Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lögmál kærleikans í hjörtum okkar

Lögmál kærleikans í hjörtum okkar

Lögmál kærleikans í hjörtum okkar

„Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra.“ — JEREMÍA 31:33.

1, 2. (a) Um hvað ætlum við að fjalla núna? (b) Hvernig opinberaðist Jehóva á Sínaífjalli?

Í GREINUNUM tveim á undan kom fram að þegar Móse gekk ofan af Sínaífjalli geislaði dýrð Jehóva af andliti hans. Við ræddum einnig um skýluna sem Móse brá fyrir andlit sitt. Nú skulum við ræða um skylt málefni sem varðar kristna menn nú á tímum.

2 Móse fékk fyrirmæli frá Jehóva meðan hann var uppi á fjallinu. Ísraelsmenn, sem höfðu safnast saman við rætur fjallsins, sáu Guð sjálfan opinberast með mikilfenglegum hætti. „Gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. . . . Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.“ — 2. Mósebók 19:16-18.

3. Hvernig gaf Jehóva Ísraelsmönnum boðorðin tíu og hvað var þjóðinni sýnt fram á?

3 Jehóva talaði til þjóðarinnar fyrir milligöngu engils og gaf henni boðorðin tíu sem síðar voru kölluð svo. (2. Mósebók 20:1-17) Enginn gat efast um að þessi lög væru frá alvöldum Guði. Jehóva ritaði boðorðin á steintöflur, töflurnar sem Móse braut þegar hann sá Ísraelsmenn dýrka gullkálf. Aftur ritaði Jehóva boðorðin á stein. Þegar Móse kom með nýju töflurnar ofan af fjallinu stafaði geislum af andliti hans. Nú hlutu allir að skilja að þessi lög voru gríðarlega mikilvæg. — 2. Mósebók 32:15-19; 34:1, 4, 29, 30.

4. Af hverju voru boðorðin tíu sérlega þýðingarmikil?

4 Töflurnar tvær, sem boðorðin tíu voru rituð á, voru lagðar í sáttmálsörkina í hinu allra helgasta í tjaldbúðinni og síðar í musterinu. Boðorð þessi fólu í sér kjarna Móselaganna og þau voru grundvöllurinn að stjórn Guðs yfir þjóðinni. Þau vitnuðu um að Jehóva átti samskipti við sérstaka þjóð sem hann hafði útvalið.

5. Hvernig endurspeglaðist kærleikur Guðs í lögunum sem hann setti Ísrael?

5 Boðorðin tíu sögðu margt um Jehóva, einkum um ást hans á fólki sínu, og þau voru sérlega dýrmæt gjöf til þeirra sem hlýddu þeim. Fræðimaður einn skrifaði: „Engar siðferðisreglur, sem menn hafa sett fram fyrr eða síðar, . . . komast í námunda við boðorðin tíu sem Guð lét í té, og þaðan af síður jafnast á við þau eða skara fram úr þeim.“ Jehóva sagði um Móselögin í heild: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“— 2. Mósebók 19:5, 6.

Lögmál ritað á hjörtun

6. Hvaða lögmál er miklu dýrmætara en lögin sem klöppuð voru á stein?

6 Þessi lög frá Guði voru mikils virði. En vissirðu að andasmurðir kristnir menn eiga mun dýrmætari lög en þau sem klöppuð voru á stein? Jehóva boðaði tilkomu nýs sáttmála en hann yrði ólíkur lagasáttmálanum sem hann gerði við Ísraelsmenn. „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra,“ sagði hann. (Jeremía 31:31-34) Jesús, meðalgangari nýja sáttmálans, gaf fylgjendum sínum ekki skrifleg lög heldur innprentaði hann þeim lög Jehóva með orðum sínum og verkum þannig að þau festu rætur í hugum þeirra og hjörtum.

