Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þá munu réttlátir skína sem sól“

„Þá munu réttlátir skína sem sól“

„Þá munu réttlátir skína sem sól“

„Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra.“ — MATT. 13:43.

1. Hvað útskýrði Jesús með dæmisögum varðandi Guðsríki?

JESÚS KRISTUR sagði margar dæmisögur til að skýra ýmislegt varðandi Guðsríki. Hann „talaði . . . í dæmisögum til fólksins og án dæmisagna talaði hann ekki til þess“. (Matt. 13:34) Hann líkti sannleikanum um ríkið við sáðkorn til að leggja áherslu á að það réðist af hjartalagi fólks hvort það tæki við boðskapnum, og sömuleiðis til að lýsa hlutverki Jehóva í hinum andlega vexti. (Mark. 4:3-9, 26-29) Jesús sagði einnig dæmisögur til að lýsa mikilli fjölgun þeirra sem fara eftir boðskapnum um ríkið, jafnvel þó að vöxturinn sé ekki alltaf augljós. (Matt. 13:31-33) Hann benti einnig á að það sé ekki sjálfgefið að allir sem taka við boðskapnum um ríkið séu hæfir til að vera þegnar þess. — Matt. 13:47-50. *

2. Hvað táknar góða sæðið í dæmisögunni um hveitið og illgresið?

2 Í einni af dæmisögum sínum beinir Jesús athyglinni að þeim sem eiga að ríkja með honum. Hún er oft kölluð dæmisagan um hveitið og illgresið og hana er að finna í 13. kafla Matteusarguðspjalls. Í annarri dæmisögu segir Jesús að sæðið, sem sáð er, sé „orðið um ríkið“ en í dæmisögunni um hveitið og illgresið segir hann að góða sæðið tákni annað — „börn ríkisins“. (Matt. 13:19, 38) Þetta eru ekki þegnar ríkisins heldur „börn“ þess eða erfingjar. — Rómv. 8:14-17; lestu Galatabréfið 4:6, 7.

Dæmisagan um hveitið og illgresið

3. Hvaða vandi blasir við manninum í dæmisögunni og hvernig ákveður hann að bregðast við honum?

3 Dæmisagan hljóðar svo: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“ — Matt. 13:24-30.

4. (a) Hver er maðurinn í dæmisögunni? (b) Hvenær og hvernig byrjaði Jesús að sá þessu sæði?

4 Hver er maðurinn sem sáði góða sæðinu í akur sinn? Jesús svarar því síðar þegar hann útskýrir dæmisöguna fyrir lærisveinunum: „Sá er sáir góða sæðinu er Mannssonurinn.“ (Matt. 13:37) Jesús, „Mannssonurinn,“ bjó akurinn til sáningar á þeim þrem og hálfu ári sem hann þjónaði á jörð. (Matt. 8:20; 25:31; 26:64) Frá og með hvítasunnu árið 33 tók hann að sá góða sæðinu — ,börnum ríkisins‘. Sáningin átti sér greinilega stað þegar Jesús byrjaði, í umboði Jehóva, að úthella heilögum anda yfir lærisveinana og smyrja þá sem börn Guðs. * (Post. 2:33) Góða sæðið óx og varð fullþroskað hveiti. Markmiðið með því að sá góða sæðinu var að safna að lokum öllum sem áttu að verða samerfingjar og meðstjórnendur Jesú í ríki hans.

5. Hver er óvinurinn í dæmisögunni og hverja táknar illgresið?

5 Hver er óvinurinn og hvað er illgresið? Jesús segir að óvinurinn sé „djöfullinn“. Illgresið, segir hann, eru „börn hins vonda“. (Matt. 13:25, 38, 39) Þegar Jesús talaði um illgresi hafði hann sennilega í huga svonefnt akurrýgresi. Þetta er eitruð planta sem er nauðalík hveiti fyrst í stað áður en hún þroskast. Það er vel við hæfi að nota þessa jurt til að tákna þá sem þykjast vera börn ríkisins en bera ekki ávöxt þess. Þeir fullyrða með hræsni að þeir séu fylgjendur Krists en tilheyra í rauninni ,niðjum‘ Satans djöfulsins. — 1. Mós. 3:15.

