Líkjum eftir óhlutdrægni Jehóva Guðs
Líkjum eftir óhlutdrægni Jehóva Guðs
„Guð fer ekki í manngreinarálit.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 2:11.
1, 2. (a) Hver var fyrirætlun Jehóva með Kanverja? (b) Hvað gerði Jehóva og hvaða spurningar vekur það?
ÍSRAELSMENN höfðu slegið upp tjaldbúðum á Móabsheiðum árið 1473 f.o.t. Hinum megin Jórdanar beið þeirra erfitt verkefni. Þeir hlustuðu með athygli á Móse þegar hann lýsti yfir að Jehóva ætlaði þeim að vinna sigur á sjö öflugum þjóðum Kanverja í fyrirheitna landinu. Orð Móse voru afar hughreystandi: „Drottinn Guð þinn gefur þær á vald þitt og þú sigrast á þeim.“ Ísrael átti ekki að gera neinn sáttmála við þjóðirnar og ekki að sýna þeim neina vægð. — 5. Mósebók 1:1; 7:1, 2.
2 Jehóva þyrmdi eigi að síður einni fjölskyldu í fyrstu borginni sem Ísrael réðst á. Fólk úr fjórum öðrum borgum naut einnig verndar Guðs. Af hverju? Hvað lærum við um Jehóva af þeim atburðum sem áttu sér stað í tengslum við frelsun þessara Kanverja? Og hvernig getum við líkt eftir honum?
Viðbrögð við frægð Jehóva
3, 4. Hvaða áhrif höfðu sögurnar af sigrum Ísraels á suma í Kanaanlandi?
3 Á 40 ára eyðimerkurgöngu Ísraels verndaði Jehóva fólk sitt og barðist fyrir það. Fyrir sunnan fyrirheitna landið mætti Ísrael kanverska konunginum í Arad. Með hjálp Jehóva unnu Ísraelsmenn sigur á honum og fólki hans við Horma. (4. Mósebók 21:1-3) Seinna héldu Ísraelsmenn sem leið lá meðfram Edómlandi og í norður í átt að norðausturenda Dauðahafs. Á þessu svæði bjuggu nú Amorítar en áður hafði landið verið byggt Móabítum. Síhon, konungur Amoríta, leyfði Ísrael ekki að fara um land sitt. Orusta var háð við Jahsa, sem er líklega norður af Arnoná, og þar féll Síhon. (4. Mósebók 21:23, 24; 5. Mósebók 2:30-33) Enn norðar var Óg, leiðtogi Amoríta í Basan. Þó að Óg hafi verið risi var hann enginn jafnoki Jehóva og var drepinn við Edreí. (4. Mósebók 21:33-35; 5. Mósebók 3:1-3, 11) Fréttir af þessum sigrum og sögurnar af frelsun Ísraels úr Egyptalandi höfðu sterk áhrif á fólk sem bjó í Kanaanlandi. *
4 Þegar Ísraelsmenn fóru yfir Jórdanána og komust inn í Kanaanland í fyrsta skipti settu þeir upp tjaldbúðir í Gilgal. (Jósúabók 4:9-19) Skammt frá var borgin Jeríkó sem var múrum girt. Kanverska konan Rahab hafði heyrt um máttarverk Jehóva og sýndi því trú í verki. Það varð til þess að Jehóva þyrmdi henni og heimilisfólki hennar þegar hann lét eyða Jeríkóborg. — Jósúabók 2:1-13; 6:17, 18; Jakobsbréfið 2:25.
