Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kanntu að meta gjafir Jehóva?

Kanntu að meta gjafir Jehóva?

Kanntu að meta gjafir Jehóva?

ÍSRAELSMENN höfðu verið frelsaðir fyrir kraftaverk úr þrælkun í Egyptalandi og glöddust í fyrstu yfir frelsinu sem þeir fengu til að tilbiðja Jehóva. (2. Mós. 14:29–15:1, 20, 21) En ekki leið á löngu þar til viðhorf þeirra breyttist. Þeir byrjuðu að kvarta yfir hlutskipti sínu vegna þess að þeir fóru að hugsa meira um óþægindin í eyðimörkinni en það sem Jehóva hafði gert fyrir þá. Þeir sögðu við Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti [manna].“ — 4. Mós. 21:5.

Öldum síðar söng Davíð Ísraelskonungur: „Ég treysti gæsku þinni, hjarta mitt gleðst yfir hjálp þinni. Ég vil syngja Drottni lof því að hann hefur gert vel til mín.“ (Sálm. 13:6) Davíð gleymdi ekki gæsku Jehóva við sig. Þvert á móti hugsaði hann stöðugt um hana. (Sálm. 103:2) Jehóva hefur einnig gert vel til okkar og það er viturlegt að gera ekki lítið úr því. Við skulum þess vegna líta á nokkrar gjafir Guðs sem við njótum núna.

Náið samband við Jehóva

Sálmaritarinn söng: „Drottinn sýnir þeim trúnað sem óttast hann.“ (Sálm. 25:14) Fyrir ófullkomna menn er það mikill heiður að hafa náið samband við Jehóva. En hvað gerist ef við verðum svo upptekin af daglega lífinu að tíminn til bæna verður minni? Hvað verður þá um hið góða samband okkar við Jehóva? Sem vinur okkar væntir Jehóva þess að við treystum á hann, léttum á hjarta okkar í bæn til hans og tjáum honum ótta okkar, óskir og kvíða. (Orðskv. 3:5, 6; Fil. 4:6, 7) Ættum við þá ekki að staldra við og íhuga hvernig við biðjum?

Þegar Páll, ungur vottur, hugsaði út í hvernig bænir hans voru gerði hann sér ljóst að hann þyrfti að bæta sig. * Hann sagðist hafa tamið sér að endurtaka sömu orðin þegar hann bað til Jehóva. Páll leitaði fanga í efnisskrám Varðturnsins og komst að raun um að hér um bil 180 bænir eru skráðar í Biblíunni. Í þessum bænum tjáðu þjónar Jehóva í fortíðinni leyndustu hugsanir sínar. Páll segir: „Með því að hugleiða þessar bænir í Biblíunni lærði ég að vera markviss í bænum mínum. Þetta hefur hjálpað mér að opna hjarta mitt fyrir Jehóva. Nú hef ég yndi af því að nálgast hann í bæn.“

,Matur á réttum tíma

Önnur gjöf, sem við höfum fengið frá Jehóva, er allur sannleikurinn sem er að finna í Biblíunni. Við höfum ástæðu til að „hrópa af glöðu hjarta“ þegar við gæðum okkur á andlegu fæðunni sem við fáum í ríkum mæli. (Jes. 65:13, 14) En við verðum að vara okkur á óhollum áhrifum sem gætu orðið til þess að við misstum áhugann á sannleikanum. Veitum til dæmis athygli hvernig áróður fráhvarfsmanna getur villt um fyrir okkur. Hann getur blindað okkur fyrir því hve mikilvægt er að fá „mat á réttum tíma“ frá Jehóva fyrir atbeina hins ,trúa og hyggna þjóns‘. — Matt. 24:45-47.

Andrés, sem hafði þjónað Jehóva árum saman, varð fyrir þeirri bitru reynslu að láta skoðanir fráhvarfsmanna afvegaleiða sig. Hann hélt að það væri hættulaust að skima lítillega netsíðu fráhvarfsmanna. Hann segir: „Í fyrstu var ég hrifinn af svokölluðum sannleika sem fráhvarfsmenn töluðu um. Því meira sem ég rannsakaði skrif þeirra því réttlætanlegra fannst mér að yfirgefa söfnuð Jehóva. En seinna þegar ég rannsakaði rök fráhvarfsmanna gegn Vottum Jehóva varð ég þess áskynja hve slóttugir falskennararnir voru. ,Sterku sönnunargögnin‘ gegn okkur reyndust vera upplýsingar sem voru teknar úr samhengi. Því ákvað ég að byrja aftur að lesa ritin okkar og sækja samkomur. Mér varð brátt ljóst að ég hafði misst af miklu.“ Sem betur fer sneri Andrés aftur til safnaðarins.

