Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einangruð — en ekki gleymd

Einangruð — en ekki gleymd

Einangruð — en ekki gleymd

PÁLL postuli hvatti kristna menn til að ‚gera öllum gott og einkum trúsystkinum sínum‘. (Gal. 6:10) Við hlýðum þessum innblásnu fyrirmælum rétt eins og frumkristnir menn gerðu og leitum leiða til að gera trúsystkinum okkar gott. Öldruð trúsystkini, sem búa á elliheimilum, eru meðal þeirra sem þurfa og verðskulda að fá fullvissu um að söfnuðinum sé annt um þau.

Í sumum löndum er venjan sú að fjölskyldur annist aldraða foreldra sína heima fyrir. En í öðrum löndum þurfa aldraðir oft að reiða sig á þá umönnun sem hægt er að fá á elli- og hjúkrunarheimilum. Hvað um öldruð trúsystkini okkar sem dvelja á elliheimilum? Hvaða erfiðleikum standa þau frammi fyrir? Hvað getur auðveldað þeim að takast á við þessa erfiðleika ef þau fá engan stuðning frá fjölskyldu sinni? Hvernig getur söfnuðurinn hjálpað þeim? Og hvernig er það til góðs fyrir okkur að heimsækja þau reglulega?

Erfiðleikarnir sem þau standa frammi fyrir

Þegar öldruð trúsystkini flytja inn á elliheimili eru þau ef til vill komin á nýtt safnaðarsvæði og tilheyra söfnuði þar sem enginn þekkir þau. Þess vegna gæti farið svo að vottarnir í söfnuðinum hugsi ekki út í það að heimsækja þau reglulega. Þar að auki er líklegt að á elliheimilinu séu þau innan um fólk sem aðhyllist ekki sömu trúarskoðanir og þau. Það gæti sett þau í erfiða aðstöðu.

Sem dæmi má nefna að á sumum elliheimilum eru haldnar trúarsamkomur. Einn starfsmaður sagði: „Sumir aldraðir vottar, sem geta ekki tjáð sig skilmerkilega, hafa verið keyrðir í hjólastól til guðsþjónustu að þeim forspurðum.“ Enn fremur nota starfsmenn elliheimila oft afmæli, jól eða páska til að breyta út af venjulegri dagskrá vistmanna. Sumum vottum, sem dvelja á elliheimilum, hefur einnig verið gefinn matur sem þeir myndu ekki borða samviskunnar vegna. (Post. 15:29) Ef við heimsækjum öldruð trúsystkini að staðaldri getum við hjálpað þeim að takast á við slíkar aðstæður.

Stuðningur safnaðarins

Frumkristnir menn sinntu skyldum sínum við öldruð trúsystkini sem höfðu enga fjölskyldu til að annast sig. (1. Tím. 5:9) Umsjónarmenn nú á dögum gæta þess sömuleiðis að öldruð trúsystkini, sem búa á elliheimilum á safnaðarsvæði þeirra, séu ekki vanrækt. * Robert, sem er öldungur, segir: „Það er mjög gott ef safnaðaröldungar heimsækja hina öldruðu til að kynnast aðstæðum þeirra og biðja með þeim. Söfnuðurinn getur gert heilmikið til að sinna þörfum þeirra.“ Ef við tökum frá tíma til að heimsækja hina öldruðu sýnum við að við skiljum hversu mikilvægt það er í augum Jehóva að sinna þeim sem þurfa aðstoðar við. — Jak. 1:27.

Öldungarnir gera fúslega ráðstafanir til að trúsystkini, sem búa á elliheimilum á þeirra safnaðarsvæði, fái hagnýta aðstoð ef svo ber undir. Robert bendir á nokkuð sem gæti þurft að gera: „Við ættum að hvetja öldruð trúsystkini til að sækja safnaðarsamkomur ef þau geta.“ Öldungarnir gætu hins vegar gert aðrar ráðstafanir fyrir trúsystkini sem geta ekki lengur komið í ríkissalinn. Jacqueline er hálfníræð og er með slitgigt. Hún hlustar á samkomurnar símleiðis. Hún segir: „Það er mjög gagnlegt fyrir mig að hlusta á samkomurnar um leið og þær eru haldnar. Ég vil fyrir engan mun missa af þeim!“

Ef aldrað trúsystkini getur ekki hlustað á samkomurnar símleiðis geta öldungar séð til þess að samkomurnar séu hljóðritaðar. Sá sem færir öldruðum bróður eða systur upptökuna getur notað tækifærið til að eiga uppörvandi samræður við hann eða hana. „Þegar við segjum öldruðum trúsystkinum fréttir af öðrum í söfnuðinum finna þau að þau tilheyra söfnuðinum,“ segir umsjónarmaður.

