Elskaðu réttlæti af öllu hjarta
Elskaðu réttlæti af öllu hjarta
„Þú elskar réttlæti.“ — SÁLM. 45:8.
1. Hvað hjálpar okkur að ganga „rétta vegu“?
JEHÓVA leiðir fólk sitt „um rétta vegu“ með orði sínu og heilögum anda. (Sálm. 23:3) En við erum ófullkomin og okkur hættir því til að víkja af þessum vegi. Við þurfum að vera einbeitt og ákveðin til að komast aftur inn á rétta braut. Hvað hjálpar okkur til þess? Við þurfum, alveg eins og Jesús, að elska réttlætið og vilja gera rétt. — Lestu Sálm 45:8.
2. Hvað er átt við þegar talað er um „rétta vegu“?
2 Hvað er átt við þegar talað er um „rétta vegu“? Hér er dregin líking af mjóum gangstíg eða slóð. Leiðin markast af réttlátum mælikvarða Jehóva. Í hebresku og grísku vísa orðin, sem eru þýdd „réttur“ og „réttlæti“, til þess að fylgja siðferðisreglum Guðs í einu og öllu. Þar sem Jehóva er kallaður „haglendi réttlætisins“ eru þjónar hans meira en fúsir til að láta hann ákveða hvaða leið sé siðferðilega rétt að fara. — Jer. 50:7.
3. Hvernig getum við lært meira um réttlæti Guðs?
3 Við getum ekki þóknast Guði í einu og öllu nema við leggjum okkur fram um að fylgja réttlátum reglum hans og gerum það af öllu hjarta. (5. Mós. 32:4) Fyrsta skrefið er að læra allt sem við getum um Jehóva Guð af innblásnu orði hans, Biblíunni. Því meira sem við lærum um hann og styrkjum tengslin við hann því meira elskum við réttlæti hans. (Jak. 4:8) Við þurfum líka að þiggja leiðsögn Biblíunnar þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir í lífinu.
Leitaðu réttlætis Guðs
4. Hvað er fólgið í því að leita réttlætis Guðs?
4Lestu Matteus 6:33. Að leita réttlætis Guðs er meira en að nota tímann til að boða fagnaðarerindið um ríkið. Til að Jehóva hafi velþóknun á heilagri þjónustu okkar þurfum við að hegða okkur dagsdaglega í samræmi við háleitan mælikvarða hans. Hvað þurfa allir að gera sem leita réttlætis Jehóva? Þeir þurfa að „íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt“. — Ef. 4:24.
5. Hvað getum við gert þegar við verðum niðurdregin?
5 Þó að við gerum okkar besta til að fylgja réttlátum lífsreglum Guðs getum við stundum orðið niðurdregin yfir því hve ófullkomin við erum. Hvernig getum við lært að elska og ástunda réttlæti og komið í veg fyrir að við verðum svo niðurdregin að okkur fallist hugur? (Orðskv. 24:10) Við þurfum að leita oft til Jehóva í bæn „með einlægum hjörtum“ og „í öruggu trúartrausti“. (Hebr. 10:19-22) Hvort sem við erum andasmurð eða höfum jarðneska von trúum við á lausnarfórn Jesú Krists, og við trúum að hann þjóni sem æðsti prestur á himnum. (Rómv. 5:8; Hebr. 4:14-16) Í fyrsta tölublaði þessa tímarits var dregin upp líking til að sýna fram á áhrifin af úthelltu blóði Jesú. (1. Jóh. 1:6, 7) Þar stóð: „Staðreynd er að dimmrauður eða skarlatsrauður hlutur virðist hvítur þegar horft er á hann gegnum rautt gler í ljósi. Þó að syndir okkar séu dimmrauðar eða skarlatsrauðar eru þær álitnar hvítar þegar horft er á þær frá sjónarhóli Guðs gegnum blóð Krists.“ (Júlí 1879, bls. 6) Er ekki stórkostlegt að Jehóva skuli hafa greitt lausnargjaldið fyrir okkur með fórn sonar síns? — Jes. 1:18.
