Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er annt um aldraða þjóna sína

Jehóva er annt um aldraða þjóna sína

Jehóva er annt um aldraða þjóna sína

„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ — HEBR. 6:10.

1, 2. (a) Á hvað gæti hvíthærð manneskja minnt þig? (b) Hvernig lítur Jehóva á aldraða þjóna sína?

ÞEGAR þú sérð aldraða bræður og systur í söfnuðinum með hvítt hár kemur þér kannski í hug frásaga í Daníelsbók. Daníel fékk að sjá sýn þar sem Jehóva birtist með hvítt hár. Daníel skrifaði: „Meðan ég horfði á var hásætum komið fyrir og Hinn aldni tók sér sæti. Klæði hans voru mjallahvít og höfuðhár hans sem hrein ull.“ — Dan. 7:9.

2 Hrein ull er oft fallega rjómahvít á litinn. Hvítt hár og titillinn „Hinn aldni“ beina því athyglinni að háum aldri Guðs og mikilli visku sem bæði verðskulda dýpstu virðingu okkar. En hvernig lítur Hinn aldni á aldraða karla og konur sem hafa þjónað honum trúfastlega? Í orði Guðs segir: „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ (Orðskv. 16:31) Já, grátt og hvítt hár þjóna Guðs er merki um þroska og er fallegt í augum hans. Hefur þú sama viðhorf og Jehóva til eldri bræðra og systra í söfnuðinum?

Af hverju mikils metnir?

3. Af hverju þykir okkur svona vænt um öldruð trúsystkini okkar?

3 Meðal aldraðra þjóna Guðs eru þeir sem sitja í stjórnandi ráði Votta Jehóva, núverandi og fyrrverandi farandumsjónarmenn, duglegir brautryðjendur og þroskaðir boðberar — bræður og systur sem þjóna trúföst í söfnuðum okkar. Kannski þekkirðu einhverja sem hafa prédikað fagnaðarerindið í áratugi og hafa með góðu fordæmi sínu hvatt unga fólkið og haft mikil áhrif á líf þess. Sumir þessara öldruðu þjóna Guðs hafa sinnt miklum ábyrgðarstörfum og hafa þolað ofsóknir vegna fagnaðarerindisins. Jehóva og „trúi og hyggni“ þjóninn kunna sannarlega að meta allt sem þeir hafa gert og eru að gera í þjónustunni við Guðsríki. — Matt. 24:45.

4. Af hverju ættum við að virða aldraða í söfnuðinum og biðja fyrir þeim?

4 Aldraðir vottar, sem hafa þjónað Jehóva dyggilega, verðskulda þakklæti og virðingu trúsystkina sinna. Í lögmálinu, sem Guð gaf fyrir milligöngu Móse, var tillitssemi og virðing fyrir hinum eldri sett í samband við lotningu gagnvart Guði. (3. Mós. 19:32) Við ættum að biðja að staðaldri fyrir þessum trúföstu einstaklingum og þakka Jehóva fyrir kærleiksverk þeirra. Páll postuli bað fyrir samverkamönnum sínum, jafnt ungum sem öldnum. — Lestu 1. Þessaloníkubréf 1:2, 3.

5. Hvaða gagn höfum við af því að umgangast aldraða þjóna Jehóva?

5 Allir í söfnuðinum geta auk þess notið góðs af félagsskap við eldri bræður og systur. Með námi sínu í Biblíunni, eftirtektarsemi og reynslu hafa aldraðir tilbiðjendur Jehóva aflað sér afar verðmætrar þekkingar. Þeir hafa lært að vera þolinmóðir og sýna samúð. Og það veitir þeim mikla gleði og ánægju að geta kennt næstu kynslóð það sem þeir hafa lært. (Sálm. 71:18) Þið unga fólkið ættuð að nýta ykkur þekkingu þeirra, rétt eins og þið séuð að draga vatn úr djúpum brunni. — Orðskv. 20:5.

