Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líktu eftir langlyndi Jehóva

Líktu eftir langlyndi Jehóva

Líktu eftir langlyndi Jehóva

„Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið . . . heldur er hann langlyndur við yður.“ — 2. PÉTURSBRÉF 3:9.

1. Hvað býður Jehóva mönnunum?

JEHÓVA býður okkur nokkuð sem enginn annar getur boðið. Það er einstaklega heillandi og dýrmætt en er hvorki hægt að kaupa né ávinna sér. Hann býður okkur eilíft líf og fyrir okkur flest er um að ræða eilíft líf í paradís á jörð. (Jóhannes 3:16) Það verður yndislegt líf. Þá verður ekki framar til neitt af því sem veldur svo mikilli sorg núna, eins og deilur, ofbeldi, fátækt, glæpir og sjúkdómar. Dauðinn mun jafnvel heyra sögunni til. Fólk mun búa við fullkominn frið og einingu undir kærleiksríkri stjórn Guðsríkis. Við þráum þessa paradís heitt. — Jesaja 9:6, 7; Opinberunarbókin 21:4, 5.

2. Af hverju hefur Jehóva ekki enn útrýmt heimi Satans?

2 Jehóva hlakkar líka til þess tíma þegar hann mun koma á paradís á jörð. Hann elskar rétt og réttlæti. (Sálmur 33:5) Hann hefur enga ánægju af því að horfa upp á heim sem stendur á sama um réttlátar meginreglur hans eða er á móti þeim, heim sem hafnar yfirráðum hans með fyrirlitningu og ofsækir fólk hans. En hann hefur góðar og gildar ástæður fyrir því að hafa ekki enn útrýmt illum heimi Satans. Þessar ástæður tengjast deilunni um drottinvald hans. Til að útkljá þessa deilu sýnir Jehóva langlyndi sem er einstaklega aðlaðandi eiginleiki sem marga skortir nú á dögum.

3. (a) Hvað þýða grísku og hebresku orðin sem oft eru þýdd „langlyndur“ eða „langlyndi“ í Biblíunni? (b) Hvaða spurningar ætlum við að athuga?

3 Í Grísku ritningunum er að finna orð sem er oft þýtt „langlyndur“ eða „langlyndi“. Það merkir bókstaflega „langur í lund“. Bæði hebresku og grísku orðin, sem oft eru þýdd „langlyndi“, lýsa þolinmæði, umburðarlyndi og því að vera seinn til reiði. En hvaða gagn höfum við af langlyndi Jehóva? Hvað getum við lært af langlyndi og þolinmæði Jehóva og trúfastra þjóna hans? Og hvernig vitum við að langlyndi Jehóva er ekki takmarkalaust? Við skulum athuga málið.

Langlyndi Jehóva

4. Hvað skrifaði Pétur postuli um langlyndi Jehóva?

4 Pétur postuli skrifaði um langlyndi Jehóva: „Þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:8, 9) Hér eru nefnd tvö atriði sem hjálpa okkur að skilja langlyndi Jehóva.

5. Hvernig hefur tímaskyn Jehóva áhrif á það sem hann gerir?

5 Í fyrsta lagi skynjar Jehóva tímann öðruvísi en við. Jehóva er eilífur og fyrir honum eru þúsund ár sem einn dagur. Tíminn setur honum ekki skorður og hann er aldrei í kapphlaupi við tímann. En hann er ekki heldur seinn á sér. Hann býr yfir takmarkalausri visku. Hann veit nákvæmlega hvenær er best að grípa í taumana þannig að það gagnist sem flestum og hann bíður þolinmóður þar til sá tími kemur. En við ættum ekki að draga þá ályktun að Jehóva standi á sama um þær þjáningar sem þjónar hans þola þangað til. Hann sýnir „hjartans miskunn“ og er persónugervingur kærleikans. (Lúkas 1:78; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þótt hann hafi leyft þjáningar um tíma getur hann gert að engu allan þann skaða sem þær hafa valdið. — Sálmur 37:10.

