Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús vegsamar réttlæti Guðs

Jesús vegsamar réttlæti Guðs

Jesús vegsamar réttlæti Guðs

„Guð bendir á blóð [Krists] sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt.“ — RÓMV. 3:25.

1, 2. (a) Hvað segir í Biblíunni um ástand mannkyns? (b) Hvaða spurningar eru skoðaðar í þessari grein?

FRÁSÖGN Biblíunnar af uppreisninni í Eden er alþekkt. Öll finnum við fyrir áhrifunum af synd Adams eins og lýst er í þessu versi: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómv. 5:12) Hversu mjög sem við streitumst við að gera rétt mistekst okkur og við þurfum á fyrirgefningu Guðs að halda. Páll postuli sagði meira að segja í mæðutón: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég. Ég aumur maður!“ — Rómv. 7:19, 24.

2 Þar sem við erum syndug að eðlisfari er tilefni til að spyrja: Hvernig gat Jesús frá Nasaret fæðst laus við erfðasyndina og af hverju lét hann skírast? Hvernig vegsamaði Jesús réttlæti Jehóva með lífsstefnu sinni? Og síðast en ekki síst, hvað ávannst með dauða Krists?

Réttlæti Guðs véfengt

3. Hvernig blekkti Satan Evu?

3 Foreldrar mannkyns, þau Adam og Eva, sýndu af sér þá heimsku að hafna Guði sem stjórnanda og völdu að lúta frekar yfirráðum ,hins gamla höggorms sem heitir djöfull og Satan‘. (Opinb. 12:9) Rifjum upp hvernig það gerðist. Satan véfengdi að Jehóva Guð stjórnaði með réttlæti. Hann spurði Evu: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ Eva endurtók skýr fyrirmæli Guðs þess efnis að þau mættu ekki snerta eitt ákveðið tré, ella myndu þau deyja. Satan sakaði þá Guð um að ljúga. „Sannið til, þið munuð ekki deyja,“ sagði hann. Síðan taldi hann Evu trú um að Guð neitaði henni um viss gæði og að hún yrði eins og Guð ef hún borðaði ávöxtinn. Hún yrði siðferðilega sjálfstæð. — 1. Mós. 3:1-5.

4. Hvernig komst mannkynið undir yfirráð Satans?

4 Í meginatriðum gaf Satan í skyn að mannkynið yrði hamingjusamara ef það væri óháð Guði. Í stað þess að styðja réttlátt drottinvald Guðs hlustaði Adam á eiginkonu sína og át með henni forboðna ávöxtinn. Þar með fyrirgerði hann fullkomleika sínum og lagði á okkur hið þunga ok syndar og dauða. Og um leið komst mannkynið undir yfirráð keppinautar Guðs, Satans, en hann er „guð þessarar aldar“. — 2. Kor. 4:4; Rómv. 7:14.

5. (a) Hvernig stóð Jehóva við orð sín? (b) Hvaða von veitti Guð afkomendum Adams og Evu?

5 Í samræmi við óbrigðul orð sín felldi Jehóva dauðadóm yfir Adam og Evu. (1. Mós. 3:16-19) Það þýddi hins vegar ekki að Jehóva hefði mistekist það sem hann ætlaði sér. Síður en svo. Um leið og hann dæmdi Adam og Evu sendi hann ófæddum afkomendum þeirra bjartan vonargeisla. Hann tilkynnti að hann ætlaði að vekja upp „niðja“. Satan myndi höggva þennan niðja í hælinn en niðjinn myndi ná sér aftur og „merja höfuð“ Satans. (1. Mós. 3:15) Þetta er skýrt nánar í Biblíunni þar sem sagt er eftirfarandi um Jesú Krist: „Til þess birtist Guðs sonur að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ (1. Jóh. 3:8) En hvernig vegsamaði Jesús réttlæti Jehóva með lífi sínu og dauða?