5. Hvers vegna beittu Gíbeonítarnir slægð?
5 Því næst fóru Ísraelsmenn frá láglendinu við ána og héldu í átt að fjalllendinu. Jósúa fylgdi leiðsögn Jehóva og beitti launsátursaðferðum gegn borginni Aí. (Jósúabók, 8. kafli) Fréttir af algerum ósigri heimamanna varð til þess að margir konungar Kanverja söfnuðust saman til að berjast við Ísrael. (Jósúabók 9:1, 2) En íbúar Gíbeon, nærliggjandi Hevítaborgar, brugðust öðruvísi við. Jósúabók 9:4 segir: „Beittu þeir nú líka slægð.“ Eins og Rahab höfðu þeir heyrt af því þegar Jehóva frelsaði fólk sitt úr ánauð og þegar Ísrael sigraði Síhon og Óg. (Jósúabók 9:6-10) Gíbeonítarnir gerðu sér grein fyrir því að gagnslaust væri að berjast á móti Ísrael. Gíbeon og þrjár nágrannaborgir, Kefíra, Beerót og Kirjat Jearím, sendu því til Gilgal nokkra fulltrúa sem hittu Jósúa og létust vera frá fjarlægu landi. Bragðið virkaði. Jósúa gerði sáttmála við þá sem tryggði þeim líf. Þremur dögum síðar komust Jósúa og Ísraelsmennirnir að því að þeir höfðu verið blekktir. En þeir höfðu svarið við Jehóva að halda sáttmálann og þess vegna gerðu þeir það. (Jósúabók 9:16-19) Hafði Jehóva velþóknun á því?
6. Hvað fannst Jehóva um sáttmálann sem Jósúa gerði við Gíbeoníta?
6 Gíbeonítar fengu að vera viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir Ísraelsmenn og jafnvel „fyrir altari Drottins“ í samkundutjaldinu. (Jósúabók 9:21-27) Og Jehóva skarst í leikinn og vann kraftaverk þegar fimm Amorítakonungar og herir þeirra hótuðu Gíbeonítunum. Fleiri úr óvinaliðinu féllu fyrir haglsteinum en fyrir herliði Jósúa. Jehóva svaraði meira að segja bæn Jósúa um að láta sólina og tunglið standa kyrr til að hægt væri að vinna fullnaðarsigur. „Enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að Drottinn skyldi láta að orðum manns,“ sagði Jósúa, „því að Drottinn barðist fyrir Ísrael.“ — Jósúabók 10:1-14.
7. Hvaða sannindi, sem Pétur viðurkenndi, koma skýrt í ljós í frásögum af vissum Kanverjum?
7 Gíbeonítar og kanverska konan Rahab og fjölskylda hennar óttuðust Jehóva og hegðuðu sér í samræmi við það. Örlög þeirra benda skýrt á sannleikann í því sem kristni postulinn Pétur sagði seinna: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
Samskiptin við Abraham og Ísrael
8, 9. Hvernig kemur óhlutdrægni Jehóva fram í samskiptum hans við Abraham og Ísraelsþjóðina?
8 Lærisveinninn Jakob vakti athygli á óverðskuldaðri góðvild Guðs í samskiptum hans við Abraham og afkvæmi hans. Abraham var „Guðs vinur“ vegna trúar sinnar en ekki þjóðernis. (Jakobsbréfið 2:23) Trú Abrahams og kærleikur til Jehóva var afkomendum hans til blessunar. (2. Kroníkubók 20:7) Jehóva lofaði Abraham: „Skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd.“ En taktu eftir loforðinu í versinu á eftir: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ — 1. Mósebók 22:17, 18; Rómverjabréfið 4:1-8.
9 Samskipti Jehóva við Ísraelsþjóðina eru ekki merki um hlutdrægni heldur sýna hvað hann getur gert fyrir þá sem hlýða honum. Slík samskipti benda okkur á að Jehóva sýnir trúföstum þjónum sínum tryggan kærleika. Þótt Ísraelsþjóðin væri „eiginleg eign“ Jehóva þýddi það ekki að aðrir gætu ekki notið góðvildar hans. (2. Mósebók 19:5; 5. Mósebók 7:6-8) Jehóva endurkeypti Ísrael úr þrælkun í Egyptalandi og lýsti yfir: „Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar.“ En fyrir milligöngu spámannsins Amosar og annarra gaf Jehóva samt ‚öllum þjóðum‘ dásamlegar framtíðarhorfur. — Amos 3:2; 9:11, 12; Jesaja 2:2-4.