6. Hvaða ályktun ættum við ekki að draga um Guð og hvers vegna?

6 Auðvitað er ekki auðvelt að bíða eftir því sem maður þráir. (Orðskviðirnir 13:12) Þess vegna draga sumir þá ályktun að ef einhver uppfyllir ekki loforð sín strax ætli hann sér ekki að gera það. Það væri mjög óviturlegt að hugsa þannig um Guð. Ef við ruglum langlyndi Guðs saman við seinlæti gætum við auðveldlega fyllst efasemdum með tímanum og orðið niðurdregin og óvirk í trúnni. Og það sem verra er, við gætum látið afvegaleiðast af trúlausum spotturum eins og Pétur varaði við. Þessir menn segja með spotti: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.“ — 2. Pétursbréf 3:4.

7. Hvernig er langlyndi Jehóva tengt því að hann vill að fólk iðrist?

7 Annað sem við getum lært af orðum Péturs er að Jehóva sýnir langlyndi vegna þess að hann vill að allir komist til iðrunar. Jehóva mun afmá þá sem neita þrjóskulega að snúa sér frá vondri breytni sinni. En hann hefur enga ánægju af dauða hinna óguðlegu. Hann gleðst þegar fólk iðrast, hverfur frá vondri breytni sinni og heldur lífi. (Esekíel 33:11) Þess vegna sýnir Jehóva langlyndi og sér til þess að fagnaðarerindið sé prédikað um alla jörðina til að fólk fái tækifæri til að lifa.

8. Hvernig sést langlyndi Jehóva af samskiptum hans við Ísraelsmenn?

8 Langlyndi Guðs sést líka af samskiptum hans við Ísrael til forna. Hann umbar óhlýðni þeirra í margar aldir. Hann hvatti þá aftur og aftur fyrir milligöngu spámannanna: „Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.“ Hver var árangurinn? Því miður hlýddu þeir ekki. — 2. Konungabók 17:13, 14.

9. Hvernig endurspeglaði Jesús langlyndi föður síns?

9 Að lokum sendi Jehóva son sinn til jarðar. Jesús gerði allt sem í hans valdi stóð til að sannfæra Gyðinga um að láta sættast við Guð. Hann endurspeglaði langlyndi föður síns fullkomlega. Hann vissi að hann átti stutt eftir ólifað þegar hann sagði: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.“ (Matteus 23:37) Þessi tilfinningaþrungnu orð lýsa ekki hörðum dómara sem vill ólmur refsa heldur kærleiksríkum vini sem sýnir fólki langlyndi. Jesús hafði sama viðhorf og faðir hans á himnum og vildi að fólk iðraðist og umflýði dóm. Sumir brugðust vel við viðvörun Jesú og komust undan þegar dómi var fullnægt yfir Jerúsalem árið 70. — Lúkas 21:20-22.

10. Hvernig er langlyndi Jehóva okkur til góðs?

10 Finnst þér langlyndi Guðs ekki vera stórkostlegur eiginleiki? Þrátt fyrir þá miklu óhlýðni, sem mennirnir hafa sýnt, hefur Jehóva gefið okkur og milljónum annarra tækifæri til að kynnast sér og eignast von um hjálpræði. „Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði,“ skrifaði Pétur postuli í bréfi til trúsystkina sinna. (2. Pétursbréf 3:15) Erum við ekki þakklát fyrir að geta öðlast hjálpræði vegna langlyndis Jehóva? Biðjum við ekki Jehóva að halda áfram að sýna okkur þolinmæði þegar við þjónum honum dags daglega? — Matteus 6:12.

