Höfuðþættir Nehemíabókar
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Nehemíabókar
TÓLF ár eru liðin síðan síðustu atburðir, sem Esrabók segir frá, áttu sér stað. Nú er tíminn í nánd að „orðið um endurreisn Jerúsalem“ gangi út, en þá hefjast áravikurnar 70 sem eiga að líða þangað til Messías kemur. (Daníel 9:24-27) Nehemíabók segir sögu þjóðar Guðs meðan verið er að endurbyggja múra Jerúsalem. Bókin spannar um 13 örlagarík ár frá 456 f.Kr. fram yfir 443 f.Kr.
Bókin er rituð af Nehemía landstjóra og segir áhrifamikla sögu þess hvernig sönn tilbeiðsla er hafin til vegs og virðingar þegar þjónar Jehóva leggjast allir á eitt og treysta algerlega á hann. Augljóst er af bókinni að Jehóva stýrir málum í þann farveg að vilji hans nái fram að ganga. Hún segir einnig frá sterkum og hugrökkum leiðtoga. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt“ þannig að boðskapur Nehemíabókar á erindi til allra sannra guðsdýrkenda nú á tímum. — Hebreabréfið 4:12.
„MÚRINN VAR FULLGJÖR“
Nehemía er í borginni Súsa þar sem hann gegnir trúnaðarstöðu hjá Artaxerxesi konungi Longimanusi. Honum er mjög brugðið þegar hann fréttir að Jerúsalembúar séu „mjög illa staddir og í fyrirlitningu, með því að múrar Jerúsalem eru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd“. Hann biður Jehóva innilega að leiðbeina sér. (Nehemíabók 1:3, 4) Konungur veitir því athygli nokkru síðar að Nehemía er daufur í dálkinn og það verður til þess að hann fær tækifæri til að fara til Jerúsalem.
Við komuna til Jerúsalem kannar Nehemía borgarmúrana í skjóli náttmyrkurs og lætur Gyðinga vita að hann ætli sér að reisa þá að nýju. Endurreisnin hefst en jafnhliða kemur upp andstaða gegn verkinu. Engu að síður tekst að fullgera múrinn undir hugrakkri forystu Nehemía. — Nehemíabók 6:15.
Biblíuspurningar og svör:
1:1; 2:1 — Er „tuttugasta árið“, sem nefnt er í þessum tveim versum, talið frá sama ári? Já, hér er um að ræða 20. stjórnarár Artaxerxesar. Hins vegar er talið eftir tveim ólíkum leiðum. Samkvæmt söguheimildum tók Artaxerxes við embætti árið 475 f.Kr. Ritarar Babýloníumanna voru vanir að telja stjórnarár Persakonunga frá nísan (mars-apríl) til nísan þannig að fyrsta stjórnarár Artaxerxesar hófst árið 474 f.Kr. Tuttugasta stjórnarárið, sem nefnt er í Nehemíabók 2:1, hófst því í nísan árið 455 f.Kr. Kislevmánuður (nóvember-desember), sem er nefndur í Nehemíabók 1:1, hlýtur þar af leiðandi að hafa verið kislev árið áður, það er að segja 456 f.Kr. Nehemía talar einnig um að þann mánuð beri upp á 20. stjórnarár Artaxerxesar. Hugsanlegt er að hér telji hann frá þeim mánuði þegar konungur tók við völdum. Einnig má vera að Nehemía hafi miðað við borgaralegt ár eins og Gyðingar kalla það núna, en það hefst með tísrí sem samsvarar september-október. Hvað sem því líður var það árið 455 f.Kr. sem tilskipunin um endurreisn Jerúsalem var gefin.
4:17, 18 — Hvernig var hægt að vinna byggingarstörf með annarri hendi? Þetta hefur ekki verið vandamál fyrir burðarmennina. Eftir að byrðin hafði verið lögð á höfuð þeirra eða herðar gátu þeir stutt við hana með annarri hendi en haldið á skotspjótinu með hinni. Þeir sem þurftu að vinna með báðum höndum voru „allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig“. Þeir voru reiðubúnir til bardaga ef óvinir gerðu árás.
5:7 — Í hvaða skilningi „taldi [Nehemía] á tignarmennina og yfirmennina“? Þessir menn tóku vexti af samlöndum sínum sem var brot á Móselögunum. (3. Mósebók 25:36; 5. Mósebók 23:19) Og þetta voru háir vextir. Hafi þeir verið innheimtir mánaðarlega jafngilti ‚skuldakrafan‘ (‚hundraðasti partur‘ samkvæmt Biblíunni 1859) 12 prósentum á ári. (Nehemíabók 5:11) Það var harðneskjulegt að leggja þessa byrði á fólk, nóg var skattbyrðin og matarskorturinn fyrir. Nehemía ávítaði og átaldi hina ríku með vísun í lögmál Guðs og afhjúpaði þannig ranga breytni þeirra.
