Gefið djöflinum ekkert færi
Gefið djöflinum ekkert færi
„Gefið djöflinum ekkert færi.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:27.
1. Af hverju hafa margir efast um að djöfullinn sé til?
UM ALDARAÐIR hafa margir hugsað sér djöfulinn sem skepnu með horn og hala. Hann er klæddur rauðri skikkju og heldur á þríforki til að geta kastað illum mönnum í loga vítis. Biblían styður ekki slíkar hugmyndir. Ranghugmyndir sem þessar hafa þó eflaust vakið efasemdir hjá milljónum manna um að djöfullinn sé til eða vakið þá hugmynd að nafnið sé aðeins notað um illskuna sem slíka.
2. Hvaða staðreyndir um djöfulinn er að finna í Biblíunni?
2 Í Biblíunni stendur skýrum stöfum að djöfullinn sé til og þar er að finna vitnisburð sjónarvotta fyrir því. Jesús Kristur sá hann á andlega tilverusviðinu, himnum, og talaði við hann á jörðinni. (Jobsbók 1:6; Matteus 4:4-11) Biblían lætur ósagt hvað þessi andi hét í upphafi en kallar hann djöfulinn (sem merkir „rógberi“) vegna þess að hann rægir Guð. Hann er einnig nefndur Satan (sem merkir „andstæðingur“) af því að hann stendur á móti Jehóva. Satan djöfullinn er kallaður ‚hinn gamli höggormur‘, trúlega vegna þess að hann notaði höggorm til að tæla Evu. (Opinberunarbókin 12:9; 1. Tímóteusarbréf 2:14) Hann er einnig nefndur „hinn vondi“. — Matteus 13:19. *
3. Á hvað ætlum við að líta í þessari grein?
3 Við sem erum þjónar Jehóva viljum ekki á nokkurn hátt líkjast Satan, erkióvini hins eina sanna Guðs. Við þurfum þess vegna að fara að ráðum Páls postula sem sagði: „Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Efesusbréfið 4:27) Lítum á nokkur af einkennum Satans sem við megum ekki líkja eftir.
Líkjum ekki eftir rógberanum mikla
4. Hvernig var Guð rægður af ‚hinum vonda‘?
4 „Hinn vondi“ verðskuldar að kallast djöfullinn vegna þess að hann er rógberi. Rógur er ósönn, illgjörn og niðrandi ummæli um einhvern. Guð sagði Adam: „Af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Evu hafði verið sagt frá þessu en djöfullinn sagði henni fyrir milligöngu höggorms: „Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:4, 5) Þetta var illgjarn rógur á hendur Jehóva Guði.
5. Af hverju var rétt að Díótrefes svaraði til saka?
5 Ísraelsmönnum var sagt: „Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns.“ (3. Mósebók 19:16) Jóhannes postuli sagði um rógbera sem var uppi á hans tíð: „Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss. Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum.“ (3. Jóhannesarbréf 9, 10) Díótrefes rægði Jóhannes og það var rétt að hann svaraði til saka fyrir það. Enginn trúfastur kristinn maður vill vera eins og Díótrefes og líkjast Satan, rógberanum mikla.
6, 7. Af hverju verðum við að gæta þess að rægja ekki aðra manneskju?
6 Þjónar Jehóva þurfa oft að sitja undir rógburði og röngum ásökunum. „Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu [Jesú] harðlega.“ (Lúkas 23:10) Ananías æðstiprestur og fleiri báru upplognar sakir á hendur Páli. (Postulasagan 24:1-8) Og Biblían kallar Satan „kæranda bræðra vorra . . . sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt“. (Opinberunarbókin 12:10) Bræðurnir, sem sæta þessum upplognu kærum, eru andasmurðir kristnir menn á jörðinni núna á síðustu dögum.
