Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitið fyrst réttlætis hans

Leitið fyrst réttlætis hans

Leitið fyrst réttlætis hans

„Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — MATT. 6:33.

1, 2. Hvað er réttlæti Guðs og á hverju byggist það?

„LEITIÐ fyrst ríkis hans.“ (Matt. 6:33) Vottar Jehóva þekkja mætavel þessa hvatningu Jesú Krists sem er að finna í fjallræðunni. Á öllum sviðum lífsins reynum við að láta í ljós að við elskum ríki Guðs og viljum sýna því hollustu. En við þurfum líka að hafa í huga síðari hluta hvatningarinnar þar sem Jesús nefnir „réttlæti“ Guðs. Hvað er átt við þegar talað er um réttlæti Guðs og hvað merkir það að leita þess fyrst?

2 Frummálsorðið, sem er þýtt „réttlæti“, má einnig þýða „réttvísi“ eða „ráðvendni“. Réttlæti Guðs er því hið sama og ráðvendni samkvæmt mælikvarða hans og gildismati. Þar sem Jehóva er skapari alls hefur hann þann rétt að ákveða hvað sé gott og illt og hvað sé rétt og rangt. (Opinb. 4:11) Réttlæti Guðs er hins vegar ekki samnefnari fyrir ströng og stíf lög eða endalaus boð og bönn. Það er öllu heldur byggt á persónuleika Jehóva og einum höfuðeiginleika hans, réttvísi, ásamt höfuðeiginleikunum kærleika, visku og mætti. Réttlæti Guðs tengist því vilja hans og fyrirætlun. Það nær yfir allt sem hann ætlast til af þeim sem þrá að þjóna honum.

3. (a) Hvað merkir það að leita fyrst réttlætis Guðs? (b) Af hverju fylgjum við réttlátum mælikvarða Jehóva?

3 Hvað merkir það að leita fyrst réttlætis Guðs? Það merkir einfaldlega að gera vilja Guðs til að þóknast honum. Að leita réttlætis hans felur í sér að reyna að lifa í samræmi við gildismat hans og fullkomna mælikvarða en ekki okkar eigin. (Lestu Rómverjabréfið 12:2.) Þessi lífsstefna er nátengd sambandi okkar við Jehóva. Málið snýst ekki um að hlýða lögum hans af ótta við refsingu. Við reynum öllu heldur að þóknast Guði af því að við elskum hann, og það er okkur hvöt til að fylgja mælikvarða hans og forðast að setja okkar eigin mælikvarða. Við vitum að það er rétt að gera þetta vegna þess að við erum sköpuð til þess. Við verðum að elska réttlætið líkt og Jesús, konungur Guðsríkis. — Hebr. 1:8, 9.

4. Af hverju er mikilægt að leita réttlætis Jehóva?

4 Hve mikilvægt er að leita réttlætis Jehóva? Lítum á eftirfarandi: Prófið, sem Jehóva lagði fyrir Adam og Evu í Eden, snerist um það hvort þau viðurkenndu rétt hans til að setja mönnunum mælikvarða til að fylgja. (1. Mós. 2:17; 3:5) Þau gerðu það hins vegar ekki og það kallaði þjáningar og dauða yfir okkur sem erum afkomendur þeirra. (Rómv. 5:12) Hins vegar segir í orði Guðs: „Sá sem ástundar réttlæti og kærleika, hann öðlast líf, réttlæti og heiður.“ (Orðskv. 21:21, Biblían 1981) Ef við leitum fyrst réttlætis Guðs eignumst við gott samband við hann og það veitir okkur síðan hjálpræði. — Rómv. 3:23, 24.

Hættan á að verða réttlátur að eigin mati

5. Hvaða hættu þurfum við að varast?

5 Í bréfi til kristinna manna í Róm benti Páll postuli á hættu sem við þurfum öll að varast ef við viljum leita fyrst réttlætis Guðs. Páll sagði um samlanda sína, Gyðinga: „Það ber ég þeim að þeir eru heitir í trú sinni á Guð en skortir réttan skilning. Þeir þekkja ekki réttlætið, sem Guð gefur, og reyna því að ávinna sér réttlæti sjálfir. Því hafa þeir ekki gefið sig á vald réttlætinu frá Guði.“ (Rómv. 10:2, 3) Að sögn Páls vildu þessir Gyðingar tilbiðja Guð en skildu ekki réttlæti hans vegna þess að þeir voru uppteknir af því að reyna að ávinna sér réttlæti sjálfir. *