Gættu að andlegu herklæðunum
6. Af hverju er mikilvægt að gæta að andlegu herklæðunum?
6 Við þurfum alltaf að vera „klædd réttlætinu sem brynju“ vegna þess að það er ómissandi hluti af andlegu herklæðunum sem Guð gefur okkur. (Ef. 6:11, 14) Hvort sem við vígðum okkur Jehóva nýlega eða höfum þjónað honum áratugum saman er mikilvægt að gæta daglega að andlegu herklæðunum. Af hverju? Af því að Satan og illu öndunum hefur verið varpað niður til jarðar. (Opinb. 12:7-12) Satan er reiður og hann veit að hann hefur nauman tíma. Hann gerir því enn harðari árásir á fólk Guðs. Gerum við okkur grein fyrir hve mikilvægt er að vera „klædd réttlætinu sem brynju“?
7. Hvernig hegðum við okkur ef við höfum hugfast að við þurfum að vera „klædd réttlætinu sem brynju“?
7 Brynja verndar hjartað. Þar sem við erum ófullkomin er hætta á að hið táknræna hjarta sé svikult. (Jer. 17:9) Úr því að hjartað hefur tilhneigingu til að gera rangt er mikilvægt að þjálfa það og aga. (1. Mós. 8:21) Ef við gerum okkur grein fyrir að við þurfum að vera „klædd réttlætinu sem brynju“ dettur okkur ekki í hug að fara úr henni um stund með því að velja okkur skemmtiefni af því tagi sem Jehóva hatar. Við leyfum okkur ekki heldur að gæla við það í huganum að gera eitthvað rangt. Við sóum ekki dýrmætum tíma með því að sitja óhóflega fyrir framan sjónvarpið heldur gerum allt sem við getum til að þóknast Jehóva. Og jafnvel þó að við hrösuðum eitt augnablik með því að láta ranglátar hugsanir ná tökum á okkur myndum við standa upp aftur með hjálp Jehóva. — Lestu Orðskviðina 24:16.
8. Af hverju þurfum við „skjöld trúarinnar“?
8 Af öðrum þáttum andlegu herklæðanna má nefna „skjöld trúarinnar“ en með honum getum við „slökkt . . . öll logandi skeyti hins vonda“. (Ef. 6:16) Trú og innilegur kærleikur til Jehóva hjálpa okkur síðan að stunda réttlæti og halda okkur á veginum til eilífa lífsins. Því heitar sem við elskum Jehóva því meira metum við réttlæti hans. En hvað um samviskuna? Hvernig hjálpar hún okkur að elska réttlætið?
Varðveittu góða samvisku
9. Hvernig er það okkur til góðs að hafa hreina samvisku?
9 Þegar við létum skírast báðum við Jehóva að gefa okkur „góða samvisku“. (1. Pét. 3:21) Þar sem við trúum á lausnargjaldið breiðir blóð Jesú yfir syndir okkar og við stöndum hrein frammi fyrir Guði. Til að halda okkur hreinum þurfum við hins vegar að varðveita góða samvisku. Ef samviskan ásakar okkur stundum eða lætur í sér heyra skulum við vera þakklát fyrir að hún skuli starfa eðlilega. Þegar hún ýtir við okkur gefur það til kynna að hún sé ekki orðin ónæm fyrir réttlátum vegum Jehóva. (1. Tím. 4:2) En samviskan getur líka gegnt öðru hlutverki hjá þeim sem elska réttlætið.
10, 11. (a) Segðu frásögu sem minnir á nauðsyn þess að hlýða biblíufræddri samvisku sinni. (b) Hvers vegna getur réttlætisást verið okkur til mikillar gleði?
