Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Berið mikinn ávöxt“

„Berið mikinn ávöxt“

„Berið mikinn ávöxt“

„Berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.“ — JÓHANNES 15:8.

1. (a) Hvaða kröfu talaði Jesús um við postulana? (b) Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?

ÞAÐ var kvöldið fyrir dauða Jesú. Hann hafði gefið sér góðan tíma til að uppörva postulana og tala við þá í fullri einlægni. Sennilega var komið fram yfir miðnætti en Jesús hélt áfram að tala, knúinn af kærleika til náinna vina sinna. Í þessum samræðum minnti hann þá á eina kröfu í viðbót sem þeir þyrftu að uppfylla til að vera lærisveinar hans. Hann sagði: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.“ (Jóhannes 15:8) Uppfyllum við þessa kröfu? Hvað þýðir það að ‚bera mikinn ávöxt‘? Til að komast að því skulum við snúa okkur aftur að samræðunum þetta kvöld.

2. Hvaða líkingu brá Jesús upp kvöldið fyrir dauða sinn?

2 Þessi hvatning til að bera ávöxt er hluti af líkingu sem Jesús sagði postulunum. Hann sagði: „Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. . . . Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir. Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni. Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni.“ — Jóhannes 15:1-10.

3. Hvað verða fylgjendur Jesú að gera til að bera ávöxt?

3 Í líkingunni er Jehóva vínyrkinn, Jesús vínviðurinn og postularnir, sem Jesús var að tala við, eru greinarnar. Postularnir bæru ávöxt svo framarlega sem þeir kappkostuðu að ‚vera í Jesú.‘ Síðan útskýrði Jesús hvernig þeir gætu viðhaldið þessari mikilvægu einingu og sagði: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni.“ Seinna skrifaði Jóhannes postuli svipuð orð til trúbræðra sinna: „Sá sem heldur boðorð [Krists], er stöðugur í honum.“ * (1. Jóhannesarbréf 2:24; 3:24, Biblían 1912) Með því að halda boðorð Krists gátu fylgjendur hans verið í honum og það gerði þeim síðan kleift að bera ávöxt. Hvers konar ávöxt þurfum við að bera?

Vaxtarmöguleikar

4. Hvað getum við lært af því að Jehóva skuli ‚sníða af‘ hverja þá grein sem ekki ber ávöxt?

4 Í líkingunni um vínviðinn sníður Jehóva þær greinar af sem bera ekki ávöxt. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur ekki aðeins að þess sé krafist að allir lærisveinar beri ávöxt heldur einnig að allir séu færir um það, hverjar sem aðstæður þeirra eða takmarkanir kunna að vera. Það væri í þversögn við starfshætti Guðs og kærleika ef hann ‚sniði af‘ lærisvein Krists eða dæmdi hann vanhæfan fyrir að gera ekki eitthvað sem hann getur ekki gert. — Sálmur 103:14; Kólossubréfið 3:23; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

5. (a) Hvernig gefur líking Jesú til kynna að við getum tekið framförum? (b) Hvaða tvær tegundir ávaxta ætlum við að skoða?

5 Líking Jesú um vínviðinn sýnir einnig fram á að við verðum að skapa okkur tækifæri til að taka framförum sem lærisveinar, innan þess ramma sem aðstæður okkar setja. Taktu eftir því hvernig Jesús orðar þetta: „Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.“ (Jóhannes 15:2) Í lok líkingarinnar hvatti Jesús fylgjendur sína til að bera „mikinn ávöxt.“ (Vers 8) Hvað getum við lært af þessu? Sem lærisveinar ættum við aldrei að verða of ánægð með okkur heldur ættum við að reyna að sjá hvernig við getum borið meiri ávöxt. (Opinberunarbókin 3:14, 15, 19) Hvers konar ávöxt ættum við að reyna að bera í ríkari mæli? Það er (1)  „ávöxtur andans“ og (2) ávöxtur Guðsríkis. — Galatabréfið 5:22, 23; Matteus 24:14.

