Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrirgefðu af hjarta

Fyrirgefðu af hjarta

Fyrirgefðu af hjarta

„Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“ — MATTEUS 18:35.

1, 2. (a) Hvernig sýndi bersyndug kona að hún mat Jesú mikils? (b) Hvernig brást Jesús við?

 HÚN var sennilega vændiskona og engan veginn þess konar manneskja sem búast mátti við á heimili trúrækins manns. Hafi sumir hneykslast á því að sjá hana þar hneyksluðust þeir enn meir á því sem hún gerði. Hún gekk til manns sem var öllum fremri að siðferði og lét í ljós hve mikils hún mat starf hans með því að þvo fætur hans með tárum sínum og þerra þá með hári sínu.

2 Maðurinn, Jesús Kristur, hafði ekki andúð á konunni þótt hún væri „bersyndug.“ En Símoni farísea, húsbóndanum á heimilinu, stóð ekki á sama. Jesús sagði honum þá sögu um tvo skulduga menn. Annar skuldaði nærri tvennum árslaunum verkamanns; hinn skuldaði tíunda hluta þess eða innan við þrenn mánaðarlaun. Þegar hvorugur gat staðið í skilum ‚gaf lánveitandinn báðum upp‘ skuldir þeirra. Sá sem skuldaði meira hafði meiri ástæðu til að elska hann. Eftir að Jesús hafði tengt þetta góðverki konunnar gaf hann þessa meginreglu: „Sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann henni: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ — Lúkas 7:36-48.

3. Hvað þurfum við að skoða í sambandi við okkur sjálf?

3 Spyrðu þig hvort þú værir harðneskjulegur og ófús að fyrirgefa öðrum ef þú stæðir í svipuðum sporum og konan og þér væri miskunnað. ‚Auðvitað ekki,‘ svarar þú eflaust. En ertu sannfærður um að þú myndir fyrirgefa? Ertu þannig að eðlisfari? Hefurðu oft gert það og heldurðu að aðrir myndu segja að þú værir að jafnaði fús til að fyrirgefa? Við skulum kanna hvers vegna við ættum öll að líta í eigin barm og skoða þetta hreinskilnislega.

Við þörfnumst fyrirgefningar — og njótum hennar

4. Hvað ættum við að viðurkenna í sambandi við okkur sjálf?

4 Þú veist mætavel að þú ert ófullkominn. Aðspurður myndirðu jafnvel viðurkenna það og kannski minnast orðanna í 1. Jóhannesarbréfi 1:8: „Ef vér segjum: ‚Vér höfum ekki synd,‘ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.“ (Rómverjabréfið 3:23; 5:12) Hjá sumum hefur hið synduga eðli jafnvel birst í grófum og yfirgengilegum syndum. En jafnvel þótt þú vitir ekki til þess að þú hafir gert þig sekan um neitt þvílíkt hefur þér mistekist margsinnis og á margan hátt að uppfylla kröfur Guðs — þú hefur syndgað. Ertu ekki sammála því?

5. Fyrir hvað ættum við að vera Guði þakklát?

5 Staða þín er kannski ekki ósvipuð og Páll postuli lýsir: „Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum [Jesú], þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.“ (Kólossubréfið 2:13; Efesusbréfið 2:1-3) Taktu eftir orðunum „fyrirgaf oss öll afbrotin.“ Það er býsna yfirgripsmikið. Við höfum öll ærna ástæðu til að biðja eins og Davíð: „Sakir nafns þíns, [Jehóva], fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.“ — Sálmur 25:11.

6. Hvað megum við vera viss um í sambandi við Jehóva og fyrirgefningu?

6 Hvernig getur þú — eða hver sem er — hlotið fyrirgefningu? Það vegur þungt að Jehóva Guð langar til að fyrirgefa. Það er einn af eiginleikum hans. (2. Mósebók 34:6, 7; Sálmur 86:5) Þess vegna vill Guð að við leitum til sín í bæn og biðjum hann um sakaruppgjöf og fyrirgefningu. (2. Kroníkubók 6:21; Sálmur 103:3, 10, 14 ) Og hann hefur gefið lagalegar forsendur fyrir því að veita slíka fyrirgefningu með lausnarfórn Jesú. — Rómverjabréfið 3:24; 1. Pétursbréf 1:18, 19; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 14.

7. Hvernig ættum við að vilja líkja eftir Jehóva?

7 Fyrirgefningarvilji Guðs er fyrirmynd um það hvernig þú ættir að koma fram við aðra menn. Páll benti á það og skrifaði: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ (Efesusbréfið 4:32) Það leikur enginn vafi á að ábending Páls felur í sér að við eigum að læra af fordæmi Guðs eins og fram kemur í versinu á eftir: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Kemurðu auga á tengslin? Jehóva Guð fyrirgaf þér svo að þú þarft að líkja eftir honum og vera ‚miskunnsamur og fús til að fyrirgefa öðrum‘ eins og Páll færir sterk rök fyrir. En spyrðu þig hvort þú gerir það. Ef það er ekki í eðli þínu, leggurðu þig þá fram um að gera það og líkja eftir Guði með því að fyrirgefa fúslega?