10 Þegar við gerum eitthvað rangt má búast við að samviskan dæmi okkur eða ásaki. Unglingur nokkur fór út af réttri braut. Hann ánetjaðist klámi og fór að reykja marijúana. Hann fann til sektarkenndar þegar hann fór á samkomur og fannst hann vera hræsnari þegar hann fór í boðunarstarfið. Hann hætti því að taka þátt í starfi safnaðarins. „En mig óraði ekki fyrir því,“ segir hann, „að samviskan myndi gera mig ábyrgan fyrir verkum mínum.“ Hann bætir við: „Ég hélt heimskunni áfram í ein fjögur ár.“ Þá fór hann að íhuga að snúa aftur til safnaðarins. Hann bað Jehóva að fyrirgefa sér þótt hann væri vantrúaður á að fá bænheyrslu. Innan við tíu mínútum síðar kom móðir hans í heimsókn og hvatti hann til að koma á samkomu. Hann gerði það og bað öldung að aðstoða sig við biblíunám. Þegar fram liðu stundir lét hann skírast og hann er Jehóva þakklátur fyrir að bjarga lífi sínu.
11 Höfum við ekki upplifað hve ánægjulegt það getur verið að gera rétt? Þegar við lærum að elska réttlætið og stunda það enn betur höfum við meiri ánægju af því að gera það sem gleður föðurinn á himnum. Og hugsaðu þér — sá dagur rennur upp að samviskan vekur ekkert nema hreina ánægjukennd hjá mönnum. Þeir endurspegla þá fullkomlega eiginleika Guðs. Við skulum því láta réttlætisástina festa djúpar rætur í hjörtum okkar og gleðja Jehóva þar með. — Orðskv. 23:15, 16.
12, 13. Hvernig getum við þjálfað samviskuna?
12 Hvernig getum við þjálfað samviskuna? Þegar við lesum og hugleiðum Biblíuna og biblíutengd rit er mikilvægt að hafa hugfast að „hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli“. (Orðskv. 15:28) Þetta er meðal annars til góðs þegar við hugleiðum hvort við getum þegið ákveðna vinnu. Ef einhver vinna stangast greinilega á við mælikvarða Biblíunnar erum við flest fljót til að fylgja leiðbeiningum hins trúa og hyggna þjóns. Ef ekki liggur í augum uppi hvaða afstöðu eigi að taka til vinnu þarf hins vegar að skoða hvaða meginreglur Biblíunnar eiga við, hugleiða þær og gera að bænarefni. * Þetta gætu meðal annars verið meginreglur eins og sú að særa ekki samvisku annarra. (1. Kor. 10:31-33) Við ættum að láta okkur sérstaklega annt um meginreglur sem lúta að sambandi okkar við Guð. Ef Jehóva er okkur raunverulegur byrjum við á því að spyrja okkur hvort við myndum særa hann með því að vinna þessa vinnu. — Sálm. 78:40, 41, Biblían 1981.
13 Þegar við búum okkur undir Varðturnsnámið eða safnaðarbiblíunámið ættum við að hafa hugfast að við þurfum að hugleiða efnið. Erum við vön að strika bara í fljótheitum undir svarið við spurningunni og snúa okkur síðan að næstu tölugrein? Það er ólíklegt að sjálfsnám af þessu tagi styrki réttlætisástina eða þroski með okkur næma samvisku. Til að elska réttlætið þurfum við að vera góðir biblíunemendur og hugleiða vel það sem við lesum í orði Guðs. Ef við viljum læra að elska réttlætið af öllu hjarta er ekki hægt að stytta sér leið.
Að hungra og þyrsta eftir réttlætinu
14. Hvernig vilja Jehóva Guð og Jesús Kristur að við lítum á þjónustuna?
14 Jehóva Guð og Jesús Kristur vilja að við séum glöð og ánægð í þjónustu þeirra. Hvernig getum við stuðlað að því? Nú, meðal annars með því að elska réttlætið. Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða.“ (Matt. 5:6) Hvað þýða þessi orð fyrir þá sem þrá réttlætið?
15, 16. Hvernig er hægt að seðja andlegt hungur og þorsta?
