Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva heyrir hróp okkar á hjálp

Jehóva heyrir hróp okkar á hjálp

Jehóva heyrir hróp okkar á hjálp

„Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ — SÁLM. 34:16.

1, 2. (a) Hvernig líður mörgum nú á dögum? (b) Af hverju kemur það okkur ekki á óvart?

ÞARFT þú að þola ýmsar raunir? Þú ert ekki einn um það. Á hverjum degi þurfa milljónir manna að kljást við þá erfiðleika og það álag sem fylgir þessu illa heimskerfi. Sumum finnst ástandið næstum óbærilegt. Orð sálmaritarans Davíðs endurspegla líðan margra nú á dögum: „Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans. Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.“ — Sálm. 38:9, 11.

2 Erfiðleikar lífsins koma kristnum mönnum ekki á óvart. Við vitum að spáð var að ‚fæðingarhríðir‘ myndu vera hluti táknsins um nærveru Jesú. (Mark. 13:8; Matt. 24:3) Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚fæðingarhríðir‘, getur átt við hörmungar eða raunir almennt. Þessi lýsing gefur raunsæja mynd af þjáningum fólks á þessum síðustu og verstu tímum. — 2. Tím. 3:1.

Jehóva skilur raunir okkar

3. Hvað vita þjónar Guðs mætavel?

3 Þjónar Jehóva vita mætavel að þeir eru ekki ónæmir fyrir þessum erfiðleikum og mjög líklega á ástandið eftir að versna. Auk þess eiga þeir sér óvin, Satan djöfulinn, sem er staðráðinn í að grafa undan trú þeirra. (1. Pét. 5:8) Það er engin furða að mörgum skuli líða eins og Davíð sem skrifaði: „Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.“ — Sálm. 69:21.

4. Hvað getur hughreyst okkur á erfiðleikatímum?

4 Átti Davíð við að hann væri án allrar vonar? Nei. Taktu eftir hvað hann segir nokkrum versum síðar: „Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína [„þá þjóna sína sem eru fangar,“ NW, neðanmáls].“ (Sálm. 69:34) Ef til vill líður okkur stundum eins og erfiðleikarnir fjötri okkur og að enginn skilji aðstæður okkar — og sú er kannski raunin. En líkt og Davíð getum við sótt huggun í þá vitneskju að Jehóva skilur vanlíðan okkar til fulls. — Sálm. 34:16.

5. Um hvað var Salómon konungur fullviss?

5 Salómon, sonur Davíðs, benti á þessa staðreynd þegar musterið var vígt í Jerúsalem. (Lestu 2. Kroníkubók 6:29-31.) Hann sárbændi Jehóva um að hlusta á einlægar bænir allra þeirra sem fyndu til „angurs og sársauka“. Hvernig myndi Guð svara bænum þessara raunamæddu einstaklinga? Salómon var þess fullviss að Guð myndi ekki aðeins hlusta á bænir þeirra heldur einnig svara þeim. Hvers vegna? Vegna þess að Guð einn „þekkir hjörtu manna“.

6. Hvernig getum við tekist á við áhyggjur og af hverju?

6 Við getum líka rætt við Jehóva í bæn um raunir okkar og nauðir. Það ætti að veita okkur huggun að vita að hann skilur áhyggjur okkar og að honum er annt um okkur. Hvatning Péturs postula á vel við en hann sagði: „Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pét. 5:7) Líðan okkar skiptir Jehóva máli. Jesús benti á kærleiksríka umhyggju Jehóva þegar hann sagði: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ — Matt. 10:29-31.

Reiddu þig á Jehóva

7. Hvaða stuðning eigum við vísan?

7 Við getum verið viss um að Jehóva bæði vill og getur hjálpað okkur í raunum okkar. „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ (Sálm. 34:16-19; 46:2) Hvernig fer hann að því að veita okkur hjálp? Lítum á það sem stendur í 1. Korintubréfi 10:13: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ Jehóva getur stýrt málum þannig að við losnum við mótlætið eða gefið okkur kraft til að þola það. Já, Jehóva hjálpar okkur með einum eða öðrum hætti.

8. Hvernig getum við nýtt okkur hjálp Guðs?

8 Hvernig getum við nýtt okkur þessa hjálp? Tökum eftir hvað okkur er ráðlagt að gera: „Varpið allri áhyggju yðar á hann.“ Það er eins og við réttum Jehóva allar áhyggjur okkar og skiljum þær eftir hjá honum. Við reynum að vera ekki áhyggjufull og treystum þolinmóð að hann sjái um okkur. (Matt. 6:25-32) Slíkt traust útheimtir að við séum auðmjúk og reiðum okkur ekki á eigin mátt eða visku. Með því að auðmýkja okkur „undir Guðs voldugu hönd“ viðurkennum við lága stöðu okkar. (Lestu 1. Pétursbréf 5:6.) Þetta viðhorf hjálpar okkur síðan að takast á við hvaðeina sem Guð leyfir. Við þráum ef til vill að vandamál okkar hverfi strax en við treystum því að Jehóva viti nákvæmlega hvenær og hvernig hann eigi að skerast í leikinn. — Sálm. 54:9; Jes. 41:10.