Hvaða þýðingu hafði skírn Jesú?

6. Hvernig vitum við að Jesús erfði ekki syndina frá Adam?

6 Sem fullorðinn maður yrði Jesús að öllu leyti jafningi Adams meðan hann var enn þá fullkominn. (Rómv. 5:14; 1. Kor. 15:45) Það þýðir að Jesús þurfti að fæðast fullkominn. Hvernig gat það gerst? Gabríel engill skýrði það fyrir Maríu, móður Jesú: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs.“ (Lúk. 1:35) María hefur bersýnilega upplýst Jesú snemma um ýmislegt varðandi fæðingu hans. Þegar María og Jósef, fósturfaðir Jesú, fundu hann í musteri Guðs spurði hann þess vegna: „Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ (Lúk. 2:49) Jesús vissi greinilega frá unga aldri að hann væri sonur Guðs. Það var honum því hjartans mál að vegsama réttlæti Guðs.

7. Hvaða verðmæti átti Jesús?

7 Jesús sýndi hve brennandi áhuga hann hafði á andlegum málum með því að sækja tilbeiðslusamkomur að staðaldri. Fullkominn hugur hans hlýtur að hafa drukkið í sig allt sem hann heyrði og las í Hebresku ritningunum. (Lúk. 4:16) Hann átti líka aðra verðmæta eign — fullkominn líkama sem hægt var að fórna í þágu mannkyns. Þegar Jesús var skírður baðst hann fyrir og hefur þá ef til vill hugsað um hin spádómlegu orð í Sálmi 40:7-9. — Lúk. 3:21; lestu Hebreabréfið 10:5-10. *

8. Af hverju færðist Jóhannes skírari undan því í fyrstu að skíra Jesú?

8 Jóhannes skírari færðist undan því í fyrstu að skíra Jesú. Ástæðan var sú að Jóhannes skírði Gyðinga til tákns um að þeir iðruðust synda sinna og brota gegn lögmálinu. Jóhannes var náskyldur Jesú og hlýtur að hafa vitað að Jesús var réttlátur og þurfti ekki að iðrast. En Jesús fullvissaði Jóhannes um að það væri viðeigandi að hann skírðist. „Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti,“ sagði hann. — Matt. 3:15.

9. Hvað táknaði skírn Jesú?

9 Sem fullkominn maður hefði Jesús getað hugsað sem svo að hann væri, líkt og Adam, fær um að geta af sér fullkomið mannkyn. En Jesús þráði aldrei að eiga sér slíka framtíð vegna þess að vilji Jehóva var annar. Guð hafði sent hann til jarðar til að vera fyrirheitni niðjinn, Messías. Í því fólst að hann fórnaði fullkomnu lífi sínu sem maður. (Lestu Jesaja 53:5, 6, 12.) Skírn Jesú hafði auðvitað aðra merkingu en okkar. Hún var ekki tákn um að hann vígðist Jehóva því að hann tilheyrði Ísraelsþjóðinni sem var vígð Guði. Skírn Jesú táknaði að hann bauð sig fram til að gera vilja Guðs með Messías eins og honum er lýst í Ritningunni.

10. Hvað fólst í vilja Guðs með Messías og hvernig leit Jesús á það?

10 Það var vilji Jehóva að Jesús boðaði fagnaðarerindið um ríkið, gerði fólk að lærisveinum og byggi það undir það verkefni að boða og kenna. Þegar Jesús bauð sig fram táknaði það líka að hann væri fús til að þola ofsóknir og grimmilegan dauða til að styðja réttlátt drottinvald Jehóva Guðs. Þar sem Jesús elskaði föður sinn á himnum hafði hann yndi af því að gera vilja hans, og það var honum mikils virði að fá að bjóða fram líkama sinn að fórn. (Jóh. 14:31) Sú vitneskja gladdi hann einnig að hann gæti borið andvirði fullkomins lífs síns fram fyrir Guð sem lausnargjald til að kaupa okkur laus úr ánauð syndar og dauða. Hafði Guð velþóknun á því að Jesús skyldi bjóða sig fram til að axla þessa miklu ábyrgð? Svo sannarlega.

