Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Gerðu sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína‘

‚Gerðu sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína‘

‚Gerðu sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína‘

„Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. . . . Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:16.

1, 2. Hvað hvetur sannkristna menn til að halda björgunarstarfinu áfram?

Í EINAGRUÐU þorpi í norðurhluta Taílands reyna vottahjón að ræða við þorpsbúa á lahú-málinu sem þau hafa nýverið lært til að geta boðað þessum fjallaættbálki fagnaðarerindið um Guðsríki.

2 „Það er erfitt að lýsa þeirri gleði og ánægju sem starfið meðal þessa áhugasama fólks veitir okkur,“ segir eiginmaðurinn. „Okkur finnst við eiga þátt í uppfyllingu Opinberunarbókarinnar 14:6, 7 um að boða ‚sérhverri þjóð, kynkvísl og tungu‘ fagnaðartíðindi. Það eru fáir staðir eftir þar sem fagnaðarerindið hefur enn ekki náð til og þetta er vissulega einn þeirra. Við höfum eiginlega fleiri biblíunámskeið en við ráðum við.“ Þessi hjón vonast greinilega til að geta bjargað fleirum en sjálfum sér. Vonumst við ekki til að geta gert hið sama?

„Haf gát á sjálfum þér“

3. Hvað þurfum við fyrst að gera til að geta bjargað öðrum?

3 Páll postuli ráðlagði Tímóteusi að ‚hafa gát á sjálfum sér og fræðslunni‘ og þessi ráð eiga erindi til allra kristinna manna. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Til að hjálpa öðrum að verða hólpnir þurfum við fyrst að hafa gát á sjálfum okkur. Hvernig? Meðal annars með því að vera vakandi fyrir því á hvaða tímum við lifum. Jesús gaf samsett tákn til að fylgjendur hans gætu vitað hvenær ‚endalok veraldar‘ eða heimskerfisins væru í nánd, en hann sagði líka að þeir myndu ekki vita nákvæmlega hvenær endirinn kæmi. (Matteus 24:3, 36) Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?

4. (a) Hvaða augum eigum við að líta tímann sem eftir er af þessu heimskerfi? (b) Hvaða viðhorf ættum við að forðast?

4 Spyrðu þig hvort þú notir tímann, sem eftir er af þessu heimskerfi, til að gera sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína, eða hvort þú látir þér það í léttu rúmi liggja þar eð við vitum ekki nákvæmlega hvenær endirinn kemur. Síðarnefnda afstaðan er hættuleg. Hún gengur þvert á hvatningu Jesú: „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matteus 24:44) Þetta er ekki rétti tíminn til að missa eldmóðinn í þjónustu Jehóva eða leita eftir öryggi eða lífsfyllingu í heiminum. — Lúkas 21:34-36.

5. Hvaða fordæmi gáfu fortíðarvottar Jehóva?

5 Önnur leið til að sýna að við höfum gát á sjálfum okkur er með trúfesti okkar og þolgæði. Fortíðarþjónar Guðs sýndu þolgæði hvort sem þeir væntu skjótrar frelsunar eða ekki. Eftir að hafa talið upp fortíðarvotta eins og Abel, Enok, Nóa, Abraham og Söru segir Páll: „Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ Þeir létu ekki undan löngun í þægilegt líf eða þrýstingi til siðleysis heldur hlökkuðu til að „öðlast fyrirheitin.“ — Hebreabréfið 11:13; 12:1.

6. Hvaða áhrif hafði hjálpræðisviðhorf hinna frumkristnu á lífsbreytni þeirra?

6 Kristnir menn á fyrstu öld litu einnig á sig sem „útlendinga“ í þessum heimi. (1. Pétursbréf 2:11) Eftir að þeim hafði verið bjargað undan eyðingu Jerúsalem árið 70 hættu þeir ekki að prédika og tóku ekki upp veraldlegan lífsmáta. Þeir vissu að stórkostlegt hjálpræði biði trúfastra manna og árið 98 skrifaði Jóhannes postuli: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17, 28.

7. Hvernig hafa vottar Jehóva sýnt þolgæði nú á tímum?

7 Nútímavottar Jehóva hafa ekki heldur gefist upp í hinu kristna starfi þrátt fyrir að hafa mátt þola grimmilegar ofsóknir. Hefur þolgæði þeirra verið til einskis? Alls ekki því að Jesús fullvissar okkur um að ‚sá verði hólpinn sem staðfastur er allt til enda,‘ hvort heldur til enda þessa heimskerfis eða lífs okkar. Í upprisunni minnist Jehóva trúfastra látinna þjóna sinna og umbunar þeim. — Matteus 24:13; Hebreabréfið 6:10.

8. Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir þolgæði kristinna manna á liðnum árum?

8 Og við fögnum því að trúfastir kristnir menn á liðnum árum hugsuðu ekki aðeins um eigið hjálpræði. Við, sem höfum kynnst Guðsríki vegna erfiðis þeirra, erum þakklát fyrir að þeir framfylgdu þolgóðir fyrirmælum Jesú: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Sýnum þakklæti okkar meðan tækifæri gefst og prédikum fyrir þeim sem hafa enn ekki heyrt fagnaðarerindið. En prédikun er aðeins fyrsta skrefið í þá átt að gera menn að lærisveinum.

‚Haf gát á fræðslunni‘

9. Hvernig getur jákvætt viðhorf hjálpað okkur að koma af stað biblíunámskeiðum?

9 Við eigum ekki aðeins að prédika heldur einnig að kenna. Jesús hefur falið okkur að kenna fólki að halda allt það sem hann bauð. Á sumum starfssvæðum virðast fáir vilja læra um Jehóva. En neikvætt viðhorf til svæðisins getur hindrað okkur í að koma af stað biblíunámskeiðum. Brautryðjendasystir, Yvette að nafni, starfaði á svæði sem sagt var að bæri ekki ávöxt. Hún tók eftir að aðkomufólk hafði ekki svona neikvætt viðhorf og því tókst að koma af stað heimabiblíunámskeiðum. Þegar hún varð jákvæðari sjálf tókst henni einnig að finna fólk sem vildi kynna sér Biblíuna.

10. Hvert er meginhlutverk biblíukennara?

10 Sumir hika við að bjóða áhugasömum biblíunámskeið af því að þeir telja sig ekki geta stjórnað því. Hæfni okkar er auðvitað mismikil en við þurfum ekki að vera þrautþjálfuð til að geta kennt orð Guðs með góðum árangri. Hinn ómengaði boðskapur Biblíunnar er kröftugur og Jesús sagði að sauðumlíkir menn myndu þekkja rödd hins sanna hirðis er þeir heyrðu hana. Okkur er aðeins falið að koma boðskap góða hirðisins Jesú til þeirra eins skýrt og við getum. — Jóhannes 10:4, 14.

11. Hvernig geturðu hjálpað biblíunemenda enn betur?

11 Hvernig geturðu komið boðskap Jesú enn betur til skila? Kynntu þér fyrst af öllu hvað Biblían segir um efnið sem fjalla á um. Þú þarft að skilja viðfangsefnið áður en þú getur kennt öðrum það. Reyndu líka að hafa andrúmsloftið í náminu virðulegt en samt vinalegt. Nemendur, þar á meðal börn, læra betur þegar þeir eru afslappaðir og kennarinn sýnir þeim virðingu og vinsemd. — Orðskviðirnir 16:21.

12. Hvernig geturðu gengið úr skugga um að nemandi skilji það sem þú ert að kenna honum?

12 Þér ætti að vera í mun að setja ekki bara fram staðreyndir sem nemandinn romsar síðan upp. Hjálpaðu honum að skilja það sem hann er að læra. Menntun nemandans, lífsreynsla og biblíuþekking hefur áhrif á hve vel hann grípur það sem þú segir. Spyrðu þig hvort hann skilji ritningarstaðina í námsefninu. Fáðu hann til að opna sig með því að beita spurningum sem hvorki er hægt að svara játandi né neitandi heldur aðeins með útskýringu. (Lúkas 9:18-20) Sumir nemendur hika aftur á móti við að spyrja kennara sinn og fara kannski yfir efnið án þess að skilja fyllilega hvað verið er að kenna þeim. Hvettu nemandann til að spyrja spurninga og láta vita ef eitthvað vefst fyrir honum. — Markús 4:10; 9:32, 33.

13. Hvernig geturðu hjálpað nemenda að verða kennari?

13 Einn megintilgangur biblíunámskeiðs er að gera nemandann að kennara. (Galatabréfið 6:6) Með það í huga skaltu rifja námsefnið upp og fá nemandann til að útskýra það á einfaldan hátt líkt og hann sé að skýra það fyrir einhverjum sem hefur ekki heyrt það áður. Síðar, þegar hann er orðinn hæfur til að taka þátt í boðunarstarfinu, geturðu boðið honum að starfa með þér. Honum þykir örugglega gott að starfa með þér og sjálfstraustið eykst uns hann er reiðubúinn að fara einn út í boðunarstarfið.