6. Hvaða hugarfar ættum við að forðast og af hverju?

6 Við gætum gengið í þessa gildru ef við færum að líta á þjónustu okkar við Guð sem samkeppni og bera okkur saman við aðra. Þetta hugarfar gæti hæglega valdið því að við færum að treysta um of á eigin getu. En ef við gerðum það værum við búin að gleyma réttlæti Jehóva. (Gal. 6:3, 4) Eina viðeigandi hvötin til að gera rétt er kærleikur til Jehóva. Ef við reyndum á einhvern hátt að sýna fram á okkar eigið réttlæti gæti það gert kærleika okkar til Guðs að engu. — Lestu Lúkas 16:15.

7. Hvernig reyndi Jesús að leiðrétta þá sem voru réttlátir að eigin mati?

7 Jesús hafði áhyggjur af þeim sem „treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra“. Hann sagði eftirfarandi dæmisögu til að reyna að leiðrétta þá sem voru réttlátir að eigin mati: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður. Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast. En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“ Síðan sagði Jesús: „Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ — Lúk. 18:9-14.

Önnur hætta — að verða „um of réttlátur“

8, 9. Hvað merkir það að vera „um of réttlátur“ og út í hvað getur það leitt okkur?

8 Í Prédikaranum 7:16 er lýst annarri hættu sem við þurfum að varast. Þar segir: „Vertu ekki um of réttlátur og stærðu þig ekki af speki, hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ Hinn innblásni biblíuritari nefnir síðan í 20. versinu af hverju við ættum að forðast þetta hugarfar. Hann segir: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ Sá sem verður „um of réttlátur“ setur sinn eigin mælikvarða á réttlæti og dæmir svo aðra eftir því. Hann gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því að þar með tekur hann eigin viðmið fram yfir mælikvarða Guðs og gerir sig ranglátan í augum hans.

9 Ef við værum ,um of réttlát‘ gætum við farið að véfengja að Jehóva taki rétt á málum. Við þurfum hins vegar að hafa hugfast, að ef við drögum í efa að ákvarðanir Jehóva séu sanngjarnar eða réttar erum við í rauninni að taka okkar eigið réttlæti fram yfir mælikvarða hans. Það er eins og við séum að leiða Jehóva fyrir rétt og dæma hann eftir okkar eigin mælikvarða um rétt og rangt. Það er hins vegar Jehóva einn sem hefur réttinn til að ákveða hvað sé réttlátt. — Rómv. 14:10.

10. Hvað gæti orðið til þess að við dæmdum Guð líkt og Job gerði?

10 Enda þótt ekkert okkar ætli sér af ásettu ráði að dæma Guð getur ófullkomleikinn orðið til þess að við gerum það. Þetta getur hæglega gerst ef við verðum vitni að einhverju sem okkur finnst ósanngjarnt eða ef við lendum sjálf í erfiðleikum. Hinn trúfasti Job gerði jafnvel þessi mistök. Í byrjun er sagt um hann að hann hafi verið ,ráðvandur og réttlátur, óttast Guð og forðast illt‘. (Job. 1:1) Síðan varð Job fyrir margs konar ógæfu sem honum fannst vera ósanngjörn. Það varð til þess að hann „taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði“. (Job. 32:1, 2, Biblían 1981) Það þurfti að leiðrétta sjónarmið hans. Það ætti því ekki að koma okkur á óvart ef við hugsum stundum svipað og Job. Hvernig getum við leiðrétt hugsun okkar ef það gerist?

Við þekkjum ekki alltaf alla málavexti

11, 12. (a) Hvað þurfum við að hafa hugfast ef okkur finnst eitthvað ósanngjarnt? (b) Af hverju gæti einhverjum þótt dæmisaga Jesú um verkamennina í víngarðinum lýsa ósanngirni?