11. Hvaða áhrif hefur það á okkur þegar við skiljum langlyndi Jehóva?

11 Þegar við skiljum hvers vegna Jehóva sýnir langlyndi auðveldar það okkur að bíða þolinmóð eftir hjálpræði hans og draga aldrei þá ályktun að hann sé seinn á sér. (Harmljóðin 3:26) Við höldum stöðugt áfram að biðja þess að Guðsríki komi og treystum því að Jehóva viti hvenær sé best að svara þeirri bæn. Við finnum líka hjá okkur hvöt til að líkja eftir þolinmæði og langlyndi Jehóva í samskiptum okkar við trúsystkini og fólk sem við prédikum fyrir. Við viljum ekki heldur að neinir glatist heldur að allir komist til iðrunar og öðlist von um eilíft líf eins og við. — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

Þolinmæði spámannanna

12, 13. Hvernig sýndi Jesaja spámaður þolinmæði, samanber Jakobsbréfið 5:10?

12 Þegar við ígrundum langlyndi Jehóva hjálpar það okkur að meta þennan eiginleika mikils og sýna hann sjálf. Það er ekki auðvelt fyrir ófullkomna menn að þroska með sér þolinmæði og langlyndi, en það er hægt. Við getum lært af þjónum Guðs til forna. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.“ (Jakobsbréfið 5:10) Það er hughreystandi og hvetjandi að vita að aðrir hafa sigrast á svipuðum erfiðleikum og við stöndum frammi fyrir.

13 Spámaðurinn Jesaja þurfti til dæmis á þolinmæði að halda í starfinu sem honum var úthlutað. Jehóva gaf það í skyn þegar hann sagði: „Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða! Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast.“ (Jesaja 6:9, 10) Þótt fólkið hefði ekki hlustað sýndi Jesaja þolinmæði og boðaði viðvörunarboðskap Jehóva í hvorki meira né minna en 46 ár! Þolinmæði hjálpar okkur líka að prédika þolgóð þótt fáir taki við fagnaðarerindinu.

14, 15. Hvað hjálpaði Jeremía að þola andstöðu og vinna bug á kjarkleysi?

14 Spámennirnir mættu ekki aðeins sinnuleysi í starfi sínu heldur einnig harðri andstöðu. Jeremía var settur í stokk, varpað í fangelsi og kastað í gryfju. (Jeremía 20:2; 37:15; 38:6) Hann þoldi þessar ofsóknir af hendi þeirra sem hann var að reyna að hjálpa. En Jeremía varð ekki bitur og svaraði ekki í sömu mynt. Hann þraukaði þolinmóður í áratugi.

15 Jeremía þurfti að þola ofsóknir og háð en það þaggaði ekki niður í honum og það þaggar ekki heldur niður í okkur. Auðvitað getum við stundum orðið niðurdregin. Jeremía varð niðurdreginn. „Orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts,“ skrifaði hann. „Ég hugsaði: ‚Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni.‘“ Hvað gerðist síðan? Hætti Jeremía að prédika? Hann sagði: „Þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.“ (Jeremía 20:8, 9) Taktu eftir því að þegar hann einblíndi á það háð og spott sem hann varð fyrir missti hann gleðina. En þegar hann beindi athyglinni að fegurð og mikilvægi boðskaparins vakti það gleði hans á ný. Auk þess var Jehóva með honum „eins og voldug hetja“ og gaf honum styrk til að boða orðið af eldmóði og með djörfung. — Jeremía 20:11.

16. Hvernig getum við viðhaldið gleðinni þegar við prédikum fagnaðarerindið?

16 Fann Jeremía spámaður gleði í starfi sínu? Já, það gerði hann. Hann sagði við Jehóva: „Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn.“ (Jeremía 15:16) Sá heiður að vera fulltrúi hins sanna Guðs og prédika orð hans gladdi Jeremía. Við getum líka glaðst. Og það sem meira er, það vekur fögnuð okkar og englanna á himnum að svo margir út um allan heim skuli taka við fagnaðarerindinu, iðrast og koma inn á veginn til eilífs lífs. — Lúkas 15:10.

„Þolgæði Jobs“

17, 18. Hvernig sýndi Job þolgæði og hver var útkoman?

