Lausn ykkar er í nánd
„Réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“ – LÚK. 21:28.
1. Hvað gerðist árið 66? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
ÍMYNDAÐU þér að þú búir í Jerúsalem árið 66. Mikil ólga hefur verið í borginni undanfarið. Þetta byrjaði allt þegar Flórus landstjóri rændi 17 talentum úr fjárhirslu musterisins. Gyðingum ofbauð þetta uppátæki hans og brugðust við með því að drepa hermenn Rómverja í Jerúsalem og lýsa yfir sjálfstæði sínu frá Rómaveldi. En Rómverjar voru snarir í snúningum. Innan þriggja mánaða kom 30.000 manna her á vettvang undir forystu Cestíusar Gallusar, landstjóra Rómverja í Sýrlandi. Með skyndi réðust þeir inn í úthverfi Jerúsalem og uppreisnarmennirnir leituðu skjóls í musterinu. Rómversku hermennirnir byrja þá að grafa undan ytri veggjum musterisins. Skelfing grípur um sig meðal borgarbúa. Hvernig er þér innanbrjósts þegar þú horfir upp á þessa atburði?
2. Hvað þurftu kristnir menn að gera árið 66 og hvernig var það hægt?
2 Þú manst vafalaust eftir því sem guðspjallaritarinn Lúkas hafði eftir Jesú: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið að eyðing hennar er í nánd.“ (Lúk. 21:20) En kannski er þér spurn hvernig þú getir fylgt fyrirmælunum sem fylgdu þessari viðvörun. Jesús sagði líka: „Þá flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt og þau sem eru á ekrum úti fari ekki inn í hana.“ (Lúk. 21:21) Hvernig í ósköpunum geturðu forðað þér úr Jerúsalem þegar svo margir hermenn umkringja hana? Þá gerist óvæntur atburður. Rómverski herinn hörfar frá borginni. Árásin er stytt eins og Jesús sagði fyrir. (Matt. 24:22) Nú gefst þér færi á að fylgja fyrirmælum Jesú. Þú flýrð þegar í stað til fjalla austan Jórdanar ásamt öðrum trúföstum kristnum mönnum í borginni og nágrenni. * Árið 70 sest annar rómverskur her um Jerúsalem og leggur borgina í rúst. En þú ert óhultur þar sem þú hlýddir fyrirmælum Jesú.
3. Í hvaða aðstöðu verða kristnir menn bráðlega og hvað skoðum við í þessari grein?
3 Bráðlega, mjög bráðlega, verðum við öll í svipaðri aðstöðu og frumkristnir menn. Jesús varaði ekki aðeins við eyðingu Jerúsalem. Hann benti einnig á að þessir atburðir væru hliðstæða þess sem gerist þegar ,þrengingin mikla‘ skellur á. (Matt. 24:3, 21, 29) Góðu fréttirnar eru þær að „mikill múgur“ manna af öllum þjóðum kemst lifandi úr þessari miklu þrengingu. (Lestu Opinberunarbókina 7:9, 13, 14.) Hvað segir Biblían okkur um þessa væntanlegu atburði? Við ættum að hafa brennandi áhuga á svarinu þar sem líf okkar er í húfi. Við skulum nú kanna rækilega hvaða áhrif þessir atburðir hafa á hvert og eitt okkar.
UPPHAF ÞRENGINGARINNAR MIKLU
4. Hvernig hefst þrengingin mikla og hverjir eiga þar hlut að máli?
4 Hvernig hefst þrengingin mikla? Samkvæmt Opinberunarbókinni gerist það með því að ,Babýlon hinni miklu‘ verður eytt. (Opinb. 17:5-7) Það er viðeigandi að öllum fölskum trúarbrögðum skuli vera líkt við skækju. Prestastéttin hefur selt sig leiðtogum þessa illa heims. Í stað þess að styðja Jesú og ríki hans heilshugar hefur hún stutt stjórnir manna og vikið frá meginreglum Guðs í skiptum fyrir pólitísk áhrif. Hún er gerólík andasmurðum þjónum Guðs sem er líkt við hreina mey. (2. Kor. 11:2; Jak. 1:27; Opinb. 14:4) En hver eyðir falstrúarbrögðunum? Jehóva Guð leggur „vilja sinn“ í brjóst ,tíu hornum‘ á „skarlatsrauðu dýri“. Hornin tákna öll núverandi stjórnmálaöfl sem styðja Sameinuðu þjóðirnar en þær eru táknaðar með ,skarlatsrauða dýrinu‘. – Lestu Opinberunarbókina 17:3, 16-18.