7. Hverjum var gefið „lögmál Krists“ í byrjun og hverjir tóku við því síðar?

7 Þetta lögmál er kallað „lögmál Krists“. Það var ekki gefið Ísraelsmönnum, afkomendum Jakobs, heldur andlegri þjóð sem er nefnd „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:2, 16; Rómverjabréfið 2:28, 29) Ísrael Guðs er myndaður af andasmurðum kristnum mönnum. Þegar fram liðu stundir slóst í lið með þeim „mikill múgur“ af öllum þjóðum sem leggur sig einnig fram um að tilbiðja Jehóva. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Sakaría 8:23) Þeir eru „ein hjörð“ í umsjá ‚eins hirðis‘ en báðir hóparnir taka við ‚lögmáli Krists‘ og láta það stjórna lífi sínu í einu og öllu. — Jóhannes 10:16.

8. Hver er munurinn á Móselögunum og lögmáli Krists?

8 Ólíkt Ísraelsmönnum að holdinu, sem voru bundnir af Móselögunum frá fæðingu, velja kristnir menn sjálfir að lúta lögmáli Krists. Kynþáttur eða fæðingarstaður skiptir engu máli. Þeir fræðast um Jehóva og vegi hans og þrá að gera vilja hans. Andasmurðir kristnir menn hlýða ekki Guði aðeins af því að hann getur refsað þeim sem óhlýðnast og þeir gera það ekki heldur af skyldukvöð einni saman. Þeir hlýða af því að lög Guðs eru ‚lögð þeim í brjóst‘. Það er eins og þau séu rituð „á hjörtu þeirra“. Hlýðni þeirra á sér því mjög sterkar og djúpar rætur, og aðrir sauðir hlýða sömuleiðis af því að lög Guðs eru rituð á hjörtu þeirra.

Lögmál byggt á kærleika

9. Hvernig gaf Jesús til kynna að kærleikur væri grundvöllurinn að lögum Jehóva?

9 Það má draga öll lög og ákvæði Jehóva saman í eitt orð — kærleikur. Hann hefur alltaf verið grundvöllur sannrar tilbeiðslu og verður alltaf. Aðspurður hvert væri mesta boðorð lögmálsins svaraði Jesús: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ Annað boðorðið var: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Síðan bætti hann við: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 22:35-40) Þannig gaf Jesús til kynna að ekki aðeins lögmálið og boðorðin tíu heldur allar Hebresku ritningarnar væru byggðar á kærleika.

10. Hvernig vitum við að kærleikur er þungamiðjan í lögmáli Krists?

10 Er kærleikur til Guðs og náungans einnig grundvöllur lögmálsins sem er ritað á hjörtu kristinna manna? Já, tvímælalaust! Lögmál Krists felur í sér að elska Guð af öllu hjarta og hlýða nýju boðorði sem felst í því að kristnir menn eiga að bera fórnfúsan kærleika hver til annars. Þeir eiga að elska eins og Jesús sem lagði líf sitt fúslega í sölurnar fyrir vini sína. Hann kenndi lærisveinunum að elska Guð og elska hver annan eins og hann elskaði þá. Hinn einstæði kærleikur þeirra hver til annars er sá eiginleiki sem sannkristnir menn þekkjast á, öðru fremur. (Jóhannes 13:34, 35; 15:12, 13) Jesús sagði að þeir ættu jafnvel að elska óvini sína. — Matteus 5:44.

11. Hvernig sýndi Jesús kærleika bæði til Guðs og manna?

11 Jesús er fullkomin fyrirmynd um kærleika. Hann var voldugur andi á himnum en greip fúslega tækifærið til að efla hag föður síns á jörðinni þegar það bauðst. Hann gaf ekki aðeins mannslíf sitt til að aðrir gætu hlotið eilíft líf heldur sýndi fólki einnig hvernig það ætti að lifa. Hann var auðmjúkur, góður og tillitssamur og létti undir með þeim sem voru kúgaðir og höfðu þungar byrðar að bera. Hann flutti mönnum „orð eilífs lífs“ og var óþreytandi að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. — Jóhannes 6:68.