11 Það fyrsta, sem við þurfum að hafa hugfast, er að við þekkjum ekki alltaf alla málavexti. Þannig var það hjá Job. Hann vissi ekki að synir Guðs, englarnir, höfðu gengið fram fyrir Guð á himnum og Satan hafði borið hann röngum sökum. (Job. 1:7-12; 2:1-6) Job vissi ekki að það var Satan sem bar ábyrgð á erfiðleikum hans. Við vitum ekki einu sinni hvort Job vissi nákvæmlega hver Satan var. Hann gerði því ranglega ráð fyrir að erfiðleikar sínir væru Guði að kenna. Það er hægðarleikur að draga rangar ályktanir þegar við þekkjum ekki alla málavexti.

12 Við skulum líta á dæmisögu Jesú um verkamennina í víngarðinum. (Lestu Matteus 20:8-16.) Í dæmisögunni segir Jesús frá húsbónda nokkrum sem greiddi öllum verkamönnum sínum sömu laun, hvort sem þeir unnu heilan vinnudag eða aðeins eina klukkustund. Hvað finnst þér um það? Virðist þér það sanngjarnt? Kannski finnurðu strax til með verkamönnunum sem unnu allan daginn í brennheitri sólinni. Áttu þeir ekki skilið að fá hærri laun en hinir? Ef við ályktum sem svo mætti líta svo á að húsbóndinn hafi verið kærleikslaus og ósanngjarn. Þegar litið er á hvernig hann svaraði verkamönnunum sem kvörtuðu, gæti okkur jafnvel virst hann vera gerræðislegur og misbeita valdi sínu. En þekkjum við alla málavexti?

13. Frá hvaða sjónarhóli mætti skoða dæmisögu Jesú um verkamennina í víngarðinum?

13 Við skulum nú horfa á dæmisöguna frá öðrum sjónarhóli. Húsbóndinn vissi eflaust að allir þessir menn þurftu að sjá fjölskyldu sinni farborða. Á dögum Jesú var venja að greiða landbúnaðarverkamönnum laun að loknum hverjum vinnudegi. Fjölskyldur þeirra reiddu sig á að launin væru greidd daglega. Með þetta í huga skulum við líta á aðstæður þeirra sem húsbóndinn fann síðla dags og unnu þar af leiðandi aðeins eina klukkustund. Sennilega hefðu þeir ekki getað séð fyrir fjölskyldunni ef þeir hefðu aðeins fengið greitt fyrir eina klukkustund. Þeir höfðu verið tilbúnir til að vinna og höfðu beðið allan daginn eftir að vera ráðnir í vinnu. (Matt. 20:1-7) Það var ekki þeirra sök að þeir fengu ekki að vinna heilan vinnudag. Ekkert bendir til þess að þeir hafi af ásettu ráði reynt að koma sér hjá því að vinna. Hugsaðu þér að þú þyrftir að bíða allan daginn, vitandi að aðrir ættu afkomu sína undir því sem þú þénaðir þann daginn. Þú yrðir eflaust þakklátur að fá eitthvað að gera — og að sama skapi forviða að fá greitt nóg til að fjölskyldan hefði til hnífs og skeiðar.

14. Hvaða verðmæta lærdóm má draga af dæmisögunni um verkamennina í víngarðinum?

14 Við skulum nú skoða á nýjan leik það sem húsbóndinn gerði. Hann borgaði engum af verkamönnunum of lítið. Hann leit svo á að þeir ættu allir rétt á að búa við mannsæmandi kjör. Jafnvel þótt líta megi svo á að framboð á vinnuafli hafi verið meira en nóg notfærði hann sér það ekki til að bjóða lægri laun en sanngjarnt var. Allir verkamennirnir sneru heim aftur með næg laun til að fjölskyldan hefði í sig og á. Ef við höfum þetta í huga þegar við skoðum málið fáum við ef til vill aðra sýn á það sem húsbóndinn gerði. Hann sýndi verkamönnunum kærleika og var hvorki gerræðislegur né misbeitti valdi sínu. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Ef við skoðum málsatvik aðeins að hluta til gætum við dregið rangar ályktanir. Þessi dæmisaga leggur áherslu á hve réttlæti Guðs er háleitt enda byggist það ekki eingöngu á lögum og reglum né því hvort menn eigi það skilið.