9. Hvaða áhyggjum þurfti Davíð að varpa á Jehóva?

9 Munum eftir hvað Davíð sagði í Sálmi 55:23: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ Davíð var undir miklu álagi þegar hann skrifaði þessi orð. (Sálm. 55:5) Allt bendir til að hann hafi ort þennan sálm þegar Absalon, sonur hans, lagði á ráðin um að hrifsa til sín völdin. Nánasti ráðgjafi Davíðs, Akítófel, tók þátt í samsærinu. Davíð þurfti að flýja Jerúsalem til að halda lífi. (2. Sam. 15:12-14) En jafnvel við þessar erfiðu aðstæður hélt Davíð áfram að treysta á Guð sem brást honum ekki.

10. Hvað verðum við að gera þegar erfiðleikar íþyngja okkur?

10 Það er mjög mikilvægt að við, líkt og Davíð, nálgumst Jehóva alltaf í bæn þegar erfiðleikarnir íþyngja okkur. Lítum á hvað Páll postuli hvatti okkur til að gera í þessu sambandi. (Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.) Hver er árangurinn af slíkum innilegum bænum? „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu [okkar] og hugsanir [okkar] í Kristi Jesú.“

11. Hvernig verndar „friður Guðs“ hjörtu okkar og hugsanir?

11 Geta bænir breytt aðstæðum þínum? Það má vera. En við ættum samt að muna að Jehóva svarar bænum okkar ekki alltaf á þann hátt sem við búumst við. Bænin getur engu að síður hjálpað okkur að halda hugarró þannig að erfiðleikarnir gagntaki okkur ekki. „Friður Guðs“ getur róað okkur þegar erfiðleikarnir íþyngja okkur. Þessi friður mun vernda hjörtu okkar og hugsanir líkt og setulið hermanna verndar borg gegn innrás óvina. Hann gerir okkur líka kleift að sigrast á efasemdum, ótta og neikvæðum hugsunum og forðar okkur frá því að vera fljótfær og ógætin. — Sálm. 145:18.

12. Lýstu með dæmi hvernig hægt er að öðlast hugarfrið.

12 Hvernig getum við haft hugarfrið undir erfiðum kringumstæðum? Tökum dæmi sem lýsir þessu að einhverju leyti. Ímyndum okkur starfsmann sem þarf að sæta hranalegri framkomu yfirmanns síns. Starfsmanninum gefst tækifæri til að tjá sig um málið við eiganda fyrirtækisins sem er vingjarnlegur og sanngjarn maður. Eigandinn fullvissar starfsmanninn um að hann skilji stöðuna og segir honum að þessi yfirmaður verði bráðum leystur frá störfum. Hvaða áhrif hefur þetta á starfsmanninn? Þar sem hann treystir orðum eigandans og veit hvað er í vændum er hann ákveðinn í að halda út þó að hann þurfi að þola ástandið ögn lengur. Við vitum sömuleiðis að Jehóva skilur stöðu okkar og hann fullvissar okkur um að bráðum verði „höfðingja þessa heims út kastað“. (Jóh. 12:31) Það er hughreystandi að vita!

13. Hvað þurfum við að gera auk þess að biðja til Jehóva?

13 Er þá bara nóg að tala við Jehóva um vandamál okkar í bæn? Nei, við verðum að gera meira. Við þurfum að breyta í samræmi við bænir okkar. Þegar Sál konungur sendi menn heim til Davíðs til að taka hann af lífi bað Davíð: „Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum. Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum.“ (Sálm. 59:2, 3) Auk þess að biðja til Guðs hlustaði Davíð á ráð konu sinnar og flúði. (1. Sam. 19:11, 12) Við getum líka beðið Guð um visku til að hjálpa okkur að takast á við íþyngjandi aðstæður og jafnvel gera þær bærilegri. — Jak. 1:5.

Hvað getur hjálpað okkur að þrauka?

14. Hvað getur hjálpað okkur að þrauka við erfiðar aðstæður?

14 Þjáningar okkar eru kannski ekki fjarlægðar tafarlaust. Þær halda ef til vill áfram um tíma. Ef svo er, hvað getur þá hjálpað okkur að þrauka? Í fyrsta lagi er gott að muna að við sýnum að við elskum Jehóva þegar við höldum áfram að þjóna honum trúfastlega þrátt fyrir erfiðleika. (Post. 14:22) Höfum í huga hverju Satan hélt fram um Job: „Er Job guðhræddur að ástæðulausu? Hefur þú ekki verndað hann, hús hans og eignir á alla lund? Þú hefur blessað störf hans og fénaður hans hefur dreift sér um landið. En réttu út hönd þína og snertu allt sem hann á, þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ (Job. 1:9-11, Biblían 2007 ) Með ráðvendni sinni sannaði Job að ásökun Satans var helber lygi. Við getum líka sannað Satan lygara með því að vera þolgóð þrátt fyrir erfiðleika. Það mun síðan styrkja von okkar og trúartraust. — Jak. 1:4.

