Jehóva hefur ‚látið ásjónu sína lýsa yfir þá‘
Jehóva hefur ‚látið ásjónu sína lýsa yfir þá‘
ÞAÐ eru yfir 30 vöðvar í mannsandlitinu. Við notum hvorki meira né minna en 14 þeirra bara til að brosa. Hugsaðu þér hvernig væri að eiga við þig samræður ef þú hefðir ekki þessa vöðva. Það væri varla mjög upplífgandi. Fyrir heyrnarlausa gegna andlitsvöðvarnir þó mun veigameira hlutverki en að lífga upp á samræður. Látbrigði og önnur líkamstjáning gegnir stóru hlutverki í að koma hugsunum og hugmyndum til skila. Margir dást að því hvernig hægt er að tjá flóknustu hugmyndir og fínustu merkingarblæbrigði á táknmáli.
Um nokkurt skeið hafa heyrnarlausir um heim allan fengið að sjá andlit eða ásjónu sem er mun svipbrigðaríkari en nokkurt mannsandlit. Táknrænt séð hafa þeir fengið að sjá ‚auglit Drottins‘. (Harmlj. 2:19) Það er engin tilviljun. Jehóva hefur lengi sýnt að honum er annt um heyrnarlausa. Honum var annt um þá á dögum Forn-Ísraels. (3. Mós. 19:14) Og kærleikur hans til þeirra er greinilegur enn þann dag í dag. Guð „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2:4) Margir heyrnarlausir hafa í vissum skilningi séð auglit Guðs með því að kynnast sannleikanum um hann. En hvernig hafa þeir getað kynnst honum án þess að heyra? Áður en við svörum því skulum við kynna okkur hvers vegna táknmál er mikilvægt fyrir heyrnarlausa.
Að sjá er að heyra
Margs konar misskilningur er í gangi varðandi heyrnarlausa og táknmál. Nú skulum við leiðrétta sumt: Heyrnarlausir geta ekið bíl. Það er gríðarlega erfitt fyrir þá að þurfa að treysta á varalestur. Táknmál og blindraletur eiga ekkert sameiginlegt. Táknmál er annað og meira en látbragð. Táknmál er ekki alþjóðlegt. Og það eru til svæðisbundnar mállýskur í táknmáli.
Geta heyrnarlausir lesið? Sumir eru vel læsir en þó eiga flestir erfitt með lestur. Hvers vegna? Það er vegna þess að prentmálið á rætur sínar í raddmálinu. Veltu aðeins fyrir þér hvernig heyrandi barn lærir málið. Allt frá fæðingu er það innan um fólk sem talar málið sem það er að læra. Barnið lærir fljótt að tengja saman orð og mynda setningar. Það gerist eðlilega af því að heyra málið talað. Þegar heyrandi börn byrja að lesa eru þau einfaldlega að læra að svörtu merkin á blaðinu standa fyrir ákveðin hljóð sem þau kunna.
Nú skaltu ímynda þér að þú sért staddur í ókunnu landi og sért lokaður inni í hljóðeinangruðu herbergi úr gleri. Þú hefur aldrei heyrt tungumál landsins. Á hverjum degi koma heimamenn til þín og reyna að tala við þig gegnum glerið. Þú heyrir ekki hvað þeir segja. Þú sérð bara að fólkið hreyfir varirnar. Þegar landsmenn gera sér grein fyrir því að þú heyrir ekkert í þeim byrja þeir að
skrifa niður á miða það sem þeir eru að segja og sýna þér gegnum glerið. Þeir hugsa með sér að þú hljótir að skilja það. Hvernig heldurðu að þú myndir spjara þig? Þér þætti nánast ómögulegt að eiga einhver samskipti við þessar aðstæður. Hvers vegna? Vegna þess að það sem var skrifað niður fyrir þig er á máli sem þú hefur aldrei heyrt talað. Flestir heyrnarlausir búa við nákvæmlega svona aðstæður.Táknmál er fullkomið samskiptatæki fyrir heyrnarlausa. Sá sem táknar notar rýmið í kringum sig til að setja fram hugtök og hugmyndir. Hreyfingar hans í þessu rými ásamt svipbrigðum fylgja málfræðireglum táknmálsins. Þannig verður til sjónrænt mál sem miðlar upplýsingum sem augun geta meðtekið.
Nánast allar hreyfingar, sem eru gerðar með höfði, bol og höndum, hafa einhverja merkingu þegar talað er táknmál. Svipbrigði eru ekki einungis notuð til áherslu heldur eru þau mikilvægur þáttur í málfræði táknmálsins. Tökum dæmi: Að lyfta augabrúnum meðan maður ber fram spurningu þýðir annaðhvort að maður vilji fá einfalt já eða nei eða ætlist ekki til að spurningunni sé svarað. En maður hnyklar brýrnar þegar maður spyr hv-spurninga sem krefjast frekara svars (spurninga sem byrja á hver, hvað, hvar, hvenær, hvers vegna og hvernig). Ákveðnar munnhreyfingar geta gefið til kynna stærð hlutar eða ákafann í einhverri athöfn. Höfuð-, axla- og munnhreyfingar gefa ákveðna viðbótarmerkingu og hið sama er að segja þegar táknmálstalandi fólk deplar augum eða blæs út kinn.