6. Hvenær byrjaði illgresið að vaxa og í hvaða skilningi voru menn „í svefni“ á þeim tíma?

6 Hvenær kom þetta „illgresi“ fram innan safnaðarins? „Er menn voru í svefni,“ svaraði Jesús. (Matt. 13:25) Hvenær var það? Svarið er að finna í orðum Páls postula til öldunga í Efesus. Hann segir: „Ég veit að skæðir vargar munu koma inn á ykkur þegar ég er farinn og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra ykkar munu koma menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Post. 20:29, 30) Hann hvatti síðan öldungana til að halda andlegri vöku sinni. Postularnir öftruðu því að fráhvarf yrði frá trúnni, en eftir að þeir tóku að sofna dauðasvefni sofnuðu margir kristnir menn í andlegum skilningi. (Lestu 2. Þessaloníkubréf 2:3, 6-8.) Það var þá sem fráhvarfið mikla hófst.

7. Breyttist eitthvað af hveitinu í illgresi? Skýrðu svarið.

7 Jesús sagði ekki að hveitið breyttist í illgresi heldur að illgresi væri sáð meðal hveitisins. Dæmisagan fjallar sem sagt ekki um það að sannkristnir menn falli frá trúnni. Hún lýsir öllu heldur vísvitandi tilraunum Satans til að spilla kristna söfnuðinum með því að lauma illum mönnum inn í hann. Þetta fráhvarf var orðið greinilegt þegar Jóhannes, síðasti postulinn, var kominn á gamals aldur. — 2. Pét. 2:1-3; 1. Jóh. 2:18.

„Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði“

8, 9. (a) Af hverju hafa áheyrendum Jesú þótt fyrirmæli húsbóndans skynsamleg? (b) Hvernig rættist það að hveitið og illgresið yxu saman?

8 Þjónar húsbóndans skýra honum frá vandanum og spyrja: „Viltu að við förum og reytum [illgresið]?“ (Matt. 13:27, 28) Svarið kemur kannski á óvart við fyrstu sýn. Húsbóndinn segir þeim að láta hveitið og illgresið vaxa saman fram að kornskurðartímanum. Lærisveinar Jesú hafa skilið þessi fyrirmæli mætavel því að þeir gerðu sér grein fyrir hve erfitt væri að greina hveitið frá illgresinu. Þeir sem höfðu einhverja reynslu af landbúnaði vissu einnig að rótarkerfi akurrýgresis samfléttast að jafnaði rótarkerfi hveitisins. * Það er ósköp eðlilegt að húsbóndinn skyldi segja þeim að bíða.

9 Hinir ýmsu trúarflokkar kristna heimsins hafa í aldanna rás gefið af sér metuppskeru illgresis — fyrst meðal rómversk-kaþólskra og rétttrúnaðarmanna, og síðar meðal fjölmargra hópa mótmælenda sem fram komu. Samhliða því var sáð fáeinum ósviknum hveitikornum í akurinn í heiminum. Húsbóndinn í dæmisögunni beið þolinmóður meðan hveitið og illgresið óx og þroskaðist á löngum vaxtartíma, en síðan kom að kornskurðartímanum sem er tiltölulega stuttur.

Hinn langþráði kornskurðartími

10, 11. (a) Hvenær er kornskurðartíminn? (b) Hvernig er hinu táknræna hveiti safnað í hlöðu Jehóva?

10 Jesús segir: „Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.“ (Matt. 13:39) Á síðustu dögum þessa illa heimskerfis á sér stað aðgreining — það á að safna saman börnum ríkisins og aðgreina þau frá „illgresinu“. Pétur postuli segir um þetta mál: „Nú er kominn tími dómsins og hann byrjar á húsi Guðs. En ef hann byrjar á okkur, hver verða þá afdrif þeirra sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?“ — 1. Pét. 4:17.

