Endurnærumst af því að sinna andlegu málunum
Endurnærumst af því að sinna andlegu málunum
„Takið á yður mitt ok . . . og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — MATT. 11:29.
1. Hvaða ráðstöfun gerði Jehóva á Sínaífjalli og hvers vegna?
ÞEGAR lagasáttmálinn var innleiddur á Sínaífjalli var í honum ákvæði um vikulegan hvíldardag. Fyrir munn Móse gaf Jehóva Ísraelsmönnum eftirfarandi fyrirmæli: „Í sex daga skaltu vinna verk þitt en sjöunda daginn skaltu ekkert verk vinna svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig og sonur ambáttar þinnar og aðkomumaðurinn geti endurnærst.“ (2. Mós. 23:12) Af tillitsemi við þá sem voru undir lögmálinu setti Jehóva það kærleiksríka ákvæði að fólk hans fengi hvíldardag til að það gæti „endurnærst“.
2. Hvernig var hvíldardagurinn til góðs fyrir Ísraelsmenn?
2 Átti fólk bara að nota hvíldardaginn til að slaka á? Nei, hann var mikilvægur hluti af tilbeiðslu Ísraelsmanna á Jehóva. Með því að halda hvíldardaginn fengu fjölskyldufeður tíma til að kenna fjölskyldum sínum að „gefa gætur að vegi Drottins og iðka rétt og réttlæti“. (1. Mós. 18:19) Fjölskyldur og vinir fengu einnig tækifæri til að hittast og íhuga verk Jehóva og njóta félagsskapar hver annars. (Jes. 58:13, 14) Síðast en ekki síst benti hvíldardagurinn spádómlega á þann tíma þegar sönn endurnæring myndi veitast undir þúsund ára stjórn Krists. (Rómv. 8:21) En hvað um okkar tíma? Hvar og hvernig eiga sannkristnir menn, sem hafa áhuga á vilja Jehóva, að fá slíka endurnæringu?
Samneyti við trúsystkini er endurnærandi
3. Hvernig studdu frumkristnir menn hver annan og hvaða áhrif hafði það?
3 Páll postuli kallaði kristna söfnuðinn ,stólpa og grundvöll sannleikans‘. (1. Tím. 3:15) Frumkristnir menn höfðu mikinn stuðning af því að hvetja hver annan og byggja upp í kærleika. (Ef. 4:11, 12, 16) Á meðan Páll var í Efesus fékk hann uppörvandi heimsókn frá trúbræðrum í söfnuðinum í Korintu. Taktu eftir hvaða áhrif það hafði. Páll sagði: „Ég gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar. Þeir hafa . . . verið mér . . . til gleði.“ (1. Kor. 16:17, 18) Eitthvað svipað átti sér stað þegar Títus fór til Korintu til að þjóna bræðrunum þar. Páll skrifaði aftur til safnaðarins og sagði: „Þið hafið öll róað huga hans.“ (2. Kor. 7:13) Þetta er eins nú á tímum. Vottar Jehóva endurnærast af því að eiga uppbyggilegt samneyti við trúsystkini.
4. Hvernig endurnæra samkomurnar okkur?
4 Þú veist af eigin reynslu að safnaðarsamkomur eru mikill gleðigjafi. Þar getum við „uppörvast saman í sömu trú“. (Rómv. 1:12) Kristnir bræður okkar og systur eru ekki bara kunningjar sem við eigum yfirborðsleg samskipti við af og til. Þau eru sannir vinir, fólk sem við elskum og virðum. Við hljótum mikla gleði og uppörvun af því að hitta þau reglulega á samkomum. — Fílem. 7.