Jesús fór ekki í manngreinarálit
10. Hvernig líkti Jesús eftir óhlutdrægni föður síns?
10 Jesús er fullkomin ímynd föður síns og líkti eftir óhlutdrægni hans þegar hann Hebreabréfið 1:3) Helsta verkefni hans á þeim tíma var að finna ‚týnda sauði af Ísraelsætt‘. En það kom ekki í veg fyrir að hann prédikaði fyrir samversku konunni við brunninn. (Matteus 15:24; Jóhannes 4:7-30) Hann vann líka kraftaverk fyrir hundraðshöfðingja sem greinilega var ekki Gyðingur. (Lúkas 7:1-10) Þetta gerði hann auk þess að sýna fólki Guðs kærleika í verki. Lærisveinar Jesú prédikuðu einnig víða. Það varð ljóst að forsendan fyrir því að hljóta blessun Jehóva tengdist ekki þjóðerni heldur viðhorfi. Auðmjúkt og einlægt fólk, sem hungraði eftir sannleikanum, tók við fagnaðarerindinu um ríkið. En þeir sem voru stoltir og hrokafullir fyrirlitu Jesú og boðskap hans. „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar,“ sagði Jesús, „að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.“ (Lúkas 10:21) Við sýnum óhlutdrægni þegar við umgöngumst fólk á grundvelli kærleika og trúar og slíkt viðhorf er Jehóva þóknanlegt.
þjónaði hér á jörð. (11. Hvernig sýndu menn óhlutdrægni í frumkristna söfnuðinum?
11 Í frumkristna söfnuðinum var ekki gert upp á milli Gyðinga og fólks af þjóðunum. „Vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða,“ útskýrði Páll. „Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski. Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.“ * (Rómverjabréfið 2:10, 11) Það var ekki þjóðerni sem réð því hvort fólk naut góðs af óverðskuldaðri góðvild Jehóva heldur viðbrögð þess við því sem það lærði um Jehóva og um þær framtíðarhorfur sem lausnargjald Jesú bauð upp á. (Jóhannes 3:16, 36) Páll skrifaði: „Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu. En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf.“ Síðan spilaði Páll á merkingu orðsins „Gyðingur“ (sem þýðir „frá Júda“, það er að segja lofaður eða prísaður) og bætti við: „Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.“ (Rómverjabréfið 2:28, 29) Jehóva veitir fólki lofstír óháð bakgrunni. Gerum við það líka?
12. Hvaða fyrirheit gefur Opinberunarbókin 7:9 og hverjir fá þetta fyrirheit?
12 Seinna sá Jóhannes postuli smurða kristna menn í sýn. Þeir voru andleg þjóð 144.000 ‚af öllum ættkvíslum Ísraelssona sem merktar voru innsigli‘. Eftir það sá Jóhannes ‚mikinn múg af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum og höfðu pálmagreinar í höndum‘. (Opinberunarbókin 7:4, 9) Af þessu má sjá að enginn þjóðernis- eða málhópur er útilokaður frá kristna söfnuðinum nú á dögum. Fólk hvaðanæva hefur þá von að lifa í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ sem framundan er og drekka af ‚vatnslindum lífsins‘ í nýja heiminum. — Opinberunarbókin 7:14-17.
Jákvæð áhrif
13-15. (a) Hvað getur hjálpað okkur að horfa fram hjá þjóðernis- og menningarmun? (b) Hvernig er það til góðs að vera vingjarnleg? Nefndu dæmi.
