‚Veldu lífið til að þú megir lifa‘
‚Veldu lífið til að þú megir lifa‘
„Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa.“ — 5. MÓSEBÓK 30:19.
1, 2. Að hvaða leyti var maðurinn skapaður í Guðs mynd?
„VÉR viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss.“ Þessi orð Guðs eru skráð í fyrsta kafla Biblíunnar. „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd,“ segir í framhaldinu. (1. Mósebók 1:26, 27) Fyrsti maðurinn var því ólíkur öllum öðrum sköpunarverum jarðar. Hann líktist skapara sínum. Hann gat endurspeglað eiginleika Guðs svo sem rökhyggju, kærleika, réttlæti, visku og mátt. Hann hafði samvisku sem hjálpaði honum að taka ákvarðanir sem yrðu sjálfum honum til góðs og himneskum föður hans að skapi. (Rómverjabréfið 2:15) Í stuttu máli hafði Adam frjálsan vilja. Jehóva virti fyrir sér hvernig jarðneskur sonur hans var úr garði gerður og lagði síðan eftirfarandi mat á handaverk sitt: „Sjá, það var harla gott.“ — 1. Mósebók 1:31; Sálmur 95:6.
2 Við erum afkomendur Adams og erum því líka sköpuð eftir Guðs mynd. En getum við valið sjálf hvað við gerum? Jehóva er vissulega fær um að vita fyrir fram hvað gerast muni en hann ákveður ekki fyrir fram hvað við gerum hvert og eitt eða hvaða örlög við hljótum. Hann ákveður ekki forlög okkar. Við skulum draga lærdóm af Ísrael fortíðar til að glöggva okkur á því hve mikilvægt er að beita frjálsum vilja okkar til að taka réttar ákvarðanir. — Rómverjabréfið 15:4.
Ísraelsmenn gátu valið
3. Hvert var fyrsta boðorðið og hvað ákváðu Ísraelsmenn að gera?
3 Jehóva sagði Ísraelsmönnum: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.“ (5. Mósebók 5:6) Fyrir kraftaverk voru Ísraelsmenn frelsaðir úr ánauð í Egyptalandi árið 1513 f.Kr. og höfðu þar af leiðandi enga ástæðu til að véfengja þessi orð. Í fyrsta boðorðinu sagði Jehóva fyrir munn Móse, talsmanns síns: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ (2. Mósebók 20:1, 3) Ísraelsmenn ákváðu að hlýða Jehóva á þeim tíma. Þeir veittu honum óskipta hollustu af fúsum og frjálsum vilja. — 2. Mósebók 20:5; 4. Mósebók 25:11.
4. (a) Hvaða valkosti lagði Móse fyrir Ísraelsmenn? (b) Hvaða valkosti höfum við?
4 Um 40 árum síðar minnti Móse nýja kynslóð Ísraelsmanna á þá kosti sem þeir höfðu um að velja. Hann sagði með áhersluþunga: „Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa.“ (5. Mósebók 30:19) Við getum sömuleiðis valið. Við getum valið að þjóna Jehóva dyggilega og átt eilíft líf í vændum eða valið að óhlýðnast honum og taka afleiðingunum. Lítum á tvö dæmi um fólk sem tók ólíkar ákvarðanir.
5, 6. Hvað ákvað Jósúa að gera og hvað hafði það í för með sér?
5 Jósúa leiddi Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið árið 1473 f.Kr. Hann flutti áhrifamikla ræðu skömmu fyrir dauða sinn og hvatti alla þjóðina með eftirfarandi orðum: „Líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið.“ Um sína eigin ætt sagði hann: „En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ —6 Jehóva hafði hvatt Jósúa til að vera hughraustur og öruggur og sagði honum að hvika ekki frá lögmálinu. Hann átti að lesa og hugleiða lögbókina daga og nætur. Þannig gæti hann orðið gæfusamur. (Jósúabók 1:7, 8) Og sú varð raunin. Jósúa valdi að hlýða Jehóva og það varð honum til blessunar. „Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er Drottinn hafði gefið húsi Ísraels,“ sagði Jósúa. „Þau rættust öll.“ — Jósúabók 21:45.
7. Hvaða ákvörðun tóku sumir Ísraelsmenn á dögum Jesaja og með hvaða afleiðingum?
7 Annað var uppi á teningnum í Ísrael um 700 árum síðar. Þá voru margir Ísraelsmenn farnir að fylgja heiðnum siðum. Tökum dæmi. Á síðasta degi ársins voru menn farnir að setjast að borði þar sem fram var borinn veislumatur og sætt vín. En þetta voru engin venjuleg fjölskylduboð heldur var þetta trúarathöfn haldin til heiðurs tveim heiðnum guðum. Jesaja spámaður lýsti hvernig Guð leit á þessa ótrúmennsku: „Þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina.“ Þeir ímynduðu sér að blessun Jehóva nægði ekki til að þeir hlytu góða uppskeru heldur þyrftu þeir að friða „heilladísina“ og „örlaganornina“. En í rauninni voru þeir að ákveða örlög sín með uppreisn sinni og þrjósku. „Yður ætla ég undir sverðið,“ sagði Jehóva, „og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.“ (Jesaja 65:11, 12) Með óviturlegri ákvörðun sinni kölluðu þeir yfir sig tortímingu, og hvorki heilladísin né örlaganornin megnuðu að koma í veg fyrir það.