Hjálpaðu nemandanum að verða vinur Jehóva

14. Hvert er aðalmarkmið kennara og hvað hjálpar honum að ná því?

14 Aðalmarkmið hvers kennara er að hjálpa nemandanum að öðlast vináttu Jehóva. Það gerirðu ekki eingöngu í orði. Kenndu nemandanum einnig með fordæmi þínu. Það hefur kröftug áhrif á hjarta hans. Verkin segja miklu meira en orðin, einkum þegar glæða þarf siðferðilega eiginleika í fari hans og fylla hann eldmóði. Ef hann sér að orð þín og athafnir stafa af góðu sambandi við Jehóva hvetur það hann enn frekar til að eignast slíkt samband sjálfur.

15. (a) Hvers vegna er mikilvægt að nemandi læri að þjóna Jehóva af réttum hvötum? (b) Hvernig geturðu hjálpað nemanda að taka andlegum framförum?

15 Nemandinn ætti að þjóna Jehóva af kærleika en ekki aðeins af því að hann vill ekki farast í Harmagedón. Með því að hjálpa honum að þjóna af hreinum hvötum byggirðu úr eldtraustum efnum sem geta staðist trúarraunir. (1. Korintubréf 3:10-15) Rangar hvatir, eins og óhófleg löngun til að líkja eftir þér eða öðrum mönnum, veita honum hvorki styrk til að standa gegn ókristilegum áhrifum né kjark til að gera það sem rétt er. Mundu að þú verður ekki kennari hans alla tíð. Hvettu hann meðan þú getur til að eignast æ nánara samband við Jehóva með því að lesa og hugleiða orð hans daglega. Þannig hefur hann áfram sér „til fyrirmyndar heilnæmu orðin“ í Biblíunni og biblíutengdum ritum löngu eftir að námskeiðinu lýkur. — 2. Tímóteusarbréf 1:13.

16. Hvernig geturðu kennt nemanda að biðja frá hjartanu?

16 Þú getur einnig hjálpað nemandanum að efla tengslin við Jehóva með því að kenna honum að biðja frá hjartanu. Hvernig geturðu það? Bentu honum á fyrirmyndarbæn Jesú og aðrar einlægar bænir í Biblíunni, til dæmis í Sálmunum. (Sálmur 17, 86, 143; Matteus 6:9, 10) Nemandinn skynjar hvaða tilfinningar þú berð til Jehóva þegar hann heyrir þig biðja í upphafi og lok námsstundarinnar. Láttu bænir þínar því ávallt bera vott um einlægni og hreinskilni, og um andlegt og tilfinningalegt jafnvægi.

Bjargaðu börnum þínum

17. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að halda sér á hjálpræðisbrautinni?

17 Við viljum auðvitað að aðrir í fjölskyldu okkar verði hólpnir. Fjölmörg börn kristinna foreldra eru einlæg og ‚stöðug í trúnni‘ en önnur hafa ekki rótfest sannleikann í hjarta sér. (1. Pétursbréf 5:9; Efesusbréfið 3:17; Kólossubréfið 2:7) Mörg yfirgefa hinn kristna lífsveg er þau komast á unglingsárin eða verða fulltíða. Hvað geturðu gert sem foreldri til að draga úr líkunum á því að svo fari? Í fyrsta lagi þarftu að skapa heilnæmt andrúmsloft á heimilinu. Gott fjölskyldulíf leggur grunninn að réttum viðhorfum til yfirvalds, góðum lífsgildum og ánægjulegum samskiptum við aðra. (Hebreabréfið 12:9) Náin og innileg fjölskyldubönd geta orðið sáðreiturinn sem vinátta barns við Jehóva getur vaxið í. (Sálmur 22:10) Sterkar fjölskyldur gera hlutina saman, jafnvel þótt foreldrarnir verði að fórna til þess tíma frá öðru. Þannig kennirðu börnunum með fordæmi þínu að taka réttar ákvarðanir í lífinu. Foreldrar, börnin þurfa mest á ykkur að halda — tíma ykkar, kröftum og ást — en ekki efnislegum ávinningi. Veitirðu börnum þínum þetta?