Takmörkuð eða röng sýn

15. Af hverju getum við haft ranga sýn á það hvað sé sanngjarnt?

15 Við þurfum að hafa annað í huga þegar við horfum á mál þar sem okkur virðist eitthvað vera ósanngjarnt. Við getum haft ranga eða takmarkaða sýn. Ófullkomleiki, fordómar eða uppruni geta brenglað sjónarmið okkar. Okkur eru líka takmörk sett af því að við sjáum ekki hvaða hvatir bærast innra með fólki eða hvað býr í hjörtum þess. Jehóva og Jesú eru hins vegar engin slík takmörk sett. — Orðskv. 24:12; Matt. 9:4; Lúk. 5:22.

16, 17. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að Jehóva framfylgdi ekki lögunum um hórdóm þegar Davíð syndgaði með Batsebu?

16 Við skulum brjóta til mergjar frásöguna af því þegar Davíð drýgði hór með Batsebu. (2. Sam. 11:2-5) Samkvæmt Móselögunum voru þau dauðasek. (3. Mós. 20:10; 5. Mós. 22:22) Þótt Jehóva hafi refsað þeim framfylgdi hann ekki lögunum sem hann hafði sett. Var það ósanngjarnt af hans hálfu? Hyglaði hann Davíð og gekk hann þvert gegn réttlátum mælikvarða sínum? Sumum lesendum Biblíunnar hefur fundist það.

17 Jehóva hafði hins vegar gefið ófullkomnum dómurum þetta lagaákvæði um hórdóm, en þeir gátu ekki séð hvað bjó í hjörtum fólks. Þótt þeim væru takmörk sett gerði þetta ákvæði þeim kleift að vera sjálfum sér samkvæmir í dómum. Jehóva getur hins vegar séð hvað býr í hjörtum fólks. (1. Mós. 18:25; 1. Kron. 29:17) Við ættum því ekki að hugsa sem svo að Jehóva þurfi að vera bundinn af lögum sem hann setti handa ófullkomnum dómurum til að dæma eftir. Væri það ekki sambærilegt við það að neyða manneskju með góða sjón til að ganga með gleraugu sem væru gerð til að leiðrétta slæma sjón? Jehóva gat lesið hjörtu Davíðs og Batsebu og sá að þau iðruðust innilega. Hann tók mið af því og dæmdi þau í samræmi við það, af miskunn og kærleika.

Höldum áfram að leita réttlætis Jehóva

18, 19. Hvað hjálpar okkur að dæma aldrei Jehóva eftir okkar eigin mælikvarða á réttlæti?

18 Ef við því rekumst á eitthvað — annaðhvort í biblíulestri okkar eða eigin lífi — sem okkur finnst ósanngjarnt af hálfu Jehóva skulum við aldrei dæma hann eftir okkar eigin mælikvarða á réttlæti. Munum að við þekkjum ekki alltaf alla málavexti og að við getum haft takmarkaða eða ranga sýn. Gleymum aldrei að „reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs“. (Jak. 1:19, 20) Þá munum við aldrei ,kenna Drottni um‘ þó að okkur finnst eitthvað ósanngjarnt. — Orðskv. 19:3.

19 Við skulum líkja eftir Jesú og alltaf viðurkenna að Jehóva einn hefur réttinn til að ákveða hvað sé réttlátt og gott. (Mark. 10:17, 18) Kappkostum að afla okkur nákvæmrar þekkingar og fá „réttan skilning“ á mælikvarða hans. (Rómv. 10:2; 2. Tím. 3:7) Með því að viðurkenna mælikvarða Jehóva og laga líf okkar að vilja hans sýnum við að við leitum fyrst réttlætis hans. — Matt. 6:33.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Að sögn fræðimanns getur frummálsorðið, sem er þýtt „ávinna sér“, einnig merkt að „reisa minnisvarða“. Þessir Gyðingar voru í reynd að reisa táknrænan minnisvarða sjálfum sér til lofs en ekki Guði.

Manstu?

• Af hverju er mikilvægt að leita réttlætis Jehóva?

• Hvaða tvær hættur þurfum við að forðast?

• Hvernig getum við leitað fyrst réttlætis Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 9]

Hvað má læra af dæmisögu Jesú um mennina tvo sem báðust fyrir í musterinu?

[Mynd á bls. 10]

Var það ósanngjarnt að greiða verkamönnunum, sem unnu eina stund, sömu laun og þeim sem unnu allan daginn?