Ávöxtur andans — kristnir eiginleikar

6. Hvernig lagði Jesús Kristur áherslu á mikilvægi fyrsta eiginleikans sem nefndur er í upptalningunni á ávöxtum andans?

6 Þegar ‚ávextir andans‘ eru taldir upp er kærleikurinn fyrst nefndur. Heilagur andi Guðs ræktar kærleika með kristnum mönnum því að þeir hlýða fyrirmælunum sem Jesús gaf rétt áður en hann brá upp líkingunni af vínviðnum. Hann sagði postulunum: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan.“ (Jóhannes 13:34) Í samræðunum, sem Jesús átti við postulana síðustu nótt sína sem maður, minnti hann þá aftur og aftur á hve nauðsynlegt væri að sýna kærleika. — Jóhannes 14:15, 21, 23, 24; 15:12, 13, 17.

7. Hvernig er það að bera ávöxt tengt því að sýna eiginleika eins og þá sem Kristur sýndi?

7 Pétur var viðstaddur þessa nótt og hann skildi að sannir lærisveinar Krists ættu að sýna kærleika eins og Kristur sýndi og einnig aðra svipaða eiginleika. Mörgum árum síðar hvatti Pétur kristna menn til að rækta með sér eiginleika eins og sjálfsögun, bróðurelsku og kærleika. Hann bætti við að ef við gerðum það ‚yrðum við ekki iðjulaus né ávaxtalaus.‘ (2. Pétursbréf 1:5-8) Við getum alltaf sýnt ávöxt andans óháð aðstæðum okkar. Við skulum þess vegna reyna að sýna kærleika, gæsku, hógværð og aðra eiginleika, sem Kristur sýndi, í enn ríkari mæli því að „gegn slíku eru engin lög“ eða takmörk. (Galatabréfið 5:23, NW ) Leggjum okkur því fram um að bera „meiri ávöxt.“

Berum ávöxt Guðsríkis

8. (a) Hvernig tengjast ávöxtur andans og ávöxtur Guðsríkis? (b) Hvaða spurningu ættum við að hugleiða?

8 Litríkir og safaríkir ávextir eru fegurðarauki. En hlutverk ávaxtanna er mun meira en það að prýða plöntuna. Fræin í ávöxtunum eru líka nauðsynleg til að plantan geti dreift sér. Það er eins með ávöxt andans. Hann gerir mun meira en að prýða kristinn persónuleika okkar. Eiginleikar eins og kærleikur og trúmennska fá okkur til að dreifa sáðkornum ríkisboðskaparins sem við finnum í orði Guðs. Taktu eftir því hvernig Páll postuli leggur áherslu á þetta mikilvæga atriði. Hann segir: „Vér trúum líka [trú er hluti af ávexti andans] og þess vegna tölum vér.“ (2. Korintubréf 4:13) Páll útskýrir þetta einnig með því að segja að við ‚berum fram lofgjörðarfórn fyrir Guð eða ávöxt vara.‘ — hin tegundin af ávexti sem við þurfum að bera. (Hebreabréfið 13:15) Gætum við hugsanlega verið duglegri eða borið „mikinn ávöxt“ sem boðberar Guðsríkis?

9. Er ávöxtur Guðsríkis það sama og að gera menn að lærisveinum? Útskýrðu.

9 Til að svara þessari spurningu almennilega verðum við fyrst að skilja hvað ávöxtur Guðsríkis er. Væri rétt að álykta að ávöxturinn sé það að gera menn að lærisveinum? (Matteus 28:19) Vísar ávöxturinn, sem við eigum að bera, þá aðallega til þeirra sem við hjálpum að verða skírðir tilbiðjendur Jehóva? Nei, það væri mjög letjandi fyrir alla þá duglegu votta sem hafa trúfastlega kunngert ríkisboðskapinn í áratugi á svæðum þar sem fáir sýna áhuga. Ef ávöxtur Guðsríkis táknaði aðeins nýja lærisveina væru þessir iðnu vottar eins og ávaxtalausu greinarnar í líkingu Jesú. Auðvitað er það ekki svo. En hver er þá helsti ávöxtur Guðsríkis í þjónustu okkar?

Berum ávöxt með því að sá sæði Guðsríkis

10. Hvernig sýnir dæmisaga Jesú um sáðmanninn og hinar mismunandi tegundir jarðvegs hvað ávöxtur Guðsríkis er og hvað hann er ekki?