5, 6. Hvers vegna drögum við þá ályktun að trúuðu fólki verði ekki öllu útrýmt þegar Babýlon hinni miklu verður eytt?
5 Ættum við að draga þá ályktun að allir áhangendur falskra trúarbragða farist þegar Babýlon hinni miklu verður eytt? Svo er ekki að sjá. Sakaría spámanni var innblásið að skrifa um þann tíma. Hann segir um menn sem tilheyrðu áður fölskum trúarbrögðum: „Sérhver þeirra mun segja: ,Ég er ekki spámaður. Akuryrkjumaður er ég og jarðyrkju hef ég stundað allt frá bernsku.‘ Og spyrji þá einhver: ,Hvaða áverka ertu með á brjóstinu?‘ svarar hann: ,Þeir eru eftir ryskingar heima hjá vinum mínum.‘“ (Sak. 13:4-6) Það má því ætla að jafnvel sumir úr prestastéttinni snúi baki við trú sinni og neiti að þeir hafi nokkurn tíma tilheyrt þessum fölsku trúarbrögðum.
6 Hvernig farnast þjónum Guðs á þessu tímabili? Jesús segir: „Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu verða þeir dagar styttir.“ (Matt. 24:22) Eins og kom fram fyrr í greininni var þrengingartíminn árið 66 ,styttur‘. Þetta gaf ,hinum útvöldu‘, andasmurðum kristnum mönnum, færi á að flýja borgina og nágrenni hennar. Á svipaðan hátt verður fyrsti hluti þrengingarinnar miklu ,styttur vegna hinna útvöldu‘. Stjórnmálaöflunum, sem „hornin tíu“ tákna, verður ekki leyft að útrýma þjónum Guðs heldur verður stutt hlé á þrengingunni miklu.
REYNSLUTÍMI OG DÓMSTÍMI
7, 8. Hvaða tækifæri fáum við eftir að falstrúarbrögðunum verður eytt og hvernig munu trúir þjónar Guðs skera sig úr á þeim tíma?
7 Hvað gerist eftir að falstrúarbrögðunum er eytt? Þá gefst okkur tækifæri til að sýna hvað býr í hjörtum okkar. Meirihluti fólks leitar skjóls hjá samtökum og stofnunum manna sem líkt er við ,fjöll og hamra‘. (Opinb. 6:15-17) En þjónar Guðs munu á táknrænan hátt flýja í skjólið sem hann lætur í té. Gyðingar snerust ekki til kristni í stórum stíl á fyrstu öld þegar hlé varð á þrengingunni. Núna var áríðandi fyrir þá sem voru þegar kristnir að hlýða og fara eftir fyrirmælum Krists. Við getum ekki heldur búist við því að nýir streymi inn í söfnuðinn þegar hlé verður á þrengingunni miklu. Öllum sönnum þjónum Guðs gefst hins vegar tækifæri til að sanna að þeir elski Jehóva og til að styðja bræður Krists. – Matt. 25:34-40.
8 Við skiljum ekki fullkomlega allt sem á eftir að gerast þegar þessi reynslutími rennur upp en það er viðbúið að við þurfum að færa einhverjar fórnir. Kristnir menn á fyrstu öld þurftu að skilja eftir eigur sínar og þola ýmsa erfiðleika til að komast lífs af. (Mark. 13:15-18) Verðum við reiðubúin að fórna efnislegum hlutum til að geta verið trúföst? Verðum við tilbúin til að gera hvað sem er til að sanna hollustu okkar við Jehóva? Hugsaðu þér! Við verðum þau einu sem fylgja fordæmi Daníels spámanns til forna með því að halda áfram að tilbiðja Guð hvað sem það kostar. – Dan. 6:11, 12.
9, 10. (a) Hvaða boðskap flytja þjónar Guðs á þeim tíma? (b) Hvernig bregðast óvinir þjóna Guðs við?
