Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum

Lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum

Lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum

„Vér lifum í trú, en sjáum ekki.“ — 2. KORINTUBRÉF 5:7.

1. Hvað sýnir að Páll postuli lifði í trú en ekki eftir því sem hann sá?

ÞAÐ er árið 55 e.Kr. Um 20 ár eru liðin síðan maður, sem áður hét Sál og ofsótti kristna menn, tók sjálfur kristna trú. Hann hefur ekki leyft trú sinni á Guð að dvína eða veikjast með árunum. Hann er staðfastur í trúnni þótt hann hafi ekki enn séð hið himneska tilverusvið með eigin augum. Maðurinn er Páll postuli og hann segir í bréfi til andasmurðra kristinna manna: „Vér lifum í trú, en sjáum ekki.“ — 2. Korintubréf 5:7.

2, 3. (a) Hvernig sýnum við að við lifum í trú? (b) Hvað þýðir það að lifa eftir því sem við sjáum?

2 Til að lifa í trú verðum við að treysta því algerlega að Guð sé hæfur til að stýra lífi okkar. Við verðum að vera sannfærð um að hann viti hvað okkur er fyrir bestu. (Sálmur 119:66) Þegar við tökum ákvarðanir í lífinu og breytum í samræmi við þær tökum við mið af því „sem eigi er auðið að sjá“. (Hebreabréfið 11:1) Það felur í sér ‚hinn nýja himin og nýju jörð‘. (2. Pétursbréf 3:13) Að lifa eftir því sem maður sér þýðir hins vegar að láta lífsstefnu sína stjórnast algerlega af því sem maður greinir með skilningarvitunum. Það er hættulegt því að það getur orðið til þess að við hunsum vilja Guðs með öllu. — Sálmur 81:13; Prédikarinn 11:9.

3 Hvort sem við tilheyrum ‚litlu hjörðinni‘ sem hefur himneska köllun eða ‚öðrum sauðum‘ sem hafa jarðneska von ættum við að taka til okkar hvatninguna um að lifa í trú en ekki eftir því sem við sjáum. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Við skulum athuga hvernig eftirfarandi ráð Biblíunnar vernda okkur gegn syndinni og ‚skammvinnum unaði‘ hennar, gegn snöru efnishyggjunnar og gegn því að missa sjónar á endalokum þessa heimskerfis. Við skulum líka athuga hvaða hættur fylgja því að lifa eftir því sem við sjáum. — Hebreabréfið 11:25.

Hafnaðu ‚skammvinnum unaði af syndinni‘

4. Hvaða ákvörðun tók Móse og hvers vegna?

4 Ímyndaðu þér hvernig lífi Móse, sonur Amrams, hefði getað lifað. Hann var alinn upp í fjölskyldu faraós í Egyptalandi og hefði getað öðlast auð og völd og orðið áhrifamaður í samfélaginu. Hann hefði getað hugsað sem svo: „Ég hef verið fræddur í mikils virtri speki Egypta og er máttugur í orðum og verkum. Ef ég held mér innan fjölskyldu faraós get ég notað stöðu mína til að hjálpa kúguðum hebreskum bræðrum mínum.“ (Postulasagan 7:22) En þess í stað kaus hann „illt að þola með lýð Guðs“. Af hverju? Hvað fékk Móse til að snúa baki við öllu sem Egyptaland hafði upp á að bjóða? Biblían svarar: „Fyrir trú yfirgaf [Móse] Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:24-27) Móse var fullviss um að Jehóva myndi launa honum ráðvendnina og það hjálpaði honum að hafna syndinni og skammvinnum unaði hennar.

5. Hvernig er fordæmi Móse okkur til hvatningar?

5 Oft þurfum við líka að taka erfiðar ákvarðanir eins og þessar: „Ætti ég að hætta vissri iðju eða venju sem samræmist ekki fyllilega meginreglum Biblíunnar? Ætti ég að þiggja vinnu sem hefur augljósa kosti fjárhagslega en myndi hindra framfarir mínar í trúnni?“ Fordæmi Móse hvetur okkur til að taka ekki ákvarðanir sem endurspegla skammsýni heimsins heldur sýna trú á framsýna visku ‚hins ósýnilega‘, Jehóva Guðs. Við skulum taka vináttusamband okkar við Jehóva fram yfir allt sem heimurinn hefur upp á að bjóða eins og Móse gerði.

6, 7. (a) Hvernig sýndi Esaú að hann vildi frekar lifa eftir því sem hann sá? (b) Hvernig er Esaú okkur dæmi til viðvörunar?