7 Enginn kristinn maður vill gera sig sekan um að rægja aðra eða bera upplognar sakir á hendur þeim. Það gæti engu að síður gerst ef við þekktum ekki alla málavexti áður en við bærum vitni gegn öðrum. Samkvæmt Móselögunum gat legið dauðarefsing við því að bera vísvitandi ljúgvitni gegn öðrum. (2. Mósebók 20:16; 5. Mósebók 19:15-19) Jehóva hefur andstyggð á ‚ljúgvotti sem lygar mælir‘. (Orðskviðirnir 6:16-19) Við viljum því alls ekki líkja eftir rógberanum og kærandanum mikla.
Höfnum hátterni fyrsta manndráparans
8. Í hvaða skilningi var djöfullinn „manndrápari frá upphafi“?
8 Djöfullinn er manndrápari. „Hann var manndrápari frá upphafi,“ sagði Jesús. (Jóhannes 8:44) Satan hefur verið manndrápari allt frá því hann sneri Adam og Evu gegn Guði. Hann kallaði dauða yfir fyrstu hjónin og afkomendur þeirra. (Rómverjabréfið 5:12) Rétt er að nefna að það er aðeins persóna sem getur unnið slíkt verk. Illskan sem slík er ekki fær um það.
9. Hvernig gætum við orðið manndráparar samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 3:15?
9 „Þú skalt ekki morð fremja,“ segir í einu af boðorðunum tíu sem Ísraelsmönnum voru gefin. (5. Mósebók 5:17) „Enginn yðar líði sem manndrápari,“ sagði Pétur postuli í bréfi til kristinna manna. (1. Pétursbréf 4:15) Þjónar Jehóva myndu því aldrei fremja morð. Við myndum hins vegar baka okkur sekt í augum Guðs ef við hötuðum trúbróður okkar og vildum hann feigan. „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari [eða morðingi],“ skrifaði Jóhannes postuli, „og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.“ (1. Jóhannesarbréf 3:15) Ísraelsmönnum var fyrirskipað: „Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu.“ (3. Mósebók 19:17) Ef upp kemur misklíð milli okkar og trúsystkinis ættum við að flýta okkur að jafna hana þannig að manndráparinn Satan nái ekki að spilla kristinni einingu okkar. — Lúkas 17:3, 4.
Standið gegn lygaranum mikla
10, 11. Hvað þurfum við að gera til að standa gegn Satan, lygaranum mikla?
10 Djöfullinn er lygari. „Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir,“ sagði Jesús. (Jóhannes 8:44) Satan laug að Evu en Jesús kom í heiminn til að bera sannleikanum vitni. (Jóhannes 18:37) Ef við, fylgjendur Krists, ætlum okkur að standa gegn djöflinum megum við ekki grípa til lyga og blekkinga. Við verðum að ‚tala sannleika‘. (Sakaría 8:16; Efesusbréfið 4:25) Jehóva, Guð sannleikans, blessar einungis sannorða votta sína. Hinir óguðlegu hafa engan rétt til að tala fyrir hans hönd. — 2. Samúelsbók 7:28; Sálmur 50:16; Jesaja 43:10.
11 Ef það er okkur mikils virði að vera frjáls undan lygum Satans höldum við okkur fast við kristnina sem er ‚vegur sannleikans‘. (2. Pétursbréf 2:2; Jóhannes 8:32) Kenningar kristninnar í heild eru ‚sannleikur fagnaðarerindisins‘. (Galatabréfið 2:5, 14) Hjálpræði okkar er undir því komið að við ‚lifum í sannleika‘ með því að halda okkur fast við hann og standa gegn föður lyginnar. — 3. Jóhannesarbréf 3, 4, 8.
Stöndum gegn fráhvarfsáhrifum Satans
12, 13. Hvernig ættum við að bregðast við fráhvarfsmönnum?
12 Andaveran, sem varð djöfullinn, var einu sinni í sannleikanum. En hann var ekki staðfastur í sannleikanum „því í honum finnst enginn sannleikur,“ eins og Jesús sagði. (Jóhannes 8:44) Þessi mikli trúníðingur hefur barist linnulaust gegn Guði sannleikans. Sumir kristnir menn á fyrstu öld festust í „snöru djöfulsins“. Þeir urðu fórnarlömb hans með því að láta leiðast afvega og fara út af braut sannleikans. Páll hvatti því Tímóteus, samverkamann sinn, til að aga þá með hógværð þannig að þeir næðu sér aftur á strik í trúnni og losnuðu úr snöru Satans. (2. Tímóteusarbréf 2:23-26) Það er auðvitað miklu betra að halda sig fast við sannleikann öllum stundum og flækja sig alls ekki í fráhvarfshugmyndum.
