Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Metið þá að verðleikum sem erfiða á meðal ykkar

Metið þá að verðleikum sem erfiða á meðal ykkar

Metið þá að verðleikum sem erfiða á meðal ykkar

„Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður.“ — 1. ÞESS. 5:12, Biblían 1981.

1, 2. (a) Hvernig var ástatt fyrir söfnuðinum í Þessaloníku þegar Páll skrifaði honum fyrra bréfið? (b) Hvað hvatti Páll Þessaloníkumenn til að gera?

ÍMYNDAÐU þér að þú tilheyrir kristna söfnuðinum í Þessaloníku, en hann var einn af fyrstu söfnuðunum sem stofnaður var í Evrópu á fyrstu öld. Páll postuli hafði notað drjúgan tíma til að styrkja trúsystkini sín þar í borg. Hugsanlegt er að hann hafi skipað þar öldunga til að fara með forystuna, rétt eins og gert hafði verið í öðrum söfnuðum. (Post. 14:23) En eftir að söfnuðurinn var myndaður æstu Gyðingar til uppþota til að fá Pál og Sílas rekna úr borginni. Söfnuðinum hefur kannski fundist hann vera einn og yfirgefinn og jafnvel óttast um öryggi sitt.

2 Páll hafði skiljanlega áhyggjur af þessum unga söfnuði eftir að hann fór frá Þessaloníku. Hann reyndi að komast þangað aftur en ,Satan hamlaði því‘. Hann sendi því Tímóteus til að hvetja söfnuðinn og uppörva. (1. Þess. 2:18; 3:2) Tímóteus færði honum góðar fréttir þegar hann sneri aftur og Páll skrifaði þá bréf til safnaðarins í Þessaloníku. Meðal annars hvatti hann trúsystkini sín til þess að ,meta þá að verðleikum sem veittu þeim forstöðu‘. — Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.

3. Af hverju höfðu kristnir menn í Þessaloníku fulla ástæðu til að sýna öldungunum sérstaka virðingu?

3 Bræðurnir, sem fóru með forystuna í söfnuðinum í Þessaloníku, bjuggu ekki yfir jafn mikilli reynslu og Páll og félagar hans, og þeir höfðu ekki verið eins lengi í trúnni og öldungarnir í Jerúsalem. Söfnuðurinn var ekki einu sinni ársgamall. En safnaðarmenn höfðu ástæðu til að vera þakklátir fyrir að hafa öldungana sem erfiðuðu meðal þeirra, veittu þeim forstöðu og áminntu þá. Það var full ástæða fyrir þá til að sýna öldungunum „sérstaka virðingu og kærleika fyrir starf þeirra“. Strax á eftir hvatti Páll trúsystkini sín til að ,lifa í friði sín á milli‘. Hefðir þú metið öldungana í Þessaloníku mikils fyrir starf þeirra ef þú hefðir tilheyrt söfnuðinum þar? Hvernig líturðu á öldungana sem Guð hefur gefið söfnuðinum þínum fyrir milligöngu Krists? — Ef. 4:8.

„Erfiða á meðal ykkar“

4, 5. Hvað lögðu öldungarnir á sig á dögum Páls til að kenna söfnuðinum og hvers vegna þurfa öldungar einnig að gera það nú á tímum?

4 Hvernig ætli öldungarnir í Þessaloníku hafi ,erfiðað‘ eftir að þeir sendu Pál og Sílas til Beroju? Þeir líktu eflaust eftir Páli og kenndu söfnuðinum með hjálp Ritningarinnar. Þér er ef til vill spurn hvort kristnir menn í Þessaloníku hafi haft mætur á orði Guðs. Það segir nú í Biblíunni að Berojumenn hafi verið „veglyndari“ en Þessaloníkumenn því að þeir „rannsökuðu daglega ritningarnar“. (Post. 17:11) Hér er hins vegar verið að tala um Gyðinga í Þessaloníku almennt en ekki kristna menn þar í borg. Þeir sem tóku trú,veittu viðtöku orði Guðs en ekki sem manna orði heldur sem Guðs orði‘. (1. Þess. 2:13) Öldungarnir hljóta að hafa lagt sig vel fram við að kenna söfnuðinum.