Að velja rétt
8. Hvað er nauðsynlegt til að velja rétt samkvæmt 5. Mósebók 30:20?
8 Þegar Móse hvatti Ísraelsmenn til að velja lífið benti hann á þrennt sem þeir þyrftu að gera: Að elska Jehóva Guð sinn, hlýða raust hans og halda sér fast við hann. (5. Mósebók 30:20) Lítum á hvert um sig þannig að við getum valið rétt.
9. Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva?
9 Að elska Jehóva Guð: Við veljum að þjóna Jehóva af því að við elskum hann. Við drögum lærdóm af dæmi Ísraelsmanna forðum daga og stöndum gegn öllum freistingum í átt til siðleysis, og við forðumst líferni sem gæti dregið okkur út í efnishyggju heimsins. (1. Korintubréf 10:11; 1. Tímóteusarbréf 6:6-10) Við höldum okkur fast við Jehóva og höldum lög hans. (Jósúabók 23:8; Sálmur 119:5, 8) Móse sagði Ísraelsmönnum áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið: „Sjá, ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og Drottinn Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar. Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi.“ (5. Mósebók 4:5, 6) Núna er rétti tíminn til að sýna að við elskum Jehóva með því að láta vilja hans ganga fyrir í lífinu. Það verður okkur til blessunar að gera það. — Matteus 6:33.
10-12. Hvaða lærdóm má draga af atburðum á dögum Nóa?
10 Að hlýða raust Guðs: Nói var ‚prédikari réttlætisins‘. (2. Pétursbréf 2:5) Sárafáir gáfu gaum að viðvörun hans fyrir flóðið. Langflestir voru of uppteknir til þess. Hvaða afleiðingar hafði það? „Flóðið kom og hreif þá alla burt.“ Jesús varaði við að ástandið yrði ósköp svipað á okkar dögum, „við komu Mannssonarins“. Það sem gerðist á dögum Nóa er skýr viðvörun til þeirra sem kjósa að sinna ekki boðskap Guðs nú á dögum. — Matteus 24:39.
11 Þeir sem gera gys að viðvörunum Guðs, sem þjónar hans flytja nú á tímum, ættu að gera sér ljóst hvaða afleiðingar það hefur að taka ekki mark á þeim. Pétur postuli sagði um slíka spottara: „Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst. En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ — 2. Pétursbréf 3:3-7.
12 Berum þetta saman við ákvörðun Nóa og fjölskyldu hans. „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk.“ Nói og heimilisfólk hans björguðust af því að hann hlýddi viðvöruninni. (Hebreabréfið 11:7) Verum fljót til að heyra boðskap Guðs og hlýða honum. — Jakobsbréfið 1:19, 22-25.
13, 14. (a) Af hverju verðum við að halda okkur fast við Jehóva? (b) Hvernig ættum við að leyfa Jehóva að móta okkur?
13 Að halda okkur fast við Jehóva: Til að ‚velja lífið og halda lífi‘ þurfum við bæði að elska Jehóva og hlýða raust hans en einnig ‚halda okkur fast við hann‘, það er að segja að halda stöðugt áfram að gera vilja hans. „Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar,“ sagði Jesús. (Lúkas 21:19) Ákvörðun okkar í þessu sambandi leiðir reyndar í ljós hvað býr í hjarta okkar. „Sæll er sá maður, sem ávallt er var um sig, en sá sem herðir hjarta sitt, fellur í ógæfu,“ segir í Orðskviðunum 28:14. Faraó Egyptalands forðum daga er dæmi um þetta. Eftir hverja plágu, sem gekk yfir landið, herti hann hjarta sitt í stað þess að óttast Guð. Jehóva neyddi hann ekki til að óhlýðnast heldur leyfði þessum stolta valdhafa að velja sjálfur. En hvað sem öðru líður náði vilji Jehóva varðandi faraó fram að ganga, rétt eins og Páll postuli hafði eftir Jehóva: „Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina.“ — Rómverjabréfið 9:17.
14 Jesaja spámaður sagði löngu eftir að Ísraelsmenn voru frelsaðir undan valdi faraós: „En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!“ (Jesaja 64:7) Þegar við stundum sjálfsnám og förum eftir orði Jehóva leyfum við honum að móta okkur. Þannig íklæðumst við hinum nýja manni smám saman. Við verðum þjálli í hendi hans og eigum auðveldara með að vera honum holl og halda okkur fast við hann af því að við þráum að þóknast honum. — Efesusbréfið 4:23, 24; Kólossubréfið 3:8-10.
