Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun“

„Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun“

„Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun“

„Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun.“ – 1. KOR. 9:24.

1, 2. (a) Hvaða mynd dró Páll upp til að hvetja kristna Hebrea? (b) Hvað eru þjónar Guðs hvattir til að gera?

PÁLL postuli dró upp sterka mynd í Hebreabréfinu til að hvetja trúsystkini sín. Hann minnti þau á að þau væru ekki ein um að keppa eftir eilífa lífinu. Með þeim væri mikill fjöldi votta sem hefði lokið hlaupinu með ágætum. Erfiði þeirra og trúarverk gátu verið kristnum Hebreum hvatning til að gefast ekki upp heldur halda áfram að keppa eftir eilífa lífinu.

2 Í greininni á undan ræddum við um æviferil nokkurra af þessum fjölda votta. Allir sýndu þeir óhagganlega trú og hún hjálpaði þeim að sýna Guði tryggð. Þeir héldu hlaupinu áfram allt til enda. Við getum dregið lærdóm af þeim. Eins og fram kom í greininni á undan hvatti Páll postuli trúsystkini sín með eftirfarandi orðum: „Léttum . . . af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan.“ Þessi orð eiga líka erindi til okkar. – Hebr. 12:1.

3. Hvað á Páll við þegar hann talar um keppendur í kapphlaupum Grikkja?

3 Kapphlaup voru vinsæl íþrótt meðal Grikkja til forna. Í bókinni Backgrounds of Early Christianity segir að „Grikkir hafi æft og keppt naktir“. * Þó að okkur gæti þótt óviðeigandi að keppa þannig gerðu þeir það í þeim eina tilgangi að hreppa sigurlaunin. Hlaupararnir losuðu sig við allar óþarfa byrðar sem gátu tafið fyrir þeim. Páll er að benda á að þeir sem keppa eftir eilífa lífinu þurfi að losa sig við allt sem geti íþyngt þeim. Þetta ráð átti fullt erindi til kristinna manna þá og hið sama er uppi á teningnum núna. Hvers konar byrðar gætu tálmað okkur að hljóta sigurlaunin í kapphlaupinu um lífið?

„Léttum . . . af okkur allri byrði“

4. Hverju var fólk upptekið af á dögum Nóa?

4 Páll ráðleggur okkur að ,létta af okkur allri byrði‘. Það felur í sér hvaðeina sem gæti komið í veg fyrir að við einbeitum okkur að hlaupinu og leggjum okkur fram af öllum kröftum. Hvaða byrðar gætu þetta verið? Nói er einn þeirra sem Páll nefnir í Hebreabréfinu, og Jesús benti á daga Nóa sem dæmi til viðvörunar: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins,“ sagði hann. (Lúk. 17:26) Þó að núverandi heimur eigi eftir að líða undir lok líkt og gerðist á dögum Nóa er Jesús fyrst og fremst að tala um líferni fólks. (Lestu Matteus 24:37-39.) Fæstir sýndu nokkurn áhuga á Guði á dögum Nóa og því síður að þóknast honum. Hverju var fólk upptekið af? Engu sérstöku. Það át, drakk, giftist og lifði sínu daglega lífi. Vandinn var sá að fólk gaf engan gaum að því á hvaða tímum það lifði, rétt eins og Jesús sagði.

5. Hvað getur hjálpað okkur að ljúka hlaupinu?

5 Við erum önnum kafin á hverjum degi ekki síður en Nói og fjölskylda hans. Við þurfum að sjá fyrir sjálfum okkur og fjölskyldunni og það getur tekið drjúgan hluta af tíma okkar og kröftum. Þegar hart er í ári er auðvelt að gera sér áhyggjur af nauðsynjum. Og þar sem við erum vígð Jehóva höfum við ýmsar aðrar skyldur. Við boðum fagnaðarerindið, búum okkur undir samkomur og sækjum þær. Við sinnum sjálfsnámi og fræðum fjölskylduna til að rækta sambandið við Jehóva. Nói „gerði allt eins og Guð bauð honum“ þótt hann hefði nóg á sinni könnu. (1. Mós. 6:22) Ef við viljum ná í mark í kapphlaupinu um lífið verðum við að hafa meðferðis eins lítið og mögulegt er og forðast að taka á okkur nokkrar óþarfa byrðar.

6, 7. Hvaða leiðbeiningar Jesú þurfum við að hafa hugfastar?

6 Hvað átti Páll við þegar hann sagði að við þyrftum að létta af okkur „allri byrði“? Við getum auðvitað ekki losað okkur við allar skyldur sem hvíla á okkur. En það er gott að hafa í huga orð Jesú: „Segið . . . ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa.“ (Matt. 6:31, 32) Orð Jesú bera með sér að jafnvel nauðsynjar eins og fæði og klæði geta íþyngt okkur eða orðið okkur til hrösunar ef við sjáum þær ekki í réttu ljósi.