5 Hinn trúi og hyggni þjónn sér fólki Guðs fyrir „mat á réttum tíma“. (Matt. 24:45) Safnaðaröldungar leggja á sig töluverða vinnu undir handleiðslu þjónsins til að sjá trúsystkinum sínum fyrir andlegri fæðu. Safnaðarmenn hafa víðast hvar nóg af biblíutengdum ritum, og á sumum tungumálum eru bæði til ítarlegar efnisskrár og geisladiskurinn Watchtower Library. Öldungarnir nota ófáar klukkustundir til að undirbúa sig svo að þeir geti fullnægt andlegum þörfum safnaðarins og komið sem best til skila þeirri fræðslu sem þeim er falið að sjá um. Hefurðu hugleitt hve mikinn tíma öldungarnir nota til að undirbúa verkefni fyrir samkomur og mót?

6, 7. (a) Hvernig var Páll góð fyrirmynd fyrir öldungana í Þessaloníku? (b) Af hverju getur stundum verið erfitt fyrir öldunga að líkja eftir Páli?

6 Öldungarnir í Þessaloníku mundu vel hvernig Páll hafði gætt hjarðarinnar. Hann hafði ekki sinnt safnaðarmönnum rétt til málamynda eða bara af skyldukvöð. Eins og rætt var í greininni á undan var hann „mildur . . . eins og móðir sem hlúir að börnum sínum“. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.) Hann var meira að segja fús til að gefa þeim sitt eigið líf. Öldungarnir áttu að gæta hjarðarinnar á sama hátt og hann hafði gert.

7 Safnaðaröldungar nú á tímum líkja eftir Páli með því að annast hjörðina vel. Nú er ekki sjálfgefið að sauðirnir séu allir hlýlegir eða viðkunnanlegir að eðlisfari. Engu að síður reyna öldungarnir að sjá hið góða í fari þeirra. Öldungar eru auðvitað ófullkomnir eins og aðrir og það getur verið þrautin þyngri fyrir þá að sjá alla í jákvæðu ljósi. En eiga þeir ekki hrós skilið fyrir að reyna sitt besta til að vera mildir við alla og vera góðir hirðar undir handleiðslu Krists?

8, 9. Nefndu dæmi um hvernig safnaðaröldungar ,vaka yfir sálum okkar‘.

8 Við ættum öll að vera öldungunum „eftirlát“ því að þeir ,vaka yfir sálum okkar‘ eins og Páll skrifaði. (Hebr. 13:17) Orð hans minna á fjárhirðinn sem neitar sér um svefn til að vernda sauðahjörðina. Safnaðaröldungar neita sér stundum um svefn til að liðsinna trúsystkinum sem eru heilsuveil, niðurdregin eða eiga erfitt með að fylgja meginreglum Biblíunnar. Bræður í spítalasamskiptanefndum eru stundum vaktir um miðjar nætur til að sinna aðkallandi vanda trúsystkina. En aðstoð þeirra er afar verðmæt fyrir okkur þegar við eigum í slíkum vanda.

9 Öldungar í svæðisbyggingarnefndum og hjálparstarfsnefndum leggja mikið á sig til að aðstoða bræður og systur. Þeir eiga dyggan stuðning okkar skilið. Tökum sem dæmi hjálparstarf sem fram fór eftir að fellibylurinn Nargis gekk yfir Mjanmar árið 2008. Á óseyrasvæði Irrawaddy-árinnar er söfnuður í þorpinu Bothingone. Til að liðsinna honum ferðaðist hjálparsveit um hamfarasvæði þar sem lík lágu á víð og dreif. Í fyrstu hjálparsveitinni, sem kom á staðinn, var meðal annars fyrrverandi farandhirðir safnaðarins. Þegar bræðurnir á staðnum sáu hjálparsveitina hrópuðu þeir: „Sjáið! Þarna er farandhirðirinn okkar. Jehóva hefur bjargað okkur!“ Kanntu að meta hvernig öldungarnir erfiða dag og nótt? Sumir öldungar eru skipaðir í sérstakar nefndir til að taka fyrir erfið dómnefndarmál. Öldungarnir stæra sig ekki af afrekum sínum en þeir sem njóta góðs af þjónustu þeirra eru sannarlega þakklátir. — Matt. 6:2-4.

10. Hvaða önnur lítt áberandi störf hafa öldungar með höndum?

10 Margir öldungar þurfa líka að vinna ýmiss konar pappírsvinnu. Lítum á nokkur dæmi. Umsjónarmaður öldungaráðsins skipuleggur vikulegar samkomur safnaðarins. Ritarinn tekur saman mánaðarlegar og árlegar starfsskýrslur. Umsjónarmaður skólans skipuleggur dagskrá skólans samviskusamlega. Bókhald safnaðarins er endurskoðað á þriggja mánaða fresti. Öldungarnir lesa bréf frá deildarskrifstofunni og framfylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sem þar er að finna. Þannig stuðla þeir að því að söfnuðurinn sé „einhuga í trúnni“. (Ef. 4:3, 13) Svo er iðjusömum öldungum fyrir að þakka að allt fer „sómasamlega fram og með reglu“. — 1. Kor. 14:40.