Allir þessir þættir gera táknmálið auðskiljanlegt og unun fyrir augað að meðtaka. Með svo blæbrigðaríkum tjáningarmáta geta heyrnarlausir, sem eru færir í táknmáli, tjáð sig um allt milli himins og jarðar — rómantík, gamanmál, hlutbundin málefni, óhlutbundin, tæknileg mál og jafnvel flutt ljóð.
Útgáfa táknmálsrita gerir gæfumuninn
Þegar þekkingunni á Jehóva er miðlað sjónrænt á táknmáli geta heyrnarlausir í rauninni heyrt boðskapinn og trúað á höfund hans. Þess vegna hafa vottar Jehóva verið iðnir við að boða fagnaðarerindið heyrnarlausum um allan heim og sjá þeim fyrir ritum sem henta þeim. (Rómv. 10:14) Núna eru 58 þýðingateymi í heiminum sem þýða á táknmál og rit eru fáanleg á mynddiskum á 40 táknmálum. Hefur öll þessi vinna borgað sig?
Jeremy á heyrnarlausa foreldra. Hann segir: „Ég man eftir að pabbi sat tímunum saman inni í svefnherbergi yfir nokkrum efnisgreinum í Varðturninum til að reyna að skilja þær. Allt í einu kom hann uppveðraður
fram til okkar og táknaði: ‚Ég skil þetta! Ég skil þetta!‘ Svo útskýrði hann fyrir mér hvað þessar greinar þýddu. Ég var bara 12 ára þá. Ég leit lauslega yfir greinarnar og táknaði til baka: ‚Pabbi, ég held ekki að þetta sé merkingin. Þetta þýðir . . .‘ Hann bandaði mér með hendinni að segja ekki meira og fór aftur inn í herbergi til að finna út úr því sjálfur hvað textinn þýddi. Ég gleymi aldrei vonbrigðasvipnum á honum eða aðdáuninni sem ég fann fyrir þegar ég horfði á eftir honum fara aftur inn í herbergi. En núna getur hann skilið efnið miklu betur þar sem við höfum táknmálsrit á mynddiskum. Og ég nýt þess að sjá hann ljóma af ánægju þegar hann lýsir því hve vænt honum þyki um Jehóva.“Lítum á annað dæmi. Hjón í söfnuði Votta Jehóva í Síle hittu unga heyrnarlausa konu sem heitir Jessenia. Þau fengu leyfi hjá móður hennar til að sýna henni Biblíusögubókina mína á mynddiski á sílesku táknmáli. Þau segja: „Þegar Jessenia byrjaði að horfa á söguna fór hún að hlæja og síðan að gráta. Mamma hennar spurði hana hvers vegna hún væri að gráta og hún svaraði að það væri vegna þess að hún væri hrifin af því sem hún væri að horfa á. Þá gerði mamma hennar sér grein fyrir að Jessenia skildi allt sem hún sá á mynddisknum.“
Heyrnarlaus hjón í Venesúela áttu eitt barn og konan var ófrísk að öðru. Þeim fannst þau ekki hafa efni á því að eignast annað barn og voru því að hugleiða fóstureyðingu. Vottar heimsóttu þau og án þess að vita nokkuð um þessar hugleiðingar þeirra sýndu þeir hjónunum kafla 12 á mynddisknum Hvers krefst Guð af okkur? á venesúelsku táknmáli. Kaflinn útskýrir viðhorf Guðs til fóstureyðinga og manndráps. Síðar sagði konan vottunum hve þakklát hún væri fyrir að hafa farið yfir þennan kafla. Hún sagði að eftir það hafi hún ákveðið að fara ekki í fóstureyðingu. Táknmálsrit á mynddiski átti þarna þátt í að bjarga lífi.
Lorraine er heyrnarlaus vottur Jehóva. Hún segir svo frá: „Að kynnast Biblíunni hefur verið eins og að raða stóru púsluspili. Það vantaði búta hér og þar í heildarskilninginn. En smátt og smátt var fyllt í eyðurnar eftir því sem meira biblíuefni varð fáanlegt á táknmáli.“ George er heyrnarlaus og hefur verið vottur í 38 ár. Hann segir: „Það er enginn vafi á því að það eykur sjálfstraust manns að geta fundið út úr hlutunum sjálfur. Mér finnst táknmálsefnið á mynddiskunum hafa haft langmest að segja við að styrkja samband mitt við Jehóva.“
„Samkoma á málinu mínu!“
Auk þess að gefa út rit á táknmáli hafa Vottar Jehóva stofnað söfnuði þar sem samkomurnar fara fram eingöngu á táknmáli. Nú eru yfir 1.100 táknmálssöfnuðir í heiminum.
