Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Safnaðaröldungar – samverkamenn að gleði okkar

Safnaðaröldungar – samverkamenn að gleði okkar

„Heldur erum við samverkamenn að gleði ykkar.“ – 2. KOR. 1:24.

1. Hvaða fréttir af söfnuðinum í Korintu glöddu Pál?

 PÁLL postuli var staddur í hafnarborginni Tróas árið 55 en hugurinn leitaði sífellt til Korintu. Fyrr um árið hafði hann frétt af deilum milli bræðranna þar og þótti það sárt. Hann hafði skrifað þeim bréf eins og umhyggjusamur faðir og hvatt þá til að bæta ráð sitt. (1. Kor. 1:11; 4:15) Hann hafði einnig sent Títus, samverkamann sinn, til þeirra og beðið hann að hitta sig aftur í Tróas. Páll bíður óþreyjufullur eftir að fá fréttir af söfnuðinum í Korintu. En Títus kemur ekki og það veldur honum vonbrigðum. Hvað er til ráða? Páll siglir til Makedóníu og verður mjög ánægður þegar hann hittir Títus þar. Títus flytur honum þær fréttir að söfnuðurinn í Korintu hafi tekið leiðbeiningum hans vel og hlakki til að hitta hann. Páll gleðst mjög þegar hann fær þessi góðu tíðindi. – 2. Kor. 2:12, 13; 7:5-9.

2. (a) Hvað sagði Páll um trú og gleði í bréfi sínu til safnaðarins í Korintu? (b) Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

2 Skömmu síðar skrifaði Páll annað bréf til safnaðarins í Korintu. Þar sagði hann meðal annars: „Ekki svo að skilja að ég vilji drottna yfir trú ykkar heldur erum við samverkamenn að gleði ykkar. Því að í trúnni standið þið stöðug.“ (2. Kor. 1:24) Hvað átti Páll við? Og hvaða áhrif ætti það að hafa á safnaðaröldunga nú á dögum?

TRÚ OKKAR OG GLEÐI

3. (a) Hvað átti Páll við þegar hann skrifaði: „Í trúnni standið þið stöðug“? (b) Hvernig líkja öldungar nú á tímum eftir Páli?

3 Páll nefnir hér tvo mikilvæga þætti í tilbeiðslu okkar – trú og gleði. Um trúna skrifaði hann: „Ekki svo að skilja að ég vilji drottna yfir trú ykkar . . . Því að í trúnni standið þið stöðug.“ Páll vissi að bræður hans og systur í Korintu þjónuðu Guði dyggilega vegna sinnar eigin trúarsannfæringar en ekki vegna Páls eða nokkurs annars manns. Hann sá því enga ástæðu til að ráða yfir trú þeirra og langaði ekki til þess. Hann treysti að þau væru Guði trú og vildu gera rétt. (2. Kor. 2:3) Safnaðaröldungar nú á tímum líkja eftir Páli og treysta að trúsystkini þeirra þjóni Guði af trú og réttu tilefni. (2. Þess. 3:4) Þeir setja bræðrum og systrum ekki stífar reglur heldur fylgja meginreglum Biblíunnar og þeim leiðbeiningum sem söfnuðurinn fær. Öldungarnir drottna ekki yfir trú bræðra sinna og systra. – 1. Pét. 5:2, 3.

4. (a) Hvað átti Páll við þegar hann skrifaði: ,Við erum samverkamenn að gleði ykkar‘? (b) Hvernig líkja öldungar nú á tímum eftir Páli?

4 Páll sagði einnig: „Heldur erum við samverkamenn að gleði ykkar.“ Hér á hann við sjálfan sig og nána samstarfsmenn sína. Af hverju ályktum við það? Í sama bréfi minnir Páll söfnuðinn í Korintu á tvo þessara starfsfélaga þegar hann skrifar: ,Við höfum prédikað Jesú Krist á meðal ykkar, ég, Silvanus og Tímóteus.‘ (2. Kor. 1:19) Þegar Páll notar orðið „samverkamenn“ í bréfum sínum er hann alltaf að tala um nána félaga eins og Apollós, Akvílas, Prisku, Tímóteus, Títus og fleiri. (Rómv. 16:3, 21; 1. Kor. 3:6-9; 2. Kor. 8:23) Með því að segja: ,Við erum samverkamenn að gleði ykkar,‘ fullvissar hann söfnuðinn í Korintu um að hann og félagar hans vilji gera allt sem þeir geta til að stuðla að enn meiri gleði í söfnuðinum. Öldungar nú á dögum hugsa eins og hann. Þeir vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa trúsystkinum sínum að þjóna Jehóva „með gleði“. – Sálm. 100:2; Fil. 1:25.