12. Af hverju er hægt að segja að það sé nátengt að elska Guð og elska náungann?

12 Það er í rauninni nátengt að elska Guð og elska náungann. Jóhannes postuli sagði: „Kærleikurinn er frá Guði kominn . . . Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:7, 20) Jehóva er bæði uppspretta kærleikans og persónugervingur hans. Allt sem hann gerir er undir áhrifum af kærleika hans. Við elskum vegna þess að við erum gerð í mynd hans. (1. Mósebók 1:27) Með því að elska náungann erum við að sýna að við elskum Guð.

Að elska merkir að hlýða

13. Hvað þurfum við að gera til að geta elskað Guð?

13 Hvernig getum við elskað Guð sem við getum ekki séð? Fyrst verðum við að kynnast honum. Við getum ekki elskað ókunnuga í raun og veru eða treyst þeim. Orð Guðs hvetur okkur því til að kynnast Guði með því að lesa í Biblíunni, biðja og umgangast þá sem þekkja hann og elska. (Sálmur 1:1, 2; Filippíbréfið 4:6; Hebreabréfið 10:25) Guðspjöllin fjögur eru sérlega verðmæt því að þau opinbera persónuleika Jehóva eins og hann endurspeglaðist í lífi og þjónustu Jesú Krists. Löngunin til að hlýða Guði og líkja eftir persónuleika hans vex og styrkist eftir því sem við kynnumst honum betur og lærum að meta kærleikann sem hann sýndi okkur. Já, að elska Guð felur í sér að hlýða honum.

14. Hvers vegna getum við sagt að lög Guðs séu ekki þung?

14 Þegar við elskum aðra manneskju vitum við hvað henni geðjast og hvað ekki, og hegðum okkur samkvæmt því. Við viljum ekki skaprauna þeim sem við elskum. Jóhannes postuli skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þau eru hvorki þung né ýkja mörg. Kærleikurinn vísar okkur veginn. Við þurfum ekki að leggja á minnið langan lagabálk til að stýra öllu sem við gerum. Við elskum Guð og það er vegvísir okkar. Við höfum ánægju af því að gera vilja Guðs af því að við elskum hann. Og þá hljótum við velþóknun hans og gerum sjálfum okkur gott því að leiðsögn hans er alltaf til góðs fyrir okkur. — Jesaja 48:17.

15. Hvað vekur löngun með okkur til að líkjast Jehóva? Skýrðu svarið.

15 Þegar við elskum Guð langar okkur til að líkja eftir eiginleikum hans. Við dáumst að góðum eiginleikum þeirra sem við elskum og reynum að líkjast þeim. Lítum á samband Jehóva og Jesú sem dæmi. Þeir voru saman á himnum, ef til vill um milljarða ára. Þeir elskuðu hvor annan innilega. Svo fullkomlega líktist Jesús föður sínum á himnum að hann gat sagt lærisveinunum: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Þegar við lærum að þekkja og meta Jehóva og son hans langar okkur til að líkjast þeim. Kærleikurinn til Jehóva og hjálp heilags anda gerir okkur kleift að ‚afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðast hinum nýja‘. — Kólossubréfið 3:9, 10; Galatabréfið 5:22, 23.

Kærleikur í verki

16. Hvernig sýnum við kærleika til Guðs og náungans þegar við prédikum og kennum?

16 Kærleikurinn til Guðs og náungans hvetur okkur sem erum kristin til að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum. Þannig gleðjum við Jehóva „sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Það er ánægjulegt að hjálpa öðrum að fá lögmál Krists ritað á hjarta sitt. Og við njótum þess að sjá þá breyta persónuleika sínum þannig að þeir endurspegli eiginleika Jehóva. (2. Korintubréf 3:18) Með því að hjálpa öðrum að kynnast Guði erum við í rauninni að gefa þeim dýrmætustu gjöfina sem við getum gefið. Þeir sem þiggja vináttu hans geta notið hennar um alla eilífð.