9 Þegar þessi tími rennur upp á ekki að boða „fagnaðarerindið um ríkið“. Sá tími verður liðinn. Það er komið að ,endinum‘. (Matt. 24:14) Þjónar Guðs munu án vafa flytja harðan dómsboðskap. Vel má vera að í honum felist yfirlýsing um að illur heimur Satans líði brátt undir lok. Biblían líkir þessum boðskap við högl og segir: „Stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna því að sú plága var mikil.“ – Opinb. 16:21.
10 Ekkert af þessu fer fram hjá óvinum okkar. Spámanninum Esekíel var innblásið að skýra frá hvað Góg í Magóg, sem táknar bandalag þjóða, gerir þá: „Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu hugsanir koma upp í huga þér og þú munt taka að hyggja á illt og segja: Ég ætla að fara upp eftir gegn óvörðu landi, ráðast á friðsamt fólk sem býr þar áhyggjulaust. Allir búa þar án varnarmúra og hafa hvorki hlið né slagbranda. Þú kemur til að ræna og taka herfang, fara ránshendi um rústirnar sem byggðar eru að nýju. Þú heldur gegn fólki sem hefur verið safnað saman frá framandi þjóðum, fólki sem hefur aflað sér eigna og auðs og býr á nafla jarðar.“ (Esek. 38:10-12) Þjónar Guðs skera sig úr í andlegum skilningi eins og þeir séu „á nafla jarðar“ eða miðdepill alls. Þjóðirnar standast ekki mátið. Þær brenna í skinninu að ráðast á andasmurða þjóna Jehóva og félaga þeirra.
11. (a) Hvað þurfum við að hafa hugfast varðandi atburðarásina í þrengingunni miklu? (b) Hvernig bregst fólk við táknunum sem verða á himni?
11 Þegar við lítum á framhaldið skulum við hafa í huga að Biblían gefur ekki upp nákvæma tímaröð atburðanna. Það virðist líklegt að sumir þeirra skarist. Þegar Jesús spáði fyrir um endalok þessa heimskerfis sagði hann: „Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.“ (Lúk. 21:25-27; lestu Markús 13:24-26.) Verða bókstaflega ógnvekjandi tákn á himni þegar þessi spádómur rætist? Við þurfum að bíða og sjá. En eitt er víst, táknin vekja ógn og skelfingu meðal óvina Guðs.
12, 13. (a) Hvað gerist þegar Jesús kemur „með mætti og mikilli dýrð“? (b) Hvað gera þjónar Guðs á þeim tíma?
12 Hvað gerist þegar Jesús kemur „með mætti og mikilli dýrð“? Trúföstum þjónum Guðs verður þá launað en hinum refsað. (Matt. 24:46, 47, 50, 51; 25:19, 28-30) Í Matteusarguðspjalli lýkur Jesús lýsingu sinni á hinu margþætta tákni með dæmisögunni um sauðina og hafrana. Hann segir: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri.“ (Matt. 25:31-33) Hvaða dóm fá sauðirnir og hafrarnir? Jesús lýkur dæmisögunni með þessum orðum: „Þeir [hafrarnir] munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ – Matt. 25:46.
13 Hafrarnir „hefja kveinstafi“ þegar þeir átta sig á að þeirra bíður ,eilíf refsing‘, það er að segja eilífur dauði. (Matt. 24:30) En hver verða viðbrögð bræðra Krists og tryggra félaga þeirra? Þeir treysta fullkomlega á Jehóva Guð og son hans, Jesú Krist. Þeir fylgja fyrirmælum Jesú: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúk. 21:28) Já, við verðum jákvæð og sannfærð um að við björgumst.
ÞEIR SKÍNA SEM SÓL Í RÍKI GUÐS
14, 15. Hvaða söfnun á sér stað eftir að Góg í Magóg gerir árás og hvers eðlis er hún?