13 Fyrstu hjónin gerðust fráhvarfsmenn af því að þau hlustuðu á djöfulinn og höfnuðu ekki lygum hans. Ættum við þá að hlusta á fráhvarfsmenn, lesa rit þeirra eða skoða vefsíður þeirra á Netinu? Við gerum það ekki ef við elskum Guð og sannleikann. Við ættum hvorki að hleypa fráhvarfsmönnum inn á heimili okkar né heilsa þeim því að þá yrðum við ‚hluttakendur í vondum verkum þeirra‘. (2. Jóhannesarbréf 9-11) Föllum aldrei fyrir vélabrögðum Satans með því að fara út af „vegi sannleikans“ og fylgja mönnum sem beita „háskalegum villukenningum“ og „uppspunnum orðum“ til að reyna að ‚hafa okkur að féþúfu‘. — 2. Pétursbréf 2:1-3.
14, 15. Hvaða viðvörun gaf Páll öldungum í Efesus og Tímóteusi, samstarfsmanni sínum?
14 Páll sagði safnaðaröldungum í Efesus: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði. Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:28-30) Slíkir fráhvarfsmenn komu fram með tíð og tíma og tóku að fara með „rangsnúna kenningu“.
15 Um árið 65 hvatti Páll Tímóteus til að ‚fara rétt með orð sannleikans‘. Hann hélt áfram: „Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi, og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus. Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.“ Fráhvarfið var byrjað! „En Guðs styrki grundvöllur stendur,“ bætti Páll við. — 2. Tímóteusarbréf 2:15-19.
16. Af hverju höfum við verið trú Guði og orði hans, þrátt fyrir vélabrögð og fráhvarfsáhrif Satans?
16 Satan hefur oft notað fráhvarfsmenn til að reyna að spilla sannri tilbeiðslu en án árangurs. Það var um árið 1868 sem Charles Taze Russell tók að rannsaka viðteknar og gamalgrónar kenningar kirkjufélaga kristna heimsins og uppgötvaði að þau mistúlkuðu Biblíuna. Russell og fáeinir aðrir, sem voru að leita sannleikans, mynduðu með sér biblíunámshóp í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Nú eru liðin næstum 140 ár frá því að þetta gerðist og þjónar Guðs hafa aukið biblíuþekkingu sína og fengið sterka ást á Guði og orði hans. Hinn trúi og hyggni þjónn hefur haldið andlegri árvekni sinni og það hefur hjálpað sannkristnum mönnum að vera trúir Jehóva og orði hans, þrátt fyrir vélabrögð og fráhvarfsáhrif Satans. — Matteus 24:45.
Látum höfðingja heimsins aldrei ná taki á okkur
17-19. Hver er sá heimur sem er á valdi djöfulsins og af hverju megum við ekki elska hann?
17 Satan beitir líka annarri aðferð til að freista þess að klófesta okkur. Hann reynir að fá okkur til að elska heiminn, hið rangláta mannfélag sem er fjarlægt Guði. Jesús kallaði djöfulinn ‚höfðingja heimsins‘ og sagði svo: „Í mér á hann ekki neitt.“ (Jóhannes 14:30) Látum Satan aldrei ná taki á okkur. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þess vegna gat djöfullinn boðið Jesú „öll ríki heims“ í skiptum fyrir eina tilbeiðsluathöfn sem hefði jafngilt fráhvarfi. Sonur Guðs hafnaði boðinu afdráttarlaust. (Matteus 4:8-10) Heimurinn, sem er undir stjórn Satans, hatar fylgjendur Krists. (Jóhannes 15:18-21) Það er engin furða að Jóhannes postuli skuli vara okkur við því að elska heiminn!