5. Hvaða spurningu var fjöldi bræðra og systra beðinn að svara og hvað erum við öll hvött til að gera?

5 Fyrir nokkru var fjöldi kappsamra bræðra og systra víða um lönd beðinn að svara spurningunni: „Hvað hefur öldungur sagt eða gert sem hefur glatt þig?“ Um leið og við könnum hvernig þau svöruðu spurningunni skaltu velta fyrir þér hvernig þú hefðir svarað henni. Og við skulum líka öll íhuga hvernig við getum stuðlað að gleði í söfnuðinum okkar. *

„HEILSIÐ PERSIS, HINNI ELSKUÐU“

6, 7. (a) Hvernig geta öldungar meðal annars líkt eftir Jesú, Páli og fleiri þjónum Guðs? (b) Af hverju gleðjum við trúsystkini með því að muna hvað þau heita?

6 Margir bræður og systur segja að þeim finnist ánægjulegt þegar öldungar sýni þeim umhyggju. Öldungar geta meðal annars gert það með því að líkja eftir Davíð, Elíhú og Jesú. (Lestu 2. Samúelsbók 9:6; Jobsbók 33:1; Lúkas 19:5.) Allir þessir þjónar Jehóva sýndu öðrum einlæga umhyggju með því að ávarpa þá með nafni. Páll gerði sér líka grein fyrir að það væri mikilvægt að muna eftir nöfnum trúsystkina og nota þau. Hann lýkur einu af bréfum sínum á því að nafngreina meira en 25 bræður og systur og senda þeim kveðjur. Meðal þeirra er Persis og kveðjan til hennar hljóðar svo: „Heilsið Persis, hinni elskuðu.“ – Rómv. 16:3-15.

7 Sumir öldungar eiga erfitt með að muna nöfn. En þegar þeir leggja sig fram um það eru þeir í rauninni að segja trúsystkinum sínum að þeim sé annt um þau. (2. Mós. 33:17) Öldungar gleðja bræður og systur með því að muna hvað þau heita þegar þeir biðja þau að svara í Varðturnsnáminu eða á öðrum samkomum. – Samanber Jóhannes 10:3.

HÚN HEFUR „STARFAÐ SVO MIKIÐ Í ÞJÓNUSTU DROTTINS“

8. Hvernig líkti Páll eftir Jehóva og Jesú?

8 Páll sýndi öðrum líka umhyggju með því að hrósa þeim. Það er önnur mikilvæg leið til að gleðja trúsystkini sín. „Ég . . . er hreykinn af ykkur,“ sagði Páll í síðara bréfinu til safnaðarins í Korintu, sama bréfi og hann talaði um að hann langaði til að stuðla að gleði bræðra sinna og systra. (2. Kor. 7:4) Þetta hrós hlýtur að hafa yljað þeim um hjartarætur. Páll fer einnig lofsamlegum orðum um trúsystkini sín í öðrum söfnuðum. (Rómv. 1:8; Fil. 1:3-5; 1. Þess. 1:8) Eftir að hafa nefnt Persis í bréfinu til safnaðarins í Róm segir hann að hún hafi „starfað svo mikið í þjónustu Drottins“. (Rómv. 16:12) Þetta hlýtur að hafa verið sérlega uppörvandi fyrir þessa trúföstu systur. Með því að hrósa líkir Páll eftir fordæmi Jehóva og Jesú. – Lestu Markús 1:9-11; Jóhannes 1:47; Opinb. 2:2, 13, 19.