„Veita yður forstöðu“

11, 12. Hverjir veita söfnuðinum forstöðu og hvað er fólgið í því?

11 Páll talaði um að öldungarnir í Þessaloníku veittu söfnuðinum „forstöðu“. Orðið, sem svo er þýtt, merkir eiginlega að ,standa frammi fyrir‘. (1. Þess. 5:12) Það voru þessir öldungar sem Páll sagði að erfiðuðu í þágu safnaðarins. Hann var ekki að tala um einn „umsjónarmann í forsæti“ heldur alla öldunga safnaðarins. Flestir öldungar standa frammi fyrir söfnuðinum og stjórna samkomum. Fyrir nokkru var starfsheitinu „umsjónarmaður í forsæti“ breytt í „umsjónarmaður öldungaráðsins“ til að auðvelda okkur að sjá alla öldungana sem eina sameinaða heild.

12 Að ,veita söfnuðinum forstöðu‘ er meira en að kenna. Þetta sama orðasamband er notað í 1. Tímóteusarbréfi 3:4. Páll segir þar að umsjónarmaður eigi að „vera maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu og venur börn sín á hlýðni og alla prúðmennsku“. Hér getur orðasambandið ,veita forstöðu‘ auðvitað ekki merkt það eitt að kenna börnunum. Það felur einnig í sér að fara með forystu í fjölskyldunni og að ,venja börnin sín á hlýðni‘. Öldungarnir fara sem sagt með forystu í söfnuðinum. Þannig hjálpa þeir öllum að vera undirgefnir Jehóva. — 1. Tím. 3:5.

13. Af hverju getur það tekið nokkurn tíma að komast að niðurstöðu á öldungafundi?

13 Til að veita söfnuðinum góða forstöðu ræða öldungarnir hvernig best sé að sinna þörfum hans. Það gæti auðvitað verið skilvirkara að einn öldungur tæki allar ákvarðanir. En öldungarnir taka hið stjórnandi ráð fyrstu aldar til fyrirmyndar með því að ræða málin opinskátt og leita leiðsagnar í Biblíunni. Markmið þeirra er að beita meginreglum Biblíunnar í þágu safnaðarins. Besta leiðin til að gera það er að öldungarnir undirbúi sig hver og einn fyrir öldungafundi með hliðsjón af Biblíunni og leiðbeiningum hins trúa og hyggna þjóns. Þetta tekur auðvitað sinn tíma. Það getur gerst að öldungarnir séu ekki allir á sama máli, rétt eins og gerðist þegar hið stjórnandi ráð fjallaði um umskurnina á fyrstu öld. Þá gætu þeir þurft að gefa sér meiri tíma og kanna málið betur til að komast að sameiginlegri niðurstöðu í samræmi við Biblíuna. — Post. 15:2, 6, 7, 12-14, 28.

14. Af hverju er mikilvægt að öldungaráðið vinni saman sem ein heild?

14 Hvaða áhrif gæti það haft ef einn öldungur reyndi að halda sínum eigin hugmyndum á lofti eða heimtaði að fá vilja sínum framgengt? Eða segjum sem svo að einhver reyndi að valda sundrungu líkt og Díótrefes gerði á fyrstu öld. (3. Jóh. 9, 10) Það myndi koma niður á öllum söfnuðinum. Fyrst Satan reyndi að valda uppnámi í söfnuðinum á fyrstu öld er víst að hann reynir líka að spilla friðinum nú á tímum. Hann höfðar kannski til eigingjarnra hvata eins og framagirni. Öldungarnir þurfa þess vegna að temja sér hógværð og vinna saman sem ein heild. Við metum mikils hógværð öldunganna sem vinna saman á þennan hátt.

„Áminna yður“

15. Af hvaða hvötum áminna öldungarnir stundum bróður eða systur?

15 Páll bendir að síðustu á erfitt en mikilvægt verkefni sem öldungar hafa með höndum: að áminna söfnuðinn. Í Grísku ritningunum er Páll sá eini sem notar grísku sögnina sem er þýdd „áminna“. Hún getur lýst alvarlegum ráðleggingum en gefur ekki til kynna neina óvild. (2. Þess. 3:15) Páll skrifaði til dæmis söfnuðinum í Korintu: „Ég rita þetta ekki til þess að gera ykkur kinnroða heldur til að áminna ykkur eins og elskuleg börn mín.“ (1. Kor. 4:14) Það var ást og umhyggja sem lá að baki áminningum Páls.