Viðhaldið tjáskiptunum

Eins og gefur að skilja finnst mörgum mjög erfitt að flytjast á elliheimili og þeir verða ráðvilltir. Sumum hættir því til að draga sig inn í skel. En ef við heimsækjum öldruð trúsystkini fljótlega eftir flutninginn á elliheimilið og sýnum að við viljum halda áfram að styðja við bakið á þeim er það þeim mikil hjálp til að endurheimta innri frið og halda gleði sinni. — Orðskv. 17:22.

Ef öldruð trúsystkini hafa tapað heyrn, er farið að förlast eða eru með einhver önnur vandamál sem tálma tjáskiptum gætu sumir hugsað sem svo að það sé tilgangslaust að heimsækja þau. En við sýnum þeim virðingu með því að heimsækja þau, sama hversu erfitt er að eiga tjáskipti við þau. (Rómv. 12:10) Ef skammtímaminni aldraðs bróður er byrjað að hraka gætum við hvatt hann til að rifja upp liðna tíð — jafnvel bernskuárin — eða beðið hann um að segja okkur frá því hvernig hann kynntist sannleika Biblíunnar. Hvað getum við gert ef hann á erfitt með að finna réttu orðin? Hlustum af þolinmæði og ef það á við getum við nefnt tvö eða þrjú orð sem hann virðist vera að leita að eða endurtekið stuttlega það sem hann sagði og hvatt hann til að halda áfram. Ef erfitt er að skilja hann vegna þess að hann er ráðvilltur eða óskýr í tali gætum við reynt að átta okkur á því hvað hann er að segja með því að hlusta vel eftir raddbrigðum.

Ef orðaskipti eru ekki lengur möguleg er hægt að fara aðrar leiðir. Laurence er brautryðjandi. Hún lítur reglulega inn til Madeleine, áttræðrar systur sem er ekki lengur fær um að tjá sig í töluðu máli. Hvernig gerir Laurence sig skiljanlega? „Ég held í höndina á Madeleine þegar við biðjum saman. Í bæninni þrýstir hún hönd mína laust og deplar augunum til að láta í ljós þakklæti fyrir þessar ljúfu stundir.“ Þegar við höldum í höndina á öldruðum trúsystkinum okkar eða föðmum þau innilega getur það verið mjög hughreystandi fyrir þau.

Nærvera þín skiptir máli

Þegar þú heimsækir hina öldruðu reglulega getur það haft áhrif á umönnunina sem þeir fá. Danièle hefur heimsótt trúsystkini á elliheimilum í um 20 ár. Hún segir: „Þegar starfslið elliheimila sér að einhver fær reglulegar heimsóknir fær hann betri umönnun en ella.“ Robert, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Starfsfólk hlustar frekar á einhvern sem heimsækir vistmann reglulega. Það ber að öllum líkindum ekki jafn mikla virðingu fyrir þeim sem lítur við endrum og eins.“ Þar sem starfsfólk þarf oft að fást við kröfuharðar fjölskyldur kann það vel að meta þegar gestir tjá þeim þakklæti sitt. Ef við byggjum upp gott samband við starfsfólkið gætum við meira að segja stuðlað að því að það verði fúsara til að virða trúarskoðanir og lífsgildi aldraðs trúsystkinis okkar sem það annast.

Við getum líka stuðlað að góðum samskiptum við starfsliðið með því að bjóðast til að sinna einföldum verkum. Víða er stöðugur skortur á faglærðu starfsfólki en það hefur áhrif á umönnunina sem hinir öldruðu fá. Rébecca er hjúkrunarkona og hún segir: „Matmálstímar eru erilsamir. Það er því upplagt að koma á þessum tíma til að heimsækja vin og hjálpa honum að borða.“ Við ættum ekki að hika við að biðja starfsfólkið um að koma með uppástungur um það hvernig við getum orðið að liði.