9. Hvers vegna stuðlar það að gleði í söfnuðinum að fá hrós og veita hrós?

9 Öldungar nú á dögum vita einnig hve mikilvægt það er að segja bræðrum og systrum að þau séu mikils metin. (Orðskv. 3:27; 15:23) Þegar öldungur gerir það er hann í reynd að segja öðrum að honum sé annt um þá og hann taki eftir því sem þeir leggja á sig. Bræður og systur hafa sannarlega þörf fyrir hrós. Systir á sextugsaldri talar fyrir munn margra þegar hún segir: „Mér er sjaldan hrósað í vinnunni. Þar ríkir samkeppni og andrúmsloftið er kuldalegt. Þegar öldungur hrósar mér fyrir eitthvað sem ég hef gert í söfnuðinum er það ótrúlega upplífgandi og hvetjandi. Þá finn ég fyrir væntumþykju föðurins á himnum.“ Einstæðum tveggja barna föður er eins innanbrjósts. Öldungur hrósaði honum hlýlega. Hvaða áhrif hafði það á bróðurinn? „Það var ákaflega hvetjandi fyrir mig,“ segir hann. Öldungur gleður og uppörvar trúsystkini þegar hann hrósar þeim einlæglega. Það gefur þeim kraft til að halda áfram að ganga veginn til lífsins og „þreytast ekki“. – Jes. 40:31.

VERIÐ HIRÐAR SAFNAÐAR GUÐS

10, 11. (a) Hvernig geta öldungar líkt eftir Nehemía? (b) Hvernig getur öldungur búið sig undir að ,miðla af gjöfum andans‘ í hirðisheimsókn?

10 Hvað er eitt það mikilvægasta sem öldungar geta gert til að sýna trúsystkinum umhyggju og stuðla að gleði í söfnuðinum? Það er að eiga frumkvæðið að því að hvetja og uppörva þá sem þurfa þess með. (Lestu Postulasöguna 20:28.) Þannig líkja öldungar eftir trúum þjónum Guðs á biblíutímanum. Hvað gerði Nehemía þegar hann tók eftir að bræður hans af hópi Gyðinga höfðu misst kjarkinn? Í frásögunni segir að hann hafi gengið fram þegar í stað og talið í þá kjark. (Neh. 4:14) Öldungar nú á dögum vilja líkja eftir honum. Þeir ,ganga fram‘ til að styrkja trúsystkini sín, það er að segja taka frumkvæðið. Þeir heimsækja bræður og systur ef aðstæður leyfa til að hvetja þau og uppörva. Þeir vilja nota slíkar heimsóknir til að ,miðla af gjöfum andans‘. (Rómv. 1:11) Hvernig geta öldungar gert það?

11 Áður en öldungur fer í hirðisheimsókn þarf hann að velta fyrir sér þörfum þess sem hann ætlar að heimsækja. Við hvaða erfiðleika á hann að glíma? Hvað gæti verið uppbyggilegt fyrir hann að heyra? Hvaða ritningarstaður eða persóna í Biblíunni gæti verið honum til hvatningar? Með því að undirbúa sig þannig getur öldungur átt innihaldsríkar samræður við þennan bróður eða systur í stað þess að rabba bara um daginn og veginn. Hann hvetur trúsystkini sín til að segja frá því sem liggur þeim á hjarta og hlustar vel meðan þau tjá sig. (Jak. 1:19) „Það er svo hughreystandi þegar öldungur hlustar með hjartanu,“ segir systir nokkur. – Lúk. 8:18.

Öldungur getur „miðlað af gjöfum andans“ í hirðisheimsókn með því að vera vel undirbúinn.

12. Hverjir í söfnuðinum þurfa að fá hvatningu og uppörvun og hvers vegna?

12 Hverjir í söfnuðinum þurfa að fá hirðisheimsóknir? Páll hvatti safnaðaröldunga til að hafa gát á „allri hjörðinni“. Allir í söfnuðinum þurfa að fá hvatningu og uppörvun, þeirra á meðal boðberar og brautryðjendur sem hafa boðað fagnaðarerindið af kappi árum saman. Af hverju þurfa þeir á stuðningi öldunganna að halda? Af því að þeir sem eru sterkir í trúnni geta líka stundum verið að bugast undan álaginu frá þessum illa heimi. Við skulum líta á atburð úr ævi Davíðs konungs sem sýnir fram á að þeir sem eru sterkir í trúnni þurfa stundum á aðstoð trúsystkina að halda.

„ABÍSAÍ . . . KOM HONUM TIL HJÁLPAR“

13. (a) Hvað reyndi Jisbi Benob að notfæra sér? (b) Hvernig kom Abísaí Davíð til bjargar?

