Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Hvers vegna reiddist Móse þeim Eleasar og Ítamar, sonum Arons, eftir að bræður þeirra, Nadab og Abíhú, dóu? Hvers vegna sefaðist reiði hans? — 3. Mós. 10:16-20.
Skömmu eftir að prestarnir voru vígðir til embættis tók Jehóva Nadab og Abíhú, syni Arons, af lífi fyrir að hafa borið óhreinan eld fram fyrir hann. (3. Mós. 10:1, 2) Móse fyrirskipaði að eftirlifandi synir Arons skyldu ekki syrgja bræður sína. Stuttu síðar reiddist Móse Eleasar og Ítamar vegna þess að þeir höfðu ekki borðað geithafurinn sem var færður í syndafórn. (3. Mós. 9:3) Hvers vegna brást Móse við á þennan hátt?
Lögin, sem Jehóva gaf Móse, kváðu á um að presturinn, sem bar fram syndafórn, ætti að borða hluta hennar í forgarði samfundatjaldsins. Litið var svo á að með því væri verið að afmá syndir þeirra sem færðu fórnina. Ef hins vegar var farið með eitthvað af blóði fórnardýrsins inn í samfundatjaldið, fremri hluta helgidómsins, átti ekki að neyta fórnarkjötsins heldur brenna það. — 3. Mós. 6:24-26, 30.
Svo virðist sem Móse hafi talið nauðsynlegt að ganga úr skugga um að boðum Jehóva hefði verið fylgt sem skyldi, í ljósi þeirra hörmulegu atburða sem höfðu átt sér stað þennan dag. Þegar hann komst að því að geithafurinn, sem var færður í syndafórn, hafði verið brenndur spurði hann Eleasar og Ítamar reiðilega hvers vegna þeir hefðu ekki neytt kjötsins eins og til var ætlast, þar sem blóðið hafði ekki verið fært fram fyrir Jehóva inn í samfundatjaldið. — 3. Mós. 10:17, 18.
Aron svaraði Móse vegna þess að prestarnir sem voru enn á lífi höfðu augljóslega haft samþykki hans fyrir því sem þeir gerðu. Þar sem tveir synir Arons höfðu verið teknir af lífi má vera að hann hafi efast um að nokkur prestanna gæti með góðri samvisku borðað af syndafórninni þann dag. Kannski fannst honum að Jehóva myndi ekki hafa velþóknun á því þó að þeir bæru ekki beina ábyrgð á synd Nadabs og Abíhú. — 3. Mós. 10:19.
Vera má að Aroni hafi fundist sérlega mikilvægt að ættingjar hans gættu þess vandlega að þóknast Guði í minnstu smáatriðum þar sem þeir voru að sinna fyrstu embættisverkum sínum sem prestar. Nadab og Abíhú höfðu samt vanhelgað nafn Jehóva og reiði hans blossað upp gegn þeim. Aron getur því hafa hugsað með sér að fyrst slík synd hefði verið drýgð í prestsfjölskyldunni ætti hún ekki að neyta af heilagri fórn.
Móse virðist hafa verið sáttur við svar bróður síns því frásögnin endar með þessum orðum: „Þetta svar féll Móse vel.“ (3. Mós. 10:20) Jehóva virðist einnig hafa verið sáttur við svar Arons.