17 Þegar lærisveinninn Jakob var búinn að fjalla um spámennina til forna skrifaði hann: „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Gríska orðið, sem hér er þýtt „þolgæði“, hefur svipaða merkingu og orðið sem Jakob notar í versinu á undan og er þýtt „þolinmæði“. Fræðimaður nokkur benti á muninn á þessum tveimur orðum þegar hann skrifaði: „Fyrra orðið lýsir þolinmæði þegar einhver níðist á okkur en síðara orðið lýsir hugrekki og þrautseigju þegar við erum undir álagi.“

18 Job var undir miklu álagi. Hann varð fyrir fjárhagslegu tjóni, missti börnin sín og fékk kvalafullan sjúkdóm. Falskar ákærur voru einnig bornar upp á hann þess efnis að Jehóva væri að refsa honum. Job bar kvöl sína ekki í hljóði. Hann kveinaði undan þessum erfiðu aðstæðum og gaf jafnvel í skyn að hann væri réttlátari en Guð. (Jobsbók 35:2) En hann missti aldrei trúna og hætti aldrei að vera ráðvandur. Hann formælti ekki Guði eins og Satan hafði sagt að hann myndi gera. (Jobsbók 1:11, 21) Hver var útkoman? Jehóva „blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri“. (Jobsbók 42:12) Hann bætti heilsu Jobs, tvöfaldaði auð hans og veitti honum innihaldsríkt og ánægjulegt líf með ástvinum sínum. Job sýndi trúfesti og þolgæði og það gerði honum kleift að kynnast Jehóva betur.

19. Hvað lærum við af þolgæði Jobs?

19 Hvað lærum við af þolgæði Jobs? Við gætum líka misst heilsuna eða lent í öðrum raunum. Við skiljum kannski ekki að fullu hvers vegna Jehóva leyfir að við verðum fyrir vissum erfiðleikum. En við getum verið viss um að við fáum blessun ef við erum trúföst. Jehóva launar alltaf þeim sem leita hans í einlægni. (Hebreabréfið 11:6) Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 10:22; 24:13.

Dagur Jehóva mun koma

20. Hvers vegna getum við verið viss um að dagur Jehóva komi?

20 Þótt Jehóva sé þolinmóður og langlyndur er hann líka réttlátur og mun ekki umbera illskuna að eilífu. Langlyndi hans er ekki takmarkalaust. „Ekki þyrmdi [Guð] hinum forna heimi“ skrifaði Pétur. Hinn óguðlegi heimur fórst í vatnsflóði en Nói og fjölskylda hans héldu lífi. Jehóva felldi líka dóm yfir borgunum Sódómu og Gómorru og brenndi þær til ösku. Þessir dómar áttu að vera „til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega“. Eitt megum við vera viss um: „Dagur Drottins mun koma.“ — 2. Pétursbréf 2:5, 6; 3:10.

21. Hvernig getum við sýnt þolinmæði og þrautseigju og um hvað verður rætt í næstu grein?

21 Við skulum því líkja eftir langlyndi Jehóva með því að hjálpa öðrum að komast til iðrunar svo að þeir geti orðið hólpnir. Líkjum einnig eftir spámönnunum með því að sýna langlyndi og þolinmæði og boðum fagnaðarerindið þrátt fyrir sinnuleysi þeirra sem við tölum við. Og ef við erum þolgóð í þrengingum, eins og Job, getum við verið viss um að Jehóva blessi okkur ríkulega svo framarlega sem við erum ráðvönd. Við höfum alla ástæðu til að fagna í starfi okkar þegar við sjáum hversu ríkulega Jehóva hefur blessað viðleitni þjóna sinna til að prédika fagnaðarerindið um alla jörðina. Um þetta verður rætt í næstu grein.

Manstu?

• Af hverju sýnir Jehóva langlyndi?

• Hvað lærum við af þolinmæði spámannanna?

• Hvernig sýndi Job þolgæði og hvaða blessun hlaut hann í kjölfarið?

• Hvernig vitum við að langlyndi Jehóva er ekki takmarkalaust?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Jesús endurspeglaði langlyndi föður síns fullkomlega.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Hvernig var Jeremía launað fyrir langlyndi sitt?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hvernig var Job launað fyrir þolgæði sitt?