Hvers konar mannorð ávinnurðu þér?
Hvers konar mannorð ávinnurðu þér?
HEFURÐU einhvern tíma lesið dánartilkynningu í dagblaði eða séð langa minningargrein um líf og afrek látins manns? Veltirðu fyrir þér hvað fólk myndi segja um þig? Hversu margir ætli velti fyrir sér hvernig þeirra verði minnst eftir að þeir falla frá? Hugleiddu þessar opinskáu spurningar: Hvað segði fólk um þig í dag ef þú hefðir dáið í gær? Hvers konar orðstír ert þú að ávinna þér? Hvernig viltu að þeir sem þekkja þig minnist þín? Og hvernig viltu að Guð minnist þín?
Vitur biblíuritari sagði í Prédikaranum 7:1: „Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.“ Hvers vegna sagði hann að dauðadagur væri betri en fæðingardagur? Vegna þess að nýfætt barn hefur ekki getið sér neitt mannorð. Það er óskrifað blað. Með lífsstefnu sinni mun það annaðhvort ávinna sér gott eða slæmt mannorð. Já, frá þessum sjónarhóli er dauðadagur þeirra sem hafa áunnið sér gott mannorð sannarlega betri en fæðingardagur.
Við höfum þess vegna val. Á hverjum degi þurfum við að taka margar ákvarðanir sem hafa áhrif á það mannorð sem við verðum búin að geta okkur þegar við deyjum. En þær hafa einkum áhrif á það hvernig Guð man eftir okkur. Vitri Hebreinn, sem vitnað var í að ofan, skrifaði einnig: „Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar.“ (Orðskviðirnir 10:7) Það eru einstök sérréttindi fyrir réttlátan mann að Guð skuli blessa minningu hans.
Ef við erum vitur er markmið okkar að þóknast Guði með því að lifa í samræmi við staðla hans. Það felur í sér að fylgja eftirfarandi meginreglum sem Jesús Kristur benti á: „‚Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ — Matteus 22:37-40.
Sumra er minnst fyrir að vinna að mannúðarmálum eða stuðla að borgararéttindum. Annarra er minnst fyrir afrek í viðskiptum, vísindum, læknisfræði eða á öðrum sviðum. En hvernig viltu að þín sé minnst?
Skoska ljóðskáldið Robert Burns (1759-96) lét í ljós þá ósk að eitthvert afl gæfi okkur þá gjöf að sjá sjálf okkur eins og aðrir sjá okkur. Getur þú horft hlutlægt á sjálfan þig og sagst hafa gott mannorð bæði hjá öðru fólki og hjá Guði? Til
langs tíma litið skiptir samband okkar við aðra mun meira máli en skammvinn afrek í íþróttum eða viðskiptum. Þess vegna ættum við að spyrja okkur: Hvernig eru samskipti mín við aðra? Hvaða áhrif hafa samræður mínar, framkoma og líkamstjáning á þá? Hvort finnst öðrum ég vera viðmótsgóður eða fáskiptinn? Blíður eða harðneskjulegur? Sveigjanlegur eða strangur? Hlýlegur og góðhjarta eða kuldalegur og óvingjarnlegur? Aðfinnslusamur gagnrýnandi eða góður ráðgjafi? Skoðum nokkur dæmi bæði úr fortíð og nútíð og athugum hvað við getum lært.[Mynd á blaðsíðu 3]
Robert Burns óskaði þess að eitthvert afl gæfi okkur þá gjöf að sjá sjálf okkur eins og aðrir sjá okkur.
[Credit line
Úr bókinni A History of England.