13 Jehóva er óhlutdrægur af því að hann þekkir okkur vel, eins og góður faðir þekkir börnin sín. Þegar við kynnumst öðrum og sýnum áhuga á uppruna þeirra og ólíkri menningu virðist bilið á milli okkar og þeirra minnka eða jafnvel hverfa. Þjóðernismúrar falla, vináttubönd og kærleikur vex og einingin styrkist. (1. Korintubréf 9:19-23) Þetta kemur vel í ljós þegar við skoðum starf trúboða á erlendri grund. Þeir aðlagast fljótt söfnuðunum á svæðinu af því að þeir sýna heimamönnum áhuga. — Filippíbréfið 2:4.
14 Í mörgum löndum má sjá augljós dæmi um þau jákvæðu áhrif sem óhlutdrægni hefur. Aklilu er frá Eþíópíu. Hann bjó í Lundúnum en var einmana. Og það gerði illt verra að honum fannst fólk almennt vera óvingjarnlegt í garð útlendinga sem virðist reyndar algengt í Postulasagan 8:26-36.
stórborgum Evrópu. En viðbrögðin voru allt önnur þegar Aklilu mætti á samkomu í ríkissal Votta Jehóva. Viðstaddir buðu hann velkominn og fljótlega fór honum að líða vel innan um safnaðarmenn. Hann lærði fljótt að meta skapara sinn og áður en langt um leið fór hann að leita tækifæra til að segja öðrum á svæðinu frá fagnaðarerindinu um ríkið. Dag einn spurði félagi Aklilus í boðunarstarfinu hver markmið hans væru núna. Aklilu svaraði um hæl að hann vonaðist til þess að fá einhvern tíma að tilheyra amharískumælandi söfnuði, en amharíska er móðurmál hans. Þegar öldungarnir í enskumælandi söfnuðinum heyrðu þetta gerðu þeir fúslega ráðstafanir til þess að opinber fyrirlestur yrði haldinn á máli Aklilu. Stór hópur útlendinga og Englendinga var viðstaddur til að styðja fyrstu opinberu samkomuna í Bretlandi sem fór fram á amharísku. Núna eru Eþíópíumenn og aðrir frá því svæði sameinaðir í amharískumælandi söfnuði sem dafnar vel. Margir þeirra hafa komist að raun um að ekkert hamlar þeim að taka afstöðu með Jehóva og tákna það með kristinni skírn. —15 Bakgrunnur fólks og eiginleikar eru mismunandi. Það þýðir ekki að sumir séu yfir aðra hafnir; fólk er einfaldlega ólíkt. Þegar nýlega vígðir þjónar Jehóva létu skírast á eynni Möltu sýndu heimamenn af sér mikla kæti en gestir frá Bretlandi táruðust af gleði. Báðir hóparnir tjáðu tilfinningar sínar en þeir gerðu það á ólíkan hátt og sterkur kærleikur til Jehóva treysti bræðraböndin á milli þeirra. — Sálmur 133:1; Kólossubréfið 3:14.
Að vinna bug á fordómum
16-18. Nefndu dæmi um það hvernig hægt er að vinna bug á fordómum innan safnaðarins.
16 Þegar við styrkjum kærleikann til Jehóva og bræðranna getum við líkt betur eftir fordæmi Jehóva og litið fólk sömu augum og hann. Við getum unnið bug á fordómum sem við gætum hafa haft í garð ákveðinnar þjóðar, kynþáttar eða menningar. Tökum Albert sem dæmi en hann þjónaði í breska hernum í seinni heimstyrjöldinni og var tekinn til fanga af Japönum þegar Singapúr féll árið 1942. Seinna vann hann í þrjú ár við „dauðajárnbrautina“ nálægt brúnni yfir Kwaifljótið sem kölluð var svo. Þegar honum var sleppt úr haldi í stríðslok vó hann 32 kíló, var nef- og kjálkabrotinn og með blóðkreppusótt, hringorm og malaríu. Þúsundir meðfanga hans voru í verra ástandi og margir þeirra lifðu ekki af. Hann sneri heim árið 1945 en vegna þessara hörmunga varð hann bitur og vildi ekkert hafa með Guð eða nokkur trúarbrögð að gera.