10 Dæmisaga Jesú um sáðmanninn og hinar mismunandi tegundir jarðvegs bendir okkur á svarið. Þetta svar er mjög uppörvandi fyrir þá sem starfa á svæðum þar sem fáir sýna áhuga. Jesús sagði að sæðið væri ríkisboðskapurinn, sem er að finna í orði Guðs, og að jarðvegurinn væri táknrænt hjarta mannsins. Sumt sæðið „féll í góða jörð, óx upp og bar . . . ávöxt.“ (Lúkas 8:8) Hvaða ávöxt? Þegar hveitistöngull vex upp og þroskast ber hann ávöxt — ekki litla hveitistöngla heldur nýtt sáðkorn. Eins er það með ávöxt kristinna manna. Hann er ekki endilega nýir lærisveinar heldur nýtt sæði Guðsríkis.

11. Hvernig má skilgreina ávöxt Guðsríkis?

11 Ávöxturinn í þessu tilviki er því hvorki nýir lærisveinar né góðir kristnir eiginleikar. Þar sem sæðið er orðið um ríkið hlýtur ávöxturinn að vera margföldun á þessu sæði. Í þessu tilviki berum við ávöxt með því að segja öðrum frá Guðsríki. (Matteus 24:14) Geta allir borið ávöxt Guðsríkis — boðað fagnaðarerindið um ríkið — óháð aðstæðum sínum? Já, og í þessari sömu dæmisögu útskýrir Jesús af hverju svo er.

Gefum okkar besta Guði til dýrðar

12. Geta allir kristnir menn borið ávöxt Guðsríkis? Útskýrðu.

12 „En það er sáð var í góða jörð,“ sagði Jesús, „gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.“ (Matteus 13:23) Korn sem sáð er á akur getur gefið mismikið af sér miðað við aðstæður. Það sem við getum gert í boðunarstarfinu getur á svipaðan hátt verið mismunandi miðað við aðstæður okkar og Jesús sýndi að hann gerði sér grein fyrir þessu. Sumir hafa kannski betri aðstæður; aðrir gætu haft betri heilsu og meiri krafta. Það sem við getum gert gæti því verið meira eða minna en það sem aðrir gera en Jehóva er ánægður svo framarlega sem við gerum okkar besta. (Galatabréfið 6:4) Jafnvel þótt hár aldur eða heilsubrestur takmarki þátttöku okkar í boðunarstarfinu ‚berum við örugglega mikinn ávöxt‘ í augum hins umhyggjusama föður okkar Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að við gefum honum ‚allt sem við eigum‘ — heilshugar þjónustu. * — Markús 12:43, 44; Lúkas 10:27.

13. (a) Hver er helsta ástæðan fyrir því að við ættum að „fara og bera“ ávöxt Guðsríkis? (b) Hvað getur auðveldað okkur að halda áfram að bera ávöxt á svæðum þar sem fáir sýna áhuga? (Sjá rammagrein á blaðsíðu 31.)

13 Óháð því hversu mikinn ávöxt við getum borið finnum við að okkur langar til að „fara og bera ávöxt“ þegar við hugleiðum hvers vegna við gerum það. (Jóhannes 15:16) Jesús minntist á helstu ástæðuna: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt.“ (Jóhannes 15:8) Já, boðunarstarf okkar helgar nafn Jehóva frammi fyrir öllu mannkyni. (Sálmur 109:30) Honor er trúfastur vottur á sjötugsaldri. Hún segir: „Það eru sérréttindi að vera fulltrúi hins hæsta, jafnvel á svæðum þar sem fáir sýna áhuga.“ Claudio hefur verið kostgæfinn vottur frá árinu 1974 og þegar hann var spurður að því hvers vegna hann héldi áfram að prédika þótt fáir á svæðinu hans sýndu áhuga, vitnaði hann í Jóhannes 4:34 þar sem við lesum orð Jesú: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ Claudio bætti við: „Ég vil ekki aðeins hefja starf mitt sem boðberi Guðsríkis heldur líka fullna það eins og Jesús gerði.“ (Jóhannes 17:4) Vottar Jehóva út um allan heim taka undir þetta. — Sjá rammagreinina „Að ‚bera ávöxt með stöðuglyndi‘“ á blaðsíðu 31.

Að prédika og kenna

14. (a) Hvaða tvíþættu starfi sinntu Jóhannes skírari og Jesús? (b) Lýstu starfi kristinna manna nú á dögum.