6. Hvernig geturðu sýnt eldri trúsystkinum að þú metir þau mikils?

6 Læturðu hina eldri vita að þú metur þá mikils, rétt eins og Jehóva gerir? Þú getur til dæmis gert það með því að segja þeim hvað þér þykir vænt um trúfesti þeirra og að þú metir skoðanir þeirra mikils. Og með því að fara eftir því sem þú lærir af þeim sýnirðu að þú virðir þá að sönnu. Margir rosknir þjónar Guðs muna eftir góðum ráðum sem þeir fengu frá öldruðum trúsystkinum og hvernig það hefur verið þeim til góðs á lífsleiðinni að fylgja þeim. *

Sýnum umhyggju í verki

7. Hverjum hefur Jehóva falið aðalábyrgðina að annast hina öldruðu?

7 Guð fól fjölskyldum aldraðra aðalábyrgðina að sjá um þá. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8, Biblían 1981.) Það gleður Jehóva þegar fjölskyldur rækja skyldur sínar gagnvart öldruðum ættingjum og sýna um leið að þær líta þá sömu augum og hann gerir. Guð styður þessar fjölskyldur og blessar þær fyrir viðleitni sína og fórnir. *

8. Af hverju ætti söfnuðurinn að sýna öldruðum trúsystkinum umhyggju?

8 Það gleður líka Jehóva þegar söfnuðurinn aðstoðar aldraða þjóna hans sem þarfnast hjálpar en eiga ekki ættingja í söfnuðinum eða ættingja sem vilja aðstoða þá. (1. Tím. 5:3, 5, 9, 10) Söfnuðurinn sýnir þannig hinum öldruðu hluttekningu, kærleika og miskunn. (1. Pét. 3:8) Páll lýsir vel umhyggjunni fyrir hinum öldruðu í söfnuðinum þegar hann segir að ef einn limur líkamans þjáist ‚þá þjáist allir limirnir með honum‘. (1. Kor. 12:26) Þegar við sýnum umhyggju okkar í verki fylgjum við meginreglunni sem kemur fram í ráðleggingum Páls: „Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ — Gal. 6:2.

9. Hvaða byrðar geta fylgt ellinni?

9 Hvaða byrðar þurfa hinir öldruðu að bera? Margir eru fljótir að þreytast. Þeim getur jafnvel fundist það sér um megn að sinna einföldum hlutum eins og að fara til læknis, borga reikninga, ræsta húsið og matbúa. Þar sem dregið getur úr matarlyst og þorsta með aldrinum hættir þeim kannski til að borða og drekka minna en þeir þurfa í raun og veru. Það sama getur átt við um andlega næringu. Þegar sjónin daprast og heyrnin bilar getur það reynst þeim erfitt að lesa og hlusta á safnaðarsamkomum. Og það eitt að hafa sig til fyrir samkomur getur reynt mjög á. Hvað geta aðrir gert fyrir aldraða sem eru í þessum sporum?

Leiðir til að aðstoða

10. Hvað geta öldungar gert til að hinir öldruðu fái nauðsynlega aðstoð?

10 Í mörgum söfnuðum er mjög vel séð um hina öldruðu. Bræður og systur aðstoða þá fúslega við innkaup, matreiðslu og ræstingu. Þau hjálpa þeim við biblíunám, að hafa sig til fyrir samkomur og að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu. Yngra fólk starfar með þeim og tekur það með sér á samkomur. Ef hinir öldruðu eiga ekki heimangengt hlusta þeir á samkomurnar í gegnum síma eða fá hljóðupptökur af þeim. Ef það er mögulegt reyna öldungarnir að sjá til þess að hinir öldruðu í söfnuðinum fái þá hjálp sem þeir þurfa. *

11. Hvernig hjálpaði fjölskylda öldruðum bróður?

11 Einstaklingar í söfnuðinum geta líka sýnt gestrisni og örlæti. Eftir að aldraður bróðir missti konuna sína og ellilífeyrir hennar féll niður hafði hann ekki lengur efni á að borga húsaleiguna. Þau hjónin höfðu kennt fjölskyldu einni sannleika Biblíunnar. Þessi fjölskylda, hjón ásamt tveim unglingsstúlkum, átti stórt hús og bauð honum tvö herbergi til afnota. Í 15 ár borðuðu þau saman, hlógu saman og áttu saman margar ánægjustundir. Fjölskyldan lærði mikið af trú hans og lífsreynslu og félagsskapurinn var honum mikils virði. Þessi bróðir bjó hjá þeim þar til hann lést 89 ára að aldri. Fjölskyldan er Guði þakklát fyrir þá blessun sem það var að njóta félagsskapar þessa aldraða bróður. Hún hefur ekki ‚misst af launum sínum‘ sem hún hlaut fyrir að hjálpa einum af lærisveinum Jesú Krists. — Matt. 10:42. *