5. Hvernig getum við endurnært hvert annað á mótum?
2. Kor. 6:12, 13) En hvað ef við erum feimin og eigum erfitt með að kynnast fólki? Ein leið til að kynnast bræðrum og systrum er að gefa af sjálfum okkur á mótunum. Eftir að systir ein hafði hjálpað til á alþjóðlegu móti sagði hún: „Fyrir utan fjölskyldu mína og nokkra vini þekkti ég ekki marga á staðnum. En þegar ég hjálpaði til við ræstingar hitti ég fjölda bræðra og systra. Það var virkilega gaman.“
5 Annað sem endurnærir okkur eru mótin sem við höldum á hverju ári. Auk þess að sjá fyrir lífgandi sannleiksvatni frá orði Guðs, Biblíunni, bjóða þessar fjölmennu samkomur upp á tækifæri til að stækka vinahópinn. (6. Nefndu eina leið til að endurnærast meðan við erum í fríi.
6 Ísraelsmenn voru vanir að fara þrisvar á ári til Jerúsalem að sækja hátíðir og tilbiðja Jehóva. (2. Mós. 34:23) Það þýddi oft að þeir þurftu að yfirgefa akra og vinnustaði og fara fótgangandi dögum saman eftir rykugum vegum. Samt sem áður stuðluðu ferðirnar til musterisins að „mikilli gleði“ þegar viðstaddir „lofuðu Drottin“. (2. Kron. 30:21) Margir af vottum Jehóva nú á tímum hafa líka mikla ánægju af því að fara með fjölskyldunni til að heimsækja Betel, deildarskrifstofu Votta Jehóva. Gætir þú haft slíka heimsókn á dagskrá næst þegar fjölskyldan fer í frí?
7. (a) Hvernig getur samneyti við aðra verið okkur til góðs? (b) Hvað stuðlar að því að samvera sé minnisverð og uppbyggileg?
7 Að gera sér dagamun með fjölskyldu og vinum getur einnig verið uppörvandi. Hinn vitri konungur Salómon sagði: „Ekkert hugnast mönnum betur en að matast og drekka og láta sál sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ (Préd. 2:24) Samneyti við aðra er ekki aðeins endurnærandi heldur styrkir einnig kærleiksböndin og við kynnumst trúsystkinum okkar nánar. Til þess að samvera sé minnisverð og uppbyggileg er best að vera ekki of mörg og hafa viðeigandi eftirlit, sérstaklega ef boðið er upp á áfengi.
Boðunarstarfið er endurnærandi
8, 9. (a) Lýstu muninum á boðskap Jesú og boðskap fræðimanna og farísea. (b) Hvernig njótum við sjálf góðs af því að boða fagnaðarerindið?
8 Jesús var kappsamur í boðunarstarfinu og hann hvatti lærisveinana til að vera það líka. Það má sjá af orðum hans: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:37, 38) Boðskapur Jesú var sannarlega endurnærandi, hann var ,fagnaðarerindi‘. (Matt. 4:23; 24:14) Hann var gerólíkur þeim íþyngjandi reglum sem farísear lögðu á fólk. — Lestu Matteus 23:4, 23, 24.
9 Þegar við boðum fagnaðarerindið bjóðum við öðrum upp á að endurnærast andlega og samtímis aukum við okkar eigin skilning og þakklæti fyrir sannleika Biblíunnar. Orð sálmaskáldsins eru vel við hæfi: „Hallelúja. Gott er að syngja Guði vorum lof. Það er yndislegt.“ (Sálm. 147:1) Geturðu uppskorið meiri gleði af því að lofa Jehóva meðal almennings?
10. Er árangur okkar í boðunarstarfinu háður því að við fáum jákvæð viðbrögð við boðskapnum? Skýrðu svarið.
10 Fólk er auðvitað ekki alls staðar jafn móttækilegt fyrir fagnaðarerindinu. (Lestu Postulasöguna 18:1, 5-8.) Ef þú býrð á svæði þar sem viðbrögðin eru lítil við boðskapnum um ríkið, skaltu reyna að beina athyglinni að því góða sem þú lætur af þér leiða í boðunarstarfinu. Hafðu hugfast að viðleitni þín til að halda áfram að boða nafn Jehóva er ekki til einskis. (1. Kor. 15:58) Þar að auki eru viðbrögð fólks við fagnaðarerindinu ekki mælikvarði á árangurinn. Við getum verið fullviss um að Jehóva sjái til þess að hjartahreint fólk fái tækifæri til að taka við boðskapnum. — Jóh. 6:44.