Við þurfum að leggja okkur fram um að fyrirgefa

8. Hvað ættum við að hafa hugfast í sambandi við söfnuðinn?

8 Það væri upplagt að geta hugsað sem svo að það sé fágætt í kristna söfnuðinum að við þurfum að líkja eftir Guði með því að fyrirgefa. En veruleikinn er annar. Bræður okkar og systur leggja sig auðvitað í líma við að líkja eftir kærleiksfordæmi Jesú. (Jóhannes 13:35; 15:12, 13; Galatabréfið 6:2) Þau hafa unnið lengi að því að leggja af hugsunarhátt, talsmáta og hegðun sem einkennir þennan illa heim og eru enn að vinna að því. Þau vilja í einlægni íklæðast nýja persónuleikanum. (Kólossubréfið 3:9, 10) En það verður ekki fram hjá því litið að bæði heimssöfnuður okkar og heimasöfnuður eru samsettir úr ófullkomnu fólki. Á heildina litið er það betra fólk en það var áður, en það er engu að síður ófullkomið.

9, 10. Af hverju ætti það ekki að koma okkur á óvart að bræður geti orðið ósáttir?

9 Það er ástæða fyrir því að Guð segir okkur í Biblíunni að við megum búast við ófullkomleika meðal bræðra okkar og systra í söfnuðinum. Tökum sem dæmi orð Páls í Kólossubréfinu 3:13: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“

10 Biblían minnir okkur hér á tengslin milli fyrirgefningar Guðs og þess að við þurfum að fyrirgefa öðrum og okkur sé það skylt. Hvers vegna er það hægara sagt en gert? Vegna þess að einhver gæti haft „sök á hendur öðrum“ eins og Páll benti á. Honum var ljóst að slíkar sakir myndu verða til. Þær hljóta að hafa verið til á fyrstu öld, jafnvel meðal ‚hinna heilögu‘ kristnu manna sem áttu ‚von geymda í himnunum.‘ (Kólossubréfið 1:2, 5) Við getum þá varla ímyndað okkur að það sé öðruvísi nú á dögum þegar fæstir safnaðarmenn hafa vitnisburð andans um að þeir séu „Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir.“ (Kólossubréfið 3:12) Við eigum því ekki að láta okkur detta í hug að eitthvað sé sérstaklega athugavert við söfnuðinn okkar ef einhver hefur sök á hendur öðrum — er særður vegna einhverra raunverulegra eða ímyndaðra saka.

11. Á hverju vakti lærisveinninn Jakob athygli?

11 Orð Jakobs, hálfbróður Jesú, minna einnig á að við hljótum að minnsta kosti af og til að þurfa að fyrirgefa bræðrum okkar. „Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki. En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum.“ (Jakobsbréfið 3:13, 14) Getur verið ‚beiskur ofsi og eigingirni‘ í hjörtum sannkristinna manna? Já, orð Jakobs gefa greinilega í skyn að eitthvað slíkt hafi komið upp í söfnuðinum á fyrstu öld og geri það einnig núna.

12. Hvaða misklíð kom upp í söfnuðinum í Filippí til forna?

12 Nefna má sem dæmi tvær smurðar kristnar systur sem höfðu lagt sig vel fram með Páli í boðunarstarfinu og getið sér gott orð fyrir. Þú hefur lesið um þær Evodíu og Sýntýke sem báðar tilheyrðu söfnuðinum í Filippí. Þótt Filippíbréfið 4:2, 3 segi ekki mikið um málið er ljóst að þær voru ósáttar. Hver var kveikjan að því? Voru það hugsunarlaus, óvingjarnleg orð, ímynduð lítilsvirðing gagnvart ættingja eða einhver merki um samkeppni og öfund? Hvernig sem það var komst misklíðin á svo alvarlegt stig að Páll frétti af henni alla leið til Rómar. Kannski þróaðist misklíðin út í kuldalega þögn svo að þessar tvær andlegu systur forðuðust hvor aðra á samkomum eða létu hörð orð falla hvor um aðra í áheyrn vina.