14 Jóhannes skírari er fyrsti boðberi Guðsríkis sem minnst er á í guðspjöllunum. (Matteus 3:1, 2; Lúkas 3:18) Meginmarkmið hans var „að vitna“ og hann gerði það með sterkri trú og í von um að „allir skyldu trúa.“ (Jóhannes 1:6, 7) Sumir þeirra sem Jóhannes prédikaði fyrir urðu einmitt lærisveinar Krists. (Jóhannes 1:35-37) Jóhannes prédikaði því bæði og gerði menn að lærisveinum. Jesús var líka prédikari og kennari. (Matteus 4:23; 11:1) Það kemur því ekki á óvart að Jesús hafi ekki aðeins boðið fylgjendum sínum að prédika ríkisboðskapinn heldur einnig að hjálpa þeim sem tóku við boðskapnum að verða lærisveinar hans. (Matteus 28:19, 20) Starf okkar er því bæði prédikunar- og kennslustarf.

15. Hvernig eru viðbrögðin við prédikunarstarfinu nú á dögum lík viðbrögðunum á fyrstu öldinni?

15 Sumir þeirra, sem voru uppi á fyrstu öldinni og heyrðu Pál prédika og kenna, létu „sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki.“ (Postulasagan 28:24) Það er eins nú á dögum. Því miður fellur mestallt sæði Guðsríkis í jarðveg sem er ekki móttækilegur. En þrátt fyrir það fellur sumt sæði í góða jörð, skýtur rótum og spírar eins og Jesús var búinn að segja fyrir. Út um allan heim gerast að meðaltali rúmlega 5.000 manns sannir lærisveinar Krists í hverri viku. Þessir nýju lærisveinar „sannfærast“ af því sem þeir heyra þó að flestir aðrir geri það ekki. Hvað stuðlaði að því að hjarta þeirra tók við ríkisboðskapnum? Oft hefur sá persónulegi áhugi sem vottarnir sýna skipt sköpum — það mætti segja að þá séu þeir að vökva sæðið sem er nýbúið að sá. (1. Korintubréf 3:6) Lítum á aðeins tvö dæmi af mörgum.

Persónulegur áhugi skiptir sköpum

16, 17. Af hverju er mikilvægt að sýna þeim sem við hittum í boðunarstarfinu persónulegan áhuga?

16 Karolien, ungur vottur í Belgíu, heimsótti eldri konu sem hafði engan áhuga á ríkisboðskapnum. Karolien og félagi hennar buðust til að hjálpa konunni þar sem þær sáu að hún var með sáraumbúðir um handlegginn en konan afþakkaði boðið. Tveimur dögum síðar heimsótti hún konuna aftur og spurði hvernig henni liði. „Þetta hafði mikið að segja,“ sagði Karolien. „Hún var svo hissa að sjá að við hefðum raunverulegan áhuga á henni sem persónu. Hún bauð okkur inn og biblíunámskeið var hafið.“

17 Sandi, vottur í Bandaríkjunum, sýnir fólki sem hún prédikar fyrir einnig persónulegan áhuga. Hún skoðar fæðingartilkynningar í dagblaðinu á svæðinu og heimsækir síðan nýbakaða foreldrana og býður þeim Biblíusögubókina mína. * Þar sem móðirin er yfirleitt heima og vill gjarnan sýna gestum barnið fylgja oft samræður í kjölfarið. „Ég tala við foreldrana um nauðsyn þess að tengjast nýfædda barninu með því að lesa fyrir það,“ segir Sandi. „Seinna tala ég um erfiðleikana sem fylgja því að ala upp barn í heimi nútímans.“ Fyrir stuttu varð árangurinn af slíkri heimsókn sá að móðir og sex börn hennar fóru að þjóna Jehóva. Ef við sýnum frumkvæði og persónulegan áhuga í boðunarstarfinu gæti það haft jafnánægjulegan árangur í för með sér.

18. (a) Hvers vegna má segja að við getum öll uppfyllt þá kröfu að ‚bera mikinn ávöxt‘? (b) Hvaða þrjár kröfur, sem minnst er á í Jóhannesarguðspjalli, ert þú staðráðinn í að uppfylla?