„Samfélag þeirra sem trúa“

Kærleiksríka bræðrafélagið okkar er blessun frá Jehóva. (Sálm. 133:1) Það var ærin ástæða fyrir því að Pétur postuli skyldi skrifa: „Elskið samfélag þeirra sem trúa.“ (1. Pét. 2:17) Við sem erum hluti kristna bræðrafélagsins njótum hlýju og stuðnings trúsystkina sem eru okkur eins og feður, mæður, bræður og systur. — Markús 10:29, 30.

Ýmiss konar aðstæður geta samt sem áður orðið til þess að spenna myndist í samskiptum okkar við bræður og systur. Til dæmis er auðvelt að láta ófullkomleika annarra fara í taugarnar á sér og verða gagnrýninn í afstöðu sinni til þeirra. Ef svo ber við væri þá ekki gott að hafa í huga að Jehóva elskar þjóna sína þrátt fyrir ófullkomleika þeirra? Við það bætist að „ef við segjum: ,Við höfum ekki synd,‘ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur“. (1. Jóh. 1:8) Eigum við ekki að keppa að því að ,umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru‘? — Kól. 3:13.

Ung kona að nafni Anna lærði af biturri reynslu hve kristni söfnuðurinn er mikils virði. Það fór fyrir henni líkt og týnda syninum í dæmisögu Jesú, hún fjarlægðist kristna söfnuðinn. Seinna kom hún til sjálfrar sín og sneri aftur til sannleikans. (Lúk. 15:11-24) Hvað lærði Anna af þessari reynslu? Hún segir: „Núna hef ég snúið aftur til safnaðar Jehóva og met mikils öll trúsystkini mín þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. Áður fyrr var ég fljót að setja út á þau. En núna er ég ákveðin í að láta ekkert ræna mig þeirri hamingju sem ég nýt á meðal þeirra. Ekkert í heiminum er þess virði að fórna andlegu paradísinni fyrir það.“

Verum ávallt þakklát fyrir gjafir Jehóva

Von okkar um að Guðsríki leysi öll vandamál mannanna er ómetanlegur fjársjóður. Við fylltumst þakklæti þegar við öðluðumst fyrst þá von. Okkur leið eins og kaupmanninum í dæmisögu Jesú sem „seldi allt sem hann átti“ til þess að kaupa „eina dýrmæta perlu“. (Matt. 13:45, 46) Jesús sagði ekki að kaupmaðurinn hefði nokkurn tíma misst sjónar á því hve dýrmæt perlan var. Eins skulum við aldrei missa sjónar á því hve dýrmæta von við höfum. — 1. Þess. 5:8; Hebr. 6:19.

Lítum á Jean sem hefur þjónað Jehóva í meira en 60 ár. Hún segir: „Það sem hefur hjálpað mér að hafa Guðsríki alltaf efst í huga er að tala um það við aðra. Að sjá augu annarra ljóma þegar þeir skilja hvað Guðsríki er hefur jákvæð áhrif á mig. Og að sjá breytingarnar, sem sannleikur Biblíunnar hefur á líf biblíunemenda, minnir mig á hvað ég hef dásamlegan sannleika að miðla öðrum.“

Við höfum fulla ástæðu til að vera þakklát fyrir allar gjafirnar sem Jehóva hefur gefið okkur. Þótt við verðum kannski að þola prófraunir eins og andstöðu, veikindi, elli, þunglyndi, ástvinamissi og fjárhagserfiðleika vitum við að það er tímabundið. Í Guðsríki fáum við líkamlegar gjafir auk þeirra andlegu. Öllum þjáningunum, sem við verðum að þola núna, verður útrýmt í nýja heiminum. — Opinb. 21:4.

Þangað til skulum við vera ánægð með þær andlegu gjafir sem við fáum og sýna sams konar þakklæti og sálmaritarinn sem söng: „Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert jafnast á við þig. Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau, en þau eru fleiri en tölu verði á komið.“ — Sálm. 40:6.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Nöfnum hefur verið breytt.

[Mynd á bls. 18]

Okkur er gefinn andlegur styrkur í prófraunum.