15 Heimurinn, sem við búum í, er undir stjórn hins vonda. (1. Jóh. 5:19) Það er sama hvar í heiminum við lítum í dagblað — alls staðar eru sagðar fréttir af ótrúlegri grimmd og skefjalausu ofbeldi. Það vekur óhug hinna réttlátu að íhuga grimmdarverk mannanna. (Préd. 8:9) Við sem elskum Jehóva vitum að hann einn getur satt andlegt hungur og þorsta þeirra sem þrá að læra réttlætið. Löglausir menn hverfa bráðlega af sjónarsviðinu og hinir réttlátu þurfa þá ekki að þjást lengur vegna vonskuverka þeirra. (2. Pét. 2:7, 8) Það verður ólýsanlegur léttir!
16 Við sem þjónum Jehóva og fylgjum Jesú Kristi gerum okkur grein fyrir að allir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu „munu saddir verða“. Það gerist þegar fyrirætlun Guðs um nýjan himin og nýja jörð nær fram að ganga því að þar á réttlætið að búa. (2. Pét. 3:13) Við skulum því ekki missa móðinn eða furða okkur á að kúgunin og ofbeldið skuli hafa náð yfirhöndinni í heimi Satans. (Préd. 5:7) Jehóva, hinn hæsti, veit hvað á sér stað og frelsar innan skamms alla sem unna réttlætinu.
Það er til góðs að elska réttlætið
17. Hvaða blessun fylgir því að elska réttlætið?
17 Í Sálmi 146:8 er bent á einstaka umbun sem fylgir því að ganga götu réttlætisins. Sálmaskáldið söng: „Drottinn elskar réttláta.“ Hugsaðu þér. Drottinn alheims elskar okkur ef við elskum réttlætið. Þar sem Jehóva elskar okkur treystum við að hann sjái fyrir okkur þegar við þjónum honum og ríki hans framar öðru. (Lestu Sálm 37:25; Orðskviðina 10:3.) Að síðustu verður öll jörðin byggð þeim sem unna réttlætinu. (Orðskv. 13:22) Þeir sem ástunda réttlætið hljóta langflestir þau laun að búa við takmarkalausa gleði og eilíft líf í unaðslegri paradís á jörð. Og þeir sem elska réttlæti Guðs hljóta nú þegar þá umbun að eiga innri frið sem stuðlar að sátt og samlyndi í fjölskyldunni og söfnuðinum. — Fil. 4:6, 7.
18. Hvað þurfum við að gera meðan við bíðum eftir degi Jehóva?
18 Við verðum að halda áfram að leita réttlætis Jehóva meðan við bíðum eftir að hinn mikli dagur hans renni upp. (Sef. 2:2, 3) Við skulum því sýna í verki að við elskum réttláta vegu hans. Það felur í sér að vera alltaf „klædd réttlætinu sem brynju“ til að vernda hið táknræna hjarta. Við þurfum einnig að varðveita góða samvisku þannig að okkur líði vel og við gleðjum hjarta Guðs. — Orðskv. 27:11.
19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera og um hvað er fjallað í næstu grein?
19 „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kron. 16:9) Þetta er ákaflega traustvekjandi í heimi sem einkennist af síauknum óstöðugleika, ofbeldi og illsku. Auðvitað getur það vakið furðu fjöldans, sem er fjarlægur Guði, að við skulum ástunda réttlæti. En það er ákaflega gott og ánægjulegt fyrir okkur að fylgja réttlæti Jehóva. (Jes. 48:17; 1. Pét. 4:4) Við skulum því vera staðráðin í að elska réttlætið og ástunda það af heilum huga og hjarta. En til að vera heilshugar þurfum við einnig að hata ranglætið. Í greininni á eftir kemur fram hvað það þýðir.
[Neðanmáls]
^ gr. 12 Fjallað er um meginreglur Biblíunnar varðandi vinnu í Varðturninum 1. maí 1999, bls. 29, 30.
Hvert er svarið?
• Af hverju þurfum við að skilja gildi lausnargjaldsins til að elska réttlætið?
• Hvers vegna er mikilvægt að vera „klædd réttlætinu sem brynju“?
• Hvernig getum við þjálfað og uppfrætt samviskuna?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 26]
Uppfrædd samviska hjálpar okkur að taka ákvarðanir í sambandi við vinnu.