11 Síðustu dagar, einnig kallaðir“endir veraldar“, gengu í garð. Skömmu síðar hófst dómurinn hjá þeim sem sögðust vera sannkristnir — hvort heldur þeir voru í alvöru „börn ríkisins“ eða voru „börn hins vonda“. Fyrst féll Babýlon hin mikla og síðan var börnum ríkisins safnað saman við upphaf kornskurðarins. (Matt. 13:30) En hvernig er hinu táknræna hveiti safnað núna inn í hlöðu Jehóva? „Börn ríkisins“ voru annaðhvort flutt inn í endurreistan kristinn söfnuð þar sem þau nutu verndar og velvildar Guðs eða hlutu himnesk laun sín.

12. Hve lengi stendur kornskurðartíminn?

12 Hve lengi stendur dómurinn? Jesús talaði um „kornskurðartíð“ og hún nær yfir ákveðið tímabil. (Opinb. 14:15, 16) Dómurinn yfir einstaklingum af hópi hinna andasmurðu heldur áfram allan endalokatímann. Honum lýkur ekki fyrr en þeir fá lokainnsiglið. — Opinb. 7:1-4.

13. Hvernig leiðir illgresið í villu og hvernig fremur það illt?

13 Hverjir verða numdir brott úr ríkinu og hvernig leiða þeir í villu og fremja illt? (Matt. 13:41) Prestar kristna heimsins eru eins og illgresi og hafa afvegaleitt milljónir manna í aldanna rás. Meðal annars hafa þeir svívirt Guð með kenningum sem ,leiða í villu‘, eins og kenningunni um eilífa refsingu í eldum helvítis og ruglingslegri kenningu um dularfulla þrenningu. Margir trúarleiðtogar hafa verið hjörðinni slæm fyrirmynd með því að vera vinir heimsins og ótrúir Guði, og í sumum tilfellum með óskammfeilnu siðleysi sínu. (Jak. 4:4) Og kristni heimurinn verður sífellt umburðarlyndari gagnvart siðleysi meðal sóknarbarnanna. (Lestu Júdasarbréfið 4.) Engu að síður þykjast þeir út á við vera sanntrúaðir og guðræknir. Það gleður börn ríkisins að vera laus við áhrif svona ,illgresis‘ og spilltra villukenninga þess.

14. Hvernig verður grátur og gnístran tanna hjá þeim sem illgresið táknar?

14 Hvernig verður grátur og gnístran tanna hjá þeim sem illgresið táknar? (Matt. 13:42) Það kvelur „börn hins vonda“ að „börn ríkisins“ skuli hafa afhjúpað eitruð áhrif þeirra. Sömuleiðis harma þau að vald þeirra yfir sóknarbörnunum skuli fara minnkandi og stuðningur sóknarbarnanna dvínandi. — Lestu Jesaja 65:13, 14.

15. Í hvaða skilningi verður illgresið brennt í eldi?

15 Í hvaða skilningi er illgresinu safnað og það brennt í eldi? (Matt. 13:40) Hér er átt við endanleg örlög illgresisins. Að því skuli táknrænt séð vera kastað í eldsofn gefur til kynna að því verði endanlega tortímt. (Opinb. 20:14; 21:8) Illgresinu, gervikristnum svikurum, verður gereytt í þrengingunni miklu. — Matt. 24:21.

Þeir munu „skína sem sól“

16, 17. Hverju spáði Malakí varðandi musteri Guðs og hvernig byrjaði það að uppfyllast?

16 Hvenær eiga þeir sem hveitið táknar að „skína sem sól“? (Matt. 13:43) Malakí spáði eftirfarandi um hreinsun musteris Guðs: „Drottinn, sem þið leitið, kemur skyndilega til musteris síns og boðberi sáttmálans, sem þið þráið, hann kemur, segir Drottinn hersveitanna. Hver getur afborið daginn þegar hann kemur, hver fær staðist þegar hann birtist? Hann er eins og eldur í bræðsluofni, eins og lútur sem bleikir þvott. Hann sest til að bræða silfrið og hreinsa það, hann hreinsar syni Leví, hann gerir þá sem hreint silfur og skíragull. Þá munu þeir færa Drottni fórnargjafir á réttan hátt.“ — Mal. 3:1-3.

