína með sér. Meðal annars voru þeir mjög trúhneigðir. „Joseph, afi minni, talaði af mikilli virðingu um Biblíuna en það hafði hann lært af föður sínum,“ segir Antoine sem nú er orðinn níræður. Á sunnudögum klæddust fjölskyldur námumannanna frá Póllandi sínu fínasta pússi og sóttu kirkju, rétt eins og þær höfðu gert í heimalandinu. Sumir Frakkanna voru veraldlega þenkjandi og litu niður á Pólverjana fyrir trúhneigð þeirra.
Margir Pólverjanna kynntust Biblíunemendunum fyrst í Nord-Pas-de-Calais þar sem fagnaðarerindið hafði verið boðað af kappi frá árinu 1904. Farið var að prenta Varðturninn mánaðarlega á pólsku árið 1915 og Gullöldin (nú Vaknið!) kom út á málinu árið 1925. Margar fjölskyldur tóku biblíulegu efni blaðanna fagnandi og hið sama er að segja um bókina Hörpu Guðs á pólsku.
Fjölskylda Antoines kynntist Biblíunemendunum hjá móðurbróður hans sem sótti fyrst
samkomu árið 1924. Sama ár héldu Biblíunemendurnir fyrsta pólska mótið í Bruay-en-Artois. Innan við mánuði síðar hélt Joseph F. Rutherford, fulltrúi aðalstöðvanna, ræðu í sama bæ þar sem 2.000 manns voru viðstaddir. Þegar bróðir Rutherford sá allan þennan fjölda áheyrenda, sem flestir voru Pólverjar, sagði hann: „Jehóva leiddi ykkur til Frakklands til að kynnast sannleikanum. Nú þurfið þið og börnin ykkar að kenna Frökkunum. Mikil boðun er enn fyrir höndum og Jehóva mun sjá fyrir boðberum til þessa verks.“Og það var einmitt það sem Jehóva gerði. Þessir pólsku þjónar hans voru jafn heilshugar við boðunina og þeir voru vinnusamir í kolanámunum. Sumir þeirra sneru aftur til heimalands síns til að segja öðrum frá þeim dýrmæta sannleika sem þeir höfðu kynnst. Teofil Piaskowski, Szczepan Kosiak og Jan Zabuda voru meðal þeirra sem fluttu frá Frakklandi til að boða fagnaðarerindið vítt og breitt um Pólland.
En margir pólskumælandi boðberar voru um kyrrt í Frakklandi og héldu boðuninni áfram af kappi ásamt frönskum trúsystkinum sínum. Á móti í Sin-le-Noble árið 1926 hlýddu 1.000 manns á pólsku dagskrána og 300 á þá frönsku. Í árbókinni 1929 segir: „Á árinu létu 332 pólskir bræður og systur skírast til tákns um vígslu sína.“ Áður en síðari heimsstyrjöldin braust út voru 84 söfnuðir í Frakklandi og af þeim voru 32 pólskir.
Árið 1947 þáðu margir vottanna boð frá pólskum stjórnvöldum um að snúa aftur til heimalandsins. Árangurinn af verki þeirra og franskra trúsystkina þeirra var þó augljós, jafnvel eftir að þeir höfðu flust heim. Það ár fjölgaði boðberum Guðsríkis um 10 prósent. Á árunum 1948 til 1950 fjölgaði þeim svo um 20, 23 og 40 prósent. Franska deildarskrifstofan útnefndi fyrstu farandhirðana árið 1948 til að þessir nýju boðberar fengju meiri þjálfun. Af þeim fimm, sem voru útnefndir, voru fjórir pólskir og Antoine Skalecki var einn þeirra.
Margir vottar Jehóva í Frakklandi bera enn pólsk ættarnöfn forfeðra sinna sem unnu hörðum höndum bæði í námunum og við boðunina. Nú á tímum er líka mikill fjöldi innflytjenda sem kynnist sannleikanum í Frakklandi. Hvort sem erlendir boðberar snúa aftur til heimalands síns eða setjast að í nýjum heimkynnum sínum feta þeir dyggilega í fótspor forvera sinna eins og þeirra sem komu frá Póllandi. – Úr sögusafninu í Frakklandi.