6:5 — Nú voru trúnaðarbréf yfirleitt sett í innsiglaðan poka. Af hverju sendi Sanballat þá „opið bréf“ til Nehemía? Sanballat ætlaði sér ef til vill að gera falskærurnar heyrinkunnugar með því að senda þær í opnu bréfi. Hugsanlega vonaðist hann til þess að Nehemía myndi reiðast svo að hann yfirgæfi byggingarstaðinn til að verja sig. Og kannski ímyndaði hann sér að efni bréfsins vekti slíkan óhug meðal Gyðinga að þeir hættu verkinu með öllu. Nehemía lét ekki hræða sig heldur hélt ótrauður áfram því verki sem Guð hafði falið honum.
Lærdómur:
1:4; 2:4; 4:4, 5. Þegar erfiðleikar eða alvarlegar ákvarðanir blasa við ættum við að vera ‚staðföst í bæninni‘ og fylgja þeim leiðbeiningum sem við fáum í orði Guðs eða frá söfnuðinum. — Rómverjabréfið 12:12.
1:11–2:8; 4:4, 5, 15, 16; 6:16. Jehóva verður við einlægum bænum þjóna sinna. — Sálmur 86:6, 7.
1:4; 4:19, 20; 6:3, 15. Nehemía var brjóstgóður maður en jafnframt ötull og einarður réttlætismaður.
1:11–2:3. Það var tignarstaða að vera byrlari konungs. En Nehemía naut þess meir að efla veg sannrar tilbeiðslu en að gegna háu embætti. Ætti ekki tilbeiðslan á Jehóva og allt sem er henni til eflingar að vera okkur efst í huga og veita okkur gleði umfram annað?
2:4-8. Jehóva sá til þess að Artaxerxes veitti Nehemía leyfi til að fara og endurbyggja múra Jerúsalem. „Hjarta konungsins er eins og vatnslækir í hendi Drottins,“ segir í Orðskviðunum 21:1. „Hann beygir það til hvers, er honum þóknast.“
3:5, 27. Við ættum aldrei að telja það fyrir neðan virðingu okkar að vinna erfiðisvinnu í þágu sannrar tilbeiðslu eins og „göfugmenni“ af hópi Tekóamanna gerðu. Við getum tekið aðra Tekóamenn okkur til fyrirmyndar en þeir voru óðfúsir að leggja sitt af mörkum.
3:10, 23, 28-30. Sumir hafa kannski tök á að flytja þangað sem er meiri þörf fyrir boðbera fagnaðarerindisins en margir geta stutt sanna tilbeiðslu nær heimahögunum. Við gætum til dæmis tekið þátt í að byggja ríkissal eða veita neyðaraðstoð en fyrst og fremst ættum við að beina kröftum okkar að boðunarstarfinu.
4:14. Þegar við verðum fyrir mótstöðu getum við líka sigrast á óttanum með því að minnast „hins mikla og ógurlega“.
5:14-19. Nehemía landstjóri var auðmjúkur, óeigingjarn og orðvar og þar er hann kristnum umsjónarmönnum afbragðsgóð fyrirmynd. Hann framfylgdi lögmáli Guðs kostgæfilega. En hann drottnaði ekki yfir öðrum í von um að hagnast á þeim heldur lét sér annt um kúgaða og fátæka. Nehemía er öllum góð fyrirmynd með örlæti sínu.
„MUNDU MÉR ÞAÐ, GUÐ MINN, TIL GÓÐS“
Endurbyggingu múranna er ekki fyrr lokið en Nehemía kemur borgarhliðunum fyrir og gerir ráðstafanir til að tryggja öryggi borgarinnar. Hann lætur taka saman ættarskrár þjóðarinnar. Allur lýðurinn kemur saman „á torginu fyrir framan Vatnshliðið“ og Esra prestur les lögmálsbók Móse. Nehemía og levítarnir skýra svo lögmálið fyrir fólkinu. (Nehemíabók 8:1) Borgarbúar eru fræddir um laufskálahátíðina og halda hana við mikinn fögnuð.
Önnur hátíð fylgir í kjölfarið og þá játa „niðjar Ísraels“ syndir þjóðarinnar. Levítarnir rifja upp samskipti Guðs við Ísrael og fólkið sver þess eið að „breyta eftir lögmáli Guðs“. (Nehemíabók 9:1, 2; 10:29) Jerúsalemborg er enn of fámenn. Varpað er hlutkesti þannig að 1 af hverjum 10, sem búa utan borgar, flytjist inn í hana. Því næst eru borgarmúrarnir vígðir við slíkan fögnuð að „gleði Jerúsalem spurðist víðsvegar“. (Nehemíabók 12:43) Tólf árum eftir að Nehemía kemur til Jerúsalem heldur hann heimleiðis til að gegna skyldum sínum við Artaxerxes. Óhreinleika verður fljótlega vart meðal Gyðinga. Nehemía kemur til borgarinnar á nýjan leik og tekur fast í taumana til að bæta ástandið. Hann ber fram auðmjúka bón sér til handa: „Mundu mér það, Guð minn, til góðs.“ — Nehemíabók 13:31.