11. Hvernig lét Jehóva í ljós að hann viðurkenndi Jesú sem hinn fyrirheitna Messías eða Krist?

11 Guðspjallaritararnir vitna um það, allir fjórir, að Jehóva hafi lýst yfir velþóknun sinni þegar Jesús kom upp úr vatninu í Jórdan. „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu,“ sagði Jóhannes skírari, „og hann nam staðar yfir [Jesú] . . . Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“ (Jóh. 1:32-34) Og Jehóva lýsti sjálfur yfir við þetta tækifæri: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ — Matt. 3:17; Mark. 1:11; Lúk. 3:22.

Trúr allt til dauða

12. Hvað gerði Jesús í þrjú og hálft ár eftir að hann skírðist?

12 Næsta þrjú og hálft árið lagði Jesús allt kapp á að fræða fólk um föður sinn og sýna fram á að hann stjórnaði með réttlæti. Hann fór fótgangandi um fyrirheitna landið þvert og endilangt. Það hefur eflaust verið lýjandi en hann lét ekkert stöðva sig í að vitna rækilega um sannleikann. (Jóh. 4:6, 34; 18:37) Jesús fræddi fólk um ríki Guðs. Hann vann kraftaverk og læknaði sjúka, mettaði hungraðan mannfjölda og reisti jafnvel upp dána. Þannig sýndi hann hvað ríki Guðs myndi gera fyrir mennina. — Matt. 11:4, 5.

13. Hvað kenndi Jesús varðandi bænina?

13 Jesús eignaði sér ekki heiðurinn af kennslu sinni og lækningum heldur sýndi hann einstaka auðmýkt með því að veita Jehóva heiðurinn. (Jóh. 5:19; 11:41-44) Hann benti líka á hvað væri mikilvægast að biðja um. Í bænum okkar ættum við meðal annars að biðja þess að nafn Guðs, Jehóva, helgist og að réttlát stjórn hans leysi af hólmi illa stjórn Satans, þannig að vilji Guðs nái fram að ganga „svo á jörðu sem á himni“. (Matt. 6:9, 10) Hann hvatti okkur til að breyta í samræmi við bænir okkar með því að ,leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘. — Matt. 6:33.

14. Af hverju þurfti Jesús, þótt fullkominn væri, að leggja hart að sér til að gera hlutverki sínu skil?

14 Þegar dró að fórnardauða Jesú varð hann sér æ meðvitaðri um þá miklu ábyrgð sem hvíldi á honum. Orðstír föður hans og fyrirætlun var undir því komin að hann gengist undir ranglát réttarhöld og grimmilegan dauða. Fimm dögum áður en Jesús dó sagði hann í bæn: „Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu.“ Jesús var óeigingjarn. Eftir að hafa látið í ljós þessar eðlilegu mannlegu tilfinningar beindi hann athygli sinni að mun mikilvægara máli og sagði: „Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Jehóva svaraði um hæl: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ (Jóh. 12:27, 28) Já, Jesús var fús til að gangast undir mestu trúarprófraun sem nokkur maður hefur mátt þola. Þegar hann heyrði himneskan föður sinn segja þessi orð hefur það eflaust veitt honum vissu fyrir því að honum tækist að vegsama og réttlæta drottinvald Jehóva. Og það tókst honum.