Þegar við heimsækjum sama hjúkrunarheimilið að staðaldri gerir það okkur kleift að koma auga á hvers trúsystkini okkar þarfnast. Þá getum við í samráði við starfsfólk átt frumkvæðið að því að uppfylla þessar þarfir. Við getum til dæmis lífgað upp á herbergi trúsystkinis með því að hengja upp fjölskyldumyndir eða teikningar barna. Við gætum komið með hlýjan baðslopp eða fáeinar snyrtivörur til að stuðla að vellíðan bróður okkar eða systur. Væri ekki upplagt að fara út með vin okkar til að fá ferskt loft ef garður er umhverfis elliheimilið? Laurence, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Madeleine hlakkar til vikulegra heimsókna minna. Þegar ég tek börn með mér lætur brosið ekki á sér standa og augun ljóma af gleði.“ Frumkvæði af þessu tagi getur verið mikils virði fyrir þá sem búa á elliheimili. — Orðskv. 3:27.

Gagnkvæmur ávinningur

Þegar við heimsækjum reglulega aldraða manneskju gæti reynt á ‚hvort kærleikur okkar er einlægur‘. (2. Kor. 8:8) Hvernig þá? Það getur verið sárt að horfa upp á hvernig vini hrakar dag frá degi. Laurence viðurkennir: „Í fyrstu hafði það gífurleg áhrif á mig að sjá hvernig komið var fyrir Madeleine og ég grét eftir hverja heimsókn. En mér lærðist að innilegar bænir geta hjálpað okkur að sigrast á því sem við óttumst og vera uppörvandi.“ Árum saman hefur Robert heimsótt trúbróður sem heitir Larry en hann er með Parkinsons-veiki. Robert segir: „Larry er orðinn svo langt leiddur að ég skil ekki lengur orð af því sem hann segir. En þegar við biðjum saman skynja ég að hann hefur enn þá lifandi trú.“

Þegar við heimsækjum öldruð trúsystkini eru það ekki aðeins þau sem njóta góðs af því heldur líka við sjálf. Þau eru ákveðin í að halda sig fast við Jehóva þó að þau séu umkringd fólki sem hefur aðrar trúarskoðanir en þau. Þetta kennir okkur að hafa trú og vera hugrökk. Þau hafa brennandi áhuga á því að fá andlega fæðu þrátt fyrir skerta heyrn og sjón en það undirstrikar að ‚maðurinn lifir ekki á brauði einu saman heldur á hverju því orði sem fram gengur af munni Guðs‘. (Matt. 4:4) Þegar þau gleðjast yfir einföldum hlutum, eins og að sjá barn brosa eða borða máltíð með vinum, minnir það okkur á að vera ánægð með það sem við höfum. Samband þeirra við Jehóva skiptir þau mestu máli og það getur verið okkur hvatning til að forgangsraða rétt.

Það má með sanni segja að allur söfnuðurinn njóti góðs af því þegar við aðstoðum hina öldruðu. Hvernig þá? Þeir sem eru lasburða þurfa meira á stuðningi að halda frá söfnuðinum og söfnuðurinn fær þannig tækifæri til að sýna meiri umhyggju. Við ættum því öll að líta á umönnun aldraðra sem þátt í þjónustu okkar hvert við annað, jafnvel þótt slík umönnun teygi sig yfir langan tíma. (1. Pét. 4:10, 11) Ef öldungarnir ganga á undan með góðu fordæmi minna þeir aðra í söfnuðinum á að það ætti aldrei að vanrækja þennan þátt í kristnu starfi okkar. (Esek. 34:15, 16) Þegar við liðsinnum öldruðum trúsystkinum fúslega fá þau vissu fyrri því að þau séu ekki gleymd.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Um leið og ritari safnaðarins veit að trúsystkini í söfnuðinum er flutt á elliheimili á öðru safnaðarsvæði væri hjálplegt og kærleiksríkt af honum að láta öldungana á þessu safnaðarsvæði tafarlaust vita.

[Innskot á blaðsíðu 28]

„Þegar starfslið elliheimila sér að einhver fær reglulegar heimsóknir fær hann betri umönnun en ella.“

[Mynd á blaðsíðu 26]

Einlægar bænir okkar geta hjálpað öldruðu trúsystkini að endurheimta innri frið.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Við styrkjum öldruð trúsystkini með því að tjá þeim væntumþykju okkar.