Biblíuspurningar og svör:
7:6-67 — Hvers vegna ber Esra og Nehemía ekki saman um það hve margir af hverri ætt sneru heim til Jerúsalem með Serúbabel? (Esrabók 2:1-65) Hugsanlegt er að Esra og Nehemía hafi stuðst við ólíkar heimildir. Það gæti til dæmis verið munur á því hve margir skráðu sig til heimfarar og hve margir fóru raunverulega heim. Eins má vera að munurinn stafi af því að sumir Gyðingar, sem gátu ekki staðfest ætt sína í byrjun, hafi getað það um síðir. Báðum heimildum ber þó saman um eitt: Þeir sem héldu heim í fyrstu ferðinni voru 42.360, auk þræla og söngvara.
10:34 — Hvers vegna þurfti fólk að leggja fram viðargjöf? Ekki var kveðið á um viðargjöf í Móselögunum heldur var þessi krafa til komin af nauðsyn. Það þurfti mikinn eldivið til að brenna fórnirnar á altarinu. Musterisþjónar af erlendum uppruna virðast ekki hafa verið nógu margir. Þess vegna var varpað hlutkesti til að tryggja stöðugar birgðir af eldiviði.
13:6 — Hve lengi var Nehemía fjarverandi frá Jerúsalem? Biblían segir einungis að það hafi verið „að nokkrum tíma liðnum“ (bókstaflega „við endi daga“) sem Nehemía beiddist leyfis af konungi til að fara aftur til Jerúsalem. Það er því ekki hægt að vita með vissu hve lengi hann var í burtu. Þegar hann kom til Jerúsalem á nýjan leik uppgötvaði hann hins vegar að prestarnir fengu ekki tilskilinn stuðning og hvíldardagslögin voru ekki haldin. Margir höfðu tekið sér útlendar konur og börnin töluðu ekki einu sinni tungu Gyðinga. Nehemía hlýtur að hafa verið fjarverandi um þó nokkurn tíma fyrst ástandið náði að versna svo mjög.
13:25, 28 — Hvað gerði Nehemía annað en að átelja Gyðinga fyrir að fara út af réttri braut? Hann „bað þeim bölbæna“ með því að lesa yfir þeim þá dóma sem var að finna í lögmáli Guðs. Hann „barði nokkra af þeim“, hugsanlega með því að fyrirskipa að dómi skyldi fullnægt yfir þeim. Og hann „hárreytti“ þá til tákns um réttláta reiði sína. Auk þess rak hann burt sonarson Eljasíbs æðstaprests sem hafði gengið að eiga dóttur Sanballats Hóroníta.
Lærdómur:
8:8. Þegar við kennum orð Guðs lesum við skýrt upp úr Biblíunni með góðri framsögn og áherslum, útskýrum hana rétt og heimfærum hana með greinagóðum hætti.
8:10. „Gleði Drottins“ er sprottin af því að gera sér grein fyrir andlegri þörf sinni og fullnægja henni, og með því að fylgja leiðsögn Biblíunnar og safnaðarins. Það er afar mikilvægt að vera iðinn við biblíunám, sækja safnaðarsamkomur reglulega og taka dyggilega þátt í að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum.
11:2. Það kostaði bæði fjárútlát og ýmislegt óhagræði að yfirgefa erfðaland sitt og flytja til Jerúsalem. Þeir sem buðu sig fram til þess sýndu mikla fórnfýsi. Við getum líka sýnt fórnfýsi þegar færi gefst til að bjóða fram krafta okkar í þágu annarra á mótum og við önnur tækifæri.
12:31, 38, 40-42. Það er gott að lofa Jehóva og tjá honum þakkir í söng. Við ættum að syngja af hjartans lyst á samkomum.
13:4-31. Við þurfum að vera á verði til að efnishyggja, spilling og fráhvarfshugmyndir nái ekki smám saman að hafa áhrif á okkur.
13:22. Nehemía vissi mætavel að hann þyrfti að standa Guði reikningsskap gerða sinna. Við verðum líka að vera okkur meðvita um ábyrgð okkar gagnvart Jehóva.
Blessun Jehóva er nauðsynleg
„Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis,“ söng sálmaskáldið. (Sálmur 127:1) Nehemíabók vitnar með einkar fögrum hætti um sannleiksgildi þessara orða.
Lærdómurinn er skýr. Ef við viljum vera farsæl í því sem við tökum okkur fyrir hendur verðum við að hafa blessun Jehóva. Varla getum við ætlast til að Jehóva blessi okkur nema við látum sanna tilbeiðslu hafa forgang í lífi okkar. Við skulum því líkja eftir Nehemía með því að láta tilbeiðsluna á Jehóva og framgang hennar sitja í fyrirrúmi.
[Mynd á blaðsíðu 8]
„Hjarta konungsins er eins og vatnslækir í hendi Drottins.“
[Mynd á blaðsíðu 9]
Nehemía, brjóstgóður og atkvæðamikill maður, kemur til Jerúsalem.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Kanntu að útskýra orð Guðs?