16. Hvað ættu öldungarnir að hafa í huga þegar þeir áminna?

16 Öldungarnir hafa hugfast að það skiptir máli hvernig þeir áminna. Þeir leitast við að líkja eftir Páli með því að vera vingjarnlegir, kærleiksríkir og hjálpsamir. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:11, 12.) En þeir eru auðvitað ,fastheldnir við hið áreiðanlega orð til þess að þeir séu færir um að uppörva með hinni heilnæmu kenningu‘. — Tít. 1:5-9.

17, 18. Hvað ættirðu að hafa í huga ef öldungur áminnir þig?

17 Öldungarnir eru auðvitað ófullkomnir og segja kannski eitthvað sem þeir vildu hafa látið ósagt. (1. Kon. 8:46; Jak. 3:8) Þeir vita líka að það er yfirleitt „ekki . . . gleðiefni heldur hryggðar“ að fá tiltal. (Hebr. 12:11) Þegar öldungur kemur að máli við trúsystkini til að áminna er hann eflaust búinn að hugleiða málið vel og lengi og ræða það við Jehóva í bæn. Kanntu að meta kærleika og umhyggju öldungs sem hefur áminnt þig?

18 Segjum sem svo að þú sért veikur en það gangi illa að finna ástæðuna. Að lokum tekst þó lækni að sjúkdómsgreina þig en þú átt frekar erfitt með að kyngja niðurstöðunni. Myndirðu fara í fýlu við lækninn? Nei, þú myndir sennilega sættast á að gangast undir aðgerð sem hann mælti með af því að þú telur að það verði þér til góðs. Viðbrögð þín ráðast kannski að einhverju leyti af því hvernig læknirinn kemur upplýsingunum á framfæri. En myndirðu láta ákvörðun þína stjórnast af því hvernig hann segir þér frá þessu? Trúlega ekki. Að sama skapi ættirðu ekki að fyrtast við það hvernig þú ert áminntur. Láttu það ekki koma í veg fyrir að þú hlýðir á þá sem Jehóva og Jesús nota til að benda þér á hvernig þú getir viðhaldið sambandinu við Jehóva.

Verum Jehóva þakklát fyrir öldungana

19, 20. Hvernig geturðu sýnt að þú sért þakklátur fyrir að Jehóva skuli hafa gefið okkur öldungana?

19 Hvernig myndirðu bregðast við ef þú fengir gjöf sem væri gerð sérstaklega handa þér? Myndirðu sýna þakklæti þitt með því að nota hana? Öldungarnir eru gjöf sem Jehóva hefur gefið þér fyrir milligöngu Jesú Krists. Þú getur meðal annars sýnt að þú sért þakklátur fyrir þessa gjöf með því að hlusta með athygli á ræður öldunganna og reyna síðan að fara eftir því sem þeir benda á. Þú getur líka sýnt þakklæti þitt með því að gefa innihaldsrík svör á samkomum. Styddu þau verkefni þar sem öldungarnir fara með forystu, svo sem boðunarstarfið. Ef ákveðinn öldungur hefur gefið leiðbeiningar sem hafa verið þér til góðs, af hverju ekki að segja honum frá því? Og væri ekki gott að sýna fjölskyldum öldunganna að þú kunnir að meta framlag þeirra? Mundu að fjölskylda öldungs þarf að sjá af honum á ýmsum tímum vegna starfa hans í þágu safnaðarins.

20 Við höfum ærna ástæðu til að sýna að við séum þakklát fyrir öldungana sem erfiða á meðal okkar, veita okkur forstöðu og áminna okkur. Þeir eru gjafir frá Jehóva og vitna um kærleika hans.

Manstu?

• Af hverju gátu kristnir menn í Þessaloníku verið þakklátir fyrir þá sem fóru með forystuna í söfnuðinum?

• Hvernig erfiða öldungarnir fyrir þig?

• Hvernig nýturðu góðs af því að öldungarnir skuli veita söfnuðinum forstöðu?

• Hvað ættirðu að hafa í huga ef öldungur áminnir þig?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 27]

Kanntu að meta þá umhyggju sem öldungarnir sýna á margvíslegan hátt?