12. Hvað geturðu gert til að sýna öldruðum í söfnuðinum umhyggju?

12 Óvíst er að þú sért í aðstöðu til að sinna öldruðum bróður eða systur með sama hætti og þessi fjölskylda en þú getur kannski hjálpað þeim að komast á samkomur og í boðunarstarfið. Þú getur líka boðið þeim í heimsókn eða tekið þau með í stuttar skemmtiferðir. Þú getur heimsótt þau, ekki síst þegar þau eru veik eða eiga ekki heimangengt. Og þú getur og ættir alltaf að koma fram við aldraða sem fullorðna og sjálfráða einstaklinga. Þeir ættu að vera með í ráðum um allt sem snertir þá svo framarlega sem þeir eru færir um það. Jafnvel þó að þeim sé farið að hraka andlega geta þeir skynjað hvort reisn þeirra sé virt.

Jehóva gleymir ekki verki ykkar

13. Af hverju er mikilvægt að taka tillit til tilfinninga aldraðra í söfnuðinum?

13 Það er nauðsynlegt að taka tillit til þess hvernig öldruðum getur verið innanbrjóst. Oft eru þeir miður sín yfir því að geta ekki lengur gert allt sem þeir gerðu þegar þeir voru yngri og hraustari. Sem dæmi má nefna systur sem þjónaði Jehóva af kappi í um það bil 50 ár og hafði verið brautryðjandi. Þá lagðist á hana sjúkdómur sem dró úr henni þrótt svo að hún átti mjög erfitt með að sækja samkomur. Hún brast í grát þegar henni var hugsað til þess hve lítið hún gat gert miðað við áður. Hún draup höfði og sagði með tárin í augunum: „Ég geri ekki neitt að gagni lengur.“

14. Hvernig geta Sálmarnir verið uppörvandi fyrir aldraða þjóna Jehóva?

14 Ertu kominn á efri ár? Kannastu við þessar tilfinningar? Finnst þér jafnvel stundum eins og að Jehóva hafi yfirgefið þig? Sálmaritaranum hefur hugsanlega verið þannig innanbrjóst á efri æviárum því að hann bað til Jehóva: „Útskúfa mér ekki í elli minni, yfirgef mig eigi er þróttur minn þverr. Yfirgef mig eigi, Guð, þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum.“ (Sálm. 71:9, 18) Jehóva ætlaði auðvitað ekki að yfirgefa sálmaritarann og hann mun ekki heldur yfirgefa þig. Í öðrum sálmi lét Davíð í ljós að hann treysti á stuðning Guðs. (Lestu Sálm 68:20.) Þú getur treyst því að Jehóva sé með þér og muni halda áfram að styðja þig og styrkja dag eftir dag.

15. Hvað getur hjálpað öldruðum að vera jákvæðir?

15 Jehóva hverfur ekki úr minni það sem þið, aldraðir þjónar hans, hafið gert og eruð að gera til að upphefja nafn hans. „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum,“ segir í Biblíunni. (Hebr. 6:10) Forðist neikvæðni og þá hugsun að þið séuð orðin of gömul til að Jehóva geti notað ykkur í þjónustu sinni. Reynið að ýta frá ykkur niðurdrepandi hugsunum og svartsýni og hugsa jákvætt í staðinn. Gleðjist yfir blessunum ykkar og framtíðarvoninni. Við eigum „vonarríka framtíð“ — þá bestu sem hugsast getur — og skaparinn hefur veitt tryggingu fyrir að hún rætist. (Jer. 29:11, 12; Post. 17:31; 1. Tím. 6:19) Hugsið um vonina, leggið ykkur fram um að vera ung í huga og hjarta og vanmetið aldrei hve mikils virði þið eruð söfnuðinum. *