13. Hvernig hafa Evodía og Sýntýke líklega gert út um málið og hvað lærum við af því?

13 Hljómar eitthvað af þessu kunnuglega? Líkist það einhverju sem gerðist í söfnuðinum þínum eða þú áttir sjálfur aðild að? Kannski er eitthvert missætti af þessu tagi uppi núna. Hvað getum við gert? Á sínum tíma hvatti Páll þessar tvær vígðu systur til að „vera samlyndar vegna Drottins.“ Kannski hafa þær fallist á að ræða málið, hreinsa andrúmsloftið, lýst sig fúsar til að fyrirgefa og síðan líkt eftir Jehóva með því að gera það fúslega. Það er engin ástæða til að ætla að Evodíu og Sýntýke hafi ekki tekist það og hið sama er að segja um okkur. Það er hægt að fyrirgefa fúslega nú á tímum.

Stuðlaðu að friði — fyrirgefðu

14. Af hverju er það oft besta lausnin að leiða ágreininginn hjá sér og af hverju er það yfirleitt hægt?

14 Hvað þarf til að fyrirgefa þegar kastast í kekki milli þín og trúbróður þíns? Satt að segja er engin einföld aðferð til, en Biblían gefur hins vegar raunhæf ráð og nefnir dæmi sem læra má af. Fyrsta ráðleggingin er sú að gleyma hreinlega málinu og leiða það hjá sér — þótt það sé ekki alls kostar auðvelt í framkvæmd. Þegar fólk er ósátt eins og Evodía og Sýntýke finnst deilendum að það sé aðallega hinum að kenna. Þegar misklíð hefur orðið finnst þér kannski að sökin liggi fyrst og fremst hjá trúbróður þínum og hann hafi gert mest af sér. En geturðu hreinlega látið málið niður falla með því að fyrirgefa? Þú þarft að gera þér grein fyrir því að ef sökin liggur aðallega eða eingöngu hjá trúbróður þínum, og það er mikið efamál, þá ert þú í lykilaðstöðu til að fyrirgefa og láta málið niður falla.

15, 16. (a) Hvernig lýsti Míka Jehóva? (b) Hvað merkir það að Guð ‚leiði hjá sér syndir‘?

15 Missum aldrei sjónar á því að Guð er fyrirmynd okkar um fyrirgefningu. (Efesusbréfið 4:32–5:1) Spámaðurinn Míka skrifaði um vilja Guðs til að láta misgerðir niður falla: „Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra [„leiðir hjá sér syndir þeirra,“ NW], — sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur?“ — Míka 7:18.

16 Þegar sagt er að Jehóva ‚leiði hjá sér syndir‘ er ekki átt við að hann geti ekki munað eftir misgerðunum eða gleymi vissum hlutum algerlega. Tökum þá Samson og Davíð sem dæmi en báðir drýgðu alvarlega syndir. Guð mundi eftir þessum syndum löngu síðar og við vitum jafnvel um þær af því að hann lét greina frá þeim í Biblíunni. En Jehóva miskunnaði þeim báðum og tiltók þá sem trúarfordæmi til eftirbreytni. — Hebreabréfið 11:32; 12:1.

17. (a) Hvað getur auðveldað okkur að leiða hjá okkur móðganir eða yfirsjónir annarra? (b) Hvernig erum við þá að líkja eftir Jehóva? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

17 Já, Jehóva var fær um að ‚leiða hjá sér‘ * syndir eins og Davíð bað hann margsinnis um. (2. Samúelsbók 12:13; 24:10) Getum við líkt eftir Guði að þessu leyti og leitt hjá okkur móðganir og lítilsvirðingu af hendi annarra ófullkominna samþjóna okkar? Hugsaðu þér að þú sitjir í þotu sem er að leggja af stað. Út um gluggann sérðu kunningjakonu reka út úr sér tunguna í átt að flugvélinni. Þú veist að hún var í æstu skapi og ætlaði sér kannski að sýna þér dónaskap á þennan barnalega hátt. En kannski er hún alls ekkert að hugsa um þig. Vélin hækkar flugið og kunningjakonan verður eins og lítill depill í fjarska. Klukkustund síðar ertu komin í mörg hundruð kílómetra fjarlægð og móðgunin er langt að baki. Það getur oft hjálpað okkur að fyrirgefa ef við reynum að líkja eftir Jehóva og leiða hjá okkur það sem gert er á hlut okkar. (Orðskviðirnir 19:11) Ætli okkur finnist lítilsvirðingin ekki smávægileg eftir tíu ár, eða eftir að tvö hundruð ár eru liðin af þúsundáraríkinu? Af hverju þá ekki að leiða hana hjá sér?

18. Hvaða ráð gæti dugað ef okkur finnst við ekki geta leitt eitthvað hjá okkur?

18 Í sjaldgæfum tilvikum má vera að þú hafir beðist fyrir út af ákveðnu máli og reynt að fyrirgefa en finnst þú ekki geta það. Hvað þá? Jesús hvatti til þess að þú færir á fund þess sem gerði á hlut þinn og reyndir að setja niður ágreininginn einslega til að koma á friði. „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ — Matteus 5:23, 24.