17 Á síðari tímum byrjaði þessi spádómur greinilega að uppfyllast árið 1918 þegar Jehóva rannsakaði andlega musterið ásamt ,boðbera sáttmálans‘, Jesú Kristi. Malakí lýsir því sem gerist eftir að hreinsunni er lokið: „Þá munuð þið enn einu sinni sjá muninn á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki.“ (Mal. 3:18) Sannkristnir menn höfðu nú fengið nýjan kraft og tóku til óspilltra málanna, og það bendir til þess að uppskerutíminn hafi hafist á þeim tíma.

18. Hverju spáði Daníel varðandi okkar tíma?

18 Daníel spámaður fjallaði um okkar tíma þegar hann sagði: „Hinir vitru munu skína eins og björt himinhvelfing og þeir sem beina mörgum til réttlætis verða sem stjörnur um aldur og ævi.“ (Dan. 12:3) Hverjir skína svona skært? Það eru engir aðrir en andasmurðir kristnir menn, hið sanna hveiti sem Jesús talaði um í dæmisögunni um hveitið og illgresið. Mikill múgur auðmjúkra manna, sem stækkar jafnt og þétt, hefur séð greinilega að verið er að „reyta“ illgresið, það er að segja gervikristna menn. Þessir verðandi þegnar Guðsríkis slást í hóp þeirra sem eftir eru af hinum andlega Ísrael og láta einnig ljós sitt lýsa í þessum myrka heimi. — Sak. 8:23; Matt. 5:14-16; Fil. 2:15.

19, 20. Eftir hverju bíða „börn ríkisins“ með óþreyju og um hvað verður fjallað í næstu grein?

19 „Börn ríkisins“ bíða óþreyjufull eftir að hljóta sín dýrlegu laun á himnum. (Rómv. 8:18, 19; 1. Kor. 15:53; Fil. 1:21-24) En þangað til verða þau að vera trúföst, halda áfram að skína skært og vera gerólík ,börnum hins vonda‘. (Matt. 13:38; Opinb. 2:10) Það er mikið gleðiefni fyrir okkur öll að fá að sjá árangurinn af því að illgresið skuli hafa verið ,reytt‘ á okkar dögum.

20 En hvert er sambandið milli barna ríkisins og þeirra sem tilheyra múginum mikla og eiga þá von að lifa að eilífu á jörð sem þegnar þessa ríkis? Þeirri spurningu verður svarað í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Ýtarlega umfjöllun um þessar dæmisögur er að finna í Varðturninum, 15. júlí 2008, bls. 12-21.

^ gr. 4 Í þessari dæmisögu táknar sáningin ekki það starf að prédika og gera fólk að lærisveinum, en með því var nýjum bætt við söfnuðinn og þeir fengu síðan andasmurningu. Jesús sagði um góða sæðið sem er sáð í akurinn: „Það eru [ekki: „verða“] synir ríkisins“. (Biblían 1912) Sáningin felst í andasmurningu þessara sona eða barna ríkisins á akrinum sem er heimurinn.

^ gr. 8 Rætur akurrýgresis verða svo samfléttaðar rótum hveitisins að talsvert hveiti myndi fara forgörðum við það að reyta upp illgresið áður en kæmi að kornskurðinum. — Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 1178.

Manstu?

Hvað merkir eftirfarandi í dæmisögu Jesú um hveitið og illgresið?

• Góða sæðið

• Maðurinn sem sáði sæðinu

• Sáning sæðisins

• Óvinurinn

• Illgresið

• Kornskurðartíminn

• Hlaðan

• Grátur og gnístran tanna

• Eldsofninn

[Spurningar]

[Myndir á bls. 20]

Byrjað var að sá góða sæðinu á hvítasunnu árið 33.

[Mynd á bls. 23]

Hinu táknræna hveiti er nú safnað í hlöðu Jehóva.

[Rétthafi myndar]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.