17 Irene, kona Alberts, gerðist vottur Jehóva. Hennar vegna mætti Albert á nokkrar samkomur í söfnuði Votta Jehóva í nágrenninu. Ungur vottur, sem hét Paul og þjónaði í fullu starfi, heimsótti Albert til að fræða hann um Biblíuna. Albert gerði sér fljótlega grein fyrir því að Jehóva metur fólk eftir hjartalagi þess. Hann vígði líf sitt Jehóva og lét skírast.
18 Seinna flutti Paul til Lundúna, lærði japönsku og fór á samkomur í japönskumælandi söfnuði. Þegar honum datt í hug að koma með nokkra gesti frá Japan í gamla söfnuðinn sinn minntust bræðurnir þess að Albert hafði áður haft mikla fordóma gagnvart fólki af þeim uppruna. Bræðurnir höfðu áhyggjur af því hvernig hann myndi bregðast við þar sem hann hafði ekki viljað hitta neina Japana frá því að hann kom heim til Bretlands. En þeir hefðu ekki þurft að hafa áhyggjur — Albert tók á móti gestunum með falslausri bróðurást. — 1. Pétursbréf 3:8, 9.
‚Látið verða rúmgott hjá ykkur‘
19. Hvaða leiðbeiningar Páls postula geta hjálpað okkur ef við höfum einhvern vott af hlutdrægni?
19 „Hlutdrægni er ljót,“ skrifaði vitri konungurinn Salómon. (Orðskviðirnir 28:21) Það er auðvelt að finnast við náin þeim sem við þekkjum vel. En stundum hættir okkur til að sýna þeim lítinn áhuga sem við þekkjum lítið. Slík hlutdrægni sæmir ekki þjónum Jehóva. Það væri því gott fyrir okkur öll að fylgja skýrum leiðbeiningum Páls og ‚láta verða rúmgott hjá okkur‘ — já, styrkja kærleika okkar til trúsystkina af ólíkum uppruna. — 2. Korintubréf 6:13.
20. Á hvaða sviðum lífsins ættum við að líkja eftir óhlutdrægni Jehóva?
20 Hvort sem við höfum þau sérréttindi að hafa himneska köllun eða horfum fram til þess að lifa að eilífu á jörðinni getum við verið sameinuð sem ein hjörð með einn hirði ef við forðumst hlutdrægni. (Efesusbréfið 4:4, 5, 16) Ef við reynum að líkja eftir Jehóva, sem fer ekki í manngreinarálit, getur það hjálpað okkur í boðunarstarfinu, innan fjölskyldunnar, innan safnaðarins og í rauninni á öllum sviðum lífsins. Að hvaða leyti? Greinin á eftir fjallar nánar um það.
[Neðanmáls]
^ gr. 3 Seinna var ort um frægð Jehóva í helgisöngvum. — Sálmur 135:8-11; 136:11-20.
^ gr. 11 Hér á orðið ‚grískur‘ við um heiðna menn almennt. — Insight on the Scriptures (Innsýn í Ritninguna), gefin út af Vottum Jehóva, 1. bindi, bls. 1004.
Hvert er svarið?
• Hvernig var Jehóva óhlutdrægur gagnvart Rahab og Gíbeonítunum?
• Hvernig sýndi Jesús óhlutdrægni þegar hann kenndi?
• Hvað getur hjálpað okkur að vinna bug á fordómum gagnvart fólki af annarri menningu eða öðrum kynþætti?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Ísraelsþjóðin hefur innrásina í Kanaan.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Jesús kom sér ekki hjá því að vitna fyrir samverskri konu.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Opinber samkoma í Bretlandi fyrir amharískumælandi fólk.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Kærleikur Alberts til Jehóva hjálpaði honum að vinna bug á fordómum.