14 Hvað gerist eftir að Góg í Magóg ræðst á þjóna Guðs? Bæði Matteus og Markús segja frá því: „[Mannssonurinn] mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.“ (Mark. 13:27; Matt. 24:31) Hér er ekki átt við það þegar hinum andasmurðu er safnað í upphafi og ekki heldur við lokainnsiglið sem þeir fá. (Matt. 13:37, 38) Lokainnsiglið hljóta þeir áður en þrengingin mikla skellur á. (Opinb. 7:1-4) Hvaða söfnun á Jesús þá við? Hann er að tala um tímann þegar þeir sem eftir eru af hinum 144.000 hljóta laun sín á himnum. (1. Þess. 4:15-17; Opinb. 14:1) Það gerist einhvern tíma eftir að árás Gógs í Magóg er hafin. (Esek. 38:11) Þá rætast þessi orð Jesú: „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra.“ – Matt. 13:43. *
15 Merkir þetta að hinir andasmurðu verði hrifnir upp til himna í líkamanum og Jesús komi aftur í sýnilegri mynd til að ríkja á jörðinni? Margir í kristna heiminum trúa því. En Biblían sýnir greinilega fram á að „tákn Mannssonarins“ muni birtast á himni og að Jesús komi „á skýjum himins“. (Matt. 24:30) Hvort tveggja gefur til kynna að koma hans verði ósýnileg. Auk þess getur „hold og blóð ... eigi erft Guðs ríki“. Þeir sem verða hrifnir upp til himna þurfa því fyrst að „umbreytast, í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður“. * (Lestu 1. Korintubréf 15:50-53.) Þeim sem eftir eru af hinum andasmurðu á jörð verður safnað saman á einu augabragði.
16, 17. Hvað þarf að eiga sér stað áður en brúðkaup lambsins getur farið fram á himnum?
16 Lokaundirbúningurinn fyrir brúðkaup lambsins getur hafist þegar allar þær 144.000 eru komnar til himna. (Opinb. 19:9) En annar atburður þarf að eiga sér stað áður en þetta gleðilega brúðkaup fer fram. Mundu að Góg ræðst á þjóna Guðs skömmu áður en þeir síðustu af hinum 144.000 eru kallaðir til himna. (Esek. 38:16) Á hvaða viðbrögð kallar það? Þjónar Guðs á jörð virðast varnarlausir. Þeir hlýða fyrirmælunum sem gefin voru á dögum Jósafats konungs: „Þið eigið ekki að berjast. Fylkið ykkur, standið og horfið á þegar Drottinn vinnur sigur fyrir ykkur, Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist ekki. Skelfist ekki.“ (2. Kron. 20:17) En á himni eru viðbrögðin önnur. Í Opinberunarbókinni 17:14 er talað um þann tíma þegar hinir andasmurðu eru allir komnir til himna. Þar segir um óvini þjóna Guðs: „Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá – því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga.“ Jesús og 144.000 meðstjórnendur hans á himnum koma þá þjónum Guðs á jörð til bjargar.
17 Harmagedónstríðið, sem fylgir í kjölfarið, verður til þess að upphefja heilagt nafn Jehóva. (Opinb. 16:16) Þá verður þeim sem líkjast höfrum útrýmt fyrir fullt og allt. Jörðin verður loksins hreinsuð af allri illsku og múgurinn mikli gengur í gegnum lokakafla þrengingarinnar miklu. Þegar öllum undirbúningi er lokið getur brúðkaup lambsins farið fram en það er hápunktur Opinberunarbókarinnar. (Opinb. 21:1-4) * Allir sem lifa á jörð búa þá við velþóknun Guðs og njóta góðs af ómældum kærleika hans. Hvílík brúðkaupsveisla! Hlökkum við ekki óþreyjufull til þessa dags? – Lestu 2. Pétursbréf 3:13.
18. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera í ljósi þeirra atburða sem eru fram undan?
18 Þessir spennandi atburðir nálgast óðfluga. Hvað ættum við því að gera núna? Pétri postula var innblásið að skrifa: „Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi ... Með því að þið nú, þið elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að lifa í friði frammi fyrir honum, flekklaus og vammlaus.“ (2. Pét. 3:11, 12, 14) Verum því ákveðin í að halda okkur andlega hreinum og styðja konung friðarins.
^ Hinir andasmurðu verða ekki hrifnir til himna í jarðneskum líkama. (1. Kor. 15:48, 49) Líkamar þeirra verða líklega látnir hverfa á sama hátt og líkami Jesú.