Biblíunám fjölskyldunnar er endurnærandi
11. Hvaða ábyrgð hefur Jehóva falið foreldrum og hvernig geta þeir gert henni skil?
11 Guðræknir foreldrar bera ábyrgð á því að leiðbeina börnum sínum um Jehóva og vilja hans. (5. Mós. 11:18, 19) Ef þú ert foreldri, tekurðu þá frá tíma til að fræða börnin þín um kærleiksríkan föður okkar á himni? Til að takast á við þessa alvarlegu ábyrgð og fullnægja þörfum fjölskyldunnar hefur Jehóva séð til þess að við höfum gnægð andlegrar fæðu sem er að finna í bókum og tímaritum og á myndböndum og hljóðupptökum.
12, 13. (a) Hvernig getur biblíunámskvöldið verið fjölskyldunni til góðs? (b) Hvernig geta foreldrar tryggt að fjölskyldunámið sé endurnærandi?
12 Þar að auki hefur trúi og hyggni þjónninn hvatt til þess að fjölskyldan taki frá eitt kvöld í viku til sameiginlegs biblíunáms. Það er reynsla margra að námið styrki kærleiksböndin innan fjölskyldunnar og einnig sambandið við Jehóva. En hvernig geta foreldrar tryggt að námskvöldið sé andlega endurnærandi?
13 Biblíunámskvöld fjölskyldunnar á ekki að vera þurrt og alvöruþrungið. Þegar öllu er á botninn hvolft tilbiðjum við ,hinn sæla Guð‘ og hann vill að við gerum það með gleði. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912; Fil. 4:4) Að taka frá kvöld til að ræða dýrmæt sannindi úr Biblíunni er sönn blessun. Foreldrar geta verið sveigjanlegir í kennslu sinni og notað ímyndunarafl sitt og útsjónarsemi. Til dæmis leyfðu ein hjón tíu ára gömlum syni sínum, Brandon, að hafa verkefni sem þau kölluðu: „Hvers vegna notaði Jehóva höggorm til að tákna Satan?“ Þetta hafði angrað Brandon vegna þess að hann var hrifinn af höggormum og var óhress með að þeir væru settir í samband við Satan. Sumar fjölskyldur hafa stundum sett upp biblíuleikrit þar sem hver og einn leikur ákveðna persónu og les sitt hlutverk úr Biblíunni eða einhver atburður er sviðsettur. Þessar kennsluaðferðir eru bæði skemmtilegar og gera börnin að þátttakendum þannig að meginreglur Biblíunnar ná til hjartna þeirra. *
Forðastu það sem getur íþyngt þér
14, 15. (a) Hvernig hefur álag og öryggisleysi aukist á síðustu dögum? (b) Hvaða viðbótarálagi verðum við hugsanlega fyrir?
14 Álag og öryggisleysi hefur aukist á síðustu dögum þessa illa heimskerfis. Atvinnuleysi og annars konar efnahagserfiðleikar hafa áhrif á milljónir manna. Jafnvel þeim sem hafa vinnu getur fundist að peningarnir, sem þeir afla sér, fari í götótta pyngju og séu lítils nýtir fyrir fjölskyldur þeirra. (Samanber Haggaí 1:4-6.) Stjórnmálamenn og aðrir leiðtogar virðast vanmáttugir í baráttu sinni við hryðjuverk og annars konar böl. Margir eru miður sín vegna eigin ófullkomleika. — Sálm. 38:5.