6 Berum Móse saman við Esaú, son ættföðurins Ísaks. Esaú vildi fullnægja löngunum sínum þegar í stað. (1. Mósebók 25:30-34) Hann kunni ekki að meta það sem heilagt var og lét af hendi frumburðarrétt sinn „fyrir einn málsverð“. (Hebreabréfið 12:16) Hann leiddi hugann ekki að því hvaða áhrif sú ákvörðun að selja frumburðarréttinn hefði á samband sitt við Jehóva eða á afkomendur sína. Hann hafði ekki andlega sjón. Hann hunsaði verðmæt loforð Guðs og áleit þau lítilsverð. Hann lifði ekki í trú heldur eftir því sem hann sá.

7 Esaú er okkur dæmi til viðvörunar. (1. Korintubréf 10:11) Þegar við tökum ákvarðanir, hvort sem þær eru stórar eða smáar, megum við ekki láta áróðurinn í heimi Satans hafa áhrif á okkur, en hann hvetur okkur til að eignast allt sem við viljum og það strax. Við ættum öllu heldur að spyrja okkur: „Bera ákvarðanir mínar vott um að ég hugsi líkt og Esaú? Verða andlegu málin út undan ef ég sækist eftir því sem ég vil núna? Stofna ég sambandi mínu við Guð og framíðarvon minni í hættu með ákvörðunum mínum? Hvers konar fyrirmynd er ég öðrum?“ Jehóva blessar okkur ef ákvarðanir okkar sýna að við metum það sem heilagt er. — Orðskviðirnir 10:22.

Forðastu snöru efnishyggjunnar

8. Hvaða viðvörun fengu kristnir menn í Laódíkeu og hvernig snertir það okkur?

8 Þegar hinn dýrlegi Jesús Kristur opinberaðist Jóhannesi postula undir lok fyrstu aldarinnar færði hann honum boð til safnaðarins í Laódíkeu í litlu Asíu. Í þessum boðum varaði hann við efnishyggju. Þótt kristnir menn í Laódíkeu væru efnislega ríkir voru þeir andlega gjaldþrota. Í stað þess að halda áfram að lifa í trú leyfðu þeir efnislegum eigum að blinda sig andlega. (Opinberunarbókin 3:14-18) Efnishyggjan hefur svipuð áhrif nú á dögum. Hún veikir trú okkar og verður til þess að við hættum að ‚þreyta þolgóð‘ hlaupið um lífið. (Hebreabréfið 12:1) Ef við gætum ekki að okkur geta nautnir lífsins skyggt svo á andleg hugðarefni að þær kæfi þau alveg. — Lúkas 8:14.

9. Hvernig getur nægjusemi og þakklæti fyrir andlegu fæðuna verndað okkur?

9 Til að fá andlega vernd er nauðsynlegt að sýna nægjusemi í stað þess að nota heiminn til fulls og auðgast efnislega. (1. Korintubréf 7:31; 1. Tímóteusarbréf 6:6-8) Þegar við lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum gleðjumst við yfir andlegu paradísinni sem við búum í núna. Finnum við ekki til „hjartans gleði“ þegar við nærumst af andlegri fæðu? (Jesaja 65:13, 14) Auk þess höfum við yndi af því að umgangast þá sem sýna ávöxt andans. (Galatabréfið 5:22, 23) Hversu mikilvægt er ekki að gleðjast yfir því andlega sem Jehóva gefur okkur?

10. Hvaða spurninga er gott að spyrja sig?

10 Gott er að spyrja sig eftirfarandi spurninga: „Hvaða sæti skipa efnislegir hlutir í lífi mínu? Nota ég efnislegar eigur mínar til að lifa þægilegu lífi eða til að stuðla að framgangi sannrar tilbeiðslu? Hvað veitir mér mesta gleði? Er það biblíunám og félagskapurinn á safnaðarsamkomum eða þær helgar þegar ég losna undan kristnum skyldum? Tek ég margar helgar frá til afþreyingar í stað þess að nota þær til að sinna boðunarstarfinu og öðru sem tengist sannri tilbeiðslu?“ Ef við lifum í trú erum við dugleg að sinna andlegum málum og treystum loforðum Jehóva af öllu hjarta. — 1. Korintubréf 15:58.