18 Það er hughreystandi að vita til þess að við getum öll uppfyllt þá kröfu að ‚bera mikinn ávöxt,‘ hvort sem við erum ung eða aldin, við góða eða slæma heilsu eða hvort sem við prédikum á svæðum þar sem margir sýna áhuga eða ekki. Hvernig getum við gert það? Með því að sýna ávöxt andans í ríkari mæli og með því að boða guðsríkisboðskapinn eftir bestu getu. Auk þess leggjum við okkur fram um að vera ‚stöðug í orði Jesú‘ og ‚bera elsku hvert til annars.‘ Já, með því að uppfylla þessar þrjár mikilvægu kröfur, sem talað er um í Jóhannesarguðspjalli, sýnum við að við erum „sannir lærisveinar [Krists].“ — Jóhannes 8:31; 13:35.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Þó að greinarnar á vínviðnum í líkingu Jesú vísi til postula Jesú og annarra kristinna manna, sem erfa himneskt ríki Guðs, geta allir fylgjendur Krists nú á dögum lært af líkingunni. — Jóhannes 3:16; 10:16.

^ gr. 12 Þeir sem eiga ekki heimangengt sökum aldurs eða veikinda geta kannski borið vitni í bréfum eða í síma, þar sem það er hægt, eða kannski með því að tala um fagnaðarerindið við þá sem koma í heimsókn.

^ gr. 17 Gefin út af Vottum Jehóva.

Upprifjun

• Hvers konar ávöxt verðum við að bera í enn ríkari mæli?

• Hvers vegna má segja að við getum öll ‚borið mikinn ávöxt‘?

• Hvaða þrjár mikilvægar kröfur til lærisveina höfum við rætt um?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 31]

AÐ „BERA ÁVÖXT MEÐ STÖÐUGLYNDI“

HVAÐ auðveldar þér að halda trúfastlega áfram að prédika ríkisboðskapinn á svæðum þar sem fáir sýna áhuga? Hér eru nokkur gagnleg svör við þessari spurningu.

„Við vitum að við höfum fullan stuðning Jesú og það hjálpar okkur að vera jákvæð og þolgóð óháð viðbrögðum á svæðinu.“ — Harry, 72 ára; skírður 1946.

„Mér finnst 2. Korintubréf 2:17 alltaf vera upp­örvandi. Þar segir að í boðunarstarfinu séum við ‚frammi fyrir augliti Guðs og í Kristi‘ og ég nýt þess að vera í félagsskap tveggja bestu vina minna þegar ég er í boðunarstarfinu.“ — Claudio, 43 ára; skírður 1974.

„Ef ég á að segja eins og er þá er það svolítið átak fyrir mig að fara í boðunarstarfið. En ég upplifi sannleikann í orðunum í Sálmi 18:30: ‚Fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.‘“ — Gerard, 79 ára; skírður 1955.

„Ef ég get lesið að minnsta kosti einn ritningarstað í boðunarstarfinu gleður það mig því að þá hefur einhver látið Biblíuna rannsaka hjarta sitt.“ — Eleanor, 26 ára; skírð 1989.

„Ég er alltaf að reyna mismunandi aðferðir. Þær eru svo margar að ég á ekki eftir að geta notað þær allar á þeim árum sem ég á eftir ólifuð.“ — Paul, 79 ára; skírður 1940.

„Ég tek því ekki persónulega þótt ég fái neikvæð viðbrögð í boðunarstarfinu. Ég reyni að vera rólegur í viðmóti, eiga samræður við fólk og hlusta á skoðanir þeirra.“ — Daniel, 75 ára; skírður 1946.

„Fólk hefur komið til mín stuttu eftir að það skírðist og sagt mér að boðunarstarf mitt hafi átt þátt í því að það varð vottar. Þá hefur einhver annar hjálpað þeim seinna að kynna sér Biblíuna og taka framförum án þess að ég hafi vitað af því. Það veitir mér mikla gleði að vita að boðunarstarf okkar er hópvinna.“ — Joan, 66 ára; skírð 1954.

Hvað auðveldar þér að „bera ávöxt með stöðuglyndi?“— Lúkas 8:15

[Myndir á blaðsíðu 30]

Við berum mikinn ávöxt ef við berum ávöxt andans og boðum ríkisboðskapinn.