15 Sannkristnir menn eru ekki ónæmir fyrir þeim vandamálum og því álagi sem þeir verða fyrir í heimskerfi Satans. (1. Jóh. 5:19) Stundum verða lærisveinar Krists fyrir vissu álagi til viðbótar vegna þess að þeir leggja kapp á að vera Jehóva trúir. „Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður,“ sagði Jesús. (Jóh. 15:20) En jafnvel þegar við erum ,ofsótt erum við ekki yfirgefin‘. (2. Kor. 4:9) Hvers vegna ekki?
16. Hvað getur hjálpað okkur að halda gleðinni?
16 Jesús sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt. 11:28) Með því að setja allt traust okkar á lausnarfórn Jesú leggjum við okkur alfarið í hendur Jehóva, ef svo má að orði komast. Þannig getum við fengið ,kraftinn mikla‘. (2. Kor. 4:7) „Hjálparinn,“ heilagur andi Guðs, styrkir trú okkar verulega svo að við getum þolað prófraunir og þrengingar sem við lendum í og haldið gleði okkar. — Jóh. 14:26; Jak. 1:2-4.
17, 18. (a) Á hvaða anda þurfum við að vara okkur? (b) Hvaða afleiðingar getur það haft að leggja áherslu á veraldlega skemmtun?
17 Sannkristnir menn þurfa að vara sig á því að láta skemmtanaóðan anda heimsins hafa áhrif á sig. (Lestu Efesusbréfið 2:2-5.) Annars gæti „allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna“ orðið okkur að tálsnöru. (1. Jóh. 2:16) Við gætum einnig gert þau mistök að trúa því að það endurnæri okkur að láta undan löngunum holdsins. (Rómv. 8:6) Til dæmis hafa sumir leitað í fíkniefni, áfengi, klám, áhættuíþróttir eða ýmsa óleyfilega iðju til að fá útrás. Satan reynir að blekkja okkur með ,vélabrögðum‘ sínum og gefa afbakaða mynd af því hvað sé endurnærandi.
18 Það er auðvitað ekkert að því að borða, drekka og taka þátt í heilnæmri skemmtun, svo framarlega sem það er gert í hófi. 2. Pét. 1:8.
En við látum samt ekki slíka hluti verða aðalatriðið í lífinu. Það er nauðsynlegt að hafa jafnvægi og sýna sjálfstjórn, sérstaklega í ljósi þess á hvaða tímum við lifum. Persónuleg áhugamál gætu íþyngt okkur þannig að við yrðum „iðjulaus . . . og ávaxtalaus“ í þekkingunni á Drottni Jesú Kristi. —19, 20. Hvernig getum við hlotið sanna endurnæringu?
19 Þegar við lifum í takt við meginreglur Jehóva skiljum við að hvert það gaman sem heimurinn býður upp á er skammvinnt. Móse gerði sér grein fyrir því og það gerum við líka. (Hebr. 11:25) Staðreyndin er sú að sönn endurnæring, sú sem vekur djúpa og varanlega gleði og hamingju, sprettur af því að gera vilja föðurins á himnum. — Matt. 5:6.
20 Höldum áfram að endurnærast með því að sinna andlegum málum. Ef við gerum það tekst okkur að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum . . . í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni“. (Tít. 2:12, 13) Verum því ákveðin í að taka á okkur ok Jesú með því að beygja okkur undir yfirráð hans og fylgja fyrirmælum hans. Með því að gera það finnum við sanna hamingju og endurnæringu.
[Neðanmáls]
^ gr. 13 Nánari upplýsingar um hvernig megi gera biblíunámskvöld fjölskyldunnar skemmtilegt og fræðandi er að finna í Varðturninum 15. október 2009, bls. 29-31.
Hvert er svarið?
• Hvernig endurnærast þjónar Jehóva nú á tímum?
• Hvernig endurnærir boðunarstarfið okkur og viðmælendur okkar?
• Hvað geta þeir sem veita fjölskyldu forstöðu gert til að tryggja að biblíunámskvöldið sé endurnærandi?
• Hvað getur íþyngt okkur?
[Spurningar]
[Myndir á bls. 26]
Við endurnærumst á margan hátt með því að taka á okkur ok Jesú.