17. Af hverju er skynsamlegt að læra að elska Guð og náungann frekar en efnislega hluti?

17 Við búum í heimi þar sem efnislegir hlutir eru mikils metnir, jafnvel elskaðir. En efnislegir hlutir eru ekki eilífir. Það er hægt að stela þeim og þeir geta hrörnað niður og eyðst. (Matteus 6:19) Biblían minnir á að ‚heimurinn fyrirfarist og fýsn hans, en sá sem geri Guðs vilja vari að eilífu‘. (1. Jóhannesarbréf 2:16, 17) Jehóva varir að eilífu og hið sama er að segja um þá sem elska hann og þjóna honum. Það er því skynsamlegra að læra að elska Guð og aðra menn en að sækjast eftir því sem heimurinn býður upp á því að það er aðeins stundlegt þegar best lætur.

18. Hvernig sýndi trúboði fórnfúsan kærleika?

18 Þeir sem ástunda kærleika eru Jehóva til lofs. Sonia er dæmi um það en hún er trúboði í Senegal. Hún leiðbeindi Heidi við biblíunám en Heidi hafði smitast af HIV af eiginmanni sínum sem var ekki í trúnni. Heidi lét skírast eftir að hann var dáinn en fljótlega hrakaði heilsu hennar og hún var lögð inn á spítala með alnæmi. Sonia segir: „Starfslið spítalans var fáliðað en gerði sitt besta. Sjálfboðaliðar í söfnuðinum voru beðnir að annast Heidi á spítalanum. Síðari nóttina lá ég á mottu hjá rúminu hennar og hjálpaði til við að annast hana þangað til hún dó. Læknirinn, sem var á vakt, sagði: ‚Helsti vandinn hjá okkur er sá að fólk yfirgefur oft ættingja sína þegar það veit að þeir eru með alnæmi. En þú ert ekkert skyld henni, ert frá öðru landi og ert ekki einu sinni af sama kynþætti. Af hverju ert þú fús til að leggja þig í hættu?‘ Ég útskýrði að Heidi væri í rauninni systir mín og jafnnáin mér og værum við sammæðra og samfeðra. Eftir að hafa kynnst þessari nýju systur minni hefði ég ánægju af því að annast hana.“ Því er við að bæta að Sonia beið engan skaða af því að annast Heidi.

19. Hvað ættum við að gera þar sem við höfum lög Guðs rituð á hjörtu okkar?

19 Nefna mætti fjölda dæma um fórnfúsan kærleika meðal þjóna Jehóva. Fólk Guðs nú á tímum þekkist ekki á skriflegum lagasáttmála heldur sjáum við uppfyllast það sem skrifað er í Hebreabréfinu 8:10: „Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.“ Við skulum alltaf meta mikils þau lög sem Jehóva hefur ritað á hjörtu okkar og nota hvert tækifæri sem gefst til að sýna kærleika.

20. Hvers vegna er lögmál Krists ómetanleg eign?

20 Það er einstaklega gleðilegt að mega þjóna Guði í kærleiksríku bræðrafélagi sem nær um allan heim. Þeir sem hafa lög Guðs rituð á hjörtu sér eiga ómetanlega eign í þessum kærleikslausa heimi. Bæði njóta þeir kærleika Jehóva og hlýjunnar af hinum sterku kærleiksböndum innan bræðrafélagsins. „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ Enda þótt vottar Jehóva séu dreifðir meðal margra þjóða, tali fjölda tungumála og búi við alls konar ólíka menningu eru þeir svo sameinaðir í trúnni að einstakt má telja. Jehóva hefur velþóknun á einingu þeirra. Sálmaskáldið orti: „Þar [meðal þeirra sem eru sameinaðir kærleiksböndum] hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.“ — Sálmur 133:1-3.

Geturðu svarað?

• Hve mikilvæg voru boðorðin tíu?

• Hvert er lögmálið sem ritað er á hjörtu manna?

• Hvaða hlutverki gegnir kærleikurinn í ‚lögmáli Krists‘?

• Hvernig sýnum við kærleika okkar til Guðs og náungans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Ísraelsmenn áttu sér lög sem rituð voru á steintöflur.

[Myndir á blaðsíðu 20]

Kristnir menn eru með lög Guðs rituð á hjörtu sér.

[Myndir á blaðsíðu 22]

Sonia með senegalskri stúlku á umdæmismóti árið 2004.