Allir þurfa hrós
Allir þurfa hrós
LITLA stúlkan var ánægð með daginn. Áður hafði oft þurft að vanda um við hana en þennan dag hafði hún hagað sér einstaklega vel. En um kvöldið, þegar hún var komin í háttinn, heyrði móðir hennar að hún var að gráta. Þegar hún spurði hvað væri að svaraði litla stúlkan kjökrandi: „Var ég ekki góð í dag?“
Spurningin stakk móðurina í hjartastað. Hún hafði alltaf verið fljót til að vanda um við dóttur sína. En þótt hún hefði séð hvað litla stúlkan lagði mikið á sig þennan dag til að reyna að vera góð gleymdi hún samt alveg að hrósa henni, hvað þá að minnast á það einu orði.
Fleiri þurfa á hrósi og hughreystingu að halda en litlar stúlkur. Við þörfnumst þess öll — ekki síður en við þurfum að fá leiðbeiningar og umvöndun.
Hvernig er okkur innanbrjósts þegar við fáum einlægt hrós? Yljar það okkur ekki um hjartarætur og gerir okkur hress í bragði? Sennilega fáum við það á tilfinninguna að einhverjum sé annt um okkur og hann taki eftir því sem við gerum. Og við sannfærumst um að það sem við gerðum hafi borgað sig og okkur langar til að leggja okkur aftur fram seinna. Því er eðlilegt að við löðumst að fólki sem gefur sér tíma til að hrósa öðrum og hvetja þá. — Orðskviðirnir 15:23.
Jesús Kristur vissi hvað það er mikilvægt að hrósa fólki. Í dæmisögunni um talenturnar hrósar húsbóndinn (sem táknar Jesú sjálfan) trúföstu þjónunum mjög vingjarnlega og segir: „Gott, þú góði og trúi þjónn.“ Er þetta ekki hvetjandi ? Þeir fá báðir sama hrósið þótt þeir hafi ólíka hæfileika og geri mismikið. — Matteus 25:19-23.
Gleymum þess vegna ekki móður litlu stúlkunnar. Bíðum ekki með að hrósa fólki þangað til það er alveg miður sín heldur leitum markvisst að tækifærum til að hrósa öðrum. Við höfum vissulega gott tilefni til að hrósa fólki einlæglega hvenær sem tækifæri gefst.