7 Lítum nánar á orð Jesú: „Yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa.“ Þau gefa til kynna að Jehóva, faðirinn á himnum, leggi sitt af mörkum til að fullnægja þörfum okkar. Þegar sagt er „alls þessa“ er auðvitað ekki víst að við fáum nákvæmlega það sem okkur langar mest í. En Jesús segir okkur að vera ekki áhyggjufull út af daglegum nauðsynjum eins og „heiðingjarnir“ sem sækjast ákaft eftir öllu þessu. Annars gæti farið illa fyrir okkur því að Jesús sagði síðar: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður eins og snara.“ – Lúk. 21:34, 35.

8. Af hverju er sérlega mikilvægt núna að ,létta af okkur allri byrði‘?

8 Markið er rétt fram undan. Það væri ákaflega miður ef við létum óþarfa byrðar íþyngja okkur á endasprettinum. Það er því viturlegt að taka alvarlega orð Páls postula þegar hann segir: „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.“ (1. Tím. 6:6) Við aukum vinningslíkurnar verulega ef við gerum eins og Páll segir.

„Viðloðandi synd“

9, 10. (a) Hvað er átt við þegar talað er um „viðloðandi synd“? (b) Hvað gæti flækst fyrir kristnum manni?

9 Auk byrðanna, sem við þurfum að forðast, minnist Páll á „viðloðandi synd“. Hvað gæti það verið? Gríska orðið, sem er þýtt „viðloðandi“, kemur aðeins fyrir í þessu versi í Biblíunni. Biblíufræðingurinn Albert Barnes segir: „Keppandi í hlaupi gætti þess að tefja ekki fyrir sér með því að vera í flík sem gæti flækst um fætur honum og orðið honum til trafala í hlaupinu. Kristinn maður ætti að gera slíkt hið sama og forðast vandlega hvaðeina sem líkist þessu.“ Hvað gæti flækst fyrir kristnum manni og orðið þess valdandi að trú hans veiktist?

10 Kristinn maður glatar ekki trúnni á augabragði. Það gerist yfirleitt smám saman, jafnvel án þess að hann geri sér grein fyrir því. Páll varar við þessari hættu fyrr í Hebreabréfinu. Hann bendir á að við þurfum að gæta þess að ,berast ekki afleiðis‘ og talar um ,vont vantrúar hjarta‘. (Hebr. 2:1; 3:12, Biblían 1981) Það er næstum óhjákvæmilegt að hlaupari detti ef hann flækir fæturna í fötunum og miklar líkur á að það gerist ef hann klæðir sig óheppilega. En þannig getur farið ef hann er kærulaus, hefur oftrú á sjálfum sér eða er annars hugar. Hvaða lærdóm getum við dregið af varnaðarorðum Páls?

11. Hvað gæti valdið því að við misstum trúna?

11 Ef fólk missir trúna má rekja það til einhvers sem það hefur ákveðið að gera einhvern tíma áður. Fræðimaður nokkur segir að syndin, sem Páll kallar „viðloðandi“, sé „syndin sem hefur sterkustu tökin á okkur vegna aðstæðna okkar, atgervis og félagsskapar“. Hugmyndin er sú að umhverfi okkar, veikleikar og félagsskapur geti haft mikil áhrif á okkur. Það getur valdið því að við veikjumst í trúnni eða missum hana jafnvel. – Matt. 13:3-9.

12. Hvaða viðvaranir ættum við að taka alvarlega svo að við missum ekki trúna?

12 Hinn trúi og hyggni þjónn hefur árum saman minnt á að við þurfum að velja vandlega hvað við horfum og hlustum á vegna þess að það ræður miklu um hugsanir okkar og langanir. Hann hefur varað okkur við að sækjast eftir peningum og efnislegum hlutum. Við gætum látið glepjast af þeim glys og glaumi sem skemmtanaiðnaðurinn býður upp á eða endalausum straumi af nýjum græjum. Það væru mikil mistök að hugsa sem svo að þessar leiðbeiningar hins trúa og hyggna þjóns séu einum of strangar eða þær eigi bara erindi til annarra, en sjálf séum við einhvern veginn ónæm fyrir hættunni. Satan leggur lúmskar og lævísar gildrur í götu okkar. Sumir hafa misst trúna af því að þeir voru kærulausir, höfðu oftrú á sjálfum sér eða létu glepjast af einhverju sem heimurinn hafði upp á að bjóða. Ef það gerist hjá okkur eigum við á hættu að missa af sigurlaununum, eilífa lífinu. – 1. Jóh. 2:15-17.

13. Hvernig getum við varað okkur á hugsunarhætti umheimsins?

13 Daginn út og daginn inn hittum við fólk sem ýtir að okkur markmiðum, gildum og hugsunarhætti heimsins. (Lestu Efesusbréfið 2:1, 2.) En það er að miklu leyti undir sjálfum okkur komið hvort við látum það hafa áhrif á okkur. ,Loftið‘, sem Páll minnist á, er banvænt. Við þurfum að vera á varðbergi öllum stundum til að kafna ekki og falla úr keppni. Hvað getur hjálpað okkur að halda hlaupinu áfram? Við getum tekið okkur Jesú til fyrirmyndar. Hann er hinn fullkomni fyrirrennari ef svo má að orði komast. (Hebr. 12:2) Páll er okkur einnig góð fyrirmynd. Hann hélt ótrauður áfram og hvatti trúsystkini sín til að breyta eftir sér. – 1. Kor. 11:1; Fil. 3:14.