13 Skömmu eftir að hinn ungi Davíð var smurður til konungs sýndi hann það hugrekki að berjast við Golíat en hann var risi af ætt Refaíta. Davíð felldi risann. (1. Sam. 17:4, 48-51; 1. Kron. 20:5, 8) Mörgum árum síðar stóð Davíð aftur augliti til auglitis við risa í orustu við Filistea. Hann hét Jisbi Benob og var líka Refaíti. (2. Sam. 21:16) En í þetta sinn munaði minnstu að Davíð félli fyrir hendi risans. Hvers vegna? Það var ekki vegna þess að hann hefði misst kjarkinn heldur af því að hann „tók að þreytast“. Jisbi Benob sá að Davíð var farinn að lýjast, ákvað að grípa tækifærið og „hugðist fella Davíð“. En rétt áður en risanum tókst að reka hann í gegn kom „Abísaí Serújuson . . . honum til hjálpar og hjó Filisteann banahögg“. (2. Sam. 21:15-17) Þar skall hurð nærri hælum! Davíð hlýtur að hafa verið þakklátur fyrir að Abísaí skyldi hafa haft auga með honum og komið honum til hjálpar um leið og hann sá að hann var í lífshættu. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari frásögu?

14. (a) Hvernig getum við sigrast á tröllauknum erfiðleikum? (b) Hvernig geta öldungar hjálpað trúsystkinum að endurheimta gleði og styrk? Lýstu með dæmi.

14 Þjónar Jehóva um allan heim boða fagnaðarerindið þrátt fyrir þá tálma sem Satan og útsendarar hans leggja í götu þeirra. Sum okkar hafa staðið augliti til auglitis við tröllaukna erfiðleika, en við treystum á Jehóva og sigruðum þessa „Golíat-risa“. Stöðug barátta við heim Satans getur þó verið lýjandi og dregið úr okkur kjark. Þá erum við veik fyrir og hætta er á að við bugumst undan álagi sem við hefðum að öllu jöfnu ráðið við. Ef öldungur tekur eftir hvernig ástatt er fyrir okkur getur hann veitt þann stuðning sem okkur vantar þá stundina til að endurheimta gleði okkar og styrk. Margir þekkja það af eigin raun. Brautryðjandasystir á sjötugsaldri segir: „Ég var hálflasin fyrir nokkru og fannst boðunarstarfið lýjandi. Öldungur tók eftir hvað ég var þróttlítil og tók mig tali. Við áttum uppörvandi samtal og ræddum um frásögu í Biblíunni. Ég gerði eins og hann ráðlagði mér og það varð mér til góðs.“ Síðan bætir hún við: „Það var kærleiksríkt af honum að veita því athygli hve þróttlítil ég var og hjálpa mér.“ Það er traustvekjandi að við skulum eiga öldunga sem hafa auga með okkur og koma okkur til hjálpar, ekki ósvipað og Abísaí gerði forðum daga.

ÞAU VISSU AÐ PÁLI ÞÓTTI VÆNT UM ÞAU

15, 16. (a) Af hverju þótti bræðrum og systrum ákaflega vænt um Pál? (b) Hvers vegna þykir okkur vænt um öldunga safnaðarins?

15 Það er heilmikil vinna að gæta hjarðar Guðs. Öldungar hafa stundum áhyggjur af trúsystkinum og missa svefn af þeim sökum eða vaka fram á nótt til að biðja fyrir þeim eða liðsinna. (2. Kor. 11:27, 28) En öldungarnir rækja skyldur sínar fúslega ekki síður en Páll. Hann skrifaði söfnuðinum í Korintu: „Ég er fús til að verja því sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir ykkur.“ (2. Kor. 12:15) Svo annt var Páli um bræður og systur að hann lagði allt í sölurnar til að styrkja þau. (Lestu 2. Korintubréf 2:4; Fil. 2:17; 1. Þess. 2:8) Það er engin furða að þeim skyldi þykja ákaflega vænt um hann. – Post. 20:31-38.

16 Okkur þykir líka ákaflega vænt um öldunga safnaðarins og þökkum Jehóva fyrir þá. Þeir gleðja okkur með því að sýna okkur umhyggju, hverju og einu. Þeir auðga okkur með hirðisheimsóknum sínum. Og við erum þakklát fyrir að þeir skuli vera reiðubúnir að hjálpa okkur þegar álag þessa heims er að buga okkur. Þessir vökulu og umhyggjusömu öldungar eru svo sannarlega ,samverkamenn að gleði okkar‘.

^ Sömu bræður og systur voru einnig spurð: „Hvað meturðu mest í fari öldungs?“ Langflestir svöruðu að þeim þætti skipta mestu máli að hann væri alúðlegur og auðvelt að leita til hans. Rætt verður um það síðar í þessu tímariti hvers vegna það er mikilvægt að öldungar séu þannig.