16. Af hverju taldi aldraður bróðir að hann ætti að hætta sem öldungur, en hvernig brást öldungaráðið við?

16 Johan er áttræður og annast Sannie, trúfasta eiginkonu sína, sem er orðinn sjúklingur og þarfnast stöðugrar umönnunar. * Trúsystur skiptast á að vera hjá Sannie til að Johan geti sótt samkomur og farið í boðunarstarfið. En fyrir skömmu var Johan að niðurlotum kominn og fór að hugsa með sér að hann ætti ekki að vera safnaðaröldungur lengur. „Þjónar það nokkrum tilgangi að ég sé öldungur?“ spurði hann með tárin í augunum. „Ég geri ekkert gagn í söfnuðinum lengur.“ Samöldungar hans fullvissuðu hann um að reynsla hans og dómgreind væri ómetanleg. Þeir hvöttu hann til að halda áfram sem öldungur þótt hann gæti ekki sinnt miklum verkefnum lengur. Þetta var mikil uppörvun fyrir hann og hann starfar áfram sem öldungur, söfnuðinum til blessunar.

Jehóva er mjög annt um aldraða

17. Hvaða loforð fá aldraðir vottar í Biblíunni?

17 Í Biblíunni kemur vel fram að aldraðir geti haldið áfram að dafna í þjónustunni við Jehóva þrátt fyrir erfiðleika ellinnar. Sálmaritarinn sagði: „Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins . . . bera ávöxt í hárri elli, eru safaríkir og grænir.“ (Sálm. 92:14, 15) Páll postuli átti ef til vill við einhverja vanheilsu að stríða en hann ‚lét ekki hugfallast jafnvel þótt hans ytri maður hrörnaði‘. — Lestu 2. Korintubréf 4:16-18.

18. Af hverju þurfa öldruð trúsystkini okkar og þeir sem annast þau á stuðningi að halda?

18 Mörg nútímadæmi sanna að aldraðir geta dafnað og ‚borið ávöxt‘. En sjúkdómar og elli geta engu að síður verið lýjandi, einnig fyrir þá sem njóta dyggilegrar aðstoðar umhyggjusamra ættingja. Þeir sem annast aldraða geta líka orðið úrvinda. Söfnuðurinn hefur þann heiður og þá ábyrgð að sýna öldruðum og þeim sem annast þá kærleika sinn í verki. (Gal. 6:10) Þá segjum við ekki bara „vermið ykkur og mettið“ heldur veitum þeim nauðsynlega aðstoð. — Jak. 2:15-17.

19. Af hverju geta aldraðir þjónar Guðs horft öruggir til framtíðar?

19 Starfsorkan getur breyst þegar árin færast yfir en kærleikur Jehóva til aldraðra þjóna sinna dvínar aldrei. Allir þessir trúföstu þjónar Guðs eru dýrmætir í augum hans og hann mun aldrei yfirgefa þá. (Sálm. 37:28; Jes. 46:4) Jehóva mun styðja þá og styrkja á efri æviárum. — Sálm. 48:15.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 8. febrúar 1994, bls. 3-10.

^ gr. 10 Í sumum löndum getur þetta falið í sér að hjálpa hinum öldruðu að nýta sér þá aðstoð sem hið opinbera veitir. Sjá greinina „God Cares for the Elderly“, í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. júní 2006.

^ gr. 11 Sjá greinina „Jehovah Always Cares for Us“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. september 2003.

^ gr. 15 Sjá greinina „The Splendor of Gray-Headedness“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. mars 1993.

^ gr. 16 Nöfnum hefur verið breytt.

Hvert er svarið?

• Af hverju eru aldraðir í söfnuðinum dýrmætir í þínum augum?

• Hvernig getum við sýnt öldruðum trúsystkinum umhyggju?

• Hvað getur hjálpað öldruðum þjónum Jehóva að vera jákvæðir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Aldraðir eru mikils metnir í söfnuðinum.