18. Hvers konar spurningum verða foreldrar að hjálpa börnum sínum að svara?

18 Kristnir foreldrar mega aldrei gera ráð fyrir að börnin verði sjálfkrafa kristin. Daníel, sem er öldungur og fimm barna faðir, segir: „Foreldrar verða að taka sér tíma til að eyða efasemdum sem vakna óhjákvæmilega hjá börnunum í skóla og annars staðar. Þeir verða hjálpa þeim þolinmóðlega að leita svara við spurningum eins og: ‚Lifum við raunverulega á endalokatímanum? Er aðeins til ein sönn trú? Hvers vegna er skólafélagi ekki góður félagsskapur þótt hann sé viðkunnanlegur? Er alltaf rangt að eiga kynmök fyrir hjónaband?‘“ Foreldrar geta treyst því að Jehóva blessi viðleitni þeirra vegna þess að honum er einnig annt um velferð barnanna.

19. Hvers vegna er affarasælast að foreldrar kenni börnum sínum sjálfir?

19 Sumir foreldrar telja sig kannski ekki í stakk búna til að kenna börnum sínum Biblíuna. En hugsaðu ekki þannig því að enginn er í betri aðstöðu til að uppfræða þau en þú. (Efesusbréfið 6:4) Þegar þú kennir þeim kemstu að því af eigin raun hvað býr í huga þeirra og hjarta. Eru svör þeirra málamyndasvör eða koma þau frá hjartanu? Trúa þau því sem þau eru að læra? Er Jehóva þeim raunverulegur? Þú færð aðeins svar við þessum og öðrum mikilvægum spurningum ef þú kennir börnum þínum sjálfur. — 2. Tímóteusarbréf 1:5.

20. Hvernig geta foreldrar gert fjölskyldunámið ánægjulegt og gagnlegt?

20 Hvernig geturðu haldið námsáætlun fjölskyldunnar gangandi þegar henni hefur verið hrundið í framkvæmd? Joseph, sem er öldungur og á ungan son og dóttur, segir: „Líkt og önnur biblíunámskeið þarf fjölskyldunámið að vera ánægjulegt og allir ættu að hlakka til þess. Til að svo sé í fjölskyldunni okkar gætum við þess að vera ekki of stíf á tímanum. Námsstundin getur staðið í klukkutíma og þótt að við höfum stundum ekki nema tíu mínútur til umráða fer námið samt fram. Eitt sem gerir námsstundina að hápunkti vikunnar hjá börnunum er að við sviðsetjum sögur úr Biblíusögubókinni minni. * Það festir efnið rækilega í huga þeirra og hjarta sem skiptir miklu meira máli en tölugreinafjöldinn sem farið er yfir.“

21. Hvenær geta foreldrar frætt börn sín?

21 Kennsla barnanna einskorðast auðvitað ekki við formlegar námsstundir. (5. Mósebók 6:5-7) Votturinn í Taílandi, sem nefndur var í greinarbyrjun, segir: „Mér er enn í fersku minni hvernig pabbi var vanur að fara hjólandi með mig í boðunarstarfið til ystu afkima safnaðarsvæðisins. Hið góða fordæmi foreldra minna og kennsla þeirra við allar aðstæður varð tvímælalaust til þess að við ákváðum að þjóna í fullu starfi. Og kennslan hlýtur að hafa borið árangur. Ég er enn að starfa á ystu afkimum starfssvæðins!“

22. Hvað hefur það í för með sér að ‚hafa gát á sjálfum sér og fræðslunni‘?

22 Einn góðan veðurdag í náinni framtíð, á nákvæmlega réttum tíma, kemur Jesús til að fullnægja dómi Guðs yfir þessu heimskerfi. Trúfastir þjónar Jehóva munu halda áfram að þjóna honum með eilíft hjálpræði fyrir augum eftir að þessi mikli atburður hefur verið skráður á blöð alheimssögunnar. Vonast þú til að vera í þessum hópi, ásamt börnum þínum og biblíunemendum? Hafðu þá „gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Geturðu útskýrt?

• Hvert ætti að vera viðhorf okkar fyrst við vitum ekki nákvæmlega hvenær Guð fullnægir dómi?

• Hvernig getum við ‚haft gát á fræðslunni‘?

• Hvernig geturðu hjálpað nemanda að verða vinur Jehóva?

• Hvers vegna er mikilvægt að foreldrar taki sér tíma til að kenna börnum sínum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Efnið lærist betur ef andrúmsloftið er virðulegt en samt vinalegt.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Gera má fjölskyldunám ánægjulegra með því að sviðsetja biblíusögur eins og þegar Salómon dæmdi í máli portkvennanna tveggja.