19. Hvaða viðhorf ættum við að hafa og hvaða viðhorf ættum við að forðast þegar við reynum að friðmælast við bróður okkar?

19 Það vekur eftirtekt að Jesús segir ekki að við eigum að fara á fund bróður okkar til að sannfæra hann um að við höfum rétt fyrir okkur en hann rangt. Kannski hafði hann rangt fyrir sér en sennilega er sökin þó beggja. Hvað sem því líður ætti markmiðið ekki að vera það að fá hinn til að viðurkenna sök sína eða knékrjúpa, ef svo má að orði komast. Ef þú hefur samræðurnar á þeim nótum er það næstum fyrir fram glatað. Og markmiðið ætti ekki að vera það að rifja upp nánast hvert smáatriði hinnar ímynduðu eða raunverulegu misgerðar. Þegar rólegar samræður í kristilegum kærleiksanda leiða í ljós að misskilningur er rót vandans getið þið báðir reynt að eyða honum. En er nauðsynlegt að allt falli í ljúfa löð á slíkum fundi? Væri ekki til bóta að þið gætuð að minnsta kosti verið sammála um að það sé einlæg löngun ykkar beggja að þjóna Guði sem fyrirgefur fúslega? Þegar þið horfist í augu við þann veruleika eigið þið kannski auðveldara með að segja af heilu hjarta: „Mér þykir leitt að ófullkomleiki okkar skyldi valda þessu missætti. Reynum að leiða það hjá okkur.“

20. Hvað getum við lært af postulunum?

20 Munum að postulana greindi stundum á, til dæmis þegar sumir þeirra sóttust eftir aukinni virðingu. (Markús 10:35-39; Lúkas 9:46; 22:24-26) Það olli spennu, kannski sárindum og sumir urðu jafnvel stórmóðgaðir. En þeir gátu leitt það hjá sér og haldið áfram að vinna saman. Einn þeirra skrifaði síðar: „Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik. Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.“ — 1. Pétursbréf 3:10, 11.

21. Hvaða ráð gaf Jesús í sambandi við fyrirgefningu?

21 Við nefndum áðan einn áfanga ákveðins ferlis: Guð fyrirgaf hinar mörgu fyrri syndir okkar svo að við eigum að líkja eftir honum og fyrirgefa bræðrum okkar. (Sálmur 103:12; Jesaja 43:25) En það er annar áfangi í þessu ferli. Jesús sagði eftir fyrirmyndarbænina: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.“ Meira en ári síðar endurtók hann þetta efnislega og kenndi lærisveinunum að biðja: „Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ (Matteus 6:12, 14; Lúkas 11:4) Síðan sagði hann aðeins fáeinum dögum fyrir dauða sinn: „Þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar.“ — Markús 11:25.

22, 23. Hvaða áhrif getur það haft á framtíð okkar að vera fús til að fyrirgefa?

22 Já, horfurnar á því að Guð haldi áfram að fyrirgefa okkur ráðast að miklu leyti af því að við séum fús til að fyrirgefa bræðrum okkar. Þegar kastast í kekki milli kristinna einstaklinga er gott að spyrja sig hvort það sé ekki miklu mikilvægara að hljóta fyrirgefningu Guðs heldur en að sanna að bróðir eða systir hafi gert eitthvað lítillega á hlut manns eða sýnt mannlegan ófullkomleika á einhvern hátt. Þú veist svarið.

23 En hvað nú ef málið er alvarlegra en lítils háttar persónuleg móðgun eða misklíð? Og hvenær eiga ráðleggingar Jesú í Matteusi 18:15-18 við? Skoðum það næst.

[Neðanmáls]

^ Fræðimaður segir að hebreska myndlíkingin í Míka 7:18 sé „sótt í framkomu ferðamanns sem fer fram hjá án þess að taka eftir hlut sem hann vill ekki gefa gaum. Hugmyndin, sem hún kemur til skila, er ekki sú að Guð taki ekki eftir syndinni eða að hann telji hana skipta litlu eða engu máli, heldur að hann gefi henni ekki gaum í sérstökum tilvikum með refsingu í huga; að hann refsi ekki heldur fyrirgefi.“ — Dómarabókin 3:26; 1. Samúelsbók 16:8.

Manstu?

◻ Hvernig gefur Jehóva okkur fordæmi um að fyrirgefa?

◻ Hvað verðum við að hafa hugfast í sambandi við safnaðarmenn?

◻ Hvað ættum við yfirleitt að geta gert í sambandi við móðganir eða misgerðir?

◻ Hvað getum við gert til að friðmælast við bróður okkar ef þörf krefur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 12]

Þegar til ágreinings kemur er best að reyna að leiða hann hjá sér. Með tímanum verður hann ósköp lítilfjörlegur.