Hvernig getum við fengið sigurlaunin?

14. Hvernig leit Páll á þátttöku sína í hlaupinu?

14 Hvernig leit Páll á þátttöku sína í hlaupinu? Þegar hann hitti öldungana í Efesus í síðasta sinn sagði hann: „Mér er líf mitt einskis virði fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu sem Drottinn Jesús fól mér.“ (Post. 20:24) Hann var tilbúinn til að fórna öllu, þar á meðal lífinu, til að ljúka þessu hlaupi. Allt það sem hann hafði lagt á sig vegna fagnaðarerindisins væri þó einskis virði ef honum tækist ekki að ná í mark. Páll var hins vegar ekki svo öruggur með sig að hann teldi sig nánast hafa hlotið sigurlaunin. (Lestu Filippíbréfið 3:12, 13.) Skömmu áður en hann dó sagði hann þó með nokkurri vissu: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ – 2. Tím. 4:7.

15. Hvað hvatti Páll trúsystkini sín til að gera?

15 Páli var ákaflega mikið í mun að trúsystkini hans lykju hlaupinu. Hann vildi ekki sjá nokkurn gefast upp. Hann hvatti til dæmis kristna menn í Filippí til að vinna ötullega að því að hljóta hjálpræði. Hann sagði í bréfi til þeirra: „Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.“ (Fil. 2:16) Hann hvatti einnig kristna menn í Korintu til að hlaupa þannig að þeir fengju sigurlaun. – 1. Kor. 9:24.

16. Af hverju þurfum við að hafa markið og sigurlaunin stöðugt í huga?

16 Í langhlaupi, svo sem maraþonhlaupi, er markið ekki í sjónmáli til að byrja með. Keppendurnir eru samt stöðugt með markið í huga. Og þegar kemur að endasprettinum eru þeir enn ákveðnari í að gefast ekki upp. Hið sama er að segja um hlaupið sem við tökum þátt í. Sigurlaunin þurfa að vera okkur raunveruleg. Það hjálpar okkur að ná í mark.

17. Hvernig er trúin hjálp til að einbeita sér að laununum?

17 „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá,“ skrifaði Páll. (Hebr. 11:1) Abraham og Sara voru fús til að yfirgefa þægindin sem þau bjuggu við í Úr og búa eins og „gestir og útlendingar“ í landinu sem þeim var sagt að fara til. Þau gátu gert það vegna þess að þau „sáu . . . álengdar“ að fyrirheit Guðs myndu rætast. Móse vildi ekki „njóta skammvinns unaðar af syndinni“ og afþakkaði „fjársjóðu Egyptalands“. Hvað gaf honum trúarstyrk til að gera það? „Hann horfði fram til launanna.“ (Hebr. 11:8-13, 24-26) Páll sagði að þessir þjónar Guðs hefðu gert allt þetta „fyrir trú“. Trúin gerði þeim kleift að sjá launin í fjarska þrátt fyrir prófraunir og erfiðleika sem urðu á vegi þeirra. Þeir vissu að Guð var með þeim og myndi vera það áfram.

18. Hvað getum við gert til að forðast „viðloðandi synd“?

18 Það er gott fyrir okkur að íhuga trúarverk þeirra sem rætt er um í 11. kafla Hebreabréfsins og líkja síðan eftir þeim. Það auðveldar okkur að byggja upp sterka trú og forðast þá „viðloðandi synd“ sem Páll talar um. (Hebr. 12:1) Með því að sækja samkomur ásamt öðrum sem vilja styrkja trú sína getum við gefið gætur hvert að öðru og hvatt hvert annað „til kærleika og góðra verka“. – Hebr. 10:24.

19. Af hverju er mikilvægt að hafa sigurlaunin í sjónmáli?

19 Hlaupið er næstum á enda. Við sjáum nánast í mark. Með því að trúa og þiggja hjálp Jehóva getum við líka létt af okkur „allri byrði og viðloðandi synd“. Já, við getum hlaupið þannig að við hljótum sigurlaunin – blessunina sem Jehóva, Guð okkar og faðir, hefur heitið.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Gyðingar hneyksluðust mjög á þessum sið. Í 2. Makkabeabók, sem er ein af Apókrýfubókunum, kemur fram að það hafi valdið miklum deilum meðal Gyðinga þegar Jason æðstiprestur lagði til að gerður yrði íþróttavöllur í Jerúsalem. Jason þessi hafði sölsað undir sig æðstaprestsembættið og var þessi hugmynd hans liður í því að snúa Gyðingum til grískra hátta. – 2. Makk. 4:7-17.

Manstu?

• Hvernig léttum við af okkur „allri byrði“?

• Hvað gæti orðið til þess að við glötuðum trúnni?

• Af hverju þurfum við að hafa sigurlaunin í sjónmáli?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 23]

Hvað átti Páll við þegar hann talaði um „viðloðandi synd“ og hvernig gæti hún orðið okkur til trafala?