15. Fordæmi hverra geta styrkt okkur?

15 Í öðru lagi ættum við að hafa hugfast „að bræður [okkar] um allan heim verða fyrir sömu þjáningum“. (1. Pét. 5:9) Já, „þið hafið ekki reynt nema það sem menn geta þolað“, það er að segja orðið fyrir prófraunum sem verða á vegi fólks almennt. (1. Kor. 10:13, Biblían 2007 ) Þú getur fengið aukinn styrk og hugrekki með því að hugleiða fordæmi annarra í stað þess að einblína á eigin erfiðleika. (1. Þess. 1:5-7; Hebr. 12:1) Gefðu þér tíma til að íhuga fordæmi þeirra sem þú veist að hafa sýnt þolgæði þrátt fyrir miklar prófraunir. Hefurðu leitað að frásögum í ritum okkar af fólki sem hefur tekist á við svipuð vandamál og þú? Þú getur sótt mikinn styrk í þessi dæmi.

16. Hvernig styrkir Guð okkur í ýmsum raunum?

16 Í þriðja lagi er Jehóva „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað aðra í hvaða þrenging sem er, með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.“ (2. Kor. 1:3, 4, Biblían 1912) Það er eins og Guð standi við hlið okkar og hvetji okkur og styrki, ekki aðeins í núverandi prófraunum heldur „í sérhverri þrenging“ okkar. Þetta gerir okkur síðan kleift að hugga aðra „í hvaða þrenging sem er“. Páll postuli þekkti það af eigin raun. — 2. Kor. 4:8, 9; 11:23-27.

17. Hvernig getur Biblían hjálpað okkur að takast á við erfiðleika lífsins?

17 Í fjórða lagi höfum við orð Guðs, Biblíuna, sem er „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks“. (2. Tím. 3:16, 17) Já, orð Guðs gerir okkur fært að takast á við erfiðleika lífsins. Það gerir okkur ‚albúin og hæf‘. Gríska orðið, sem þýtt er „hæfur“ merkir bókstaflega „að vera vel útbúinn“. Þetta orð var hugsanlega notað til forna um bát sem var búinn öllu sem til þurfti fyrir langa sjóferð eða um tæki sem gat framkvæmt hvaðeina sem til var ætlast. Jehóva hefur með orði sínu séð okkur fyrir öllu sem við þurfum til að takast á við hvað sem verður á vegi okkar. Við getum því sagt: „Ef Guð leyfir þessa erfiðleika þá get ég þolað þá með hjálp hans.“

Lausn undan öllum þjáningum

18. Hvað getur hjálpað okkur að vera trúföst allt til enda?

18 Í fimmta lagi skulum við ávallt hafa hugfast að bráðlega mun Jehóva frelsa mannkynið undan öllum þjáningum þess. (Sálm. 34:20; 37:9-11; 2. Pét. 2:9) Þegar það gerist losnum við ekki aðeins við allt sem þjakar okkur heldur fáum við líka tækifæri til að lifa að eilífu, annaðhvort á himnum með Jesú eða í paradís á jörð.

19. Hvernig getum við verið trúföst og þolgóð?

19 Þangað til sá tími kemur höldum við áfram að glíma við erfiðleikana sem fylgja þessu illa heimskerfi. Við þráum að sjá þjáningarnar taka enda! (Sálm. 55:7-9) Munum að við sönnum Satan lygara með því að vera trúföst og þolgóð. Sækjum styrk í bænina og bræðrafélagið og höfum hugfast að trúsystkini okkar verða fyrir svipuðum prófraunum og við. Höldum áfram að vera ‚albúin og hæf gjör‘ með því að nýta okkur Biblíuna til fulls. Við megum aldrei hætta að treysta því að „Guð allrar huggunar“ beri kærleiksríka umhyggju fyrir okkur. Munum að „augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra“. — Sálm. 34:16.

Geturðu svarað?

• Hvernig leið Davíð andspænis erfiðleikum?

• Um hvað var Salómon konungur fullviss?

• Hvað getur hjálpað okkur að takast á við erfiðleika sem Jehóva leyfir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Salómon var þess fullviss að Guð myndi svara bænum þjáðra þjóna sinna.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Davíð varpaði áhyggjum sínum á Jehóva og breytti svo í samræmi við bænir sínar.