Hafðu endalokin skýrt í huga

11. Hvað hjálpar okkur að hafa endalokin skýrt í huga?

11 Þegar við lifum í trú hjálpar það okkur að forðast það viðhorf heimsins að endirinn sé fjarri eða að hann komi alls ekki. Við erum ekki eins og efahyggjumenn sem gera lítið úr spádómum Biblíunnar heldur sjáum við greinilega hvernig heimsatburðir samræmast því sem orð Guðs hefur sagt fyrir um okkar daga. (2. Pétursbréf 3:3, 4) Tökum dæmi. Gefa almenn viðhorf fólks og hegðun ekki til kynna að við lifum á síðustu dögum? (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Við sjáum með augum trúarinnar að heimsatburðirnir eru ekki stöðugt að endurtaka sig heldur eru þeir „tákn komu [Krists] og endaloka veraldar“. — Matteus 24:1-14.

12. Hvernig uppfylltust orð Jesú í Lúkasi 21:20, 21 á fyrstu öldinni?

12 Skoðum atburð sem átti sér stað á fyrstu öldinni og á sér hliðstæðu á okkar dögum. Þegar Jesús Kristur var á jörðinni veitti hann fylgjendum sínum þessa viðvörun: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt.“ (Lúkas 21:20, 21) Þessi spádómur uppfylltist þegar rómverskar hersveitir, undir stjórn Cestíusar Gallusar, settust um Jerúsalem árið 66. En skyndilega dró herinn sig til baka. Þetta gaf kristnum mönnum merki um að ‚flýja til fjalla‘ og nú höfðu þeir tækifæri til þess. Árið 70 komu rómversku hersveitirnar aftur, réðust á Jerúsalemborg og eyddu musterið. Jósefus segir frá því að rúmlega ein milljón Gyðinga hafi dáið og 97.000 verið teknir til fanga. Dómi Guðs yfir þjóðskipulagi Gyðinga var fullnægt. Þeir sem lifðu í trú og gáfu viðvörun Jesú gaum komust undan ógæfunni.

13, 14. (a) Hvaða atburðir eru fram undan? (b) Af hverju verðum við að vera vakandi fyrir uppfyllingu biblíuspádóma?

13 Svipaðir atburðir munu brátt eiga sér stað á okkar dögum. Sameinuðu þjóðirnar munu eiga þátt í því að fullnægja dómi Guðs. Hlutverk rómversku hersveitanna á fyrstu öldinni var meðal annars að viðhalda rómarfriðinum (Pax Romana) og eins er Sameinuðu þjóðunum ætlað að vinna að friði. Þó að hersveitir Rómaveldis hafi reynt að tryggja visst öryggi í þeim heimi sem þá var þekktur, voru það þessar sömu hersveitir sem eyddu Jerúsalem. Það er sambærilegt nú á dögum því að spádómar Biblíunnar gefa til kynna að hervædd öfl innan Sameinuðu þjóðanna muni álíta trúarbrögðin hættuleg og reyna að eyða Jerúsalem nútímans — kristna heiminum — ásamt Babýlon hinni miklu í heild. (Opinberunarbókin 17:12-17) Já, heimsveldi falskra trúarbragða er á barmi eyðingar.

14 Eyðing falstrúarbragðanna markar upphaf þrengingarinnar miklu. Við lok þessarar þrengingar verður öllu eytt sem eftir er af þessu illa heimskerfi. (Matteus 24:29, 30; Opinberunarbókin 16:14, 16) Ef við lifum í trú erum við vakandi fyrir uppfyllingu biblíuspádóma. Við látum ekki telja okkur trú um að Guð noti stofnanir manna eins og Sameinuðu þjóðirnar til að koma á sönnum friði og öryggi. Ætti lífsstefna okkar þá ekki að sýna að við séum sannfærð um að hinn mikli dagur Jehóva sé nálægur? — Sefanía 1:14.

Hversu hættulegt er að lifa eftir því sem við sjáum?

15. Í hvaða gildru féllu Ísraelsmenn þótt Guð hefði blessað þá á ýmsa vegu?

15 Sagan af Ísraelsmönnum til forna undirstrikar hve hættulegt er að lifa eftir því sem við sjáum og láta það veikja trú okkar. Þótt Ísraelsmenn hafi séð plágurnar tíu niðurlægja falsguði Egypta og verið bjargað með stórbrotnum hætti við Rauðahafið óhlýðnuðust þeir Guði með því að búa til gullkálf og tilbiðja hann. Þeir urðu óþolinmóðir og þreyttir á að bíða eftir Móse því að ‚komu hans seinkaði ofan af fjallinu‘. (2. Mósebók 32:1-4) Óþolinmæðin fékk þá til að tilbiðja skurðgoð sem hægt var að sjá með augunum. Þeir lifðu eftir því sem þeir sáu og það móðgaði Jehóva og varð til þess að um „þrjár þúsundir manna“ voru teknar af lífi. (2. Mósebók 32:25-29) Það er sorglegt þegar tilbiðjandi Jehóva nú á dögum tekur ákvörðun sem sýnir að hann treystir hvorki Jehóva né er sannfærður um að hann standi við loforð sín.