18 Jóhannes skrifaði: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Við megum ekki elska heiminn því að líferni hans höfðar til hins synduga holds og gengur í berhögg við lífsreglur Jehóva Guðs.
19 En hvað nú ef við elskum heiminn innst inni? Þá skulum við biðja Guð um hjálp til að sigrast á þessari ást og þeim löngunum holdsins sem fylgja henni. (Galatabréfið 5:16-21) Við kappkostum að halda okkur ‚óflekkuðum af heiminum‘ ef við höfum í huga að það eru „andaverur vonskunnar“ sem eru ósýnilegir ‚heimsdrottnar‘ yfir ranglátu mannfélagi. — Jakobsbréfið 1:27; Efesusbréfið 6:11, 12; 2. Korintubréf 4:4.
20. Af hverju er hægt að segja að við séum „ekki af heiminum“?
20 Jesús sagði um lærisveina sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Andasmurðir kristnir menn og vígðir félagar þeirra kappkosta að halda sér siðferðilega og andlega hreinum, vera aðgreindir frá heiminum. (Jóhannes 15:19; 17:14; Jakobsbréfið 4:4) Hinn rangláti heimur hatar okkur af því að við erum aðgreind frá honum og prédikum réttlæti. (2. Pétursbréf 2:5) Við búum vissulega í mannlegu samfélagi og þar eru saurlífismenn, hórkarlar, ræningjar, skurðgoðadýrkendur, þjófar, lygarar og drykkjumenn. (1. Korintubréf 5:9-11; 6:9-11; Opinberunarbókin 21:8) En við öndum ekki að okkur „anda heimsins“ vegna þess að við látum ekki þetta synduga afl stjórna gerðum okkar. — 1. Korintubréf 2:12.
Gefum djöflinum ekkert færi
21, 22. Hvernig getum við farið eftir leiðbeiningum Páls í Efesusbréfinu 4:26, 27?
21 Í stað þess að láta „anda heimsins“ Galatabréfið 5:22, 23) Það er okkur hjálp til að standast þær árásir sem djöfullinn gerir á trú okkar. Hann vill að við séum ‚bráð‘ og fljót að gera illt en andi Guðs hjálpar okkur að ‚láta af reiði og sleppa heiftinni‘. (Sálmur 37:8) Auðvitað getum við reiðst af og til og það með réttu en Páll ráðleggur: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ — Efesusbréfið 4:26, 27.
stjórna gerðum okkar látum við leiðast af anda Guðs, og hann örvar með okkur eiginleika eins og kærleika og sjálfstjórn. (22 Ef við værum reið lengi gæti það leitt til syndar. Í því hugarástandi myndum við gefa djöflinum tækifæri til að valda misklíð í söfnuðinum eða hvetja okkur til vondra verka. Þess vegna þurfum við að vera fljót til að setja niður ágreining og gera það eftir biblíulegum leiðum. (3. Mósebók 19:17, 18; Matteus 5:23, 24; 18:15, 16) Við skulum því láta anda Guðs leiða okkur. Sýnum sjálfstjórn og látum ekki einu sinni réttmæta reiði magnast upp í fjandskap, illgirni og hatur.
23. Um hvaða spurningar verður fjallað í greininni á eftir?
23 Við höfum nú fjallað um ýmis einkenni djöfulsins sem við ættum ekki að líkja eftir. En sumum er kannski spurn hvort við ættum að óttast Satan. Af hverju ýtir hann undir ofsóknir á hendur kristnum mönnum? Og hvernig getum við komið í veg fyrir að djöfullinn blekki okkur?
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Sjá forsíðugreinarnar „Is the Devil Real?“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. nóvember 2005.
Hvert er svarið?
• Af hverju ættum við aldrei að rægja nokkurn mann?
• Hvað verðum við að forðast samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 3:15?
• Hvernig eigum við að líta á fráhvarfsmenn og af hverju?
• Hvers vegna ættum við ekki að elska heiminn?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 15]
Við leyfum Satan ekki að spilla kristinni einingu okkar.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Af hverju hvetur Jóhannes okkur til að elska ekki heiminn?