Það sem ávannst með dauða Jesú

15. Af hverju sagði Jesús: „Það er fullkomnað,“ rétt áður en hann dó?

15 „Það er fullkomnað,“ stundi Jesús þar sem hann hékk sárþjáður á kvalastaurnum og var í þann mund að draga andann í síðasta sinn. (Jóh. 19:30) Það var ekki lítið sem hann hafði áorkað með Guðs hjálp þau þrjú og hálft ár sem liðu frá því að hann skírðist og þar til hann dó. Þegar Jesús gaf upp andann varð sterkur jarðskjálfti og rómverski hundraðshöfðinginn, sem sá um aftökuna, sagði: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“ (Matt. 27:54) Hundraðshöfðinginn hafði sennilega orðið vitni að því hvernig Jesús var hæddur fyrir að segjast vera sonur Guðs. Þrátt fyrir allt sem Jesús mátti þola var hann ráðvandur og sannaði að Satan væri fyrirlitlegur lygari. „Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt,“ hafði Satan sagt ögrandi og átti þar við alla sem styðja drottinvald Guðs. (Job. 2:4) Með trúfesti sinni sýndi Jesús fram á að Adam og Eva hefðu getað verið trú í þeirri prófraun sem þau urðu fyrir, enda var hún ekki þung. Síðast en ekki síst studdi Jesús og vegsamaði réttláta stjórn Jehóva með lífi sínu og dauða. (Lestu Orðskviðina 27:11.) Hefur Jesús áorkað einhverju fleiru með dauða sínum? Vissulega.

16, 17. (a) Af hverju gátu vottar Jehóva fyrir daga kristninnar verið réttlátir í augum hans? (b) Hvernig launaði Jehóva syni sínum trúfestina og hvernig hjálpar Drottinn Jesús Kristur fylgjendum sínum?

16 Jehóva átti sér marga þjóna á jörð áður en Jesús var uppi. Þeir voru réttlátir í augum hans og hann veitti þeim von um upprisu. (Jes. 25:8; Dan. 12:13) En hvaða lagalegan grundvöll gat hinn heilagi Guð, Jehóva, haft til að blessa synduga menn á þennan stórfenglega hátt? Því er svaraði í Biblíunni: „Guð bendir á blóð [Jesú Krists] sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.“ — Rómv. 3:25, 26. *

17 Jehóva launaði Jesú með því að reisa hann upp frá dauðum og veita honum æðri stöðu en hann hafði áður en hann kom til jarðar. Jesús er nú ódauðleg og dýrleg andavera. (Hebr. 1:3) Drottinn Jesús Kristur er bæði æðstiprestur og konungur og heldur sem slíkur áfram að hjálpa fylgjendum sínum að vegsama réttlæti Guðs. Við megum vera innilega þakklát fyrir að Jehóva, faðir okkar á himnum, skuli umbuna öllum sem gera það og þjóna honum dyggilega líkt og sonur hans. — Lestu Sálm 34:4; Hebreabréfið 11:6.

18. Um hvað er fjallað í næstu námsgrein?

18 Trúfastir menn allt frá dögum Abels hafa átt náið samband við Jehóva vegna þess að þeir trúðu og treystu á hinn fyrirheitna niðja. Jehóva vissi að sonur hans yrði ráðvandur og að hann myndi með dauða sínum taka burt „synd heimsins“ fyrir fullt og allt. (Jóh. 1:29) Dauði Jesú er líka til góðs þeim sem nú lifa. (Rómv. 3:26) Hvaða blessun getur lausnarfórn Krists veitt þér? Um það er rætt í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Páll postuli vitnar hér í Sálm 40:7-9 samkvæmt grísku Sjötíumannaþýðingunni en þar stendur meðal annars: „Líkama hefur þú búið mér.“ Þessi orð er ekki að finna í þeim handritum Hebresku ritninganna sem nú vitað um.

^ gr. 16 Sjá „Spurningar frá lesendum“ á bls. 6 og 7.

Hvert er svarið?

• Hvernig var réttlæti Guðs véfengt?

• Hvað táknaði skírn Jesú?

• Hvað ávannst með dauða Jesú?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 9]

Veistu hvað skírn Jesú táknaði?