16. Hvernig urðu Ísraelsmenn fyrir slæmum áhrifum af því sem þeir sáu?

16 Það sem bar fyrir augu Ísraelsmanna í fyrirheitna landinu hafði líka slæm áhrif á þá. Þeir óttuðust óvini sína vegna þess að þeir lifðu eftir því sem þeir sáu. (4. Mósebók 13:28, 32; 5. Mósebók 1:28) Það varð til þess að þeir véfengdu valdið sem Móse hafði fengið frá Guði og kvörtuðu undan aðstæðunum sem þeir voru í. Trúarskortur þeirra varð til þess að þeir vildu frekar búa í Egyptalandi, sem var undir stjórn illra anda, en í fyrirheitna landinu. (4. Mósebók 14:1-4; Sálmur 106:24) Jehóva hlýtur að hafa verið mjög sár þegar hann sá vanvirðinguna sem þeir sýndu ósýnilegum konungi sínum.

17. Hvers vegna höfnuðu Ísraelsmenn leiðsögn Jehóva á dögum Samúels?

17 Á dögum Samúels spámanns féll hin útvalda Ísraelsþjóð aftur í þá gryfju að lifa eftir því sem hún sá. Nú vildi fólkið hafa konung sem það gat séð. Þótt Jehóva hefði sýnt að hann væri konungur þeirra dugði það ekki til og þeir lifðu ekki í trú. (1. Samúelsbók 8:4-9) Þeir sýndu mikla vanvisku og höfnuðu lýtalausri leiðsögn Jehóva því að þeir vildu frekar vera eins og þjóðirnar í kring. Það kom þeim sjálfum í koll. — 1. Samúelsbók 8:19, 20.

18. Hvaða hættur fylgja því að lifa eftir því sem við sjáum?

18 Við sem erum þjónar Jehóva núna metum mikils samband okkar við Guð. Við viljum gjarnan læra af því sem gerðist á öldum áður og breyta lífi okkar í samræmi við það. (Rómverjabréfið 15:4) Þegar Ísraelsmenn lifðu eftir því sem þeir sáu gleymdu þeir að Guð leiðbeindi þeim fyrir milligöngu Móse. Ef við gætum okkar ekki er einnig hætta á að við gleymum því að Jehóva og hinn meiri Móse, Jesús Kristur, stýra kristna söfnuðinum nú á dögum. (Opinberunarbókin 1:12-16) Við verðum að gæta þess að hafa ekki mannlegt viðhorf til hins jarðneska hluta alheimssafnaðar Jehóva. Ef við gerum það gæti það orðið til þess að við færum að kvarta og kynnum ekki lengur að meta fulltrúa Jehóva og andlegu fæðuna sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ sér okkur fyrir. — Matteus 24:45.

Verum staðráðin í að lifa í trú

19, 20. Hvað ert þú staðráðinn í að gera og hvers vegna?

19 Biblían segir: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Höfuðóvinur okkar er Satan djöfullinn. Markmið hans er að spilla trú okkar á Jehóva. Hann nýtir sér allar leiðir sem gætu hugsanlega fengið okkur til að víkja frá þeirri ákvörðun að þjóna Guði. (1. Pétursbréf 5:8) En ef við lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum látum við ekki blekkjast af því hvernig heimskerfi Satans er á yfirborðinu. Ef við treystum loforðum Jehóva forðar það okkur frá því að líða „skipbrot á trú“ okkar. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Við skulum því fyrir alla muni vera staðráðin í því að lifa í trú og treysta því að Jehóva blessi okkur. Höldum líka áfram að biðja þess að við umflýjum allt það sem koma á í náinni framtíð. — Lúkas 21:36.

20 Við eigum okkur frábæra fyrirmynd í því að lifa í trú en ekki eftir því sem sést. Biblían segir: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Í næstu grein verður fjallað um það hvernig við getum fetað í fótspor hans.

Manstu?

• Hvað lærðirðu af fordæmi Móse og Esaú um það að lifa í trú en ekki eftir því sem sést?

• Hvað er nauðsynlegt að gera til að forðast efnishyggju?

• Hvernig getur trú hjálpað okkur að forðast það viðhorf að endalokin séu fjarri?

• Hvers vegna er hættulegt að lifa eftir því sem við sjáum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Móse lifði í trú.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Kemur afþreying oft í veg fyrir að þú sinnir störfum í þjónustu Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hvaða vernd hljótum við með því að gefa gaum að orði Guðs?