Talað er til heyrnarlausra á þeirra máli og biblíusannindin eru sett fram á þann hátt sem heyrnarlausir hugsa — á málinu þeirra. Borin er virðing fyrir menningu þeirra og reynslu.Hefur það verið til góðs að stofna táknmálssöfnuði? Tökum Cyril sem dæmi. Hann lét skírast árið 1955. Árum saman las hann rit safnaðarins eins vel og hann gat og mætti dyggilega á samkomur. Stundum gat hann fengið túlkun og stundum ekki. Þegar hann fékk enga túlkun fékk hann aðstoð trúsystkina sem reyndu að hjálpa honum með því að punkta niður það sem var til umræðu á samkomunni. Það var ekki fyrr en árið 1989, þegar hann hafði verið vottur í 34 ár, sem fyrsti táknmálssöfnuðurinn í Bandaríkjunum var stofnaður í New York. Hvað fannst Cyril um að tilheyra þeim söfnuði? Hann segir: „Það var eins og að koma út úr skógarþykkni, eins og að koma út úr dimmum göngum og út í ljósið. Það var samkoma á málinu mínu!“
Táknmálssöfnuðir Votta Jehóva eru staðir þar sem heyrnarlausir geta komið reglulega saman til að læra um Guð og tilbiðja hann. Þar geta þjónar Guðs dafnað. Heyrnarlausir eru oft félagslega einangraðir og eiga erfitt með að eiga samskipti við aðra þannig að þessir söfnuðir eru athvarf þar sem menn koma saman og geta átt innihaldsrík samskipti. Í þessum söfnuðum geta heyrnarlausir vaxið og dafnað og tekið framförum í þjónustunni við Jehóva. Margir heyrnarlausir vottar hafa getað starfað sem brautryðjendur. Sumir hafa flutt til annarra landa til að hjálpa heyrnarlausum þar að kynnast Jehóva. Heyrnarlausir bræður þjálfa sig til að verða góðir kennarar og læra að sjá um skipulagsmál og hafa umsjón með söfnuðinum. Þannig verða margir þeirra hæfir til að gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum.
Í Bandaríkjunum eru rúmlega 100 táknmálssöfnuðir og um 80 hópar. Í Brasilíu eru um það bil 300 táknmálssöfnuðir og yfir 400 hópar. Það eru nálægt 300 táknmálssöfnuðir í Mexíkó. Í Rússlandi eru yfir 30 táknmálssöfnuðir og 113 hópar. Þetta eru aðeins fáein dæmi um aukninguna sem á sér stað um allan heim.
Vottar Jehóva halda einnig svæðis- og umdæmismót á táknmáli. Í fyrra voru haldin yfir 120 umdæmismót á hinum ýmsu táknmálum um heim allan. Þessir viðburðir gera heyrnarlausum vottum kleift að sjá að þeir tilheyra alþjóðasöfnuði sem fær andlega næringu á réttum tíma.
Leonard er heyrnarlaus og hann hefur verið vottur Jehóva í meira en aldarfjórðung. Hann segir: „Ég hef alltaf vitað að Jehóva er hinn sanni Guð. Ég gat samt aldrei skilið almennilega hvers vegna hann hefur leyft þjáningar. Stundum hef ég orðið honum reiður vegna þess. En ég skildi þetta loksins þegar flutt var ræða á umdæmismóti sem fór fram á táknmáli. Loksins skildi ég um hvað málið snerist. Þegar ræðunni var lokið hnippti konan mín í mig og spurði: ‚Ertu nú ánægður?‘ Ég gat játað því í fullri hreinskilni. Ég er þakklátur fyrir að ég skyldi aldrei yfirgefa Jehóva á þessum 25 árum. Ég elskaði hann alltaf en gat ekki skilið hann alveg. Núna skil ég hann!“
Hjartans þakklæti
Hvað sjá heyrnarlausir endurspeglast í „andliti“ Jehóva þegar þeir kynnast honum? Þeir sjá kærleika, umhyggju, réttlæti, trúfesti, miskunnsemi — og margt fleira.
Samfélag heyrnarlausra votta Jehóva um allan heim er farið að sjá ásjónu Jehóva og mun halda áfram að sjá hana æ skýrar. Í kærleika sínum til þeirra lætur Jehóva ‚ásjónu sína lýsa yfir þá‘. (4. Mós. 6:25) Og þeir eru þakklátir fyrir að hafa fengið að kynnast honum.
[Myndir á blaðsíðu 24, 25]
Það eru yfir 1.100 táknmálssöfnuðir í heiminum.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Ásjóna Jehóva hefur lýst skært yfir táknmálsakurinn.