„Þú skalt gjöra þá kunna“
15. Hvaða tvíþættu ábyrgð minnti Móse Ísraelsmenn á í 5. Mósebók 4:9?
15 Móse sagði Ísraelsmönnum þar sem þeir voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið: „Vara þig og gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum.“ (5. Mósebók 4:9) Til að njóta blessunar Jehóva og dafna í landinu, sem þjóðin var í þann mund að eignast, varð hún að axla tvíþætta ábyrgð frammi fyrir Jehóva Guði sínum. Hún mátti ekki gleyma þeim stórvirkjum sem Jehóva hafði unnið fyrir augum hennar og hún átti að segja komandi kynslóðum frá þeim. Við sem erum þjónar Jehóva nú á tímum verðum að gera slíkt hið sama til að ‚velja lífið og mega lifa‘. Hvað höfum við séð með eigin augum sem Jehóva hefur gert fyrir okkur?
16, 17. (a) Hverju hafa trúboðar frá Gíleaðskólanum getað áorkað í boðunarstarfinu? (b) Hvaða dæmi þekkir þú um dygga þjóna Guðs sem hafa ekki látið deigan síga?
16 Okkur finnst hrífandi að sjá hvernig Jehóva hefur blessað okkur við að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. Síðan biblíuskólinn Gíleað var stofnaður árið 1943 hafa trúboðar verið fremstir í flokki í þessu starfi víða um lönd. Margir, sem útskrifuðust úr skólanum á fyrstu starfsárum hans, eru enn kappsamir boðberar Guðsríkis þó svo að þeir séu orðnir aldraðir og heilsulitlir. Mary Olson er ágætt dæmi um það en hún útskrifaðist úr Gíleað árið 1944. Hún starfaði fyrst sem trúboði í Úrúgvæ, síðan í Kólombíu og núna í Púertóríkó. Hún hefur enn þá brennandi áhuga á boðunarstarfinu þó svo að heilsa og aldur setji henni vissar skorður. Hún notar spænskukunnáttu sína og tekur þátt í boðunarstarfinu í hverri viku ásamt heimamönnum.
17 Nancy Porter er annað dæmi um ötulan trúboða. Hún útskrifaðist úr Gíleaðskólanum árið 1947. Hún er orðin ekkja en þjónar enn á Bahamaeyjum. „Það hefur veitt mér einstaka gleði að kenna öðrum sannleika Biblíunnar,“ segir hún í ævisögu sinni. * „Það hjálpar mér að vera regluföst í þjónustunni við Guð og veitir mér kjölfestu í lífinu.“ Nancy Porter og aðrir dyggir þjónar Jehóva geta litið um öxl og minnst þess sem Jehóva hefur gert. Hvað um okkur? Erum við þakklát fyrir hvernig Jehóva hefur blessað boðunarstarfið á starfssvæðinu okkar? — Sálmur 68:12.
18. Hvaða gagn höfum við af því að lesa ævisögur trúboða?
18 Það gleður okkur að sjá hvað þessir gamalreyndu boðberar hafa áorkað og áorka enn. Það er hvetjandi að lesa ævisögur þeirra vegna
þess að þegar við sjáum hvað Jehóva hefur gert fyrir þá gerir það okkur enn einbeittari í að þjóna honum. Ert þú vanur að lesa og hugleiða þessar hrífandi frásögur í Varðturninum?19. Hvernig geta kristnir foreldrar notað ævisögurnar sem birtar eru í Varðturninum?
19 Móse minnti Ísraelsmenn á að þeir mættu ekki gleyma öllu því sem Jehóva hefði gert fyrir þá og það mætti ekki líða þeim úr minni alla ævidaga þeirra. Síðan bætti hann við: „Þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum.“ (5. Mósebók 4:9) Sögur af ævi og starfi annarra höfða sterkt til okkar. Börn og unglingar þurfa að fá góðar fyrirmyndir. Einhleypar systur geta dregið lærdóma af trúföstum eldri systrum sem segja sögu sína í Varðturninum. Bæði bræður og systur geta fengið aukin tækifæri til að boða fagnaðarerindið með því að starfa meðal innflytjenda í heimalandi sínu. Kristnir foreldrar eru hvattir til að nota frásagnir dyggra trúboða úr Gíleaðskólanum og annarra til að hvetja börnin til að þjóna Jehóva í fullu starfi alla ævi.
20. Hvað þurfum við að gera til að ‚velja lífið‘?
20 Hvernig getum við þá ‚valið lífið‘? Með því að nota frjálsa viljann, sem Jehóva gaf okkur, til að sýna honum að við elskum hann og með því að gera okkar besta í þjónustu hans eins lengi og hann leyfir. „Því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn,“ eins og Móse sagði. — 5. Mósebók 30:19, 20.
[Neðanmáls]
^ gr. 17 Sjá greinina „Joyous and Thankful Despite Heartbreaking Loss“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. júní 2001, bls. 23-27.
Manstu?
• Hvað höfum við lært af fólki sem tók ólíkar ákvarðanir?
• Hvað þurfum við að gera til að ‚velja lífið‘?
• Hvaða tvíþættu ábyrgð erum við hvött til að axla?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 18]
„Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann.“
[Mynd á blaðsíðu 20]
Nói og fjölskylda hans björguðust af því að þau hlýddu raust Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Mary Olson
[Mynd á blaðsíðu 21]
Nancy Porter